Sýningin Heimsókn í Skriðuklaustur var opnuð í gallerí Klaustri laugardaginn 10. júlí. Á henni sýnir Auður Inga Ingvarsdóttir keramikverk, bæði nytjahluti og skúlptúra. Auður Inga sækir innblástur í form í náttúrunni og eru fuglar henni hugstæðir eins og sjá má á skúlptúrum hennar. Hún hefur tileinkað sér gamlar brennsluaðferðir eins og raku og holubrennslu og eru flest verkin á sýningunni rakubrennd. Sýningin er sölusýning og stendur til 30. júlí. Hún er opin alla daga kl. 10-18 eins og safnið.
Náttúruljósmyndarinn Gunnar Freyr Gunnarsson opnaði sýninguna Til móts við nýtt upphaf í gallerí Klaustri á Skriðuklaustri sunnudaginn 13. júní. Á sýningunni eru ljósmyndir teknar víða um land en nokkrar sýna nærtæk form og landslag af Austurlandi. Sýningin fjallar um þróun, um breytingu og flæði sem marka umskipti í hugmyndafræði nútímans – sýnir heim sem fer frá því að vera heltekinn af heimsfaraldri en stefnir til nýrra tímamóta.
Gunnar er fæddur og uppalinn í Danmörku en flutti til Íslands árið 2015 með þann draum að gera náttúruljósmyndun að atvinnu. Hann stundaði nám við Ljósmyndaskólann í Reykjavík árið 2016 og hefur síðan lagt rækt við ástríðu sína fyrir íslensku landslagi. Hann hefur starfað sem atvinnuljósmyndari síðustu fimm ár og hefur unun af að upplifa Ísland gegnum myndavélalinsuna og deila þeirri upplifun með öðrum gegnum magnaðar ljósmyndir af landi og þjóð. Myndir Gunnars hafa birst víða um heim og ein af þeim viðurkenningum sem hann hefur hlotið er að vera norrænn sendiherra Canon. Hægt er að skoða myndir hans á heimasíðunni www.icelandicexplorer.com
Sýningin stendur til 9. júlí og er opin alla daga kl. 10-18.
Hafdís Sverrisdóttir sem rekur Paradís Pottery við Apavatn sýnir keramik og fleiri listmuni í gallerí Klaustri. Eitt af því sem getur að líta á sýningunni eru það sem hún kallar trjádiska. Þeir eru gerðir með sérstakri tækni sem hún hefur þróað og nær með henni að kalla fram árhringi af trjáskífum í leirdiskum. Bjartar afturgöngur kallar Hafdís kertastjaka sem eru meðal annars unnir úr gömlu gleri af lömpum frá fyrri tíð og leir úr smiðju hennar. Sýningin stendur í gallerí Klaustri frá 23. maí til 12. júní og er sölusýning.
Kominn er sá tími árs sem flestar hefðir tengjast. Fastir viðburðir á Skriðuklaustri í skammdeginu eru með öðru sniði þetta árið sökum farsóttarinnar. Rithöfundalestin rennir ekki í hlað en í staðinn geta áhugasamir bókaunnendur kynnt sér þá fjölbreyttu útgáfu sem tengist Austurlandi þetta árið á vef og youtube-rás Austurgluggans. Og Grýlugleðin sem hefði átt að fylla Gunnarshús af ærslafullu ungviði á fyrsta sunnudegi í aðventu varð að netævintýri Dvalins sagnálfs og gaulálfanna sem hægt er að sækja á youtube-rás Skriðuklausturs. Um árabil hafa Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands staðið fyrir upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri og Dyngjuvegi 8 einn sunnudag í desember. Að þessu sinni verður ekki hægt að bjóða fólki að koma og njóta sögunnar í híbýlum skáldsins. Þess í stað verður sendur út á netinu upplestur þjóðþekks leikara sunnudaginn 13. desember. Þeir sem vilja halda í hefðirnar geta því komið sér notalega fyrir heima við með heitt súkkulaði og slegist í för með Benedikt, Eitli og Leó þriðja sunnudag í aðventu. Við hvetjum áhugasama að fylgjast með á facebook-síðu Skriðuklausturs en þar verður viðburðurinn kynntur nánar í næstu viku.
Sýning Önnu Guðlaugar Sigurðardóttur var opnuð í gallerí Klaustri 8. ágúst. Á sýningunni eru munir úr gulli og silfri en Anna Guðlaug er nýútskrifuð úr gull- og silfursmíði frá Tækniskólanum og með sveinspróf í gullsmíði. Hún er aðeins 22 ára gömul og ein af yngstu nemendum Tækniskólans til að ljúka námi í faginu. Anna Guðlaug hefur unnið síðustu ár í Gullkistunni með skólanum og kynnst þar íslensku þjóðbúningaskarti og fræðst mikið um íslenska þjóðbúninginn og víravirkið. Þar hefur hún smíðað og gert við þjóðbúningaskart og fengið áhuga á því. Í einum áfanga í skólanum voru smíðaðar myllur á þjóðbúning og í framhaldi af því datt henni í hug að gaman væri að koma sér upp eigin búning fyrir útskrift og smíða á hann skartið. Það varð svo að veruleika eftir áramótin, en þá fékk hún ömmu sína með sér á námskeið þar sem þær saumuðu hvor sinn 20. aldar upphlutinn og hún smíðaði svo borðana á upphlutinn sinn og stokkabelti við hann.
Sýningin átti að standa til 27. ágúst en var framlengd til 20. september.