Handalögmál og Norðaustur landslag

Laugardaginn 16. maí opnum við tvær sýningar á Skriðuklaustri. Í stássstofunni verður sýningin Handalögmál. Þrír listamenn sýna annars vegar hvernig nota má gamlar handverkshefðir á nýjan hátt og hinsvegar hvernig má gera notaðar flíkur að nýjum. Listamennirnir eru: Þórdís Jónsdóttir, sem notar blómstursaum í fallega púða og myndir, Philippe Ricart, sem vefur létt og falleg sjöl, teppi og hálsklúta með vaðmálsvefnaði, og Ýr Jóhannsdóttir sem skreytir notaðar peysur með útsaumi og handprjóni Sýningin er samstarfsverkefni HANDVERKS OG HÖNNUNAR og Gunnarsstofnunar og stendur til 7. júní.

Í gallerí Klaustri sýnir Úlfar Trausti Þórðarson ljósmyndir á sýningunni Norðaustur landslag. Þetta er hans fyrsta einkasýning en hann hefur undanfarin ár reynt að fanga listina í landslaginu og skapað sér ákveðinn stíl. Sýning hans stendur til 11. júní.

Saga Borgarættarinnar - kvikmyndatónleikar í (maí) mars 2021

Það er ánægjulegt að kynna hér stórt samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar við Kvikmyndasafn Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem lýkur með hátíðarsýningum í Hofi á Akureyri sunnudaginn 3. maí og viku síðar í Eldborg Hörpu í Reykjavík, 10. maí. ATHUGIÐ! VEGNA COVID-19 ER ÞESSUM SÝNINGUM FRESTAÐ TIL 14. OG 15. MARS 2021. (uppfærsla sett inn 25. mars 2020)

Kvikmyndin Saga Borgarættarinnar markar upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndin var gerð af Nordisk Films Kompagni eftir samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem færði honum frægð og frama í Danmörku. Hún var að stærstum hluta tekin upp á Íslandi haustið 1919 en frumsýnd ári síðar og telst til stórmynda norrænnar kvikmyndasögu á tíma þöglu myndanna. 

Leikstjóri myndarinnar var Gunnar Sommerfeldt sem einnig lék eitt aðalhlutverkið. Aðalleikarar voru flestir danskir nema Guðmundur Thorsteinsson, betur þekktur sem myndlistarmaðurinn Muggur, en hann lék aðalsögupersónuna, Ormarr Örlygsson, og þótti fara á kostum í myndinni.

Saga Borgarættarinnar vakti gríðarlega athygli og var sýnd í allt að fimmtán löndum þegar hún kom út. Hérlendis var hún frumsýnd snemma árs 1921 og hefur allar götur síðan verið hjartfólgin Íslendingum. Löngu eftir tilkomu talmynda var hún sýnd reglulega í Nýja Bíói fyrir fullu húsi þar til Sjónvarpið tók við sýningarkeflinu um 1970. 

Til að fagna 100 ára afmæli myndarinnar hefur Kvikmyndasafn Íslands í samvinnu við Dansk Film Institut endurgert myndina á stafrænu formi í háskerpu. Þórður Magnússon tónskáld hefur samið tónlist við myndina enda tímabært að hún fái sína eigin frumsömdu tónlist á aldarafmælinu. Þórður hefur helgað sig tónsmíðum í rúman aldarfjórðung og hlotið margvíslegar viðurkenningar. Tónlistin er samin fyrir 40 manna hljómsveit og sér Sinfóníuhljómsveit Norðurlands um lifandi flutning við myndina.  

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur á undanförnum árum sérhæft sig í flutningi kvikmyndatónlistar, bæði á sýningum og til upptöku. Þetta er eitt stærsta verkefni hennar af þeim toga enda um að ræða þriggja tíma langa þögla kvikmynd. Hljómsveitin nýtur traustrar leiðsagnar hins rómaða finnska hljómsveitarstjóra Petri Sakari. Hann þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum því að hann var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil og hefur stýrt mörgum stórum tónlistarverkefnum um allan heim.

Miðasala er á tix.is

Jólakveðjur úr Fljótsdal

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi óska gestum og velunnurum Skriðuklausturs gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári. Kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða. 
We send our best greetings to those who visited us this year and look forward to see you all in 2020. Merry Christmas and Happy New Year.

Grýlugleði og Aðventulestur

Aðventan hefst nk. sunnudag með tilheyrandi viðburðum á Skriðuklaustri. Þá verður Grýlugleði kl. 14 þar sem sagt verður frá og sungið um Grýlu og hyski hennar. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Klausturkaffi býður upp á létt jólahlaðborð á undan kl. 12 og svo jólakökuhlaðborð síðdegis. 

Viku síðar, sunnudaginn 8. des. verður Aðventa Gunnars lesin í stássstofunni. Að þessu sinni mun Benedikt Karl Gröndal leikari lesa söguna um nafna sinn og hefst lesturinn kl. 13.30. Á sama tíma lesa Gunnar Björn Gunnarsson, afkomandi skáldsins söguna hjá Rithöfundasambandi Íslands að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Þess má einnig geta að Ferðafélag Akureyrar stendur fyrir upplestri á Aðventu í húsnæði sínu að Strandgötu 23 á Akureyri nk. sunnudag 1. des. kl. 14.

Saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Benedikts og fylgdarliðs hans á öræfum uppi hefur fylgt þjóðinni í 80 ár. Aðventa er bók sem kemur inn á metsölulistana ár hvert í desember og er gefin út á nýjum tungumálum enn þann dag í dag. Nú nýverið kom bókin út í Frakklandi hjá Zulma forlaginu sem gefur m.a. út Auði Övu, Andra Snæ og Einar Má. Þessi bók Gunnars er því til í dag á um 20 tungumálum og selst enn vel en hún kom fyrst út árið 1936. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa bókina á erlendum málum geta haft samband við okkur á Skriðuklaustri. 

Menningarverðlaun SSA 2019

Gunnarsstofnun hlotnaðist sá heiður að hljóta Menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fyrir árið 2019. Verðlaunin voru afhent á aðalfundi SSA þann 12. okt. sl. og veitti Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður þeim viðtöku úr hendi Einars Más Sigurðssonar formanns SSA. (ljósm. Andrés Skúlason).

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur