Hefð og endurnýjun - sýning og stefnumót við listamann

Dagana 16. - 19. september geta áhugasamir átt stefnumót við norsku textíllistakonuna Ingrid Larssen sem dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri. Hún hefur sett upp sýninguna Hefð og endurnýjun í gallerí Klaustri og mun sitja við sauma og vera til viðtals alla fjóra dagana á milli kl. 14-16. Ingrid kemur frá Vesterålen í Norður-Noregi og hefur síðustu 20 ár hafið aftur til vegs og virðingar gamlar saumahefðir eins og vöfflusaum. Hún litar sjálf sín efni með hráefni úr plöntu- og dýraríkinu. Á sýningunni má t.d. sjá silki litað með ígulkerjum, lúpínu og rabarbararót. Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17.

Konur í mynd

Kristín Rut Eyjólfsdóttir opnaði sýninguna Konur í mynd í gallerí Klaustri laugardaginn 31. júlí. Á sýningunni eru þrettán myndir sem hún hefur unnið síðustu misserin. Kristín er þekkt fyrir að fara sínar eigin leiðir í myndsköpun og hefur haldið nokkrar einkasýningar, m.a. á Skriðuklaustri 2013. Sýningin er sölusýning og hún er opin alla daga kl. 10-18 en lýkur 27. ágúst.

Heimsókn í Skriðuklaustur - keramiksýning

Sýningin Heimsókn í Skriðuklaustur var opnuð í gallerí Klaustri laugardaginn 10. júlí. Á henni sýnir Auður Inga Ingvarsdóttir keramikverk, bæði nytjahluti og skúlptúra. Auður Inga sækir innblástur í form í náttúrunni og eru fuglar henni hugstæðir eins og sjá má á skúlptúrum hennar. Hún hefur tileinkað sér gamlar brennsluaðferðir eins og raku og holubrennslu og eru flest verkin á sýningunni rakubrennd. Sýningin er sölusýning og stendur til 30. júlí. Hún er opin alla daga kl. 10-18 eins og safnið.

Til móts við nýtt upphaf

Náttúruljósmyndarinn Gunnar Freyr Gunnarsson opnaði sýninguna Til móts við nýtt upphaf í gallerí Klaustri á Skriðuklaustri sunnudaginn 13. júní. Á sýningunni eru ljósmyndir teknar víða um land en nokkrar sýna nærtæk form og landslag af Austurlandi. Sýningin fjallar um þróun, um breytingu og flæði sem marka umskipti í hugmyndafræði nútímans – sýnir heim sem fer frá því að vera heltekinn af heimsfaraldri en stefnir til nýrra tímamóta.

Gunnar er fæddur og uppalinn í Danmörku en flutti til Íslands árið 2015 með þann draum að gera náttúruljósmyndun að atvinnu. Hann stundaði nám við Ljósmyndaskólann í Reykjavík árið 2016 og hefur síðan lagt rækt við ástríðu sína fyrir íslensku landslagi. Hann hefur starfað sem atvinnuljósmyndari síðustu fimm ár og hefur unun af að upplifa Ísland gegnum myndavélalinsuna og deila þeirri upplifun með öðrum gegnum magnaðar ljósmyndir af landi og þjóð. Myndir Gunnars hafa birst víða um heim og ein af þeim viðurkenningum sem hann hefur hlotið er að vera norrænn sendiherra Canon. Hægt er að skoða myndir hans á heimasíðunni www.icelandicexplorer.com

Sýningin stendur til 9. júlí og er opin alla daga kl. 10-18.

Í samspili við náttúruna

Hafdís Sverrisdóttir sem rekur Paradís Pottery við Apavatn sýnir keramik og fleiri listmuni í gallerí Klaustri. Eitt af því sem getur að líta á sýningunni eru það sem hún kallar trjádiska. Þeir eru gerðir með sérstakri tækni sem hún hefur þróað og nær með henni að kalla fram árhringi af trjáskífum í leirdiskum. Bjartar afturgöngur kallar Hafdís kertastjaka sem eru meðal annars unnir úr gömlu gleri af lömpum frá fyrri tíð og leir úr smiðju hennar. Sýningin stendur í gallerí Klaustri frá 23. maí til 12. júní og er sölusýning.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur