Gunnar Gunnarsson er einn af áhrifamestu höfundum Íslands á 20. öld. Verk hans eru full af vísunum í heimsbókmenntirnar, fortíð og samtíð. Náttúrulýsingar Gunnars eiga sér fáa líka og íslenskir listamenn og rithöfundar leita enn í dag í smiðju hans. Höfundar eins og Jón Kalman Stefánsson hafa til dæmis sótt innblástur í Aðventu:
...svo snjall er Gunnar í stílnum í Aðventu, afslappaður og agaður í senn, að hann kemur öllu fyrir án þess að við tökum eftir því, eiginlega bara með því að skapa stemningu sem við skynjum, sem við öndum að okkur - sem við lifum.
Gunnar var einnig fyrsti Íslenski atvinnuhöfundurinn sem náði að komast margsinnis á metsölulista erlendis. Þannig var hann öðrum höfundur eins og Halldóri Laxness fyrirmynd og sannaði að íslenskar samtímabókmenntir gætu náð út fyrir landsteinana. Þó að hann byggi í rúm 30 ár í Danmörku var hann alltaf íslenskur höfundur og sögusvið verka hans á Íslandi.
Æskan
Gunnar Gunnarsson fæddist 18. maí 1889 á Valþjófsstað í Fljótsdal, næsta bæ við Skriðuklaustur. Sjö ára fluttist hann með foreldrum sínum að Ljótsstöðum í Vopnafirði þar sem móðir hans dó ári síðar. Gunnar ól ungur með sér þann draum að verða skáld og 1906 fékk hann útgefin tvö lítil ljóðakver sem hétu Vorljóð og Móðurminning. Sem fátækur bóndasonur hélt hann 18 ára til náms við lýðskólann í Askov í Danmörku. Í stað þess að snúa aftur heim að námi loknu vildi hann reyna til þrautar að verða rithöfundur.
Framinn
Frægð og frami komu ekki fyrirhafnarlaust. Gunnar lifði um skeið við kröpp kjör í Árósum og Kaupmannahöfn og las og skrifaði til að þroska skáldgáfuna. Þar kom að þrautagangan bar árangur. Vorið 1912 samþykkti Gyldendal forlagið að gefa út skáldsögu eftir Gunnar. Ísinn var brotinn og skáldið unga kvæntist ástinni sinni, Franziscu.
Rúmlega þrítugur var Gunnar orðinn þekktur í Danmörku fyrir verk sín. Gerð var stór kvikmynd eftir fyrstu skáldsögu hans, Sögu Borgarættarinnar, og farið að þýða og gefa bækur hans út á öðrum tungumálum en dönsku og íslensku. Hann var meira að segja orðaður við Nóbelsverðlaun í bókmenntum, bæði í fjölmiðlum og tilnefningum. Gunnar var á þessum tíma áberandi í dönskum blöðum, ekki bara vegna skáldskapar sín heldur vann hann m.a. ötullega að því að gefnar væru út nýjar danskar þýðingar á Íslendingasögunum. Þá var hann ófeiminn við að boða skandinavisma og taldi farsælast fyrir Norðurlöndin að sameinast í eitt lýðræðisríki.
Fjölskyldan
Gunnar Gunnarsson kynntist lífsförunauti sínum, Franziscu Antoniu Josephine Jørgensen frá Fredericia á Jótlandi, árið 1911. Faðir hennar var járnsmiður en móðir hennar af þýskum aðalsættum. Franzisca var fædd 4. apríl 1891 og kom úr stórum systkinahópi. Anna systir hennar giftist líka íslenskum listamanni, Einari Jónssyni myndhöggvara. Gunnar og Franzisca eignuðust tvo syni, Gunnar yngri 1914 og Úlf 1919. Ástarsamband Gunnars við aðra konu, Ruth Lange, á 3. áratugnum reyndi mjög á samband þeirra Franziscu enda eignaðist Gunnar þá þriðja soninn, Grím. En hjónabandið hélt og Franzisca fylgdi manni sínum til Íslands.
Heimkoman
Gunnar Gunnarsson bjó í Danmörku frá 1907 til 1939 þegar hann flutti aftur heim til Íslands og byggði stórhýsi á Skriðuklaustri, næstu jörð við fæðingarstað sinn. Hann var aðeins fimmtugur að aldri en hafði skrifað nær allt sitt höfundarverk. Frægur og mikilsmetinn höfundur var fluttur heim í sveitina sína lengst frá skarkala heimsins. Draumur hans um að vera skáldið sem situr og skrifar á óðali sínu meðan vinnufólkið heldur stórbýlinu gangandi gufaði á hinn bóginn upp í samfélagsbreytingum stríðsáranna. Hann og kona hans Franzisca gáfu íslensku þjóðinni Skriðuklaustur árið 1948 og fluttu til Reykjavíkur.
Endalokin
Á 6. áratugnum komu út síðustu frumsömdu skáldsögur Gunnars en seinustu árin notaði hann til að þýða eigin verk á íslensku. Gunnar lést í Reykjavík 21. nóvember 1975 og Franzisca ári síðar, 22. október 1976. Þau eru jarðsett í Viðey.