Written on .
Written on .
Aðventan hefst nk. sunnudag með tilheyrandi viðburðum á Skriðuklaustri. Þá verður Grýlugleði kl. 14 þar sem sagt verður frá og sungið um Grýlu og hyski hennar. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Klausturkaffi býður upp á létt jólahlaðborð á undan kl. 12 og svo jólakökuhlaðborð síðdegis.
Viku síðar, sunnudaginn 8. des. verður Aðventa Gunnars lesin í stássstofunni. Að þessu sinni mun Benedikt Karl Gröndal leikari lesa söguna um nafna sinn og hefst lesturinn kl. 13.30. Á sama tíma lesa Gunnar Björn Gunnarsson, afkomandi skáldsins söguna hjá Rithöfundasambandi Íslands að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Þess má einnig geta að Ferðafélag Akureyrar stendur fyrir upplestri á Aðventu í húsnæði sínu að Strandgötu 23 á Akureyri nk. sunnudag 1. des. kl. 14.
Saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Benedikts og fylgdarliðs hans á öræfum uppi hefur fylgt þjóðinni í 80 ár. Aðventa er bók sem kemur inn á metsölulistana ár hvert í desember og er gefin út á nýjum tungumálum enn þann dag í dag. Nú nýverið kom bókin út í Frakklandi hjá Zulma forlaginu sem gefur m.a. út Auði Övu, Andra Snæ og Einar Má. Þessi bók Gunnars er því til í dag á um 20 tungumálum og selst enn vel en hún kom fyrst út árið 1936. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa bókina á erlendum málum geta haft samband við okkur á Skriðuklaustri.
Written on .
Written on .
Fjölbreyttar sýningar eru í gallerí Klaustri þetta sumarið. Í júní sýndi hollenska leirlistakonan Marie-Anne Jongmans fjölbreytt verk sem hún sótti innblástur til þegar hún dvaldi í gestaíbúðinni í árslok 2017. Þar á meðal mátti sjá skúlptúra sem líkja eftir íslenskum hraunfléttum. Í júlí tók við sýning á ljósmyndum eftir annan listamann sem dvaldi í gestaíbúðinni árið 2014 þegar gosið í Holuhrauni stóð sem hæst. Tasha Doremus er fædd í Bretlandi en ólst m.a. upp í Japan. Hún býr nú og starfar í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Verk hennar voru ljósmyndir af ljósmyndum teknum á sama stað og í sumum kom eldur hraunsins fram.
Seinni hluta ágústmánaðar sýnir Örn Þorsteinsson myndhöggvari og málari litla skúlptúra sem hann kallar Ferðamyndir. Verkin eru unnin á ferðalögum í grænlenskan kljástein eða plastefni og síðan steypt í brons.
Í september verða síðan landslagsmálverk eftir Tryggva Þórhallsson á veggjum gallerísins.
Written on .
„Sjálfsskilningur okkar grundvallast af sögunni og tungumálinu og þannig mætti segja að sjálfsmynd þjóðar verði til í bókmenntum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í ávarpi sínu í dagskrá sem Gunnarsstofnun efndi til í tilefni 130 ára frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar þann 18. maí sl. Við það tækifæri var m.a. undirritaður nýr samningur á milli Gunnarsstofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem tryggir stofnuninni um 50 m.kr árlegt framlag á fjárlögum.
Afmælisdagskráin fór fram í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 á fæðingardegi Gunnars og færði viðstöddum heim sanninn um það að sköpunarkraftur skáldsins hefur skilað sér til nýrra kynslóða. Hljómsveitin Mógil flutti tvö lög af hljómdiski sem sækir innblástur og texta í Aðventu. Diskurinn kemur út hjá þýska útgáfufyrirtækinu Winter und Winter í haust og mun hljómsveitin fylgja honum eftir með tónleikaferð um Þýskaland í mars 2020.
Þá var undirritaður samstarfssamningur Gunnarsstofnunar, Kvikmyndasafns Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands um aldarafmæli kvikmyndarinnar Saga Borgarættarinnar sem Nordisk Film Kompagni gerði eftir skáldsögu Gunnars og kvikmyndaði á Íslandi árið 1919. Í tilefni aldarafmælis myndarinnar verður lokið við stafræna endurgerð hennar hjá Kvikmyndasafninu og Þórður Magnússon tónskáld hefur verið fenginn til að semja tónlist við myndina. Kvikmyndin verður síðan sýnd í Hofi og Hörpu við lifandi undirleik Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands vorið 2020 þegar 100 ár verða liðin frá frumsýningu hennar. Stjórn Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar ákvað að setja allt fjármagn til úthlutunar árið 2019 í þetta metnaðarfulla verkefni og var tilkynnt um 1,5 m.kr. framlag sjóðsins.
Í dagskránni í Gunnarshúsi var minnst á tvö kvikmyndaverkefni tengd sögum Gunnars. Annars vegar er Kvikmyndafélag Íslands að vinna að fjármögnun kvikmyndar eftir Aðventu sem Ottó Geir Borg hefur skrifað handrit að. Hins vegar var nýverið undirritaður samningur við erfingja skáldsins um sjónvarpsþáttaröð sem byggir á Svartfugli. Margrét Örnólfsdóttir sagði stuttlega frá því verkefni sem hún mun skrifa handritið að ásamt Páli Grímssyni kvikmyndaframleiðanda.
„Gunnar Gunnarsson lifir áfram í verkum sínum og arfleifð hans veitir innblástur og orku til nýrrar listsköpunar,“ sagði Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, sem stýrði dagskránni á Dyngjuvegi.
Á meðfylgjand mynd má sjá Gunnar Björn Gunnarsson stjórnarformann og Lilju Alfreðsdótturr mennta- og menningarmálaráðherra undirrita nýjan samning. Ljósm. SBG.