Skammdegishefðir á netinu
Kominn er sá tími árs sem flestar hefðir tengjast. Fastir viðburðir á Skriðuklaustri í skammdeginu eru með öðru sniði þetta árið sökum farsóttarinnar. Rithöfundalestin rennir ekki í hlað en í staðinn geta áhugasamir bókaunnendur kynnt sér þá fjölbreyttu útgáfu sem tengist Austurlandi þetta árið á vef og youtube-rás Austurgluggans. Og Grýlugleðin sem hefði átt að fylla Gunnarshús af ærslafullu ungviði á fyrsta sunnudegi í aðventu varð að netævintýri Dvalins sagnálfs og gaulálfanna sem hægt er að sækja á youtube-rás Skriðuklausturs. Um árabil hafa Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands staðið fyrir upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri og Dyngjuvegi 8 einn sunnudag í desember. Að þessu sinni verður ekki hægt að bjóða fólki að koma og njóta sögunnar í híbýlum skáldsins. Þess í stað verður sendur út á netinu upplestur þjóðþekks leikara sunnudaginn 13. desember. Þeir sem vilja halda í hefðirnar geta því komið sér notalega fyrir heima við með heitt súkkulaði og slegist í för með Benedikt, Eitli og Leó þriðja sunnudag í aðventu. Við hvetjum áhugasama að fylgjast með á facebook-síðu Skriðuklausturs en þar verður viðburðurinn kynntur nánar í næstu viku.