LAND bókverkasýning

LAND er sýning á bókverkum ellefu listamanna. Að sýningunni stendur listahópurinn ARKIR sem starfað hefur allt frá árinu 1998 en meðlimir hópsins sinna öllu jafna margvíslegri listsköpun á sviði málara- og grafíklistar, textíllistar, ritlistar, myndlýsinga og hönnunar. Frá árinu 2005 hafa ARKIR haldið fjölda bókverkasýninga hérlendis og erlendis. Verk á sýningunni á Skriðuklaustri hafa mörg hver verið sýnd víða um heim en að þessu sinni hafa verkin verið valin sérstaklega með sýningarrýmið í huga. Sýningin er bæði í stássstofu og galleríi. Hún var opnuð laugardaginn 2. apríl 2022 og stendur til 1. maí. Sýningin er vor- og páskasýningin á Skriðuklaustri þetta árið og er opin alla daga kl. 11-17 eins og safnið og Klausturkaffi.

Málþing um menningararfinn á konudaginn

Gunnarsstofnun efndi til málþings á konudaginn, 20. febrúar,  í samvinnu við Þórbergssetur á Hala í Suðusveit. Á því sögðu Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason frá verkefni sem þau hafa unnið að síðustu misseri með Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Yfirskrift erindisins var Ferðalag um fornar slóðir, en verkefnið snýst um að skrásetja búsetuminjar í Suðursveit. Hægt er að skoða verkefnið á heimasíðunni www.busetuminjar.is. Skúli Björn Gunnarsson flutti erindið Ljóri til landslags fortíðar og sagði frá skráningar- og miðlunarverkefnum sem Gunnarsstofnun vinnur að, m.a. með styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands og úr Norðurslóðaáætlun ESB. Eftir málþingið gafst gestum á Skriðuklaustri síðan tækifæri til að prófa sýndarveruleikagleraugu og snertiskjái til að skoða m.a. eignir Skriðuklausturs á 16. öld. Hægt er að horfa á málþingið á Youtube rás Skriðuklausturs.

Jólakveðjur úr Fljótsdal 2021

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi óska gestum og velunnurum Skriðuklausturs gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári. Kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða. 
We send our best greetings to those who visited us this year and look forward to see you all in 2022. Merry Christmas and Happy New Year.

Viðburðir í skammdeginu

Daglegri opnun þessa árs lauk um miðjan október. Að venju verða margvíslegir viðburðir í skammdeginu fram að jólum á Skriðuklaustri, þar á meðal fastir árlegir viðburðir sem aðeins var hægt að halda í netheimum á síðasta ári. Til að koma til móts við þarfir þeirra sem ekki eiga heimangengt verður sumum viðburðum samt einnig streymt á Youtube-rás Skriðuklausturs.

  • 30. október, kl. 14:30. - Óskarsvaka, blönduð dagskrá í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Óskar Halldórssonar kennara og fræðimanns frá Kóreksstaðagerði. (streymt)
  • 14. nóvember kl. 14. - Rithöfundalestin rennir í hlað. Austfirskir og aðkomnir höfundar lesa úr og kynna útgáfur á nýjum bókum. (streymt)
  • 27. nóvember kl. 15. - Aðventa - tónverk. Hljómsveitin Mógil flytur tónverk sem er innblásið af sögu Gunnars Gunnarssonar og kom út hjá þýsku útgáfufyrirtæki 2019.
  • 28. nóvember kl. 14. - Grýlugleði. Árleg skemmtan með söng og fróðleik um Grýlu og hyski hennar.
  • 12. desember kl. 14. - Lestur Aðventu. Saga Gunnars um Benedikt og hans tryggu ferðafélaga í eftirleitum á öræfum lesin í skrifstofu skáldsins. (streymt)

Áhugasömum er bent á að fylgjast með á Facebook-síðu Skriðuklausturs til að fá nánari fregnir af viðburðunum.

Saga Borgarættarinnar - frumsýnd að nýju

Kvikmyndin Saga Borgarættarinnar markar upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndin var gerð af Nordisk Film eftir samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem færði honum frægð og frama þegar hún kom út í Danmörku á árunum 1912-1914. Myndin var að stærstum hluta tekin upp á Íslandi haustið 1919 en frumsýnd ári síðar og telst til stórmynda norrænnar kvikmyndasögu á tíma þöglu myndanna.

Saga Borgarættarinnar vakti gríðarlega athygli, ekki síst vegna íslenska landslagsins og var sýnd í allt að fimmtán löndum þegar hún kom út. Hérlendis var hún frumsýnd snemma árs 1921 og hefur allar götur síðan verið hjartfólgin Íslendingum.

Í tilefni 100 ára afmælis myndarinnar hefur myndin verið endurgerð á stafrænu formi í háskerpu og fengið sína eigin frumsömdu tónlist frá hendi Þórðar Magnússonar tónskálds sem tekin var upp hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Myndin verður frumsýnd samtímis 3. október kl. 15, í Bíó Paradís í Reykjavík, Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og Herðubíói á Seyðisfirði í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands, Gunnarsstofnun og Menningarfélag Akureyrar.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur