Aukinn raunveruleiki (AR) í nýrri sýningu um Gunnar

Fyrsti áfangi í nýrri miðlun á verkum og lífi Gunnars skálds og fjölskyldu var opnaður í vor á Skriðuklaustri. Helsta tækninýjungin er að nú geta gestir notað síma sína til að fræðast um ýmislegt og velja sína leið til að skoða safnið. Fjölskyldur og yngri kynslóðin geta notið leiðsagnar Ugga litla úr Fjallkirkjunni sem birtist notendur í auknum raunveruleika (AR) á símaskjánum með hjálp töfraspjalds. Þessi nýja tæknilausn hefur lítið verið nýtt hérlendis fram til þessa en býður upp á óteljandi möguleika. Ekki þarf að hlaða niður sérstöku appi í símann heldur nýtir tæknin vafra og myndavél símans til að tengja notandann við gáttina þar sem Uggi litli „býr“. Enn sem komið er kann Uggi aðeins íslensku en til stendur að kenna honum ensku. Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 10-18 fram til loka ágúst. Aðgangseyrir á safnið er 1200 kr. en 16 ára og yngri fá frítt í fylgd með fullorðnum.

Hliðarviðburður á Bókmenntahátíð í Reykjavík

Föstudaginn 21. apríl kl. 17 verður viðburður í Sunnusalnum í Iðnó í Reykjavík á dögum Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Yfirskrift viðburðarins vísar í Victor Hugo: „Það er ástæðulaust að þegja þó að ekki sé hlustað á þig“.

Skáld frá Slóvakíu lesa úr verkum sínum ásamt höfundum af erlendum uppruna á Íslandi sem stigið hafa inn á íslenskan ritvöll á síðustu árum. Frá Slóvakíu koma: Dominika Moravciková, Jakub Juhás og Juliana Sokolová. Og frá Íslandi eru: Jakub Stachowiak og Mao Alheimsdóttir.

Í umræðum sem Victoria Bakshina stýrir verður athyglinni beint að stöðu bókmennta í Slóvakíu og Mið-Evrópu og hvort staðan sé önnur á Íslandi. Jafnframt verður rætt um hlutverk skáldsins á umbrotatímum, mikilvægi skáldskapar fyrir minnihlutahópa og hvernig það er að vera höfundur af erlendum uppruna á Íslandi.

Viðburðurinn er skipulagður af Gunnarsstofnun og Rithöfundasambandi Íslands í tengslum við verkefnið „Epic Residencies“ sem er stutt af Uppbyggingarsjóði EES og snýr að menningarsamstarfi Íslands, Slóvakíu og Noregs.

 

Vorið kemur, heimur hlýnar...

Voropnun á Skriðuklaustri hófst laugardaginn 1. apríl. Í apríl og maí verður opið alla daga bæði á safninu og hjá Klausturkaffi kl. 11-17. Vorsýning er eins og oft áður samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar og Handverks og Hönnunar. Leitað var innblásturs til skáldsins Jóhannesar úr Kötlum og eftir þungan vetur um allt land var ákveðið að vorið og gróandinn yrðu tema sýningarinnar.  Valin voru verk frá tíu einstaklingum víðsvegar að af landinu sem fást við handverk og list. Flest eru verkin marglit eða í skærum litum og úr fjölbreyttu hráefni. Sýnendur eru: Anna Gunnarsdóttir, Auður Bergsteinsdóttir, Bjarni Þór Kristjánsson, Embla Sigurgeirsdóttir, Erla Björk Sigmundsdóttir, Guðný Hafsteinsdóttir, Guðrún Halldórsdóttir, Ingibjörg  Ósk Þorvaldsdóttir, Jedúddamía (Kristrún Helga Marinósdóttir) og Ólöf Erla Bjarnadóttir.
Sýningin stendur fram til 1. maí.

Rithöfundalest(ur) 2022

Austfirskir höfundar fylla lestina í ár

Rithöfundar verða á ferð um Austurland 17. - 20. nóvember að kynna verk sín venju samkvæmt. Að þessu sinni verður Rithöfundalestin alfarið austfirsk þar sem allir höfundar eiga rætur eða eru búsettir á Austurlandi. Kjarna lestarinnar mynda fjórmenningarnir: Benný Sif Ísleifsdóttir með skáldsöguna Gratíana sem er framhald Hansdætra; Jónas Reynir Gunnarsson með skáldsöguna Kákasus-gerillinn; Smári Geirsson með stórvirkið Sögu Fáskrúðsfjarðar; og Ragnar Ingi Aðalsteinsson með þrjú verk, Líkið er fundið - sögur af Jökuldal, kvæðasafn systkinanna frá Heiðarseli og bók um Skáld-Rósu. Aðrir höfundar sem stíga um borð í lestina á mismunandi stöðum eru: Unnur Sveinsdóttir með barnabókina Skotti og sáttmálinn; Ásgeir Hvítaskáld með skáldsögu byggða á sönnum atburðum, Morðið í Naphorni; ; Jón Pálsson með glæpasöguna Skaðræði; Jón Knútur Ásmundsson með ljóðabókina Stím; Anna Karen Marinósdóttir með ljóðabókina Kannski verður allt í lagi; og Björn Ingvarsson með þýðingar á ljóðum Inúíta.

Upplestrarsamkomur Rithöfundalestarinnar verða sem hér segir:

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

 

Rithöfundalestin er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar, Skaftfells, Menningarstofu Fjarðabyggðar, menningarsviðs Múlaþings og menningar- og atvinnumálanefndar Vopnafjarðarhrepps.

Verkefnið nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Austurlands, Síldarvinnslunnar, Alcoa, Atlantsolíu, Brims, Forlagsins, Bílaleigu Akureyrar og Gistihússins á Egilsstöðum.

Allar upplýsingar um viðburðina er að finna á Facebook-síðum samtarfsaðilanna.

Úthlutun Menningarsjóðs 2022

Menningarsjóður Gunnarsstofnunar auglýsti í vor eftir umsóknum með sérstaka áherslu á list- og miðlunarverkefni tengd austfirskum menningararfi og verkefni tengd ritverkum og ævi Gunnars Gunnarssonar. Stjórn sjóðsins hefur tekið ákvörðun um úthlutun og eftirtalin verkefni hljóta styrki:

  • Þýðing Aðventu yfir á hebresku til útgáfu í Ísrael, 400 þús. kr.
  • Norsk þýðing og útgáfa á 12 smásögum Gunnars Gunnarssonar, 400 þús. kr.
  • Hnikun - bókverk tengt sýningu í Sláturhúsinu á Egilsstöðum þar sem unnið er með sögu hússins, 300 þús. kr.
  • „Dwelling on the banks of Jökla“ - könnun á sambandi mannfólks og ómennskrar náttúru við Jöklu, 100 þús. kr.

Jafnframt veitir sjóðurinn Gunnarsstofnun styrk vegna nýrrar miðlunar á Skriðuklaustri til að koma Ugga litla Greipssyni úr Fjallkirkjunni yfir í viðaukinn veruleika (AR). Heildarúthlutun úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar þetta árið nemur 2,2 m.kr.

Sjá nánar um úthlutunina hér.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur