Atli Heimir látinn

Atli Heimir Sveinsson tónskáld er látinn. Hann hefur um áratugaskeið verið eitt fjölhæfasta og merkasta tónskáld Íslendinga og eftir hann liggja laglínur sem lifa munu um aldir með þjóðinni. Atli Heimir hélt mikið upp á skáldverk Gunnars Gunnarssonar. Eitt af þeim stóru verkefnum sem hann vann var sjónvarpsóperan Vikivaki sem flutt var samtímis á norrænu sjónvarpsstöðvunum árið 1989 þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Gunnars skálds. Tónskáldið hafði gengið með þá hugmynd í aldarfjórðung að gera stórt sviðsverk upp úr skáldsögunni. Annar merkur listamaður sem nú er einnig látinn, Thor Vilhjálmsson, orti söngtexta (liberetto) út frá sögunni sem Atli Heimir samdi tónlist við. Að verkefninu komu síðan listamenn, leikarar og söngvarar af öllum Norðurlöndunum og hljómsveit Danska ríkisútvarpsins lék undir stjórn Petri Sakari. Sjónvarpsóperan vakti mikla athygli og var eitt stærsta verkefnið sem ráðist var í til að fagna aldarafmæli Gunnars.

Atli Heimir lagði einnig hönd á plóg þegar 100 ára rithöfundarafmælis Gunnars var minnst árið 2006. Þá samdi hann lag við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914. Lagið tileinkaði hann Franziscu Gunnarsdóttur sonardóttur skáldsins. Það var flutt á tónleikum í Gerðubergi og á Skriðuklaustri af Huldu Björk Garðarsdóttur, Ágústi Ólafssyni og Daníel Þorsteinssyni. 

Í Sinfóníu nr. 3 sem frumflutt var á Myrkum músíkdögum 2008 sótti Atli Heimir einnig innblástur í verk Gunnars, að þessu sinni í nóvelluna Drenginn. Þar nýtti hann ljóð þriggja eyjaskálda, Heinesens, Kasantsakisar og Gunnars til að semja söngsinfóníu um lífið, frelsið og dauðann. 

Atli Heimir dvaldi í nokkur skipti í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri og þakka stjórn og starfsfólk Gunnarsstofnunar fyrir yndisleg kynni og gott samstarf um leið og við sendum fjölskyldu tónskáldsins innilegar samúðarkveðjur.

Á myndinni hér að ofan er Atli Heimir ásamt Huldu Björk Garðarsdóttur, Daníel Þorsteinssyni og Ágústi Ólafssyni á tónleikum á Skriðuklaustri 2006.

Páskasýningar 2019 - Hreindýradraugur og +/- 100

Páskasýningarnar á Skriðuklaustri 2019 snúast um hreindýr og nytjalist úr austfirsku hráefni. Í stássstofunni er sýning franska listmannsins François Lelong á skúlptúrum, teikningum og málverkum. Í verkum sínum leitast listamaðurinn við að draga fram tengingu manns og náttúru gegnum lífvist hreindýra. Í gallerí Klaustri sýnir Hús handanna þrjú samstarfsverkefni um hönnun á nytjahlutum úr staðbundnu hráefni. Innblásturinn er sóttur í bændamenningu Íslendinga og efniviðurinn í austfirska skóga. Sýningarnar eru opnar alla daga kl. 12-16 og til kl. 17 um helgar og páska. Þær standa til 27. apríl. 

Fyrirlestrar, málþing og vinnustofur

Gunnarsstofnun stóð fyrir fjórum velheppnuðum viðburðum vikuna 24. febrúar til 3. mars. Á konudaginn flutti Stefán Þórarinsson læknir erindi um brunann á Brekku 1944 og Gunnar skáld. Skrifstofa skáldsins var fullsetin enda áhugaverður fyrirlestur um byggðaþróun á Héraði.

Miðvikudaginn 27. febrúar stóð Gunnarsstofnun í samvinnu við fleiri aðila fyrir málþingi á Hótel Héraði á Egilsstöðum undir yfirskriftinni Þar liggur hundurinn grafinn. Á því var fjallað um menningar- og söguferðaþjónustu og tækifæri í henni á Austurlandi. Málþingið var haldið í tengslum við heimsókn nemenda úr hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands til Austurlands. 

Leiðin lá í Suðursveit föstudaginn 1. mars þar sem haldin var vinnustofa á vettvangi í CINE-verkefninu og lítið málþing á Þórbergssetri að Hala í kjölfar þess. Skoðaðar voru minjar um verstöðvar frá 16. öld sem finnast í Kambstúni vestan við Hestgerðiskamb. Þar átti Skriðuklaustur útræði á klausturtíma. Vinnustofan kallaðist Lesið í landið og reyndu þátttakendur að gera sér grein fyrir ógreinilegum rústum i Kambstúni og prófa smáforrit snjalltíma til að skrásetja þær. Á Þórbergssetri hélt Hjörleifur Guttormsson síðan áhugavert erindi um fornar ferðaleiðir yfir og umhverfis Vatnajökul auk þess sem CINE-verkefnið var kynnt.

Síðasti viðburður vikunnar var sunnudaginn 3. mars á Skriðuklaustri. Þar ræddi Skúli Björn Gunnarsson um menningarmiðlar og margmiðlun og kynnti CINE-verkefnið. 

Gleðileg jól - Merry Christmas

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi óska gestum og velunnurum Skriðuklausturs gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári. Kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða. Við hlökkum til að sjá ykkur aftur með hækkandi sól. Gleðileg jól!

Gunnar Gunnarsson Institute and Klausturkaffi restaurant send their Christmas greetings to all visitors and friends of Skriðuklaustur. Thanks for all the visits in 2018 and we look forward to meet you again in 2019. Merry Christmas!

Vetrarlokun að taka við

Nú er haustið gengið í garð og þá dregur úr opnun á Skriðuklaustri. Næstu tvær vikur verður opið sem hér segir: Þriðjud. og miðvikud. 16.-17. og 23.-24. okt. verður opið kl. 11-15 og þá er hádegishlaðborð hjá Klausturkaffi. Síðan verður opið sunnud. 28. okt. kl. 12-17 með málþingi um skandinavisma og fullveldi (sjá Facebook) og kaffihlaðborði. En eftir það skellum við í lás fram yfir 20. nóvember þegar fastir viðburðir fara að skella á í skammdeginu.

The autumn is here and therefore we are closing at the cultural center and café. Next two weeks we will be open on Tuesdays and Wednesdays (16th-17th and 23rd-24th Oct.) from 11:00-15:00 and Klausturkaffi will offer lunch buffet. And on Sunday 28th Oct. we will be open 12:00-17:00 with cake buffet and a seminar in the afternoon. After that we are closed until late November when annual events of the dark December will take place as usual.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur