Gestaíbúð

Gunnarsstofnun rekur gestaíbúð fyrir lista- og fræðimenn að Skriðuklaustri. Íbúðin kallast Klaustrið og hefur tekið á móti góðum gestum allt frá 1989 sem hafa dvalið þar og unnið að völdum verkefnum. Íbúðin er tveggja herbergja (svefnherbergi, stofa, eldhús og bað) á efri hæð Gunnarshúss.

klaustrid logoRithöfundar, fræðimenn, tónskáld, myndlistarmenn, tónlistarmenn, dansarar og aðrir listamenn geta sótt um 3-6 vikna dvöl í gestaíbúðinni. Dvölinni fylgja engir styrkir en ekki er greitt fyrir afnot af íbúðinni (utan staðfestingargjalds) og gestum séð fyrir kaupstaðarferðum.

Verkefni sem varða Gunnar Gunnarsson, ævi hans eða verk, njóta forgangs við úthlutun auk verkefna sem tengjast Austurlandi eða austfirskum fræðum.

Að öðru leyti er úthlutað á grundvelli verkefna og ferilskrár.

Umsóknarfrestur hvert ár er 15. júní fyrir komandi almanaksár. Stjórn Gunnarsstofnunar fjallar um umsóknir á haustfundi og liggur úthlutun fyrir í september.

Hægt er að nálgast umsóknareyðublað hér og skal það sent ásamt fylgigögnum til stofnunarinnar í tölvupósti eða venjulegum pósti. • Úthlutunarreglur

  1. grein
   Klaustrið er dvalarstaður fyrir lista- og fræðimenn, íslenska og erlenda. Gunnarsstofnun hefur umsjón með og rekur lista- og fræðimannsíbúðina. Auglýsa skal eftir umsóknum um íbúðina ár hvert og gilda þær umsóknir fyrir næsta almanaksár.

  2. grein
   Stjórn Gunnarsstofnunar ásamt forstöðumanni hennar velur úr innsendum umsóknum. Við það skal hafa hliðsjón af eftirfarandi:
   a) Verkefni sem varða Gunnar Gunnarsson, ævi hans eða verk, njóta forgangs auk verkefna sem tengjast Austurlandi eða austfirskum fræðum.
   b) Dvalartími á að jafnaði ekki að vera skemmri en 3 vikur nema verið sé að nýta tíma sem stendur út af við úthlutun. Jafnframt á dvalartími að jafnaði ekki að vera lengri en 6 vikur nema nýttur sé aukatími.

  3. grein
   Forstöðumaður Gunnarsstofnunar annast öll samskipti við dvalargesti og er þeim innan handar um dvalartímann nema annað sé ákveðið.

  4. grein
   Ekki er gert ráð fyrir greiðslu vegna dvalar í Klaustrinu annarri en greiðslu staðfestingargjalds. Hins vegar er ætlast til að þeir sem þar dvelja komi á einhvern hátt á framfæri því sem þeir eru að vinna að í sinni list- og/eða fræðigrein eða öðrum verkum sínum. Gesturinn getur því verið beðinn um að halda fyrirlestur eða taka þátt í samkomu á vegum stofnunarinnar, skilja eftir listaverk eða hvað annað sem um semst milli hans og forstöðumanns.

  5. grein
   Gera skal samning um afnot af Klaustrinu milli hvers gests og Gunnarsstofnunar. Við undirritun hans skal innt af hendi greiðsla á staðfestingargjaldi. Stjórn ákveður árlega upphæð staðfestingargjalds.

  6. grein
   Stjórn Gunnarsstofnunar er heimilt að breyta þessum reglum þegar þörf krefur. Jafnframt er stjórn stofnunarinnar heimilt að úthluta Klaustrinu til annarra verkefna en sótt er um eða taka frá ákveðin tímabil til annarra nota í þágu stofnunarinnar.

  Samþykkt af stjórn Gunnarsstofnunar 7. september 2017.

 • Vinsamlega sendið okkur tölvupóst með umsókn um dvöl í Gestaíbúð Gunnarsstofnunar á netfang stofnunarinnar:

  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

  Umsóknareiðublað á PDF formi

Hafðu samband

 • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur