Skáldað í silfur

Sýning Önnu Guðlaugar Sigurðardóttur var opnuð í gallerí Klaustri 8. ágúst. Á sýningunni eru munir úr gulli og silfri en Anna Guðlaug er nýútskrifuð úr gull- og silfursmíði frá Tækniskólanum og með sveinspróf í gullsmíði. Hún er aðeins 22 ára gömul og ein af yngstu nemendum Tækniskólans til að ljúka námi í faginu. Anna Guðlaug hefur unnið síðustu ár í Gullkistunni með skólanum og kynnst þar íslensku þjóðbúningaskarti og fræðst mikið um íslenska þjóðbúninginn og víravirkið. Þar hefur hún smíðað og gert við þjóðbúningaskart og fengið áhuga á því. Í einum áfanga í skólanum voru smíðaðar myllur á þjóðbúning og í framhaldi af því datt henni í hug að gaman væri að koma sér upp eigin búning fyrir útskrift og smíða á hann skartið. Það varð svo að veruleika eftir áramótin, en þá fékk hún ömmu sína með sér á námskeið þar sem þær saumuðu hvor sinn 20. aldar upphlutinn og hún smíðaði svo borðana á upphlutinn sinn og stokkabelti við hann.

Sýningin átti að standa til 27. ágúst en var framlengd til 20. september.

COVID tilkynning 31. júlí

Vegna nýrra ráðstafana til eflingar sóttvarna tilkynnist að áfram verður opið daglega á Skriðuklaustri kl. 10-18, bæði til að skoða sýningar og njóta veitinga. Við beinum því til gesta okkar að hafa það í huga að til að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga og fjöldatakmörk hússins þurfum við öll að sýna skilning og þolinmæði því að ekki komast allir að í einu. Hægt er að panta borð hjá Klausturkaffi í síma 471-2992. Hádegiverður er frá kl. 11:30 - 14:00 og síðdegiskaffi frá kl. 15:00-17:00. Ef drepa þarf tímann utandyra á Skriðuklaustri er hægt að skoða minjar miðaldaklaustursins eða kíkja í völundarhúsið auk þess sem í Snæfellsstofu er skemmtileg sýning um náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs. Sýnum tillitsemi, kurteisi og styðjum hvert annað. Við erum öll almannavarnir!

Drekkingarhylur - myndbandsverk

Ný sýning hefur verið opnuð í gallerí Klaustri. Bandaríska listakonan Joan Perlman sýnir myndbandsverkið Drowning Pool - Drekkingarhylur. Hún dvaldi í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri árið 2013 og hefur safnað myndefni á Íslandi í mörg ár. Í þessu verki eru m.a. teknir fyrir aftökustaðir og bregður fyrir stöðum eins og Drekkingarhyl á Þingvöllum og galdrabrennustað í Trékyllisvík. Tónlist við myndbandsverkið er eftir írska tónskáldið Lindu Buckley. Sýningin stendur til 24. júlí.

Harpa Dís sýnir Úr jörðu

Úr jörðu er heiti nýrrar sýningar sem Harpa Dís Hákonardóttir, myndlistarmaður og rithöfundur, opnaði í gallerí Klaustri á Skriðuklaustri laugardaginn 13. júní. Sýningin er samtal efniviðar af svæðinu, leirs af bökkum Selfljóts og nytjatrjáa úr Fljótsdal. Leirinn flæðir yfir pappírinn sem bindur hann niður og tréð rammar inn. Sýningin er framhald á fyrri rannsóknum Hörpu Dísar á óbrenndum leir og þá sérstaklega úr íslenskri jörðu. Hún dvaldi í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri í september á síðasta ári og kviknaði hugmyndin að sýningunni á meðan á dvölinni stóð.

Harpa Dís Hákonardóttir (f. 1993) er myndlistarmaður og rithöfundur, fædd og uppalin í Kópavogi. Hún útskrifaðist með bakkalárgráðu af myndlistarbraut Listaháskóla Íslands 2019 þar sem hún lagði áherslu á skúlptúrgerð og vinnu með efni eins og gifs, við, steypu og leir. 

Sýningin er styrkt af Skógarafurðum í Fljótsdal og er opin alla daga kl. 10-18 fram til 3. júlí.

Handalögmál og Norðaustur landslag

Laugardaginn 16. maí opnum við tvær sýningar á Skriðuklaustri. Í stássstofunni verður sýningin Handalögmál. Þrír listamenn sýna annars vegar hvernig nota má gamlar handverkshefðir á nýjan hátt og hinsvegar hvernig má gera notaðar flíkur að nýjum. Listamennirnir eru: Þórdís Jónsdóttir, sem notar blómstursaum í fallega púða og myndir, Philippe Ricart, sem vefur létt og falleg sjöl, teppi og hálsklúta með vaðmálsvefnaði, og Ýr Jóhannsdóttir sem skreytir notaðar peysur með útsaumi og handprjóni Sýningin er samstarfsverkefni HANDVERKS OG HÖNNUNAR og Gunnarsstofnunar og stendur til 7. júní.

Í gallerí Klaustri sýnir Úlfar Trausti Þórðarson ljósmyndir á sýningunni Norðaustur landslag. Þetta er hans fyrsta einkasýning en hann hefur undanfarin ár reynt að fanga listina í landslaginu og skapað sér ákveðinn stíl. Sýning hans stendur til 11. júní.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur