Ljósm. GG.

Aksjón á Fljótsdalsdegi

Haustið 1948 fluttu Gunnar Gunnarsson skáld og Franzisca kona hans frá Skriðuklaustri til Reykjavíkur. Þá var haldin aksjón og boðið upp það sem þau tóku ekki með sér suður. Í uppboðsgjörðinni sem til er varðveitt í gjörðabókum hreppstjóra Fljótsdalshrepps eru skráðir um 780 munir, allt frá naglapökkum til dráttarvélar. Til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá þessu stóra uppboði efndi Gunnarsstofnun til aksjónar á Fljótsdalsdegi sl. sunnudag 19. ágúst. Boðnir voru upp misgamlir munir og skráðar sölur voru 28. Ágæt stemning myndaðist í góða veðrinu og var grimmt boðið í suma muni. Uppboðsstjóri var Árni Jón Þórðarson og ágóðinn, um 120 þús. kr., rennur til Pieta samtakanna. 

Mannlífsmyndir frá fjarlægum slóðum

Ný sýning hefur verið opnuð í gallerí Klaustri. Þráinn Lárusson sýnir svarthvítar myndir sem hann hefur tekið á ferðalögum sínum undanfarin ár á fjarlægum slóðum. Myndirnar eru í anda götuljósmyndunar, af fólki sem veit ekki að verið er að taka af því mynd og rétta augnablikið fangað með linsunni. Sýningin verður opin alla daga til 2. september.

Lava Poetry í gallerí Klaustri

Föstudaginn 6. júlí verður opnuð ný sýning, Lava Poetry, í gallerí Klaustri. Sænski umhverfislistamaðurinn Karl Chilcott snýr þá aftur með ljósmyndir af þeim verkum sem hann vann á Austurlandi í fyrra þegar hann dvaldi í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri. Sýningin verður opnuð kl. 16 en í kjölfarið verður haldið í Snæfellsstofu þar sem Karl kynnir tvær ljósmyndabækur, Flæði og Áhrif, með myndum af verkunum sem Christine dóttir hans tók. Mörg verkanna voru unnin innan Vatnajökulsþjóðgarðs en einnig í nágrenni Skriðuklausturs. Viðburðinum á föstudaginn lýkur með göngu undir leiðsögn listamannsins að þremur verkum sem hann gerði við Bessastaðaárgil. Sýningin í gallerí Klaustri stendur til loka júlí.

Heiðdís Halla sýnir í gallerí Klaustri

Opnuð hefur verið sýningin Hér / Here í gallerí Klaustri. Á henni sýnir Heiðdís Halla Bjarnadóttir þrjú tölvugrafíkverk af landslagi á Héraði. Sýningin stendur til 2. júlí og er opin alla daga kl. 10-18 sem er sumaropnunartíminn á Skriðuklaustri.

Úthlutun úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar

Laugardaginn 19. maí var úthlutað í þriðja sinn úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar. Athöfnin fór fram á Skriðuklaustri. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var viðstaddur úthlutunina og í máli hans kom kom fram að ríkisstjórn Íslands hefði í desember sl. samþykkt að auka við stofnfé sjóðsins með framlagi upp á 16,5 m.kr. sem þýddi að nú væru rúmar 60 m.kr. í sjóðnum til ávöxtunar.

Helgi Gíslason, formaður sjóðsstjórnar, sagði að í ljósi viðbótarframlags ríkisins hefði sjóðsstjórn ákveðið að hafa 1,5 m.kr. til úthlutunar í ár. Margar metnaðarfullar umsóknir hefðu borist og alls verið sótt um 6,7 m.kr. Stjórnin ákvað að veita sex verkefnum styrki.

Lægsta styrkinn 150 þús. kr. fékk Ívar Andri Bjarnason til tónlistarnáms í Danmörku. Þrjú verkefni hlutu 200 þús. kr. styrk: Anar Rahimov þýðandi í Aserbaídsjan til að heimsækja Ísland vegna þýðinga á verkum Gunnars Gunnarssonar; Ólafía Herborg Jóhannsdóttir til ritunar og útgáfu á bók um sögu Loðmundarfjarðar með áherslu á Stakkahlíð; Tónleikafélag Austurlands til að halda 80's rokkveislu í góðgerðarskyni. Næsthæsta styrkinn 300 þús. kr. fengu Berta Dröfn Ómarsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson til flutnings og vinnustofu á Austurlandi vegna óperunnar The Raven's Kiss. Hæsta styrkinn að þessu sinni hlutu Sigurjón Pétursson og Þóra Hrönn Njálsdóttir til ljósmyndaverkefnis um Svartfugl, skáldsögu Gunnars um morðin á Sjöundá á Rauðasandi, en þau hafa áður unnið sambærilegt verkefni út frá Aðventu.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur