Jólakveðjur úr Fljótsdal 2021

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi óska gestum og velunnurum Skriðuklausturs gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári. Kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða. 
We send our best greetings to those who visited us this year and look forward to see you all in 2022. Merry Christmas and Happy New Year.

Viðburðir í skammdeginu

Daglegri opnun þessa árs lauk um miðjan október. Að venju verða margvíslegir viðburðir í skammdeginu fram að jólum á Skriðuklaustri, þar á meðal fastir árlegir viðburðir sem aðeins var hægt að halda í netheimum á síðasta ári. Til að koma til móts við þarfir þeirra sem ekki eiga heimangengt verður sumum viðburðum samt einnig streymt á Youtube-rás Skriðuklausturs.

  • 30. október, kl. 14:30. - Óskarsvaka, blönduð dagskrá í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Óskar Halldórssonar kennara og fræðimanns frá Kóreksstaðagerði. (streymt)
  • 14. nóvember kl. 14. - Rithöfundalestin rennir í hlað. Austfirskir og aðkomnir höfundar lesa úr og kynna útgáfur á nýjum bókum. (streymt)
  • 27. nóvember kl. 15. - Aðventa - tónverk. Hljómsveitin Mógil flytur tónverk sem er innblásið af sögu Gunnars Gunnarssonar og kom út hjá þýsku útgáfufyrirtæki 2019.
  • 28. nóvember kl. 14. - Grýlugleði. Árleg skemmtan með söng og fróðleik um Grýlu og hyski hennar.
  • 12. desember kl. 14. - Lestur Aðventu. Saga Gunnars um Benedikt og hans tryggu ferðafélaga í eftirleitum á öræfum lesin í skrifstofu skáldsins. (streymt)

Áhugasömum er bent á að fylgjast með á Facebook-síðu Skriðuklausturs til að fá nánari fregnir af viðburðunum.

Saga Borgarættarinnar - frumsýnd að nýju

Kvikmyndin Saga Borgarættarinnar markar upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndin var gerð af Nordisk Film eftir samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem færði honum frægð og frama þegar hún kom út í Danmörku á árunum 1912-1914. Myndin var að stærstum hluta tekin upp á Íslandi haustið 1919 en frumsýnd ári síðar og telst til stórmynda norrænnar kvikmyndasögu á tíma þöglu myndanna.

Saga Borgarættarinnar vakti gríðarlega athygli, ekki síst vegna íslenska landslagsins og var sýnd í allt að fimmtán löndum þegar hún kom út. Hérlendis var hún frumsýnd snemma árs 1921 og hefur allar götur síðan verið hjartfólgin Íslendingum.

Í tilefni 100 ára afmælis myndarinnar hefur myndin verið endurgerð á stafrænu formi í háskerpu og fengið sína eigin frumsömdu tónlist frá hendi Þórðar Magnússonar tónskálds sem tekin var upp hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Myndin verður frumsýnd samtímis 3. október kl. 15, í Bíó Paradís í Reykjavík, Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og Herðubíói á Seyðisfirði í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands, Gunnarsstofnun og Menningarfélag Akureyrar.

Hefð og endurnýjun - sýning og stefnumót við listamann

Dagana 16. - 19. september geta áhugasamir átt stefnumót við norsku textíllistakonuna Ingrid Larssen sem dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri. Hún hefur sett upp sýninguna Hefð og endurnýjun í gallerí Klaustri og mun sitja við sauma og vera til viðtals alla fjóra dagana á milli kl. 14-16. Ingrid kemur frá Vesterålen í Norður-Noregi og hefur síðustu 20 ár hafið aftur til vegs og virðingar gamlar saumahefðir eins og vöfflusaum. Hún litar sjálf sín efni með hráefni úr plöntu- og dýraríkinu. Á sýningunni má t.d. sjá silki litað með ígulkerjum, lúpínu og rabarbararót. Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17.

Konur í mynd

Kristín Rut Eyjólfsdóttir opnaði sýninguna Konur í mynd í gallerí Klaustri laugardaginn 31. júlí. Á sýningunni eru þrettán myndir sem hún hefur unnið síðustu misserin. Kristín er þekkt fyrir að fara sínar eigin leiðir í myndsköpun og hefur haldið nokkrar einkasýningar, m.a. á Skriðuklaustri 2013. Sýningin er sölusýning og hún er opin alla daga kl. 10-18 en lýkur 27. ágúst.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur