Aukinn raunveruleiki (AR) í nýrri sýningu um Gunnar
Fyrsti áfangi í nýrri miðlun á verkum og lífi Gunnars skálds og fjölskyldu var opnaður í vor á Skriðuklaustri. Helsta tækninýjungin er að nú geta gestir notað síma sína til að fræðast um ýmislegt og velja sína leið til að skoða safnið. Fjölskyldur og yngri kynslóðin geta notið leiðsagnar Ugga litla úr Fjallkirkjunni sem birtist notendur í auknum raunveruleika (AR) á símaskjánum með hjálp töfraspjalds. Þessi nýja tæknilausn hefur lítið verið nýtt hérlendis fram til þessa en býður upp á óteljandi möguleika. Ekki þarf að hlaða niður sérstöku appi í símann heldur nýtir tæknin vafra og myndavél símans til að tengja notandann við gáttina þar sem Uggi litli „býr“. Enn sem komið er kann Uggi aðeins íslensku en til stendur að kenna honum ensku. Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 10-18 fram til loka ágúst. Aðgangseyrir á safnið er 1200 kr. en 16 ára og yngri fá frítt í fylgd með fullorðnum.