Hliðarviðburður á Bókmenntahátíð í Reykjavík
Föstudaginn 21. apríl kl. 17 verður viðburður í Sunnusalnum í Iðnó í Reykjavík á dögum Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Yfirskrift viðburðarins vísar í Victor Hugo: „Það er ástæðulaust að þegja þó að ekki sé hlustað á þig“.
Skáld frá Slóvakíu lesa úr verkum sínum ásamt höfundum af erlendum uppruna á Íslandi sem stigið hafa inn á íslenskan ritvöll á síðustu árum. Frá Slóvakíu koma: Dominika Moravciková, Jakub Juhás og Juliana Sokolová. Og frá Íslandi eru: Jakub Stachowiak og Mao Alheimsdóttir.
Í umræðum sem Victoria Bakshina stýrir verður athyglinni beint að stöðu bókmennta í Slóvakíu og Mið-Evrópu og hvort staðan sé önnur á Íslandi. Jafnframt verður rætt um hlutverk skáldsins á umbrotatímum, mikilvægi skáldskapar fyrir minnihlutahópa og hvernig það er að vera höfundur af erlendum uppruna á Íslandi.
Viðburðurinn er skipulagður af Gunnarsstofnun og Rithöfundasambandi Íslands í tengslum við verkefnið „Epic Residencies“ sem er stutt af Uppbyggingarsjóði EES og snýr að menningarsamstarfi Íslands, Slóvakíu og Noregs.