Hefð og endurnýjun - sýning og stefnumót við listamann
Dagana 16. - 19. september geta áhugasamir átt stefnumót við norsku textíllistakonuna Ingrid Larssen sem dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri. Hún hefur sett upp sýninguna Hefð og endurnýjun í gallerí Klaustri og mun sitja við sauma og vera til viðtals alla fjóra dagana á milli kl. 14-16. Ingrid kemur frá Vesterålen í Norður-Noregi og hefur síðustu 20 ár hafið aftur til vegs og virðingar gamlar saumahefðir eins og vöfflusaum. Hún litar sjálf sín efni með hráefni úr plöntu- og dýraríkinu. Á sýningunni má t.d. sjá silki litað með ígulkerjum, lúpínu og rabarbararót. Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17.