Saga Borgarættarinnar - frumsýnd að nýju
Kvikmyndin Saga Borgarættarinnar markar upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndin var gerð af Nordisk Film eftir samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem færði honum frægð og frama þegar hún kom út í Danmörku á árunum 1912-1914. Myndin var að stærstum hluta tekin upp á Íslandi haustið 1919 en frumsýnd ári síðar og telst til stórmynda norrænnar kvikmyndasögu á tíma þöglu myndanna.
Saga Borgarættarinnar vakti gríðarlega athygli, ekki síst vegna íslenska landslagsins og var sýnd í allt að fimmtán löndum þegar hún kom út. Hérlendis var hún frumsýnd snemma árs 1921 og hefur allar götur síðan verið hjartfólgin Íslendingum.
Í tilefni 100 ára afmælis myndarinnar hefur myndin verið endurgerð á stafrænu formi í háskerpu og fengið sína eigin frumsömdu tónlist frá hendi Þórðar Magnússonar tónskálds sem tekin var upp hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.
Myndin verður frumsýnd samtímis 3. október kl. 15, í Bíó Paradís í Reykjavík, Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og Herðubíói á Seyðisfirði í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands, Gunnarsstofnun og Menningarfélag Akureyrar.