Forsetahjónin í heimsókn

Fimmtudaginn 13. september lauk opinberri heimsókn forseta Íslands, Guðna Jóhannessonar, og konu hans Elizu Reid á Hérað og Borgarfjörð eystri. Síðasti viðkomustaðurinn var Skriðuklaustur og þar tóku á móti forsetanum stjórn Gunnarsstofnunar og íbúar Fljótsdalshrepps en sveitarfélagið bauð til móttökunnar. Við það tækifæri var forsetanum færð að gjöf Fljótsdæla eftir Helga Hallgrímsson og var höfundur bókarinnar viðstaddur. Einnig gaf Gunnarsstofnun forsetafrúnni nisti sem er eftirlíking úr silfri af litlum lykli sem fannst við fornleifauppgröft á miðaldaklaustrinu. Gáfu forsetahjónin sér tíma til að skoða bæði minjasvæðið og hina nýju sýndarveruleikasýningu um miðaldaklaustrið auk þess sem þau fræddust um Gunnar og Gunnarshús. 

Aksjón á Fljótsdalsdegi

Haustið 1948 fluttu Gunnar Gunnarsson skáld og Franzisca kona hans frá Skriðuklaustri til Reykjavíkur. Þá var haldin aksjón og boðið upp það sem þau tóku ekki með sér suður. Í uppboðsgjörðinni sem til er varðveitt í gjörðabókum hreppstjóra Fljótsdalshrepps eru skráðir um 780 munir, allt frá naglapökkum til dráttarvélar. Til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá þessu stóra uppboði efndi Gunnarsstofnun til aksjónar á Fljótsdalsdegi sl. sunnudag 19. ágúst. Boðnir voru upp misgamlir munir og skráðar sölur voru 28. Ágæt stemning myndaðist í góða veðrinu og var grimmt boðið í suma muni. Uppboðsstjóri var Árni Jón Þórðarson og ágóðinn, um 120 þús. kr., rennur til Pieta samtakanna. 

Mannlífsmyndir frá fjarlægum slóðum

Ný sýning hefur verið opnuð í gallerí Klaustri. Þráinn Lárusson sýnir svarthvítar myndir sem hann hefur tekið á ferðalögum sínum undanfarin ár á fjarlægum slóðum. Myndirnar eru í anda götuljósmyndunar, af fólki sem veit ekki að verið er að taka af því mynd og rétta augnablikið fangað með linsunni. Sýningin verður opin alla daga til 2. september.

Lava Poetry í gallerí Klaustri

Föstudaginn 6. júlí verður opnuð ný sýning, Lava Poetry, í gallerí Klaustri. Sænski umhverfislistamaðurinn Karl Chilcott snýr þá aftur með ljósmyndir af þeim verkum sem hann vann á Austurlandi í fyrra þegar hann dvaldi í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri. Sýningin verður opnuð kl. 16 en í kjölfarið verður haldið í Snæfellsstofu þar sem Karl kynnir tvær ljósmyndabækur, Flæði og Áhrif, með myndum af verkunum sem Christine dóttir hans tók. Mörg verkanna voru unnin innan Vatnajökulsþjóðgarðs en einnig í nágrenni Skriðuklausturs. Viðburðinum á föstudaginn lýkur með göngu undir leiðsögn listamannsins að þremur verkum sem hann gerði við Bessastaðaárgil. Sýningin í gallerí Klaustri stendur til loka júlí.

Heiðdís Halla sýnir í gallerí Klaustri

Opnuð hefur verið sýningin Hér / Here í gallerí Klaustri. Á henni sýnir Heiðdís Halla Bjarnadóttir þrjú tölvugrafíkverk af landslagi á Héraði. Sýningin stendur til 2. júlí og er opin alla daga kl. 10-18 sem er sumaropnunartíminn á Skriðuklaustri.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur