Úthlutun úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar

Laugardaginn 19. maí var úthlutað í þriðja sinn úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar. Athöfnin fór fram á Skriðuklaustri. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var viðstaddur úthlutunina og í máli hans kom kom fram að ríkisstjórn Íslands hefði í desember sl. samþykkt að auka við stofnfé sjóðsins með framlagi upp á 16,5 m.kr. sem þýddi að nú væru rúmar 60 m.kr. í sjóðnum til ávöxtunar.

Helgi Gíslason, formaður sjóðsstjórnar, sagði að í ljósi viðbótarframlags ríkisins hefði sjóðsstjórn ákveðið að hafa 1,5 m.kr. til úthlutunar í ár. Margar metnaðarfullar umsóknir hefðu borist og alls verið sótt um 6,7 m.kr. Stjórnin ákvað að veita sex verkefnum styrki.

Lægsta styrkinn 150 þús. kr. fékk Ívar Andri Bjarnason til tónlistarnáms í Danmörku. Þrjú verkefni hlutu 200 þús. kr. styrk: Anar Rahimov þýðandi í Aserbaídsjan til að heimsækja Ísland vegna þýðinga á verkum Gunnars Gunnarssonar; Ólafía Herborg Jóhannsdóttir til ritunar og útgáfu á bók um sögu Loðmundarfjarðar með áherslu á Stakkahlíð; Tónleikafélag Austurlands til að halda 80's rokkveislu í góðgerðarskyni. Næsthæsta styrkinn 300 þús. kr. fengu Berta Dröfn Ómarsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson til flutnings og vinnustofu á Austurlandi vegna óperunnar The Raven's Kiss. Hæsta styrkinn að þessu sinni hlutu Sigurjón Pétursson og Þóra Hrönn Njálsdóttir til ljósmyndaverkefnis um Svartfugl, skáldsögu Gunnars um morðin á Sjöundá á Rauðasandi, en þau hafa áður unnið sambærilegt verkefni út frá Aðventu.

129 ár frá fæðingu Gunnars skálds

Í dag, 18 maí, eru liðin 129 ár síðan Gunnar Gunnarsson fæddist á Valþjófsstað. Svo skemmtilega vill til að þessi sami mánaðardagur er alþjóðlegi safnadagurinn og söfn um allan heim opna dyr sínar fyrir gestum. Það er líka gert á Skriðuklaustri og er frítt inn á safnið eftir hádegi í dag. Síðustu ár hefur verið úthlutað úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar á fæðingardegi skáldsins en að þessu sinni fer sú athöfn fram laugardaginn 19. maí kl. 15.

Aron Kale opnar sýningu

Sunnudaginn 6. maí opnar Aron Kale sýningu í gallerí Klaustri. Sýningin er liður í hátíðinni List án landamæra en þetta árið er Aron útnefndur listamaður hátíðarinnar. Aron hefur stundað listsköpun frá 2011 og sýnt verk sín bæði á einkasýningum og samsýningum á Austurlandi og í Reykjavík. Sýningin verður opnuð kl. 14 á sunnudaginn og stendur til 31. mars. Í maí er opið alla daga á Skriðuklaustri kl. 11-17.

Gleðileg jól og farsæld á komandi ári 2018

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi óska gestum og velunnurum Skriðuklausturs gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári. Kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á árinu sem er að líða.

Afmælishelgi á Skriðuklaustri

Gunnarsstofnun fagnar 20 ára afmæli helgina 9.-10. desember 2017. Af því tilefni verður efnt til lítillar hátíðardagskrár á Skriðuklaustri laugardaginn 9. desember kl. 14 þar sem horft verður bæði til fortíðar og framtíðar í starfsemi stofnunarinnar. Meðal þeirra sem flytja ávörp, erindi eða koma fram eru:

  • Björn Bjarnason fyrrum ráðherra
  • Sigríður Sigmundsdóttir varaformaður Gst.
  • Gunnar Björn Gunnarsson formaður Gst.
  • Oddný Eir stjórnarmaður og rithöfundur
  • Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur
  • Sóley Þrastardóttir flautuleikari
  • Veitingar að lokinni dagskrá.

Af sama tilefni verður Aðventa Gunnars lesin í heild sinni á tíu (jafnvel tólf) tungumálum í hinum mörgu vistarverum Gunnarshúss á Skriðuklaustri sunnudaginn 10. des. kl. 13-17. Við vonumst til að sem flestir sjái sér fært að fagna þessum áfanga með okkur.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur