Aksjón á Fljótsdalsdegi
Haustið 1948 fluttu Gunnar Gunnarsson skáld og Franzisca kona hans frá Skriðuklaustri til Reykjavíkur. Þá var haldin aksjón og boðið upp það sem þau tóku ekki með sér suður. Í uppboðsgjörðinni sem til er varðveitt í gjörðabókum hreppstjóra Fljótsdalshrepps eru skráðir um 780 munir, allt frá naglapökkum til dráttarvélar. Til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá þessu stóra uppboði efndi Gunnarsstofnun til aksjónar á Fljótsdalsdegi sl. sunnudag 19. ágúst. Boðnir voru upp misgamlir munir og skráðar sölur voru 28. Ágæt stemning myndaðist í góða veðrinu og var grimmt boðið í suma muni. Uppboðsstjóri var Árni Jón Þórðarson og ágóðinn, um 120 þús. kr., rennur til Pieta samtakanna.