Gunnar Gunnarsson bjó í Danmörku frá 1907 til 1939 þegar hann flutti aftur heim til Íslands og byggði stórhýsi á Skriðuklaustri, næstu jörð við fæðingarstað sinn. Hann var aðeins fimmtugur að aldri en hafði skrifað nær allt sitt höfundarverk. Frægur og mikilsmetinn höfundur var fluttur heim í sveitina sína lengst frá skarkala heimsins. Draumur hans um að vera skáldið sem situr og skrifar á óðali sínu meðan vinnufólkið heldur stórbýlinu gangandi gufaði á hinn bóginn upp í samfélagsbreytingum stríðsáranna. Hann og kona hans Franzisca gáfu íslensku þjóðinni Skriðuklaustur árið 1948 og fluttu til Reykjavíkur.