Skip to main content

Gunnarshús


Gunnarshús á Skriðuklaustri var byggt árið 1939 af rithöfundinum Gunnari Gunnarssyni (1889-1975). Vinur Gunnars, þýski arkitektinn Fritz Höger, teiknaði húsið ásamt öðrum fyrirhuguðum byggingum herragarðsins. Þær byggingar, sem voru fyrst og fremst útihús, risu aldrei. Húsið stendur sem minnisvarði um stórhug Gunnars þegar hann sneri heim til Íslands sem frægur og fjáður rithöfundur eftir þrjátíu ára dvöl í Danmörku.

Gunnar og Franzisca, kona hans, bjuggu í níu ár á Skriðuklaustri en fluttu þá til Reykjavíkur. Þau gáfu íslenska ríkinu Gunnarshús og jörðina alla árið 1948 til ævarandi eignar. Árin 1949-1990 var starfrækt tilraunastöð í landbúnaði á staðnum. Frá árinu 2000 hefur Stofnun Gunnars Gunnarssonar rekið menningar- og fræðasetur á Skriðuklaustri.

Bygging hússins var risavaxið verkefni á sínum tíma. Byggingarkostnaður var á við tíu einbýlishús í Reykjavík. Frá júní og fram í október 1939 voru að jafnaði 20-30 manns að störfum auk matráðskvenna og vikapilta. Gera má ráð fyrir að hátt í hundrað manns hafi komið að verkinu. Í vinnudagbók eru skráðar alls um 33.000 vinnustundir á 64 einstaklinga.