Sýningar og viðburðir
Í Gunnarshúsi eru fastar sýningar um rithöfundinn Gunnar Gunnarsson, líf hans og verk, og um sögu miðaldaklaustursins og fornleifarannsóknina sem fram fór 2002-2012. Tímabundnar sýningar eru settar upp, m.a. kringum páska og stundum á aðventunni. Þá er oft efnt til sumarsýninga af þjóðfræðilegum toga þar sem sótt er í smiðju austfirsks sagnaarfs. Viðburðir eru margir á ári hverju á Skriðuklaustri. Haldnir eru tónleikar, málþing og fyrirlestrar auk annarra viðburða.
Nokkrir fastir viðburðir hafa skapað sér sess og eru orðnir árvissir. Má þar nefna: Píslargöngu frá Valþjófsstað í Skriðuklaustur á föstudeginum langa í samvinnu við presta á Héraði; messu á klausturrústum þriðja sunnudag í ágúst; Grýlugleði fyrsta sunnudag í aðventu; og upplestur á Aðventu Gunnars þriðja sunnudag í aðventu. Þá er hefð fyrir tónleikum á Fljótsdalsdegi Ormsteitis ásamt óhefðbundnu íþróttamóti. Fylgist með viðburðum á Facebook Skriðuklausturs.