Frægð og frami komu ekki fyrirhafnarlaust. Gunnar lifði um skeið við kröpp kjör í Árósum og Kaupmannahöfn og las og skrifaði til að þroska skáldgáfuna. Þar kom að þrautagangan bar árangur. Vorið 1912 samþykkti Gyldendal forlagið að gefa út skáldsögu eftir Gunnar. Ísinn var brotinn og skáldið unga kvæntist ástinni sinni, Franziscu.
Rúmlega þrítugur var Gunnar orðinn þekktur í Danmörku fyrir verk sín. Gerð var stór kvikmynd eftir fyrstu skáldsögu hans, Sögu Borgarættarinnar, og farið að þýða og gefa bækur hans út á öðrum tungumálum en dönsku og íslensku. Hann var meira að segja orðaður við Nóbelsverðlaun í bókmenntum, bæði í fjölmiðlum og tilnefningum. Gunnar var á þessum tíma áberandi í dönskum blöðum, ekki bara vegna skáldskapar sín heldur vann hann m.a. ötullega að því að gefnar væru út nýjar danskar þýðingar á Íslendingasögunum. Þá var hann ófeiminn við að boða skandinavisma og taldi farsælast fyrir Norðurlöndin að sameinast í eitt lýðræðisríki.