Stofnun Gunnars Gunnarssonar
Gunnarsstofnun varð til árið 1997 með reglum sem þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, setti um stofnunina og tóku mið af gjafabréfi Gunnars Gunnarssonar skálds og Franziscu Gunnarsson, konu hans, frá 11. desember 1948. Stofnunin starfaði samkvæmt þeim reglum með áorðnum breytingum allt til ársloka 2007. Frá 1. janúar 2008 hefur Gunnarsstofnun verið rekin sem sjálfeignarstofnun með staðfesta skipulagsskrá.
Gunnar og Franzisca gáfu ríkinu Skriðuklaustur til ævarandi eignar með því skilyrði að þar yrði starfsemi sem til menningarauka horfði. Á Skriðuklaustri rekur Gunnarsstofnun menningar- og fræðasetur í Gunnarshúsi með lifandi menningarstarfsemi árið um kring og hefur umsjón með minjum miðaldaklaustursins sem grafið var upp á árunum 2000 - 2012.
SKIPULAGSSKRÁ fyrir Stofnun Gunnars Gunnarssonar að Skriðuklaustri. (Birt í Stjórnartíðindum 12. desember 2007)
1. gr.
Stofnun Gunnars Gunnarssonar er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn og starfar á grundvelli laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
Heimili og varnarþing stofnunarinnar er Skriðuklaustur í Fljótsdal. Stofnunin ber ein ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum.
2. gr.
Stofnun Gunnars Gunnarssonar er menningarstofnun sem starfar í anda gjafabréfs Gunnars Gunnarssonar skálds og Franziscu Gunnarsson eiginkonu hans, dags. 11. desember 1948. Með gjafabréfinu var jörðin Skriðuklaustur í Fljótsdal gefin íslenska ríkinu til ævarandi eignar og skal hún hagnýtt á þann hátt að til menningarauka horfi. Hlutverk Stofnunar Gunnars Gunnarssonar er:
- Að annast uppbyggingu og rekstur menningar- og fræðaseturs að Skriðuklaustri í Fljótsdal.
- Að stunda fræðastarfsemi á sviði hugvísinda og leggja rækt við bókmenntir með áherslu á ritverk og ævi Gunnars Gunnarssonar.
- Að reka dvalarstað fyrir lista- og fræðimenn og standa fyrir sýningum og öðrum listviðburðum.
- Að stuðla að atvinnuþróun á Austurlandi og efla rannsóknir á austfirskum fræðum.
- Að sinna alþjóðlegum menningartengslum og standa vörð um hugsjónir Gunnars Gunnarssonar.
Stofnun Gunnars Gunnarssonar hefur Gunnarshús að Skriðuklaustri ásamt tilheyrandi húsum og landi til umráða fyrir starfsemi sína samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneyti. Í þeim samningi skulu tilgreind skilyrði fyrir afnotum Stofnunar Gunnars Gunnarssonar af eignum gjafabréfsins.
3. gr.
Stofnendur Stofnunar Gunnars Gunnarssonar eru: menntamálaráðuneyti, Háskóli Íslands, Rithöfundasamband Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þróunarfélag Austurlands. <br> Heildarfjárhæð stofnfjár nemur 700 þúsund krónum. Stofnendur leggja fram 140.000 króna stofnframlag hver til stofnunarinnar sem skal vera óskerðanlegur höfuðstóll og ávaxta með tryggilegum hætti. Fjárhagslegar skuldbindingar stofnunarinnar umfram stofnframlag eru stofnendum óviðkomandi.
4. gr.
Stjórn Stofnunar Gunnars Gunnarssonar er skipuð fimm manns til þriggja ára í senn og skulu varamenn tilnefndir með sama hætti. Af þessum fimm fulltrúum skipar menntamálaráðherra einn fulltrúa og skal hann vera fulltrúi afkomenda Gunnars Gunnarssonar, Háskóli Íslands skipar einn fulltrúa, Rithöfundasamband Íslands skipar einn fulltrúa, Stofnun Árna Magnússonar skipar einn fulltrúa og Þróunarfélag Austurlands skipar einn fulltrúa. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi hvers árs. Nr. 1282 12. desember 2007
5. gr.
Stjórn Stofnunar Gunnars Gunnarssonar ber að vinna að markmiðum stofnunarinnar samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneyti. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum stofnunarinnar og kemur fram fyrir hennar hönd gagnvart þeim sem veita henni fjárhagslegan stuðning. Stjórnin ákveður meginþætti í stefnu og starfstilhögun stofnunarinnar, í samræmi við skipulagsskrá, og getur sett sér og stofnuninni starfsreglur. Boða skal stjórnarfundi með tryggilegum hætti. Enga mikilvæga ákvörðun má taka fyrir hönd stofnunarinnar nema stjórnin sé fullskipuð.
6. gr.
Stjórn Stofnunar Gunnars Gunnarssonar ræður forstöðumann og ákveður laun hans og starfskjör. Forstöðumaður annast daglegan rekstur og ber ábyrgð gagnvart stjórn stofnunarinnar. Hann vinnur samkvæmt ráðningarsamningi og starfslýsingu, skipulagsskrá stofnunarinnar og fyrirmælum stjórnar. Forstöðumaður fer með fjármál í umboði stjórnar, undirbýr fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár sem skal lögð fyrir stjórn í ársbyrjun ár hvert, vinnur að fjáröflun og sér til þess að reikningar stofnunarinnar séu færðir samkvæmt gildandi reglum og að ársreikningar séu gerðir. Jafnframt annast hann starfsmannaráðningar í samráði við stjórn.
7. gr.
Tekjur Stofnunar Gunnars Gunnarssonar auk vaxta af stofnframlagi eru árleg framlög frá ríkinu samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið, tekjur af þjónustu auk frjálsra framlaga frá einstaklingum, fyrirtækjum, sveitarfélögum og samtökum og annars aflafjár. Tekjum og eignum Stofnunar Gunnars Gunnarssonar má einvörðungu verja í þeim tilgangi sem samrýmist markmiðum stofnunarinnar.
8. gr.
Til þess að stofnunin geti náð megintilgangi sínum er stjórninni heimilt fyrir hönd stofnunarinnar að eiga samstarf við aðra aðila, þ.m.t. stofnaðila og gerast í því skyni aðili að samstarfssamningi um lengri eða skemmri tíma.
9. gr.
Reikningsár Stofnunar Gunnars Gunnarssonar er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Forstöðumaður skal í fyrstu viku marsmánaðar leggja eftirfarandi gögn fyrir stjórn stofnunarinnar til afgreiðslu:
- Skýrslu um starfsemi síðasta starfsárs.
- Endurskoðaðan ársreikning liðins starfsárs.
- Fjárhagsáætlun, sbr. 6. gr.
Reikningar Stofnunar Gunnars Gunnarssonar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, sem skipaður er af stjórn til a.m.k. tveggja ára í senn. Formaður stjórnar skal sjá til þess að endurskoðaður ársreikningur berist Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári. Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Nr. 1282 12. desember 2007
10. gr.
Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari. Skipulagsskránni verður aðeins breytt með samþykki allra stjórnarmanna og skulu þær hljóta staðfestingu sýslumannsins á Sauðárkróki. Stofnuninni verður slitið með sameiginlegri ákvörðun allra stjórnarmanna og stofnenda. Verði starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar hætt og stofnunin lögð niður skal eignum hennar varið svo að til menningarauka horfi á Austurlandi.
Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.
Gjafabréf Franziscu og Gunnars Gunnarssonar fyrir Skriðuklaustri í Fljótsdal, Norður-Múlasýslu.
Við hjónin, Franzisca og Gunnar Gunnarsson, gefum hér með íslenzka ríkinu jörðina Skriðuklaustur í Fljótsdal, Norður-Múlasýslu, ásamt húsum öllum og mannvirkjum, gögnum og gæðum, svo og áhöld og tæki, sem við höfum áður greint í bréfi frá 19. sept. 1948.
Á jarðeigninni hvíla engar skuldir, og kvaðir af okkar hálfu eigi aðrar en þær, er í bréfi þessu getur.
Jarðeign þessi skal vera ævarandi eign íslenzka ríkisins. Hún skal hagnýtt á þann hátt, að til menningarauka horfi t.d. að rekin sé þar tilraunastarfsemi í landbúnaði, byggðasafn, bókasafn, skjalasafn, listasafn, skóli, sjúkrahús, hressingarhæli, barnahæli eða elliheimili.
Það er ósk okkar, að íbúðarhúsið verði með sem minnstum breytingum hið ytra, en setja þyrfti á það svalir svo sem í öndverðu var fyrirhugað, og ganga frá gafli þeim, er að fjalli snýr, í líkingu við aðra veggi.
Ríkisstjórnin hefur þegar veitt umræddri eign viðtöku, ber ábyrgð á greiðslu lögboðinna gjalda af henni frá og með 19. sept. 1948 að telja og nýtur arðs af henni frá sama tíma.
Af gjafabréfi þessu eru undirrituð þrjú eintök, heldur hvor aðili sínu eintaki, en hið þriðja afhendist til þinglestrar.
Þessu til staðfestu eru nöfn okkar undirrituð í tveggja votta viðurvist.
Reykjavík, 11. des. 1948.
Franzisca Gunnarsson (sign)Gunnar Gunnarsson (sign)
Vitundavottar:
Úlfur Gunnarsson (sign)
Gunnar Gunnarsson (sign)
-
Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar er þannig skipuð frá og með 1. janúar 2024 til 31. desember 2026:
- Gunnar Björn Gunnarsson (formaður), skipaður af menningarráðuneyti, varamaður hans er Gunnar Martin Úlfsson.
- Sigríður Sigmundsdóttir (varaformaður), skipuð af Austurbrú ses., varamaður hennar er Björgvin Steinar Friðriksson.
- Steinunn Kristjánsdóttir, skipuð af Háskóla Íslands, varamaður hennar er Rúnar Helgi Vignisson.
- Annette Lassen skipuð af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, varamaður hennar er Halldóra Jónsdóttir.
- Sindri Freysson skipaður af Rithöfundasambandi Íslands, varamaður hans er Margrét Tryggvadóttir.
Forstöðumaður
Skúli Björn Gunnarsson er íslenskufræðingur að mennt og með MA-gráðu í Hagnýtri menningarmiðlun frá HÍ. Hann starfaði við útgáfu, markaðsmál og almannatengsl áður en hann tók við starfi forstöðumanns Gunnarsstofnunar 1. október 1999.
Netfang Skúla Björns er skuli [hja] skriduklaustur.is
Staðarhaldari
Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir (Skotta) er mannfræðingur og starfað hefur hjá Gunnarsstofnun með hléum frá 2001. Hún hefur umsjón með starfsemi á staðnum, gestaíbúð og öðrum tilfallandi verkefnum.
Netfang Ólafar Sæunnar (Skottu) er skotta [hja] skriduklaustur.is
Aðrir starfsmenn
Brynjar Darri Sigurðsson Kerjúlf er ferðamálafræðingur og sinnir bæði móttöku gesta og tæknimálum varðandi miðlun og fleira hjá stofnuninni.
Netfang Brynjars Darra er darri [hja] skriduklaustur.is
Yfir sumarmánuðina fjölgar starfsfólki á staðnum og að jafnaði bætast þrír við tl að taka á móti gestum og sinna umhirðu yfir sumarmánuðina.
Gunnarsstofnun hefur sjálfbæra þróun og verndun umhverfisins að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Á þann hátt leggur stofnunin sitt af mörkum til að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar er liður í daglegu starfi Gunnarsstofnunar til að draga úr álagi á umhverfið, auka gæði og vekja áhuga á innra umhverfisstarfi. Stefnan tekur til allrar starfsemi Gunnarsstofnunar og á einnig við um innkaup, vinnuumhverfi, notkun auðlinda og meðferð efna og úrgangs. Gunnarsstofnun fylgir lögum og reglum um umhverfismál í starfsemi sinni. Forstöðumaður stofnunarinnar er ábyrgur fyrir framkvæmd stefnunnar. Allt starfsfólk stofnunarinnar framfylgir umhverfisstefnunni og hefur hana að leiðarljósi í störfum sínum. Sérhver starfs[1]maður sýnir gott fordæmi og leggur sitt af mörkum í þágu umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar.
Markmið
-
Að hafa sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi í öllu starfi Gunnarsstofnunar.
-
Að úrbætur í rekstri og þjónustu taki mið af því að minnka umhverfisáhrif.
-
Að halda auðlinda- og efnanotkun í lágmarki og draga úr mengun eins og kostur er.
-
Að vinna stöðugt að því að draga úr úrgangi og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu hans.
-
Að koma upp varmadælum til húshitunar.
-
Að efla vistvænar samgöngur.
Aðgerðir og aðföng
-
Velja skal umhverfismerktar rekstrarvörur, s.s. pappír, hreinlætisvörur og ræstiefni.
-
Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eða þjónusta eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu. 5 1 Stofnun Gunnars Gunnarssonar Stefna 2017 – 2027
-
Draga úr notkun einnota aðfanga, s.s. plastpoka, einnota hanska og óþarfa umbúða.
-
Við rekstur og viðhald bygginga og lóðar skal leitast við að endurnýta efni eins og hægt er og velja vistvæna kosti hverju sinni, s.s. málningarvörur, ljósaperur, garðaúðun, áburð o.fl.
-
Upplýsa skal verktaka um stefnu Gunnarsstofnunar í umhverfismálum og gera kröfur um að þeir fylgi henni eftir. ✦ Allur tölvu- og skrifstofubúnaður skal vera með viðeigandi umhverfis- og orkusparandi merkingar.
-
Fara skal sparlega með vatn og orkuauðlindir, t.d. láta vatn ekki renna að óþörfu, slökkva á rafmagnstækjum og ljósum í lok vinnudags eða þegar ekki er nauðsynlegt að hafa kveikt. Liður í því er að koma upp varmadælum til húshitunar til að draga úr raforkunotkun.
Efnanotkun, endurnýting og meðferð úrgangs
-
Fara sparlega með efni og efnavörur, t.d. við uppþvott og ræstingar.
-
Ræstivörur sem notaðar eru hjá Gunnarsstofnun skulu vera merktar með viðurkenndu umhverfismerki, s.s. Norræna svaninum, Evrópublóminu eða Bra Miljöval.
-
Flokka og ganga frá úrgangi í samræmi við leiðbeiningar og samkvæmt flokkunarkerfi þjónustufyrirtækis.
-
Stöðugt skal draga úr pappírsnotkun, m.a. með því að prenta báðum megin á blöðin og gæta þess að prenta hvorki né ljósrita að óþörfu.
-
Öllum spilliefnum skal fargað á viðeigandi hátt, s.s. rafhlöðum, prenthylkjum, ljósaperum og málningarvörum.
-
Öllum öðrum úrgangi skal fargað á viðeigandi hátt.
Samgöngur
-
Leitast skal við að velja umhverfisvænar leiðir í samgöngum þegar ferðast er á vegum Gunnarsstofnunar, t.d. velja mengunarlitla bílaleigubíla og ganga styttri vegalengdir.
-
Leitast skal við að halda fjarfundi eftir því sem kostur er.
-
Við kaup á bifreiðum skal velja sparneytin og vistvæn ökutæki.
-
Starfsmenn skulu einnig hvattir til að samnýta ökutæki þegar ferðast er til og frá vinnu svo sem kostur er.
-
Stuðla skal að eflingu almenningssamgangna í anda sjálfbærrar þróunar.
Umhverfisvísar og fræðsla
-
Gunnarsstofnun skal halda yfirlit yfir helstu „grænu“ lykiltölur í rekstri og skrá og vakta árangurinn með það að markmiði að stuðla að betri nýtingu auðlinda, að draga úr sóun hráefna og auka endurnýtingu og endurvinnslu. Dæmi: pappírsnotkun, orkunotkun, efnanotkun og magn sorps.
-
Starfsfólk Gunnarsstofnunar fær reglulega fræðslu um umhverfismál.
Þessi umhverfisstefna er hluti af STEFNU GUNNARSSTOFNUNAR 2018-2027 og sem slík tekin til endurskoðunar á fimm ára fresti
Klausturreglan er félag fastagesta og hollvina Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Félagar greiða árgjald sem veitir þeim ýmis fríðindi. Innifalið í árgjaldi er:
- almennur aðgangur að sýningum í Gunnarshúsi
- 25% afsláttur á viðburði á vegum Gunnarsstofnunar
- 10% afsláttur af bókum, minjagripum og öðrum vörum
- 10% afsláttur hjá Klausturkaffi
Markmiðið með Klausturreglunni er að byggja upp hóp velunnara Skriðuklausturs og Gunnarsstofnunar. Margir koma í Skriðuklaustur og á viðburði á vegum Gunnarsstofnunar oft yfir árið og með aðild að Klausturreglunni fá þeir gestir umbun fyrir hollustu sína.
Árgjald í Klausturreglunni er 2.500 kr. fyrir einstakling og fyrir hjón eða par er gjaldið 3.500 kr. Regluárið nær frá vori til vors og ný árskort eru send út á vordögum ásamt greiðsluseðlum í heimabanka. Meðlimir reglunnar fá rafrænt skírteini sem þeir hafa til sönnunar um aðild sína að reglunni og framvísa þegar þeir koma í Skriðuklaustur.
Sendið okkur umsókn með tölvupóst
Framtíðarsýn og stefnur
Gunnarsstofnun er menningar-stofnun sem starfar í anda gjafabréfs Gunnars og Franziscu frá 1948. Aðsetur hennar er Skriðuklaustur í Fljótsdal og þar er hjarta starfseminnar.
Gunnarsstofnun leggur metnað sinn í menningarstarf sem elur af sér aukna þekkingu með nýsköpun og framsýni. Stofnunin leggur áherslu á samvinnu innanlands og utan og er leiðandi í miðlun og sjálfbærni.
Hlutverk
Okkar meginhlutverk er að reka menningarsetur í sátt við samfélagið og í þágu arfleifðar Gunnars Gunnarssonar.
Gildi
Við viljum vera opin, fagleg og skapandi og í starfi leggjum við áherslu á metnað, framsýni, samvinnu og upplifun.
Leiðarljós
Gunnarsstofnun er leiðandi í menningarmiðlun.
Loforð - við ætlum að…
-
varðveita byggingar og minjar á Skriðuklaustri og skapa þeim fallegt umhverfi;
-
bjóða ógleymanlega, fjölskylduvæna og fræðandi upplifun á Skriðuklaustri og í netheimum;
-
miðla verkum og ævi Gunnars Gunnarssonar og sögu Skriðuklausturs með skapandi hætti;
-
vera leiðandi í menningarstarfi og rannsóknum á Austurlandi;
-
taka virkan þátt í samtali um bókmenntir, menningararf og menningarmiðlun á landsvísu;
-
stækka alþjóðlegt tengslanet með þátttöku í verkefnum og fræðastarfi.
Hlutverk Gunnarsstofnunar samkvæmt skipulagskrá er:
-
Að annast uppbyggingu og rekstur menningar- og fræðaseturs að Skriðuklaustri.
-
Að stunda fræðastarfsemi á sviði hugvísinda og leggja rækt við bókmenntir með áherslu á ritverk og ævi Gunnars Gunnarssonar.
-
Að reka dvalarstað fyrir lista- og fræðimenn og standa fyrir sýningum og öðrum listviðburðum.
-
Að stuðla að atvinnuþróun á Austurlandi og efla rannsóknir á austfirskum fræðum.
-
Að sinna alþjóðlegum menningartengslum og standa vörð um hugsjónir Gunnars.
Í samræmi við þessi hlutverk setjum við okkur eftirfarandi markmið um árangur. Þau verða útfærð ítarlegar í aðgerðaáætlun sem unnin verður 2024 og settir mælikvarðar þar sem við á:
-
Fjölga gestum sem njóta menningarmiðlunar og upplifunar á Skriðuklaustri.
-
Tryggja fjölbreytileika í sýningum og listviðburðum.
-
Leggja áherslu á barnamenningu með aukinni samvinnu við skóla.
-
Opna rafrænt aðgengi að bókum Gunnars samhliða nýjum útgáfum á völdum verkum.
-
Kveikja umræðu um verk Gunnars og hvetja til miðlunar á þeim gegnum ólíkar listgreinar.
-
Móta samvinnu við höfunda af erlendum uppruna á Íslandi.
-
Auka sýnileika gestaíbúðar og nýta hana betur til að styðja við sérstök verkefni.
-
Efla fræðastarf og fjölga rannsóknarverkefnum á Austurlandi með samstarfi við fagaðila.
-
Koma á samstarfi við skyldar stofnanir með áherslu á norræna samvinnu.
-
Taka þátt í alþjóðlegum verkefnum er varða varðveislu og miðlun menningararfs.
-
Ljúka þarfagreiningu á húsnæði og endurskoða heildarskipulag Skriðuklausturstorfunnar.
Stofnun Gunnars Gunnarssonar varð til með reglum sem menntamálaráðherra setti árið 1997. Forstöðumaður var ráðinn að stofnuninni í október 1999 og hún hóf starfsemi sína að Skriðuklaustri í Fljótsdal í júní árið 2000. Uppbygging fyrstu árin var unnin eftir stefnu og áætlunum sem forstöðumaður og stjórn unnu í lok árs 1999. Stofnunin starfaði samkvæmt þeirri stefnu, settum reglum og samningum sem gerðir voru við menntamálaráðuneytið allt til ársloka 2007.
Árin 2006 – 2007 vann starfshópur, skipaður af menntamálaráðherra, tillögur um framtíðarskipan stofnunarinnar. Á grundvelli þeirra var stofnuninni sett skipulagsskrá. Frá 1. janúar 2008 hefur Gunnarsstofnun verið rekin sem sjálfseignarstofnun á grundvelli laga nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt sérstakri skipulagsskrá.
Árið 2012 réðst stjórn stofnunarinnar í umfangsmikla stefnumótun og samþykkti tíu ára stefnu með aðgerðaáætlun árið 2013. Sú stefna var endurskoðun árið 2018 og sett ný markmið fyrir næstu fimm ár.
Árið 2023 voru þau fimm ár liðin og komin tíu ár frá stóru stefnumótuninni. Því þótti stjórn Gunnarsstofnunar rétt að ráðast í allsherjar endurskoðun á stefnu stofnunarinnar. Vinnan við endurskoðunina fór þannig fram að í mars 2023 var boðað til fjölmenns vinnufundar á Skriðuklaustri. Á honum voru aðal- og varamenn í stjórn stofnunarinnar, starfsmenn og nokkrir utanaðkomandi einstaklingar úr nærsamfélaginu. Skipt var niður í þrjá vinnuhópa og fengu allir sömu dagskipun. Í öllum hópum var farið yfir:
-
Gildi og framtíðarsýn gömlu stefnunnar
-
Meginmarkmið á grundvelli þeirra gömlu
-
Áttavita um hverju skuli hætta eða draga úr, hvað skuli taka upp eða gera betur.
-
SVÓT-greiningu
Starfsfólk stofnunarinnar vann drög að meginatriðum nýrrar stefnu upp úr niðurstöðum vinnufundarins. Þau drög voru tekin fyrir og mótuð enn frekar á vinnufundi stjórnar í september 2023. Fyrir stjórnarfund í desember var forstöðumaður síðan búinn að vinna drög að meginstefnu Gunnarsstofnunar á grunni þessarar stefnumótunarvinnu.
Stefnuskjalið er einfaldara í sniðum og hnitmiðaðra heldur en eldra stefnuskjal. Unnið er að aðgerðaráætlun og samhliða verið að endurskoða ýmsar undirstefnur og verklagsreglur sem kom fram í stefnumótunarferlinu að þörf er fyrir.