Í grjótinu - kolateikningar

Opnuð hefur verið sýning á teikningum eftir Ólöfu Birnu Blöndal í gallerí Klaustri. Sýningin ber heitið „Í grjótinu“ sem vísar til þess að um er að ræða tólf kolateikningar af grjóti, stuðlabergi, fjöllum og steinamyndunum. Ólöf Birna sýndi síðast í gallerí Klaustri árið 2001 en hefur síðan þá tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar víða. Síðast sýndi hún í Sal íslenskrar grafíkur í Reykjavík á vordögum 2014. Sýningin stendur til 13. ágúst og er opin alla daga kl. 10-18.

Litbrigði Fljótsins í gallerí Klaustri

Kanadísk-íslenski ljósmyndarinn Arni Haraldsson hefur opnað ljósmyndasýningu í gallerí Klaustri. Hún ber heitið Litbrigði Fljótsins og á henni eru 12 ljósmyndir teknar af Lagarfljóti árið 2001 þegar Arni dvaldi í gestaíbúðinni Klaustrinu. Myndirnar eru teknar við ýmis birtuskilyrði, ekki síst á björtum sumarnóttum og gefa nýja sýn á Fljótið. Arni er nú kominn aftur í Klaustrið til að taka nýjar myndir af Lagarfljótinu. Arni Haraldsson kennir ljósmyndun við Emily Carr listaháskólann í Vancouver og hefur sýnt verk sín víða um heim og skrifað mikið um listir.

Skilti afhjúpað við Gunnarshús

Afmælishátíðin 22. júní tókst vel á Skriðuklaustri. Viðstaddir nutu flautuleiks Áshildar Haraldsdóttur og urðu vitni að því þegar Jón S. Einarsson, einn fárra sem enn lifa af þeim sem tóku þátt í að byggja Gunnarshús 1939, afhjúpaði upplýsingaskilti um húsið. Þá kom Gunnar Björn Gunnarsson, barnabarnabarn skáldsins, færandi hendi með skrifborðsstól skáldsins sem var nú að nýju sameinaður gamla skrifborðinu á skrifstofu Gunnars. Við þetta tækifæri var síðan opnuð sölubúð með ýmsum varningi tengdum staðnum og skáldsins, m.a. ónotuðum frumútgáfum á nokkrum verkum Gunnars. Þeir sem heimsækja Gunnarshús í sumar geta síðan tekið þátt í myndasamkeppni á Facebook síðu staðarins.

Afmælishátíð á sunnudaginn

Í tilefni 75 ára afmælis Gunnarshúss efnir Gunnarsstofnun til afmælishátíðar sunnud. 22. júní. Dagskrá hefst kl. 14 og þá verður afhjúpað upplýsingaskilti um húsið og sölubúð opnuð þar sem ýmis varningur tengdur staðnum verður seldur. Einnig mun fjölskylda Gunnars afhenda skrifborðsstól skáldsins og Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari mun spila fyrir gesti. Allir velkomnir til að njóta dagsins á Skriðuklaustri.

Gunnarshús 75 ára

Fyrsta færsla í vinnudagbók Odds Kristjánssonar yfirsmiðs á Skriðuklaustri vegna Gunnarshúss var fyrir nákvæmlega 75 árum, 5. júní. Þó að framkvæmdir væru hafnar fyrr við að taka grunn fyrir húsið þá markar þessi dagsetning ákveðin kaflaskil og frá og með þessu degi fjölgaði þeim jafnt og þétt sem unnu að húsbyggingunni í Fljótsdal allt sumarið 1939. Þess verður minnst sunnudaginn 22. júní nk. að 75 ár eru liðin frá því Gunnarshús reis sem höll í dalnum. Gunnarsstofnun hvetur alla gesti á Skriðuklaustri til að gefa afmælisbarninu koss eða knús í sumar og setja inn á samfélagsmiðla undir merkinu #skriduklaustur75. Hver veit nema verðlaun verði veitt fyrir skemmtilegustu myndirnar þegar haustar. Hægt er að fylgjast með myndaleiknum á Facebook-síðu Skriðuklausturs eða hér.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur