Innsetning á Safnadaginn

Sýningu Soffíu Sæmundsdóttur, Dalverpi, minningar og fundnir hlutir, lýkur laugardaginn 7. júlí í gallerí Klaustri á Skriðuklaustri. Daginn eftir, sunnudaginn 8. júlí verður Íslenski safnadagurinn í hávegum hafður og ókeypis inn á safnið og í leiðsögn um fornleifasvæðið. Þá mun danska listakonan Litten Nyström einnig opna nýja sýningu í gallerí Klaustri undir heitinu Árangur (Landvinding/Achievement). Sú sýning er innsetning unnin sérstaklega með tilliti til staðarins og mun Litten vinna bæði úti og inni á sunnudaginn frá kl. 14 og fram eftir degi við að skapa innsetninguna. Áhugasamir eru því hvattir til að mæta og fylgjast með sýningunni verða til. Litten Nyström er dönsk en hefur búið á Seyðisfirði síðasta árið. Hún hefur haldið einkasýningar í Danmörku, Þýskalandi og á Íslandi.

Áætlanaferðir í Fljótsdal

Allan júlímánuð verða áætlanaferðir milli Egilsstaða og Fljótsdals þrisvar á daga alla daga vikunnar. Það er ferðaklasinn á Hallormsstað og í Fljótsdal sem stendur fyrir ferðunum sem Tanni Travel sér um. Farið er frá Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og stoppistöðvar eru á Hallormsstað, við Hengifoss, á Skriðuklaustri og við Végarð. Fyrsta ferð að morgni frá Egilsstöðum er kl. 8.00 og síðasta ferð frá Végarði kl. 17.15. Hér er hægt að sækja tímatöfluna og upplýsingar um alla ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Tilvalið fyrir fólk á svæðinu jafnt og ferðamenn að notfæra sér þessar ferðir.

Soffía Sæm sýnir Dalverpi

Föstudaginn 15. júní verður opnuð sýning Soffíu Sæmundsdóttur í gallerí Klaustri. Sýningin ber titilinn Dalverpi, minningar og fundnir hlutir og á henni eru málverk og teikningar. Soffía dvaldi í Klaustrinu vorið 1999 og þá varð til sýningin Dalbúar sem fór víða um lönd. Hún hefur unnið af krafti að myndlistinni síðan þá og sýnt á einkasýningum og samsýningum hérlendis og erlendis. Sýningin verður opnuð kl. 16 á föstudaginn og stendur í þrjár vikur.

Undir Klausturhæð

Laugardaginn 26. maí verður opnuð sýning um miðaldaklaustrið að Skriðu. Á sýningunni er fjallað um sögu klaustursins og rannsókn síðustu tíu ára á minjum þess. Meðal muna á sýningunni eru gripir frá Þjóðminjasafninu sem tengjast klaustrinu, s.s. Maríulíkneski, kaleikur og patína og nisti. Þá verður frumsýnt tölvugert þrívíddarlíkan af kirkju og klausturhúsum eins og þau gætu hafa litið út fyrir 500 árum. Allir velkomnir á opnun kl. 14.

Úr ættarsögu Borgarfólksins

Dagurinn í dag, 18. maí, er fæðingardagur Gunnars Gunnarssonar. Í ár eru liðin 123 ár frá fæðingu hans. Í ár verða einnig liðin 100 ár frá útgáfu á fyrstu skáldsögu hans, sögunni af fólkinu á Borg. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur gert fyrstu útgáfu Borgarættarinnar á íslensku aðgengilega á www.baekur.is í tengslum við verkefni sem snýst um að miðla evrópskum menningararfi rafrænt. Úr ættarsögu Borgarfólksins hét þetta fjögurra binda verk í þýðingu Jakobs Jóhannessonar Smára þegar það kom út á árunum 1915-1918.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur