Vetrarbrautarmeistarinn

Vetrarbrautarmót í lomber var haldið um helgina á Skriðuklaustri. Á það mættu hátt í 30 manns víðsvegar að af Austurlandi og einnig úr Húnaþingi. Spilað var frá hádegi og fram undir miðnætti. Við uppgjör kom í ljós að vetrarbrautarmeistari með 248 stig var Niels Sigurjónsson frá Fáskrúðsfirði. Í öðru sæti varð Hávarður Sigurjónsson frá Blönduósi og Óttar Orri Guðjónsson Fellabæ varð þriðji. Einnig voru veitt verðlaun í liðakeppni og varð sveit Fáskrúðsfirðinga þar stigahæst með Niels og hinn 99 ára gamla Guðjón Daníelsson í broddi fylkingar. Það voru lomberklúbburinn Tótus og Gunnarsstofnun sem stóðu fyrir mótinu og styrktaraðilar voru Spilavinir og Alcoa Fjarðaál. Fleiri myndir er að finna á  Snjáldurskinnu Skriðuklausturs

Vetrarbrautarmót í lomber

Lomberklúbburinn Tótus og Gunnarsstofnun efna til Vetrarbrautarmóts í lomber fyrsta vetrardag, 27. október nk. Hefst spilamennskan kl. 13.00 og gert er ráð fyrir að spila fram til 23.00. Spilað verður í tveimur lotum, klassískur lomber og rauðuása-lomber. Verðlaun veitt fyrir samanlagðan árangur. Þeir sem vilja geta einnig tekið þátt í liðakeppni (3-4 í liði) og veitt verða sérstök verðlaun fyrir góðan árangur liðs. Þátttökugjald er kr. 6.500 með súpu í hádegi en 5.200 kr. m.v. kaffi og kvöldverð. Von er á Húnvetningum að norðan. Gott að fá skráningar á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig er hægt að hringja í síma 471-2990 eða mæta á staðinn á laugardaginn.

Breyttur tími um helgina vegna Melaréttar

Melarétt hefur verið frestað til sunnudagsins 23. sept. Sökum þess snýst auglýstur opnnartími við um helgina og opið verður á laugardag kl. 12-17 en kl. 14-17 á sunnudag. Síðasta hádegisverðarhlaðborð Klausturkaffis verður því á laugardag en kaffihlaðborð báða daga.

Lomber og síðasta opnunarhelgi

Þá er haustið gengið í garð og ekki opið lengur upp á hvern dag á Skriðuklaustri. Um helgina verður þó opið og er það síðasta opnunarhelgi fyrir haustdvala. Opið verður á laugardag kl. 14-17 en þá er réttað í Melarétt kl. 11.30-14. Á sunnudaginn verður opið kl. 12-17. Kaffihlaðborð og hádegishlaðborð verða hjá Klausturkaffi en einnig er rétt að minna á að þetta eru síðustu forvöð til að sjá sýninguna Undir Klausturhæð, sýningu um miðaldaklaustrið. Þeir sem ekki eru þegar búnir að skoða minjasvæði eftir formlega opnun þess geta að sjálfsögðu skoðað það áfram inn í haustið þó að ekki sé opið  í Gunnarshúsi og Snæfellsstofa verður einnig opin út september kl. 10-16 virka daga og kl. 13-17 um helgar. Þá er rétt að minna á að lomber vetrarins hefst nk. föstudagskvöld á Skriðuklaustri og verður spilað frá kl. 20.00.

Frímerki um Skriðuklaustur

Í dag er útgáfudagur frímerkis sem Íslandspóstur gefur út í tilefni 500 ára vígsluafmælis klausturkirkjunnar að Skriðu í Fljótsdal. Á frímerkinu er teikning af grunnformi klausturbygginga á Skriðuklaustri. Þá eru á fyrsta dags umslagi ljósmyndir af nokkrum merkum munum sem fundust við fornleifarannsóknina sem stóð frá 2002 til 2012. Frímerkið hefur hátt verðgildi og er fyrir 1500 gramma sendingar. Hægt er að fræðast meira um útgáfuna á vefsíðu Póstsins.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur