Joan Perlman, sem dvelst um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu með styrk frá The American-Scandinavian Foundation, opnaði sýningu í gallerí Klaustri laugardaginn 18. maí. Á henni getur að líta nokkrar myndir unnar með gouache á Yupo úr stærra myndverki sem hún nefnir Sanctuary. Innblástur í verk sín sækir Joan í íslenskar jökulár og hefur hún unnið með árnar síðustu tíu árin bæði í vídeóverkum og málverkum. Sýningu Joan lýkur 1. júní. Heimasíða Joan Perlman
Á fæðingardegi Gunnars skálds, 18. maí, var opnuð lítil sýning sem er hluti af verkefni sem Árnastofnun efnir til í tilefni þess að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar. Liður í því er að sýna eftirgerðir sex valinkunnra handrita sem næst þeim stað sem Árni fékk þau frá. Margrétar saga kom í hlut Gunnarsstofnunar því að hún var send frá Skriðuklaustri til Kaupmannahafnar árið 1704. Vigdís Finnbogadóttir er "fóstra" handritsins í sýningarverkefninu og kom ásamt fríðu föruneyti frá Árnastofnun færandi hendi með eftirgerðina sem komið var fyrir í sýningarstandi í stássstofunni á Klaustri. Hægt er að sjá fleiri myndir og myndband frá móttöku Margrétar sögu á Fésbókarsíðu Skriðuklausturs.
Laugardaginn 18. maí, sem er fæðingardagur Gunnars skálds og alþjóðlegur safnadagur, kemur Vigdís Finnbogadóttir færandi hendi í Skriðuklaustur með nákvæma eftirgerð af handriti Margrétar sögu sem Bessi Guðmundsson sýslumaður á Skriðuklaustri sendi Árna Magnússyni handritasafnara árið 1704. Handritið verður til sýnis í Gunnarshúsi og er sýningin hluti af verkefni Árnastofnunar, Handritin alla leið heim, sem efnt er til í tilefni 350 ára frá fæðingu Árna. Guðrún Nordal forstöðukona Árnastofnunar mun kynna verkefnið og Guðvarður Már Gunnlaugsson handritafræðingur mun segja frá handritinu og Margrétar sögu. Þá mun stúlknakórinn Liljurnar syngja fyrir gesti. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir á dagskrána sem hefst kl. 14.
Sýningin Undir Klausturhæð hefur verið opnuð að nýju. Á henni fræðast gestir um sögu miðaldaklaustursins og fornleifarannsóknina sem stóð yfir frá 2002-2012. Munir sem fundust við uppgröftinn eru til sýnis og þar á meðal stytta af heilagri Barböru, gullhringur og frönsk reiknimynt. Minjasvæðið neðan við Gunnarshús er síðan opið og aðgengilegt með fræðsluskiltum. Í maí er opið á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17.
Skipulagsskrá Menningarsjóðs Stofnunar Gunnars Gunnarssonar var í dag, 16. apríl, staðfest á Skriðuklaustri með undirritun mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og Sigríðar Sigmundsdóttur, varaformanns stjórnar Gunnarsstofnunar. Tilgangur menningarsjóðsins er tvíþættur: Annars vegar að renna stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri með árlegum framlögum til hennar; hins vegar að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast fjölþættu hlutverki stofnunarinnar. Sjóðnum er því bæði ætlað að efla menningarstarf á Skriðuklaustri og styrkja ímynd Gunnarsstofnunar sem menningarstofnunar á landsvísu. Stofnandi sjóðsins er mennta- og menningarmálaráðuneyti og leggur það sjóðnum til rúmar 43 m.kr. sem stofnfé. Ætlunin er að safna frekari framlögum til að stækka sjóðinn. Reiknað er með árlegri úthlutun og að sú fyrsta fari 18. maí 2014 þegar 125 ár verða liðin frá fæðingu skáldsins.