Aðventa lesin á sunnudaginn

Næsta sunnudag,  þriðja sunnudag í aðventu 16. desember, verður Aðventa lesin samtímis á tveimur stöðum. Menningarmiðstöð Þingeyinga stendur fyrir upplestri á Grenjaðarstað og hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri í Fljótsdal mun Ævar Kjartansson lesa söguna. Lesturinn hefst á báðum stöðum kl. 14 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis.

Sunnudaginn 9. desember var Aðventa Gunnars m.a. lesin upp í samkomusal norrænu sendiráðanna í Berlín. Þar mættu 112 manns til að hlýða á lesturinn en líkt og í fyrra var það þýski leikarinn Matthias Scherwenikas sem las söguna frá upphafi til enda.

Aðventa lesin víða næstu helgar

– Reykjavík og Berlín næsta sunnudag
 Aðventa, sagan um Fjalla-Bensa og svaðilfarir hans á fjöllum vikurnar fyrir jól, sem Gunnar Gunnarsson skrifaði árið 1936 hefur unnið sér sess sem jólasaga hérlendis hin síðari ár. Á hverju ári er hún lesin í Útvarpinu síðustu daga fyrir jól og lestri hennar lokið síðdegis á aðfangadag. Á síðustu árum hefur sá siður jafnframt skotið rótum að lesa skáldsöguna upphátt fyrir gesti víða um land og einnig erlendis.
Í ár dreifist upplestur á Aðventu á tvær helgar á þeim stöðum sem vitað er um. Sunnudaginn 9. desember mun Hjörtur Pálsson lesa söguna í Gunnarshúsi í Reykjavík að Dyngjuvegi 8. Rithöfundasamband Íslands stendur fyrir þeim lestri. Aðgangur er ókeypis og heitt á könnunni en lesturinn hefst kl. 13.30. Sama dag verður Aðventa lesin á þýsku í samkomusal norrænu sendiráðanna í Berlín kl. 14.00. Þar mun þýski leikarinn Matthias Scherwenikas lesa söguna og verður boðið upp á íslenskt bakkelsi í hléi. Sendiráð Íslands og Gunnarsstofnun standa fyrir þeim upplestri en Aðventa kom fyrst út á þýsku hjá forlaginu Reclam árið 1936 og er vel þekkt meðal þýskra unnenda íslenskra bókmennta.
 
Á þriðja sunnudegi í aðventu, hinn 16. desember, verður Aðventa lesin samtímis á tveimur stöðum. Menningarmiðstöð Þingeyinga stendur fyrir upplestri á Grenjaðarstað og hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri í Fljótsdal mun Ævar Kjartansson lesa söguna. Lesturinn hefst á báðum stöðum kl. 14 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Rithöfundar og Grýlugleði

Um næstu helgi verður mikið um að vera á Skriðuklaustri. Laugard. 1. des. brunar rithöfundalestin árvissa í hlað. Kristín Steinsdóttir les úr Bjarna-Dísu, Kristín Ómarsdóttir les úr Millu, Steinunn Kristjánsdóttir les úr Sögunni um klaustrið á Skriðu, Eiríkur Örn Norðdahl les úr Illsku og Einar Már úr Íslenskum kóngum. Einnig verður kynnt bókin Sonur þinn er á lífi úr Útkallsseríu Óttars Sveinssonar. Rithöfundalesturinn hefst kl. 14.00 og kostar 1.000 kr. inn, kaffi og kökur innifaldar. Bækur verða seldar á staðnum og hægt að verða sér úti um áritun. Rithöfundarnir munu einnig lesa á Vopnafirði á föstudagskvöld, Seyðisfirði á laugardagskvöld og í Neskaupstað á sunnudag. Menningarráð Austurlands og fleiri aðilar styrkja rithöfundalestina að þessu sinni.

sponsors

Hin árlega Grýlugleði verður síðan sunnud. 2. des. kl. 14.00. Þar verður grín og glens um Grýlu og hyski hennar og vonandi láta þau gömlu hjónin gesti í friði þetta árið. Ókeypis aðgangur. Jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi eftir gleðina.

Aðventuhlaðborðin að hefjast

Þá er að renna upp fyrsta helgin sem Klausturkaffi býður upp á aðventuhlaðborð. Fyrsta kvöldið er laugardaginn 24. nóv. og eru enn nokkur borð laus. En síðan verða aðventuhlaðborð á föstudags- og laugardagskvöldum allt fram til 15. desember. Hafi menn ekki þegar tryggt sér borð er vissara að hafa samband við Elísabetu sem fyrst (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). Að venju verður dekrað við gesti með heitum drykk þegar komið er í hús og síðan svigna borðin undan austfirskum krásum og alskyns góðgæti úr eldhúsinu hjá Elísabetu.

Ljósaskipti og langir skuggar

Í tilefni Daga myrkurs verður opið á Skriðuklaustri sun. 4. nóv. kl. 14-18. Bæði verður opið í Gunnarshúsi og Snæfellsstofu. Skúli Björn Gunnarsson flytur erindi um myrkur og skáldskap kl. 14 og síðan verður súkkulaðikökuhlaðborð hjá Klausturkaffi með djöflatertum og draugakökum. Kl. 16.30 hefst síðan spennandi og fjölskylduvænn ratleikur í Snæfellsstofu sem teygir sig inn í ljósaskiptin og milli húsa á Klaustri. Allir velkomnir.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur