Rithöfundar og Grýlugleði
Um næstu helgi verður mikið um að vera á Skriðuklaustri. Laugard. 1. des. brunar rithöfundalestin árvissa í hlað. Kristín Steinsdóttir les úr Bjarna-Dísu, Kristín Ómarsdóttir les úr Millu, Steinunn Kristjánsdóttir les úr Sögunni um klaustrið á Skriðu, Eiríkur Örn Norðdahl les úr Illsku og Einar Már úr Íslenskum kóngum. Einnig verður kynnt bókin Sonur þinn er á lífi úr Útkallsseríu Óttars Sveinssonar. Rithöfundalesturinn hefst kl. 14.00 og kostar 1.000 kr. inn, kaffi og kökur innifaldar. Bækur verða seldar á staðnum og hægt að verða sér úti um áritun. Rithöfundarnir munu einnig lesa á Vopnafirði á föstudagskvöld, Seyðisfirði á laugardagskvöld og í Neskaupstað á sunnudag. Menningarráð Austurlands og fleiri aðilar styrkja rithöfundalestina að þessu sinni.
Hin árlega Grýlugleði verður síðan sunnud. 2. des. kl. 14.00. Þar verður grín og glens um Grýlu og hyski hennar og vonandi láta þau gömlu hjónin gesti í friði þetta árið. Ókeypis aðgangur. Jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi eftir gleðina.
- Created on .