Velkomin í veðurblíðuna

Veðurblíðan hefur leikið við gesti Skriðuklausturs undanfarinn hálfan mánuð. Hiti yfir 20 stig hvern dag og þó að sé þoka að morgni er kominn heiður himinn um hádegisbil. Gestum hefur dvalist í veitingum, að skoða minjasvæði og sýningar, nú eða bara að flatmaga í flötunum við Gunnarshús. Spáin er áfram góð fyrir innsveitir austan lands.

Ný sýning í gallerí Klaustri

Opnuð hefur verið ný sýning í gallerí Klaustri. Það er franska listakonan Alexandra Vassilikian sem sýnir ljósmyndir úr seríu sinni Umhverfis rótarhnyðju. Alexandra er af armenskum og þýskum ættum en fædd í Rúmeníu og fékk pólitískt hæli í Frakklandi á 9. áratugnum. Hún hefur sýnt verk sín víða um heim en býr og starfar bæði í Frakklandi og Þýskalandi. Sýningin verður uppi til 25. ágúst. Sjá meira um listakonuna á www.vassilikian.org

Sýningin Sveitalíf

Guðný Marinósdóttir textíllistakona hefur opnað sýningu sína Sveitalíf í gallerí Klaustri. Á sýningunni eru 11 myndir unnar með blandaðri textíltækni og ísaumaðar. Allar sækja þær innblástur í sveitalíf á Héraði síðustu öldina. Sýningin stendur til 17. júlí.

50 litríkir regndropar

Opnuð hefur verið ný sýning í gallerí Klaustri. Það er Kristín Rut Eyjólfsdóttir frá Egilsstöðum sem sýnir þar 50 litlar myndir. Þeim er fylgt úr hlaði með þessu ljóði:

Litirnir streyma yfir hvítan strigann / fullir af lífi og vekja hann úr dvala / líkt og vorregnið sem kemur með sunnanvindinum / leysir land og lýð úr fjötrum vetrar.

Sýningin er opin alla daga kl. 10-18 og stendur til 19. júní.

Sumarið er komið í dalinn

Sumarið er svo sannarlega komið í Fljótsdalnum. Sól og sunnanvindur upp á hvern dag. Lækir og ár hafa vart undan að bera bráðinn snjó úr fjöllum. Á Skriðuklaustri er nú opið alla daga kl. 10-18. Minjasvæðið er orðið grænt og fyrsti sláttur á flötinni sunnan við Gunnarshús verður í vikunni. Útiborðin verða klár á suðurveröndinni fyrir helgi.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur