Margrétar saga kemur heim
Laugardaginn 18. maí, sem er fæðingardagur Gunnars skálds og alþjóðlegur safnadagur, kemur Vigdís Finnbogadóttir færandi hendi í Skriðuklaustur með nákvæma eftirgerð af handriti Margrétar sögu sem Bessi Guðmundsson sýslumaður á Skriðuklaustri sendi Árna Magnússyni handritasafnara árið 1704. Handritið verður til sýnis í Gunnarshúsi og er sýningin hluti af verkefni Árnastofnunar, Handritin alla leið heim, sem efnt er til í tilefni 350 ára frá fæðingu Árna. Guðrún Nordal forstöðukona Árnastofnunar mun kynna verkefnið og Guðvarður Már Gunnlaugsson handritafræðingur mun segja frá handritinu og Margrétar sögu. Þá mun stúlknakórinn Liljurnar syngja fyrir gesti. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir á dagskrána sem hefst kl. 14.
- Created on .