Fréttir 2002

Grýla var heldur ófrýnileg.

2. desember 2002

Grýlugleði og Grýluljóð

Grýlugleði var haldin að Skriðuklaustri þriðja árið í röð sl. sunnudag. Hana sóttu ungir sem aldnir og þar á meðal álfar úr Snæfelli.

Síðan vildi svo óheppilega til að hjónakornin Grýla og Leppalúði litu við í leit að matarbita og ollu skelfingu meðal viðstaddra.

Á Grýlugleðinni voru afhent bókaverðlaun fyrir bestu Grýluljóðin er bárust í samkeppni sem Gunnarsstofnun efndi til meðal austfirskra barna í 1.-7. bekk grunnskóla. Alls bárust um 260 ljóð en dómnefnd valdi fjögur til verðlauna. Verðlaunaskáldin eru: Hrefna Ingólfsdóttir í 7. bekk Grunnskólanum á Breiðdalsvík, Ásta Steinunn Eríksdóttir í 6. bekk Hafnarskóla, Steinunn Rut Friðriksdóttir í 4. bekk Egilsstaðaskóla og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir í 7. bekk Fellaskóla.


Verðlaunahafarnir: Hrefna Ingólfsdóttir, Steinunn Rut Friðriksdóttir
og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir. Á myndina vantar Ástu Steinunni Eríksdóttur.

Verðlaunaljóðin:

  • Grýluljóð
    • Grýla gamla gekk til byggða um jól
    • í leit að óþekkum börnum
    • sem léku út um trissur
    • hrekkjótt og vond.
    • En nú er Grýla orðin svo gömul að hún
    • hefur ekki hina gömlu grimmd
    • til að taka fleiri börn
    • og hún gamla Grýla á svo mörg börn sjálf
    • að hún hefur ekki tölu á þeim.
    • Kisi hennar, jólakötturinn,
    • stalst oft til byggða
    • að hrella börnin smá
    • og sagt var að kisi sá mundi taka þau börn
    • og éta sem ekki fengu ný föt fyrir jólin
    • en aldrei hef ég heyrt þess getið
    • að jólakötturinn hafi étið nokkurn krakka
    • né að Grýla hafi tekið nokkurt
    • óþekkt barn.
            • Hrefna Ingólfsdóttir í 7. bekk Grunnskólans á Breiðdalsvík.
  • Grýla
    • Hún fer um fjöll og firnindi
    • fílar öll heimsins leiðindi.
    • Hún étur börn
    • heil ósköp öll
    • og vill engin nútíma þægindi
            • Ásta Steinunn Eiríksdóttir í 6. bekk Hafnarskóla.
  • Grýla sýður börn í potti
    • Grýla kallar á börnin sín
    • sýnast þau öll sæt og fín.
    • Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða,
    • nú fer ég brátt að sjóða.
    • Ykkur nú ég sendi
    • til að ná í bál og brenndi.
    • Lápur, Skrápur, Völustallur og Bóla,
    • nú fer ég að sjóða til jóla.
    • Ykkur ég sendi að Hamri
    • til að ná í Skúm og Gamri.
    • Það eru mannabörn smá,
    • jamm, namm og já!
    • Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða,
    • náðu nú í börn til að sjóða til jóla.
    • Þegar heim var komið
    • var Grýla ósköp svöng,
    • tók börnin upp með töng.
    • Kveikti undir potti,
    • söng við og glotti.
    • Nú fé ég börn að borða,
    • tók hún svo til orða.
    • Nú er best að ég segi ekki meira
    • og þá var það ekki fleira.
            • Steinunn Rut Friðriksdóttir í 4. bekk Egilsstaðaskóla.
  • Grýla
    • Grýla voða gömul er,
    • grimm á öllum jólum,
    • ófríð, heimsk og beinaber,
    • hræðileg herfa Grýla er.
    • Hún er ekki guðhrædd, nei!
    • Trúir á trunt og tröllin.
    • Skít og skófir étur, svei!
    • Býr hún upp við fjöllin.
            • Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir í 7. bekk Fellaskóla.

6. nóvember 2002

Samkeppni um Grýluljóð
- fyrir austfirsk grunnskólabörn

Í tilefni af árlegri Grýlugleði í byrjun aðventu að Skriðuklaustri efnir Gunnarsstofnun til samkeppni um Grýluljóð meðal grunnskólabarna á Austurlandi. Keppnin er fyrir nemendur í 1. - 7. bekk.

Hver nemandi má senda inn eitt frumort ljóð um Grýlu. Vegleg bókaverðlaun verða veitt fyrir bestu Grýluljóðin og úrslit kynnt á Grýlugleði á Skriðuklaustri 1. desember nk. Þar verða öll innsend ljóð til sýnis.

Dómnefnd skipa: Hákon Aðalsteinsson, Steinunn Ásmundsdóttir og Skúli Björn Gunnarsson.



22. nóvember 2002


Kvöldvaka hinna myrku afla

Gunnarsstofnun stendur fyrir kvöldvöku hinna myrku afla föstudagskvöldið 22. nóvember nk. á Dögum myrkurs. Á kvöldvökunni verður eitt og annað sem tengist myrkraverkum. Rýnt í Píslarsögu Jóns þumlungs, fræðsla um galdra og drauga, kveðist á og sungið. Þá verður kennt hvernig vekja á upp drauga og einnig hvernig kveða á þá niður. Kvöldvakan hefst kl. 20.30. Aðgangseyrir er kr. 1.300, kaffi og meðlæti innifalið.



4. nóvember 2002

Sýning Handverks og hönnunar
- um 200 gestir komu á sýninguna

Úrvalsýningu Handverks og hönnunar á 50 munum frá 25 aðilum lauk um 4. nóvember. Á sýninguna komu liðlega 200 gestir, þar á meðal nemendur úr Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað og úr listnámi við Menntaskólann á Egilsstöðum.

Frá síðasta sunnudegi.

27. ágúst 2002

7500 gestir á Klaustri í sumar
- opið næstu tvær helgar

Síðasti dagur sumaropnunar var sunnudaginn 25. ágúst. Þá höfðu um 7500 gestir komið í Skriðuklaustur í sumar og voru gestir á þessum síðasta degi nálægt 200 talsins. Er um að ræða um 20% fjölgun gesta frá fyrra ári. Opið verður næstu tvær helgar milli kl. 13 og 17 en lokað virka daga.

Á síðustu sumarhelginni var einnig efnt til töðugjalda með steikarhlaðborði hjá Klausturkaffi. Var vel mætt í það og hlýddu menn á fjöruga tóna Kaleidh bandsins seyðfirska bæði á undan og eftir matnum.



8. ágúst 2002

Austfirsku meistararnir farnir á Höfn
- útilegumennirnir að koma í hús

Stóru myndlistarsýningu sumarsins er nú lokið á Skriðuklaustri. Verk austfirsku meistaranna eru farin á Höfn í Hornafirði þar sem þau verða hengd upp í Pakkhúsinu og verður sú sýning opnuð um helgina.

Næstkomandi laugardag, 10. ágúst, verður hins vegar opnuð síðsumarssýning Gunnarsstofnunar að Skriðuklaustri. Hún ber að þessu sinni heitið Útlagar og útilegumenn og er hluti af þjóðfræðiverkefni sem stofnunin vinnur með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Menningarborgarsjóði.

Þá er rétt að benda á að í Gunnarshúsi eru nú til sýnis margir þeirra muna sem fundist hafa við uppgröftinn á Skriðuklaustri í sumar.



30. júlí 2002

Metaðsókn á fornleifadegi

Sunnudaginn 29. júlí efndu Skriðuklaustursrannsóknir og Þjóðminjasafn Íslands til fornleifadags á Skriðuklaustri. Veitt var leiðsögn á rannsóknarsvæðinu á Kirkjutúni neðan Gunnarshúss eftir hádegi og komu um 150 manns til að fræðast um uppgröftinn.

Sunnudagurinn var jafnframt einn stærsti aðsóknardagur frá upphafi á Skriðuklaustri. Um 250 gestir sóttu staðinn heim og nutu sýninga, veitinga og leiðsagnar um hús skáldsins.



15. júlí 2002

Óðalsherra eða galeiðuþræll

Sunnudaginn 14. júlí hélt Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur erindi um Sögu Borgarættarinnar undir yfirskriftinni "Óðalsherra eða galeiðuþræll".

Í fyrirlestrinum fjallaði Jón Yngvi m.a. um hvernig þversagnakennd afstaða aðalsöguhetjunnar til föðurlands síns og föðurleifðar verður valdur að persónulegum klofningi hans og þeirra átaka innan ættarinnar sem eru meginefni sögunnar. Jafnframt kom fram að danskir gagnrýnendur hefðu á sínum tíma talið fullmikið af atburðum sögunni miðað við lengd hennar en þrátt fyrir það náði hún miklum vinsældum og var m.a. gefin í fermingargjafir í Danmörku í vönduðu skinnbandi um margra áraskeið.

Jón Yngvi Jóhannsson er um þessar mundir að vinna að doktorsritgerð um íslenska rithöfunda í Danmörku, þ. á m. Gunnar Gunnarsson.

Nokkrir gesta.


7. júlí 2002

Vellukkaðir sumartónleikar

Sunnudaginn 7. júlí voru haldnir sumartónleikar á Skriðuklaustri þar sem Hallfríður Ólafsdóttir og Ármann Helgason léku verk eftir ýmis tónskáld á flautu og klarinett. Tónleikagestir voru ánægðir með flutninginn og höfðu á orði að sérstaklega hefði verið gaman að hlýða á þetta þar sem slík verk og slíkan flutning bæri ekki fyrir menn á hverjum degi.



5. júní 2002

Nýskipuð stjórn Gunnarsstofnunar


F.v. Helgi Gíslason, Hrafnkell A. Jónsson, Sigríður Sigmundsdóttir, Gunnar Björn Gunnarsson og Stefán Snæbjörnsson.

Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra hefur skipað stjórn Stofnunar Gunnars Gunnarssonar til þriggja ára frá og með 1. júní sl. Fimm sitja í aðalstjórn og fjórir eru skipaðir til vara.

Aðalmenn eru:
Helgi Gíslason formaður (án tilnefningar)
Gunnar Björn Gunnarsson varaform. (án tilnefningar)
Hrafnkell A. Jónsson (tilnefndur af Safnastofnun Austurlands)
Sigríður Sigmundsdóttir (tilnefnd af Atvinnuþróunarfélagi Austurlands)
Stefán Snæbjörnsson (án tilnefningar).

Varamenn eru:
Hilmar Gunnlaugsson (án tilnefningar)
Franzisca Gunnarsdóttir (án tilnefningar)
Guðný Zoëga (tilnefnd af Safnastofnun Austurlands)
Óðinn Gunnar Óðinsson (tilnefndur af Atvinnuþróunarfélagi Austurl.)


1. júní 2002

"Lost in sveit"
- stórkostlegir tónleikar að Skriðuklaustri

Páll Ívan og Charles (t.h.)

Í dag voru einstakir tónleikar að Skriðuklaustri undir yfirskriftinni "Lost in sveit". Frumflutt var verk eftir Charles Ross tónskáld, sem samið var við vatnslitamyndir Jóns Guðmundssonar fjöllistamanns, en þær voru sýndar samhliða tónleikunum. Jafnframt var flutt annað tónverk eftir Charles í fjórum þáttum. Flytjendur voru auk þeirra tveggja: Suncana Slamnig, Páll Ívan og Annegret Unger. Tónleikarnir voru styrktir af Menningarráði Austurlands. Þeir verða fluttir aftur á morgun sunnudag kl. 14.30.


Annegret, Jón Guðmundsson og Páll Ívan.


Suncana Slamnig.


18. maí 2002

Afhending bókasafns, samstarf við Landsbókasafn og nýr Gunnarsvefur

.
Franzisca Gunnarsdóttir, barnabarn skáldsins, Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, og Sigrún Klara Hannesdóttir, landsbókavörður, undirrita viljayfirlýsinguna

Í dag, 18. maí 2002, þegar 113 ár voru liðin frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar, var mikil viðhöfn að Skriðuklaustri. Tilefnin voru þrjú.

Í fyrsta lagi afhentu börn Helga Gíslasonar og Gróu Björnsdóttur á Helgafelli bókasafn föður síns sem lést árið 2000. Safn það er gefið var Gunnarsstofnun að Skriðuklaustri telur á þriðja þúsund bindi. Í því eru fornsögur, tímarit, ljóðabækur, fræðirit, 20. aldar bókmenntir, þjóðsagnasöfn og ýmislegt fleira sem á eftir að nýtast fræðaiðkendum á Skriðuklaustri í framtíðinni. Björn Helgason afhenti bókasafnið formlega og var afhendingin innsigluð með áletruðum steini er komið verður fyrir á fallegri hillu sem Helgi átti, útskorinni af Ríkarði Jónssyni

.
Börn hjónanna Helga Gíslasonar og Gróu Björnsdóttur á Helgafelli afhentu bókagjöfina (f.v.) Gísli, Hólmfríður og Björn.

Annar liður í dagskrá afmælisdagsins að Skriðuklaustri var undirritun viljayfirlýsingar um samstarf milli Gunnarsstofnunar og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Hann undirrituðu Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður og Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, auk þess sem Franzisca Gunnarsdóttir og Gunnar Björn Gunnarsson staðfestu samþykki afkomenda fyrir yfirlýsingunni. Í fyrstu grein viljayfirlýsingarinnar segir:

"Tilgangurinn með viljayfirlýsingu þessari er að stuðla að ítarlegri skráningu og viðeigandi varðveislu á myndum, bókum, skrifum, handritum, bréfum, blaðaúrklippum og öðrum þeim gögnum er varða Gunnar Gunnarsson. Markmiðið er að á næstu fimm árum verði til öflugur gagnabanki um skáldið, aðgengilegur á Netinu, með ítarlegum heimildalistum, ljósmyndum, úrklippum, greinum og skrám yfir bækur, greinar, handrit og bréfasöfn."

Samningsaðilar gefa sér eitt ár til að koma á samstarfi um verkefnin og munu sameiginlega leita fjármagns til að standa straum af kostnaði við þau.

Þriðji liður dagskrárinnar var síðan opnun vefs á fimm tungumálum um Gunnar Gunnarsson rithöfund. Vefinn opnaði barnabarn skáldsins, Franzisca Gunnarsdóttir.

Gunnar Björn Gunnarsson ásamt móður sinni, Franziscu Gunnarsdóttur. Lengst til hægri er Indriði Gíslason, bróðir Helga Gíslasonar sem átti bókasafn það er gefið var Gunnarsstofnun.


17. apríl 2002

LAXNESSVAKA Í VALASKJÁLF

Gunnarsstofnun, Leikfélag Fljótsdalshéraðs og Bókasafn Héraðsbúa efna til Laxnessvöku í Valaskjálf föstudagskvöldið 26. apríl kl. 20. Flutt verður dagskrá sem samanstendur af ljóðalestri, söng, leiklestri og upplestri, og ferðast gegnum flest helstu verk Nóbelskáldsins.


17. apríl 2002

BÍRÆFIN LYGI, BULL OG VITLEYSA
- fyrirlestur Skúla Björns um Halldór Laxness

Í tilefni af aldarafmæli Halldórs Laxness þriðjudaginn 23. apríl nk. mun Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, halda fyrirlestur um handrit hans, bréf og minniskompur sunnudaginn 21. apríl kl. 17. Skúli Björn vann við flokkun á bréfum Halldórs og handritum á árunum á árunum 1996-97 og flutti þennan fyrirlestur um hvað þar væri forvitnilegt að finna í Norræna húsinu á 95 ára árstíð skáldsins.


17. apríl 2002

VEFLIST AÐ VORI
- sýning Fríðu S. Kristinsdóttur

Fríða S. Kristinsdóttir vefari sýnir listvefnað að Skriðuklaustri 20.-28. apríl nk. Sýningin verður opin kl. 14-17 laugardaga og sunnudaga og á sama tíma sumardaginn fyrsta. Fríða dvelst um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu og mun sýna bæði nýja og eldri muni unna með ýmiskonar tækni.


15. apríl 2002

PÁLL ÓLAFSSON Á KLAUSTURREGLUSTUND
- Þórarinn Hjartarson flutti dagskrá um Pál

Sunnudaginn 14. apríl var Klausturreglustund að Skriðuklaustri. Á hana var boðið þeim sem eru félagar í Klausturreglunni og mætti um helmingur þeirra. Í boði var klukkustundarlöng dagskrá með Þórarni Hjartarsyni um austfirska skáldið Pál Ólafsson. Fræddi Þórarinn áheyrendur með orðum, söng og kveðanda.


31. mars 2002

ERINDI UM TYRKJARÁNIÐ
- Breiðdalsvík og Skriðuklaustri

Þorsteinn Helgason sagnfræðingurheldur erindi um Tyrkjaránið á Hótel Bláfelli Breiðdalsvík þriðjudagskvöldið 2. apríl kl. 20.00 og að Skriðuklaustri laugardaginn 6. apríl kl. 15.00.

Þorsteinn hefur undanfarin ár unnið að rannsóknum á heimildum um Tyrkjaránið og á næstunni verður sýnd í Sjónvarpinu heimildamynd í þremur hlutum byggð á þeim. Í erindum sínum mun Þorsteinn m.a. sýna brot úr þessari mynd en í henni er t.a.m. rætt við nokkra Austfirðinga um þessa atburði 17. aldar.


22. mars 2002

LJÓÐAVAKA Í DYMBILVIKU

Miðvikudagskvöldið 26. mars munu Gunnarsstofnun og Félag ljóðaunnenda á Austurlandi standa fyrir ljóðavöku á Skriðuklaustri. Þar munu austfirsk skáld lesa úr nýju efni, gluggað verður í eldri kveðskap og sungin kvæði, ný og gömul.

Ljóðavakan hefst klukkan 20.00. Aðgangseyrir er kr. 1.000 og innifalið í því eru kaffi og kökur.


5. mars 2002

Skriðuklaustur:
BYSSUR, VODKI OG VAMPÍRUR

Laugardaginn 9. mars flytur Bjargey Ólafsdóttir myndlistarmaður erindi á Skriðuklaustri undir yfirskriftinni "Byssur, vodki og vampírur". Hún mun fjalla um listsköpun sína undanfarin ár, sýna litskyggnur og stuttmyndir og segja frá verkum sem hún hefur gert eða tekið þátt í.

Bjargey Ólafsdóttir lagði stund á blandað listnám (kvikmyndagerð, ljósmyndun, málun og fjöltækni) á Íslandi, Spáni, Finnlandi og Svíþjóð. Síðustu tvö ár hefur hún farið víða um lönd með verk sín og tók meðal annars þátt í dagskránni Ljósin í norðri, sem var hluti af Menningarborginni 2000, með "Ég veiddi vampíru í Svíþjóð". Hún dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu á Skriðuklaustri.

Erindi Bjargeyjar hefst kl. 17.00 nk. laugardag. Aðgangur er kr. 300. Klausturkaffi verður opið á undan fyrirlestrinum.



2. mars laugardagur kl. 14.00
LOMBER-DAGUR

Hinn árlegi Lomber-dagur á Skriðuklaustri verður haldinn laugardaginn 2. mars og mun hefjast kl. 14.00. Byrjað verður á að fara yfir undirstöðuatriðin í spilinu en síðan verður tekið til við alvöruspilamennsku sem staðið getur fram á rauða nótt. Lomber-dagurinn er jafnt fyrir byrjendur sem gamalreynda spilamenn.

Þátttökugjald er kr. 3.300. Innifalið er ritlingur um Lomber, síðdegiskaffi og tveggja rétta kvöldverður.

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og því er best að skrá sig sem fyrst. Skráning og nánari upplýsingar eru í síma 471-2990. Einnig er hægt að senda skráningu í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


14. febrúar 2002

Einar Már Guðmundsson rithöfundur segir frá
- upplestur og spjall


Sunnudaginn 17. febrúar
nk. mun Einar Már Guðmundsson rithöfundur halda sögustund á
Skriðuklaustri. Þar mun hann segja gefa fólki innsýn í verk sín með upplestri og spjalli. Einar Már
dvelst um þessar mundir í gestaíbúð Gunnarsstofnunar.

Sögustundin hefst kl. 15.00 og aðgangseyrir er kr. 400. Klausturkaffi verður með opna veitingastofu
eftir spjallið.

Ýmislegt fleira er síðan á döfinni eins og fyrirlestur um stuttmyndir, erindi um Tyrkjaránið, vefnaðarsýning og dagskrá í tilefni 100 ára afmælis Halldórs Laxness. Nánar um það síðar.


15. janúar 2002

Nýr menningarfulltrúi kominn til starfa

Signý Ormarsdóttir hefur nú tekið til starfa við að þjóna menningarstarfi í fjórðungnum öllum samkvæmt þjónustusamningi Menningarráðs Austurlands við Gunnarsstofnun. Hægt er að ná í Signýju í GSM-síma 860-2983 , 471-3230 eða senda henni tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Fréttir 2001

11. desember 2001

Gunnarsstofnun ræður menningarfulltrúa

Gunnarsstofnun auglýsti um miðjan nóvember eftir menningarfulltrúa til að þjóna menningarstarfi í fjórðungnum samkvæmt þjónustusamningi við Menningarráð Austurlands, sem Helgi Gíslason, stjórnarformaður Gunnarsstofnunar, og Gísli Sverrir Árnason, formaður Menningarráðs, undirrituðu að Skriðuklaustri 2. nóvember sl.

Alls barst 21 umsókn um starfið og annaðist Ráðningarþjónusta PricewaterhouseCoopers úrvinnslu þeirra. Nú hefur verið gengið frá ráðningu við Signýju Ormarsdóttur, kennara og fatahönnuð á Egilsstöðum. Mun hún hefja störf sem menningarfulltrúi hjá Gunnarsstofnun um áramót og vinna að þeim verkefnum sem þjónustusamningurinn kveður á um, s.s. þróunarsstarfi í menningarmálum, eflingu samstarfs, verkefnastjórnun og faglegri ráðgjöf. Þá mun hún einnig annast daglega umsýslu vegna starfsemi Menningarráðs Austurlands.

 


Signý hefur um árabil vakið athygli fyrir framleiðslu sína á fatnaði úr hreindýraleðri sem hún hefur hannað og saumað. Þá var hún um tíma skólameistari Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og hefur síðustu ár kennt list- og hönnunargreinar við Menntaskólann á Egilsstöðum.

19. nóvember 2001

Myrkra-verk og Grýlugleði

Framundan eru spennandi viðburðir að Skriðuklaustri. Á Dögum myrkurs verður efnt til tveggja sýninga og einnar kvöldvöku. Laugardag 24. nóvember kl. 17. verða tvær sýningar í húsi skáldsins. Annars vegar verður Charles Ross með innsetningu sem hann kallar Horfnar tónlistir. Hins vegar sýnir Fjölnir Hlynsson Ljósaskúlptúra. Þessar sýningar verða einnig opnar frá kl. 14-18 á sunnudeginum 25. nóv. Að kvöldi laugardagsins 24. nóv. verður auk þess kvöldvaka með blönduðu efni í borðstofu og djöflaterta á borðum, hefst hún kl. 20.00. Aðgangseyrir á sýningarnar er kr. 400 en kr. 500 á kvöldvökuna.
 

Það styttist síðan í hina vinsælu Grýlugleði sem sló öll aðsóknarmet í fyrra. Fjölskylduvæn dagskrá um Grýlu og hyski hennar sem löngum hefur eldað grátt silfur við Fljótsdælinga og fleiri Héraðsbúa verður flutt þrisvar sinnum að þessu sinni til að forðast troðning. Ekki er um sömu dagskrá að ræða og í fyrra. Sýningar verða laugardag 1. des. kl. 15 og sunnudag 2. des. kl. 14 og kl. 16. Að sjálfsögðu verður Klausturkaffi svo með jólakökuhlaðborð að dagskrá lokinni. Vissara er að panta miða á Grýlugleðina í tíma í síma 471-2990 eða senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. með upplýsingum um fjölda fullorðinna og barna ásamt símanúmeri.

2001menningarborg

Grýlugleðin nýtur að þessu sinni styrks úr Menningarborgarsjóði og á henni verða veitt verðlaun í teiknisamkeppni um Grýlumyndir sem efnt var til meðal nemenda í yngri bekkjum austfirskra grunnskóla, auk þess sem allar innsendar myndir verða til sýnis. Aðgangseyrir á Grýlugleðina er kr. 400 en ókeypis fyrir 12 ára og yngri.

 


6. nóvember 2001

Svörtu skólar á Skriðuklaustri
- trú og töfrar

"Svörtu skólar - trú og töfrar" nefnist erindi sem flutt verður föstudagskvöldið 9. nóvember að Skriðuklaustri. Matthías Viðar Sæmundsson, dósent við Háskóla Íslands, flytur erindið sem fjallar um töfraheim íslenskra rúna, merkingu þeirra og hlutverk fyrr og nú.
Matthías Viðar er dósent í íslenskum bókmenntum en hefur undanfarin ár rannsakað íslenska galdramenningu og gefið út bækur um það efni, svo sem "Galdur á brennuöld" (1996) og "Píslarsögu sr. Jóns Magnússonar" (2001).
Erindið hefst kl. 20.30 og aðgangseyrir er kr. 500.

 


2. nóvember 2001


2001undirritun

F.h.: Gísli Sverrir Árnason, Björn Bjarnason, Skúli Björn Gunnarsson og Helgi Gíslason. Ljósm. Fjölnir.

Skrifað undir á Skriðuklaustri

Í dag voru undirritaðir tveir samningar að Skriðuklaustri. Annars vegar var undirritaður samningur milli menntamálaráðuneytis og Stofnunar Gunnars Gunnarssonar um fjárframlög næstu þrjú árin og gagnkvæmar skyldur, en samkvæmt honum fær Gunnarsstofnun 10,6 m.kr. á ári af fjárlögum til starfsemi sinnar. Samninginn undirrituðu Björn Bjarnason menntamálaráðherra og Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.
Hins vegar var skrifað undir samning milli Gunnarsstofnunar og nýstofnaðs Menningarráðs Austurlands sem felur í sér að stofnunin tekur að sér að vinna ákveðin verkefni á vegum ráðsins og ráða sérstakan starfsmann til að þjónusta menningarstarfsemi á Austurlandi. Fyrir þennan þjónustusamning greiðir Menningarráðið 5,5 m.kr.

 


31. október 2001

Lomber og barokk um helgina

Lomber-spilamenn geta farið að dusta rykið af stokkunum. Föstudagskvöldið 2. nóvember verður fyrsta lomber-kvöld vetrarins að Skriðuklaustri. Hefst það kl. 20.00

 

Baráttu-barokk hópurinn mun halda barokk tónleika að Skriðuklaustri á sunnudag 4. nóvember kl. 17.00. Hópinn skipa, Suncana Slamnig, Charles Ross, Rosemary Hewlett, Jón Guðmundsson og Páll Ívan. Klausturkaffi verður með kaffihlaðborð á undan tónleikunum frá kl. 15.30.

 


31. október 2001

Samið við Gunnarsstofnun

Föstudaginn 2. nóvember verða undirritaðir tveir mikilvægir samningar að Skriðuklaustri. Annars vegar mun menntamálaráðherra undirrita þriggja ára samning milli menntamálaráðuneytis og Gunnarsstofnunar um fjárframlög og gagnkvæmar skyldur. Hins vegar samningur milli Menningarráðs Austurlands og Gunnarsstofnunar um þjónustu við menningarstarfsemi á Austurlandi sem kveður m.a. á um að Gunnarsstofnun ráði sérstakan starfsmann til að vinna ýmis verkefni í þágu menningarstarfs í fjórðungnum.


16. september 2001

Land möguleikanna?
- Hvernig verður landnýtingu háttað á Héraði til framtíðar?

Ketill Sigurjónsson lögfræðingur flytur erindi um virkjanamál, landbúnað, náttúruvernd og fleira mánudagskvöldið 24. september, kl. 20.30. Aðgangseyrir kr. 300.

 


7. september 2001

Síðasta helgi hreindýrasýninga

Nú fer í hönd síðasta sýningarhelgi "Hreindýra á Austurlandi" og ljósmyndasýningar Skarphéðins G. Þórissonar. Almennri opnun þeirrar sýningar lýkur sunnudaginn 9. september en gert er ráð fyrir að skólahópar geti skoðað sýninguna næstu tvær vikur.

 


18. ágúst 2001

Gunnar Gunnarsson og Noregur

Sunnudaginn 26. ágúst mun Óskar Vistdal flytja erindi að Skriðuklaustri sem hann kallar "Gunnar Gunnarsson og Noregur". Í því mun hann fjalla um þær viðtökur sem Gunnar og skáldverk hans fengu í Noregi á fyrri hluta 20. aldar og grípa niður í skrif norskra rithöfunda og gagnrýnenda um Gunnar.

Óskar Vistdal er Cand. mag. í íslenskum og norrænum fræðum frá Björgvinjarháskóla og var sendikennari í norsku við Háskóla Íslands 1986-1993. Hann dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinu Klaustrinu að Skriðuklaustri við rannsóknir á norskum frama Gunnars Gunnarssonar.

Erindið hefst kl. 17.30 og aðgangseyrir er kr. 500.

 


 

Hreindýr á Austurlandi

Sýning um líf, sögu, nytjar og veiðar á hreindýrum þar sem myndir, mál og munir úr nútíð sem fortíð segja sögu þessara einkennisdýra Austurlands. Þessi sýning er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar, Náttúrustofu Austurlands og Markaðsstofu Austurlands.

Sýningin er styrkt af Umhverfisráðuneyti, Hreindýraráði og Landsvirkjun. Hún stendur til 9. september og er opin alla daga frá kl. 11-17 fram til 26. ágúst en eftir það um helgar á sama tíma.

Samhliða þessari sýningu er Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur með ljósmyndasýningu í Gallerí Klaustri. Þar sýnir hann nokkrar af þeim myndum sem hann hefur tekið við rannsóknir sínar á hreindýrum síðustu tvo áratugi.


1. ágúst 2001

Fjöll og firnindi og þjóðlagakvöld

Föstudaginn 3. ágúst opnar Ólöf Birna Blöndal sýningu á 26 landslagsmyndum í Gallerí Klaustri að Skriðuklaustri. Sýningin ber yfirskriftina „Fjöll og firnindi“. Eins og nafnið gefur til kynna er myndefnið sótt til íslenskra fjalla og öræfa, einkum Möðrudals- og Mývatnsöræfa, þar sem einstök náttúrufegurð fjallahringsins, leikur ljóss og skugga ásamt litbrigðum öræfanna er viðfangsefnið.
Myndirnar eru unnar með olíupastel á pappír. Ólöf Birna hefur um árabil unnið landslagsmyndir í olíupastel, jafnframt að mála olíumyndir og teikna og mála portret.
Sýningin stendur til 16. ágúst og er opin frá 11-17. alla daga.

Föstudagskvöldið 10. ágúst mun Ceilidh band Seyðisfjarðar undir stjórn Muff Worden leika keltnesk og íslensk þjóðlög , dans- og dægurlög. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 og aðgangseyrir er kr. 1000. Klausturkaffi býður gestum að panta kvöldverð á undan tónleikunum.


24. júlí 2001

Dauði Baldurs og draugar í fornum sögum
- fyrirlestur Vésteins Ólasonar


Laugardagskvöldið 28. júlí heldur Vésteinn Ólason prófessor fyrirlestur að Skriðuklaustri sem hann kallar Dauði Baldurs og draugar í fornum sögum. Í fyrirlestrinum mun hann fjalla um afstöðu til dauðans og dauðra í íslenskum fornbókmenntum. Jafnframt verða lesnir kafla úr þeim textum sem til umfjöllunar eru.
Fyrirlesturinn hefst kl. 20.00 og aðgangseyrir er kr. 500.


 

17. júlí 2001

Gallerí Klaustur:
Mannamyndir Péturs Behrens

Pétur Behrens myndlistarmaður opnaði í dag sýningu á mannamyndum í Gallerí
Klaustri að Skriðuklaustri þriðjudaginn 17. júlí. Á sýningunni eru tíu portrettmyndir unnar með kolum og vatnslitum. Sýningin er opin á sama tíma og hús skáldsins, kl 11-17 alla daga, og stendur til 2. ágúst.

Pétur Behrens er fæddur í Hamborg árið 1937 og nam myndlist í Hamborg og Berlín. Hann flutti til Íslands 1962 og var stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskóla Reykjavíkur 1978-1986. Hann hefur frá 1986 búið á Höskuldsstöðum í Breiðdal og stundað myndlist, þýðingar, hrossaræktun og tamningar. Pétur hefur haldið 13 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis.


4. júlí 2001

Skáldsagnakvöldvaka

Laugardagskvöldið 14. júlí nk. verður skáldsagnakvöldvaka að Skriðuklaustri. Þar mun verða lesið úr nokkrum íslenskum skáldsögum og fluttir fyrirlestrar um þær. Þessi kvöldvaka er samvinnuverkefni Gunnarsstofnunar og Hugvísindastofnunar HÍ og voru fyrirlestrarnir sem fluttir verða áður fluttir á Skáldsagnaþingi í Reykjavík sl. vor.

Á dagskrá verða:
Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson - fyrirlesari Jón Yngvi Jóhannsson.
Leigjandinn eftir Svövu Jakobsdóttur - fyrirlesari Garðar Baldvinsson
Djúpið eftir Steinar Sigurjónsson - fyrirlesari Matthías Viðar Sæmundsson.
Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma eftir Guðberg Bergsson - fyrirlesari Birna Bjarnadóttir.

Dagskráin mun hefjast kl. 20.00 og rétt er að geta þess að Klausturkaffi mun hafa opið og bjóða léttan kvöldverð á undan fyrir þá sem vilja.

Menningarborgarsjóður, Íslandsbanki og menntamálaráðuneytið styrkja skáldsagnaþingin sem í sumar eru haldin á nokkrum stöðum utan höfuðborgarsvæðisins.


 

3. júlí 2001

Arni Haraldsson í Gallerí Klaustri
- rauðir púðar í túnfætinum

Kanadíski ljósmyndarinn Arni Haraldsson sýnir ljósmyndir frá sex löndum í Gallerí Klaustri dagana 3.- 15. júlí. Sýningin verður formlega opnuð föstudagskvöldið 6. júlí kl. 20-22 og eru allir velkomnir á opnunina.

Arni Haraldsson hefur undanfarin ár einbeitt sér að því að fanga evrópskan módernisma í útjöðrum hins vestræna heims. Myndir hans sýna borgarlandslag og arkitektúr frá miðri 20. öld og varpa m.a. ljósi á hvernig nútímabyggingar endurspegla mannlífið sem í þeim hrærist.

Arni er fæddur á Íslandi en flutti ungur til Kanada. Hann býr og starfar í Vancouver og kennir ljósmyndun við Emily Carr College of Art and Design.

 

Rauðir púðar eftir Marnie Moldenhauer
Í túnfætinum við Skriðuklaustur er umhverfislistaverkið Rauðir púðar, sem þýska listakonan Marnie Moldenhauer vann í júnímánuði. Ætlunin er að hafa listaverkið uppi út júlímánuð og eru áhugasamir því hvattir til að leggja leið sína í Skriðuklaustur og berja það augum hið fyrsta.

Opið er að Skriðuklaustri frá 11-17 alla daga og er Klausturkaffi opið á sama tíma.


17. júní 2001

Sýningar og sumaropnun

Föstudagskvöldið 15. júní opnaði Sigurður Blöndal, fyrrum skógræktarstjóri, sýninguna Austfirsku meistararnir í aðalstofum Skriðuklausturs. Á sýningunni eru verk úr eigu Listasafns Íslands eftir myndlistarmenn sem annaðhvort eru fæddir eða aldir upp á Austurlandi. Þeir sem eiga verk á sýningunni eru: Jóhannes. S. Kjarval, Finnur Jónsson, Svavar Guðnason, Jón Þorleifsson, Nína Tryggvadóttir, Gunnlaugur Scheving, Höskuldur Björnsson, Dunganon, Tryggvi Ólafsson, Elías B. Halldórsson og Ingiberg Magnússon.

Á sama tíma var opnuð sýning í Gallerí Klaustri á ljósmyndaverkum eftir Ólöfu Björk Bragadóttur, útskrifaða myndlistarkonu frá Montpellier í Suður-Frakklandi og núverandi myndlistarkennara við Menntaskólann á Egilsstöðum. Þá er enn opin sýningin SKRIÐA eftir þær stöllur, Elísabetu Stefánsdóttur og Margréti Ómarsdóttur, myndlistarnema úr LHÍ.

Frá og með þessari helgi er opið alla daga kl. 11-17 að Skriðuklaustri fram til 26. ágúst. Þar getur að líta ofangreindar sýningar ásamt grunnsýningu um Gunnar Gunnarsson skáld, Fjallkirkjuteikningar Gunnars yngri listmálara og jafnframt fá gestir persónulega leiðsögn um hús skáldsins. Að því loknu geta gestir síðan sest niður og notið kaffihlaðborðs í veitingastofunni Klausturkaffi sem er á neðri hæð hússins.


23. maí 2001

SKRIÐA á Skriðuklaustri

Laugardagurinn 26. maí er opnunardagur myndlistarsýningar í Gallerí Klaustri að Skriðuklaustri. Elísabet Stefánsdóttir og Margrét Ómarsdóttir, nemar á öðru ári í grafík við Listaháskóla Íslands, sýna verk unnin með blandaðri tækni. Sýningin nefnist SKRIÐA og er liður í Hringferð myndlistarnema LHÍ.
Þetta er jafnframt fyrsti dagur sumaropnunar að Skriðuklaustri. Fram í miðjan júní verður opið um helgar frá 11-17 en eftir það alla daga vikunnar. Myndlistarsýningin SKRIÐA verður í Gallerí Klaustri til 10. júní og er opin á sama tíma og húsið. Þessa fyrstu helgi sumarsins er aðgangur ókeypis að Skriðuklaustri.


3. maí 2001

Sunnudaginn 13. maí kl 15.00 munu Ingveldur G. Ólafsdóttir söngkona og Atli Heimir Sveinsson tónskáld halda tónleika að Skriðuklaustri. Á efnisskrá verða lög Atla Heimis við kvæði Jónasar Hallgrímssonar. Aðgangseyrir er kr. 1.500 og miðapantanir í síma 471-2990. Klausturkaffi verður opið eftir tónleikana.


29. mars 2001

Lomber og kvöldvaka

Næstkomandi miðvikudagskvöld 4. apríl kl. 20 munu þeir sem hafa áhuga á að hittast og spila lomber geta komið saman að Skriðuklaustri. Þátttökugjald er ekkert og spil og spilapeningar á staðnum. Hægt verður að kaupa kaffi. Vonir standa til að áhugamenn um lomber fjölmenni líkt og á lomberdaginn sem haldinn var 3. mars.

 

Kvöldvaka með blandaðri dagskrá verður laugardagskvöldið 7. apríl og hefst kl. 20.30. Á dagskrá verður litskyggnusýning Sigurðar Blöndal frá Leifsbúðum á Nýfundnalandi (L'Anse aux Meadows), Muff Wurden mun flytja þjóðatónlist, Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur mun skyggnast aftur í aldir. Þá mun Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður lesa kvæði nokkurra skálda. Aðgangseyrir er kr. 500. Klausturkaffi verður opið í tengslum við kvöldvökuna.

 


15. mars 2001

Hverjir áttu Ísland við lok 17. aldar?

Sunnudaginn 18. mars nk. mun dr. Gísli Gunnarsson hagsögufræðingur flytja fyrirlestur að Skriðuklaustri um jarðeignir og efnahag við lok 17. aldar. Sérstök áhersla verður lögð á efnahagsástand á Austurlandi með tilliti tileignarhalds á jörðum í fjórðungnum.

 

Gísli Gunnarsson er sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Hann hefur um árabil stundað rannsóknir á íslensku efnahagsástandi og samfélagsgerð, einkum fyrr á tímum. Bók hans, Upp er boðið Ísaland: einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787, sem kom út 1987, er þýdd og endurskoðuð útgáfa doktorsritgerðar hans frá árinu 1983. Gísli er nú í rannsóknarleyfi og hefur að undanförnu dvalist í gestaíbúðinni að Skriðuklaustri við fræðastörf.

 

Fyrirlesturinn hefst kl. 15. Aðgangur er ókeypis. Klausturkaffi verður opið að loknum fyrirlestri.


20. febrúar 2001

Myndlist, lomber og norðurljós

Síðasta sýningarhelgi myndlistarsýningarinnar í febrúar er framundan. Á sunnudaginn verður einnig fyrirlestur um norðurljósin fluttur af Oliver Kochta, þýskum myndlistarmanni. Og síðan er það náttúrlega lomberinn þann 3. mars.

 


22. janúar 2001

Myndlistarsýning og Lomber-dagur

Þá er runnin upp ný öld og tími til kominn að halda áfram með viðburði að Skriðuklaustri. Skammdegið er samt við sig þó að sól sé tekin að hækka á lofti. Í febrúar verður skemmtileg og fersk myndlistarsýning og hinn 3. mars er loksins komið að því sem margir hafa beðið eftir, LOMBER-DAGUR.

Fréttir 2000

6. desember 2000

Stórkostlegur Sonnettusöngur
- metaðsókn á Grýlugleði

Óhætt er að segja að skammdegisviðburðir að Skriðuklaustri hafi tekist vel. Sem áður greinir var góð aðsókn á kvöldvöku á Degi myrkursins. Sömu sögu er að segja um Sonnettusönginn sunnudaginn 26. nóvember.

Um 25 gestir nutu þar stórkostlegra tónsmíða Keiths Reed við fimm af ástarsonnettum Gunnars Gunnarssonar úr Sonnettusveigi, sem hann orti til Franziscu heitkonu sinnar 1912. Auk Keiths fluttu lögin nokkrir nemenda hans og tónlistarfólk á Héraði.

 

 

Grýlugleði var haldinn sunnudaginn 3. desember og varð húsfyllir, svo vægt sé til orða tekið. Á hana mættu 120-130 manns af Héraði og neðan af Fjörðum. Fjöldi barna var mikill og skemmtu þau sér konunglega eins og hinir fullorðnu. Sagnaálfurinn Dvalinn stýrði gleðinni og sagði frá kynnum sínum og álfanna af Grýlu. Skógartríóið söng og lék Grýlukvæði. Krakkar úr Hallormsstaðaskóla lásu veislukvæði um Grýlu og sviðsettu það. Því miður komu þau Grýla og Leppalúði þegar gleðin stóð sem hæst og höfðu Dvalin sagnaálf á brott með sér. Upp úr því lauk skemmtuninni en við tók kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi.

 

Miðað við frábæra aðsókn og góða stemmningu er ráðgert að gera Grýlugleði að árvissum viðburði að Skriðuklaustri.

 


21. nóvember 2000

Góð aðsókn á kvöldvöku - Sonnettusöngur á sunnudag

Góð aðsókn var á kvöldvökuna á Degi myrkursins. Um 30 gestir hlýddu á dagskrá sem stóð í hátt í tvær klukkustundir með kaffipásum. Dagskráin fór fram við arineld í stásstofu Gunnarshúss og nutu menn þar góðra veitinga og skemmtilegrar dagskrár.

 

Næsti viðburður er frumflutningur á lögum Keiths Reed við nokkrar af sonnettum Gunnars Gunnarssonar úr Sonnettu sveigi sem skáldið orti til konu sinnar Franziscu. Þeir tónleikar verða sunnudaginn 26. nóvember kl. 15.00 og er nauðsynlegt að panta sér miða til að tryggja sér sæti þar sem sætaframboð er takmarkað.


17. nóvember 2000

Kvöldvaka myrkursins

KVÖLDVAKA helguð Degi íslenskrar tungu og Degi myrkursins. Fjölbreytt dagskrá með upplestri, leiklestri, erindum og tónlist. Skemmtilegt fyrir alla nema e.t.v. þau allra yngstu. Kaffiveitingar á boðstólum. 


23. október 2000

Nytjalist úr náttúrunni - Frábær aðsókn

2000nytjaskilti

Nytjalistarsýning Handverks og hönnunar, sem stóð frá 13. til 22. október, hlaut frábærar viðtökur að Skriðuklaustri. Um 500 manns lögðu leið sína í Fljótsdalinn til að sjá sýninguna. Flestir nýttu sér einnig kaffihlaðborðið hjá Klausturkaffi og áttu góðan dag að Skriðuklaustri. Ánægjulegt var að skólahópar úr grunnskólum og framhaldsskólum komu einnig og fræddust í leiðinni um Gunnar skáld og Skriðuklaustur.

 


10. október 2000

Nytjalist úr náttúrunni 13. - 22. október

Nytjalist úr náttúrunni er heiti sýningar sem er framlag HANDVERKS OG HÖNNUNAR til dagskrár Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000. Sýningin var fyrst sett upp í Ráðhúsi Reykjavíkur í lok ágúst en nú er hún komin á ferð um landið. Fyrst verður hún sett upp hjá Gunnarsstofnun að Skriðuklaustri.

 


4. október 2000

Velheppnaður menningarminjadagur

2000heritage2

Menningarminjadagur Evrópu var haldinn hátíðlegur að Skriðuklaustri í Fljótsdal laugardaginn 30. september. Dagskráin var helguð klausturminjum á staðnum en þar var starfrækt munkaklaustur af Ágústínusarreglu frá 1493 til 1552. Var það eina klaustrið á Austurlandi í kaþólskum sið. Á þriðja tug gesta kom og tók þátt í fjögurra tíma langri dagskrá sem var bæði utandyra og innan.


27. september 2000

Vetrardagskrá í mótun

Vetrardagskrá Gunnarsstofnunar að Skriðuklaustri er í mótun. Þó er ljóst að 30. september nk. verður dagskrá í tengslum við Menningarminjadag Evrópu þar sem farið verður yfir gerðar og fyrirhugaðar fornleifarannsóknir á Skriðuklaustri. (Sjá nánar). Jafnframt er búið að ákveða að 14.-22. október verði að Skriðuklaustri opin sýning á vegum Handverks og hönnunar á nytjalist sem unnin var út frá þemanu VATN. Þá mun Dagur íslenskrar tungu verða haldinn hátíðlegur með dagskrá 16. nóvember og verið er að leggja drög að kvöldvökum og lomber-námskeiði.


20. september 2000

Sumaropnun lokið

Sumartíma á Skriðuklaustri er nú lokið. Húsið er ekki lengur opið alla daga frá 11-17. Engu að síður geta hópar haft samband við forstöðumann í síma 471-2990 og fengið leiðsögn um húsið. Sömu sögu er að segja um veitingastofuna Klausturkaffi. Hún er býður þjónustu við hópa, hvort sem er kaffiveitingar eða mat. Hægt er að ná í veitingaraðilann í heimasíma 471-2909 eða 471-2992.

 

Þá er rétt að minna á að virðuleg fundarstofa er að Skriðuklaustri sem hentar vel fyrir smærri fundi, allt að 10 manns. Gunnarsstofnun leigir út þessa aðstöðu og síðan geta menn keypt sér veitingar hjá Klausturkaffi. Áhugasamir hafi samband við forstöðumann stofnunarinnar.


20. júní 2000

Fyrsti almenni opnunardagur

Skriðuklaustur opnaði í morgun kl. 11.00 fyrir gestum. Í sumar verður opið frá 11.00 til 17.00 alla daga nema mánudaga allt fram í september. Í húsinu eru nú þegar komnar upp tvær sýningar, annars vegar á málverkum og teikningum eftir Gunnar Gunnarsson yngri listmálara og hins vegar grunnsýning á veggspjöldum um Gunnar Gunnarsson eldri skáld. Þá eru komin upprunaleg húsgögn úr eigu Gunnars og Franziscu konu hans sem voru á Skriðuklaustri á sínum tíma.

 

Veitingastofa sem býður léttan hádegisverð og kaffiveitingar, auk sérþjónustu ef eftir er óskað, er starfrækt í húsinu og opin á sama tíma, þ.e. 11-17. Sími veitingastofu er 471-2992.


18. júní 2000

Opnunarhátíð að Skriðuklaustri

Í dag hóf Björn Bjarnason formlega starfsemi Gunnarsstofnunar að Skriðuklaustri með því að klippa á borða sem opnaði leið inn í hús skáldsins. Þar með er skipulögð starfsemi stofnunarinnar á Skriðuklaustri hafin með sýningum á listaverkum eftir Gunnar Gunnarsson yngri listmálara og grunnsýningu um Gunnar skáld. Einnig hefur tekið til starfa í húsinu veitingastofa þar sem hægt er að fá léttan hádegisverð og kaffiveitingar.

 

Við opnunina sagði menntamálaráðherra að Gunnarsstofnun væri þungamiðja í menningarstarfsemi á Austurlandi um þessar mundir. Hann lýsti yfir ánægju sinni með hversu hratt og örugglega hefði gengið að koma starfsemi af stað á Skriðuklaustri enda væri kominn tími til eftir áratugalangar þrautir margra forvera sinna og annarra ráðamanna.

 

Á annað hundrað manns mættu til opnunarhátíðarinnar og ríkti almenn ánægja með þær endurbætur sem gerðar hafa verið á Gunnarshúsi og einnig með þær sýningar sem settar hafa verið upp.


15. júní 2000

Landsvirkjun bakhjarl Skriðuklausturs númer eitt

2000landsvirkjun

Samkomulag það sem stjórnendur Stofnunar Gunnars Gunnarssonar og Landsvirkjunar skrifa undir hér í dag, 15. júní, felur í sér að Landsvirkjun leggur til á næstu fimm árum 15 milljónir króna í skipulag og framkvæmdir á lóð þeirri sem Gunnarsstofnun hefur til umráða að Skriðuklaustri. Í staðinn fær Landsvirkjun afdrep undir sýningu á raforkumálum í einu herbergi Gunnarshúss og einnig utandyra.

Markmiðið með samkomulaginu er að rækta skipulega upp 15 ha svæði sem myndar veglega umgjörð um hús Gunnars Gunnarssonar og hefur útivistar- og fræðslugildi fyrir allan almenning. Við hönnun svæðisins verður tekið tillit til allra sögu- og náttúruminja sem á því finnast og reynt að nýta landslagið eins og það er til að skapa fallegt útivistarsvæði.

Með undirritun þessa samkomulags verður Landsvirkjun Bakhjarl Skriðuklausturs númer eitt. Það er von stjórnenda Gunnarsstofnunar að fleiri aðilar fylgi í kjölfarið og styðji uppbyggingu menningar-, sögu- og fræðaseturs í Fljótsdal af jafnmiklum myndugleik og Landsvirkjun sýnir með framlagi sínu.

Landsvirkjun leggur strax fram 4 m.kr. til verkefnisins og mun skipulagning svæðisins á Skriðuklaustri hefjast hið fyrsta. Ætlunin er að hefja lóðarframkvæmdir einnig á þessu ári. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á þessum 15 ha að mestu leyti fyrir árið 2005.


29. mars 2000

15 milljónir úr Endurbótasjóði menningarbygginga
– Stefnt að opnun um miðjan júní

Endurbótasjóður menningarbygginga hefur samþykkt að veita Gunnarsstofnun allt að 15 milljónir króna til nauðsynlegra endurbóta á húsum að Skriðuklaustri í Fljótsdal á þessu ári. Framkvæmdir eru hafnar í húsi Gunnars Gunnarssonar sem miða að því að búa húsið undir nýtt hlutverk. Ætlunin er að þeim verði lokið innan tveggja mánaða, enda stefnt að því að hefja starfsemi þar undir merkjum Gunnarsstofnunar um miðjan júní og opna þá húsið fyrir almenningi. Einnig verður ráðist í endurbætur á fyrirhuguðum bústað forstöðumanns á þessu ári.

Framkvæmdir vegna nýrrar starfsemi felast fyrst og fremst í nauðsynlegum endurbótum eins og endurnýjun lagna, fjölgun snyrtinga, uppsetningu brunaviðvörunarkerfis og aðstöðu til veitingasölu. Með þeim eiga öll herbergi hússins, sem eru um 30 talsins, að geta nýst undir starfsemi Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri.

Gunnarsstofnun hefur nú verið mörkuð stefna til næstu ára. Samkvæmt henni verður Skriðuklaustur byggt upp sem menningar-, sögu- og fræðasetur með starfsemi allan ársins hring. Að sumri verður áherslan lögð á að taka á móti ferðamönnum og margvíslegar sýningar settar upp í húsi skáldsins. Að vetri mun starfsemin á Skriðuklaustri snúast meira um að rækta menningu þjóðar og sögu með samstarfi við skóla og aðra aðila. Þá verður áfram rekin gestaíbúð fyrir lista- og fræðimenn í húsinu auk þess sem gert er ráð fyrir að koma upp frekari aðstöðu fyrir fræðaiðkendur.

 


10. janúar 2000

Menntamálaráðherra hefur skipað nýja stjórn Gunnarsstofnunar. Í henni eiga sæti: Helgi Gíslason stjórnarformaður, skipaður án tilnefningar, Hrafnkell A. Jónsson, tilnefndur af Safnastofnun Austurlands, Sigríður Sigmundsdóttir, tilnefnd af Atvinnuþróunarfélagi Austurlands, Stefán Snæbjörnsson, án tilnefningar, og Gunnar Björn Gunnarsson, án tilnefningar.

 


1. janúar 2000

Reglum Gunnarsstofnunar hefur verið breytt lítillega. Bætt hefur verið við tveimur stjórnarmönnum til viðbótar við þá þrjá sem fyrir voru. Eru þessir tveir stjórnarmenn skipaðir án tilnefningar.

 


5. okt. 1999

Hinn 1. október sl. tók Skúli Björn Gunnarsson við starfi forstöðumanns Gunnarsstofnunar. Hann mun fyrst um sinn hafa aðsetur að Lagarfelli 8 í Fellabæ. Síminn hjá honum er 471-2910.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur