Fréttir 2001

11. desember 2001

Gunnarsstofnun ræður menningarfulltrúa

Gunnarsstofnun auglýsti um miðjan nóvember eftir menningarfulltrúa til að þjóna menningarstarfi í fjórðungnum samkvæmt þjónustusamningi við Menningarráð Austurlands, sem Helgi Gíslason, stjórnarformaður Gunnarsstofnunar, og Gísli Sverrir Árnason, formaður Menningarráðs, undirrituðu að Skriðuklaustri 2. nóvember sl.

Alls barst 21 umsókn um starfið og annaðist Ráðningarþjónusta PricewaterhouseCoopers úrvinnslu þeirra. Nú hefur verið gengið frá ráðningu við Signýju Ormarsdóttur, kennara og fatahönnuð á Egilsstöðum. Mun hún hefja störf sem menningarfulltrúi hjá Gunnarsstofnun um áramót og vinna að þeim verkefnum sem þjónustusamningurinn kveður á um, s.s. þróunarsstarfi í menningarmálum, eflingu samstarfs, verkefnastjórnun og faglegri ráðgjöf. Þá mun hún einnig annast daglega umsýslu vegna starfsemi Menningarráðs Austurlands.

 


Signý hefur um árabil vakið athygli fyrir framleiðslu sína á fatnaði úr hreindýraleðri sem hún hefur hannað og saumað. Þá var hún um tíma skólameistari Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og hefur síðustu ár kennt list- og hönnunargreinar við Menntaskólann á Egilsstöðum.

19. nóvember 2001

Myrkra-verk og Grýlugleði

Framundan eru spennandi viðburðir að Skriðuklaustri. Á Dögum myrkurs verður efnt til tveggja sýninga og einnar kvöldvöku. Laugardag 24. nóvember kl. 17. verða tvær sýningar í húsi skáldsins. Annars vegar verður Charles Ross með innsetningu sem hann kallar Horfnar tónlistir. Hins vegar sýnir Fjölnir Hlynsson Ljósaskúlptúra. Þessar sýningar verða einnig opnar frá kl. 14-18 á sunnudeginum 25. nóv. Að kvöldi laugardagsins 24. nóv. verður auk þess kvöldvaka með blönduðu efni í borðstofu og djöflaterta á borðum, hefst hún kl. 20.00. Aðgangseyrir á sýningarnar er kr. 400 en kr. 500 á kvöldvökuna.
 

Það styttist síðan í hina vinsælu Grýlugleði sem sló öll aðsóknarmet í fyrra. Fjölskylduvæn dagskrá um Grýlu og hyski hennar sem löngum hefur eldað grátt silfur við Fljótsdælinga og fleiri Héraðsbúa verður flutt þrisvar sinnum að þessu sinni til að forðast troðning. Ekki er um sömu dagskrá að ræða og í fyrra. Sýningar verða laugardag 1. des. kl. 15 og sunnudag 2. des. kl. 14 og kl. 16. Að sjálfsögðu verður Klausturkaffi svo með jólakökuhlaðborð að dagskrá lokinni. Vissara er að panta miða á Grýlugleðina í tíma í síma 471-2990 eða senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. með upplýsingum um fjölda fullorðinna og barna ásamt símanúmeri.

2001menningarborg

Grýlugleðin nýtur að þessu sinni styrks úr Menningarborgarsjóði og á henni verða veitt verðlaun í teiknisamkeppni um Grýlumyndir sem efnt var til meðal nemenda í yngri bekkjum austfirskra grunnskóla, auk þess sem allar innsendar myndir verða til sýnis. Aðgangseyrir á Grýlugleðina er kr. 400 en ókeypis fyrir 12 ára og yngri.

 


6. nóvember 2001

Svörtu skólar á Skriðuklaustri
- trú og töfrar

"Svörtu skólar - trú og töfrar" nefnist erindi sem flutt verður föstudagskvöldið 9. nóvember að Skriðuklaustri. Matthías Viðar Sæmundsson, dósent við Háskóla Íslands, flytur erindið sem fjallar um töfraheim íslenskra rúna, merkingu þeirra og hlutverk fyrr og nú.
Matthías Viðar er dósent í íslenskum bókmenntum en hefur undanfarin ár rannsakað íslenska galdramenningu og gefið út bækur um það efni, svo sem "Galdur á brennuöld" (1996) og "Píslarsögu sr. Jóns Magnússonar" (2001).
Erindið hefst kl. 20.30 og aðgangseyrir er kr. 500.

 


2. nóvember 2001


2001undirritun

F.h.: Gísli Sverrir Árnason, Björn Bjarnason, Skúli Björn Gunnarsson og Helgi Gíslason. Ljósm. Fjölnir.

Skrifað undir á Skriðuklaustri

Í dag voru undirritaðir tveir samningar að Skriðuklaustri. Annars vegar var undirritaður samningur milli menntamálaráðuneytis og Stofnunar Gunnars Gunnarssonar um fjárframlög næstu þrjú árin og gagnkvæmar skyldur, en samkvæmt honum fær Gunnarsstofnun 10,6 m.kr. á ári af fjárlögum til starfsemi sinnar. Samninginn undirrituðu Björn Bjarnason menntamálaráðherra og Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.
Hins vegar var skrifað undir samning milli Gunnarsstofnunar og nýstofnaðs Menningarráðs Austurlands sem felur í sér að stofnunin tekur að sér að vinna ákveðin verkefni á vegum ráðsins og ráða sérstakan starfsmann til að þjónusta menningarstarfsemi á Austurlandi. Fyrir þennan þjónustusamning greiðir Menningarráðið 5,5 m.kr.

 


31. október 2001

Lomber og barokk um helgina

Lomber-spilamenn geta farið að dusta rykið af stokkunum. Föstudagskvöldið 2. nóvember verður fyrsta lomber-kvöld vetrarins að Skriðuklaustri. Hefst það kl. 20.00

 

Baráttu-barokk hópurinn mun halda barokk tónleika að Skriðuklaustri á sunnudag 4. nóvember kl. 17.00. Hópinn skipa, Suncana Slamnig, Charles Ross, Rosemary Hewlett, Jón Guðmundsson og Páll Ívan. Klausturkaffi verður með kaffihlaðborð á undan tónleikunum frá kl. 15.30.

 


31. október 2001

Samið við Gunnarsstofnun

Föstudaginn 2. nóvember verða undirritaðir tveir mikilvægir samningar að Skriðuklaustri. Annars vegar mun menntamálaráðherra undirrita þriggja ára samning milli menntamálaráðuneytis og Gunnarsstofnunar um fjárframlög og gagnkvæmar skyldur. Hins vegar samningur milli Menningarráðs Austurlands og Gunnarsstofnunar um þjónustu við menningarstarfsemi á Austurlandi sem kveður m.a. á um að Gunnarsstofnun ráði sérstakan starfsmann til að vinna ýmis verkefni í þágu menningarstarfs í fjórðungnum.


16. september 2001

Land möguleikanna?
- Hvernig verður landnýtingu háttað á Héraði til framtíðar?

Ketill Sigurjónsson lögfræðingur flytur erindi um virkjanamál, landbúnað, náttúruvernd og fleira mánudagskvöldið 24. september, kl. 20.30. Aðgangseyrir kr. 300.

 


7. september 2001

Síðasta helgi hreindýrasýninga

Nú fer í hönd síðasta sýningarhelgi "Hreindýra á Austurlandi" og ljósmyndasýningar Skarphéðins G. Þórissonar. Almennri opnun þeirrar sýningar lýkur sunnudaginn 9. september en gert er ráð fyrir að skólahópar geti skoðað sýninguna næstu tvær vikur.

 


18. ágúst 2001

Gunnar Gunnarsson og Noregur

Sunnudaginn 26. ágúst mun Óskar Vistdal flytja erindi að Skriðuklaustri sem hann kallar "Gunnar Gunnarsson og Noregur". Í því mun hann fjalla um þær viðtökur sem Gunnar og skáldverk hans fengu í Noregi á fyrri hluta 20. aldar og grípa niður í skrif norskra rithöfunda og gagnrýnenda um Gunnar.

Óskar Vistdal er Cand. mag. í íslenskum og norrænum fræðum frá Björgvinjarháskóla og var sendikennari í norsku við Háskóla Íslands 1986-1993. Hann dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinu Klaustrinu að Skriðuklaustri við rannsóknir á norskum frama Gunnars Gunnarssonar.

Erindið hefst kl. 17.30 og aðgangseyrir er kr. 500.

 


 

Hreindýr á Austurlandi

Sýning um líf, sögu, nytjar og veiðar á hreindýrum þar sem myndir, mál og munir úr nútíð sem fortíð segja sögu þessara einkennisdýra Austurlands. Þessi sýning er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar, Náttúrustofu Austurlands og Markaðsstofu Austurlands.

Sýningin er styrkt af Umhverfisráðuneyti, Hreindýraráði og Landsvirkjun. Hún stendur til 9. september og er opin alla daga frá kl. 11-17 fram til 26. ágúst en eftir það um helgar á sama tíma.

Samhliða þessari sýningu er Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur með ljósmyndasýningu í Gallerí Klaustri. Þar sýnir hann nokkrar af þeim myndum sem hann hefur tekið við rannsóknir sínar á hreindýrum síðustu tvo áratugi.


1. ágúst 2001

Fjöll og firnindi og þjóðlagakvöld

Föstudaginn 3. ágúst opnar Ólöf Birna Blöndal sýningu á 26 landslagsmyndum í Gallerí Klaustri að Skriðuklaustri. Sýningin ber yfirskriftina „Fjöll og firnindi“. Eins og nafnið gefur til kynna er myndefnið sótt til íslenskra fjalla og öræfa, einkum Möðrudals- og Mývatnsöræfa, þar sem einstök náttúrufegurð fjallahringsins, leikur ljóss og skugga ásamt litbrigðum öræfanna er viðfangsefnið.
Myndirnar eru unnar með olíupastel á pappír. Ólöf Birna hefur um árabil unnið landslagsmyndir í olíupastel, jafnframt að mála olíumyndir og teikna og mála portret.
Sýningin stendur til 16. ágúst og er opin frá 11-17. alla daga.

Föstudagskvöldið 10. ágúst mun Ceilidh band Seyðisfjarðar undir stjórn Muff Worden leika keltnesk og íslensk þjóðlög , dans- og dægurlög. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 og aðgangseyrir er kr. 1000. Klausturkaffi býður gestum að panta kvöldverð á undan tónleikunum.


24. júlí 2001

Dauði Baldurs og draugar í fornum sögum
- fyrirlestur Vésteins Ólasonar


Laugardagskvöldið 28. júlí heldur Vésteinn Ólason prófessor fyrirlestur að Skriðuklaustri sem hann kallar Dauði Baldurs og draugar í fornum sögum. Í fyrirlestrinum mun hann fjalla um afstöðu til dauðans og dauðra í íslenskum fornbókmenntum. Jafnframt verða lesnir kafla úr þeim textum sem til umfjöllunar eru.
Fyrirlesturinn hefst kl. 20.00 og aðgangseyrir er kr. 500.


 

17. júlí 2001

Gallerí Klaustur:
Mannamyndir Péturs Behrens

Pétur Behrens myndlistarmaður opnaði í dag sýningu á mannamyndum í Gallerí
Klaustri að Skriðuklaustri þriðjudaginn 17. júlí. Á sýningunni eru tíu portrettmyndir unnar með kolum og vatnslitum. Sýningin er opin á sama tíma og hús skáldsins, kl 11-17 alla daga, og stendur til 2. ágúst.

Pétur Behrens er fæddur í Hamborg árið 1937 og nam myndlist í Hamborg og Berlín. Hann flutti til Íslands 1962 og var stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskóla Reykjavíkur 1978-1986. Hann hefur frá 1986 búið á Höskuldsstöðum í Breiðdal og stundað myndlist, þýðingar, hrossaræktun og tamningar. Pétur hefur haldið 13 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis.


4. júlí 2001

Skáldsagnakvöldvaka

Laugardagskvöldið 14. júlí nk. verður skáldsagnakvöldvaka að Skriðuklaustri. Þar mun verða lesið úr nokkrum íslenskum skáldsögum og fluttir fyrirlestrar um þær. Þessi kvöldvaka er samvinnuverkefni Gunnarsstofnunar og Hugvísindastofnunar HÍ og voru fyrirlestrarnir sem fluttir verða áður fluttir á Skáldsagnaþingi í Reykjavík sl. vor.

Á dagskrá verða:
Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson - fyrirlesari Jón Yngvi Jóhannsson.
Leigjandinn eftir Svövu Jakobsdóttur - fyrirlesari Garðar Baldvinsson
Djúpið eftir Steinar Sigurjónsson - fyrirlesari Matthías Viðar Sæmundsson.
Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma eftir Guðberg Bergsson - fyrirlesari Birna Bjarnadóttir.

Dagskráin mun hefjast kl. 20.00 og rétt er að geta þess að Klausturkaffi mun hafa opið og bjóða léttan kvöldverð á undan fyrir þá sem vilja.

Menningarborgarsjóður, Íslandsbanki og menntamálaráðuneytið styrkja skáldsagnaþingin sem í sumar eru haldin á nokkrum stöðum utan höfuðborgarsvæðisins.


 

3. júlí 2001

Arni Haraldsson í Gallerí Klaustri
- rauðir púðar í túnfætinum

Kanadíski ljósmyndarinn Arni Haraldsson sýnir ljósmyndir frá sex löndum í Gallerí Klaustri dagana 3.- 15. júlí. Sýningin verður formlega opnuð föstudagskvöldið 6. júlí kl. 20-22 og eru allir velkomnir á opnunina.

Arni Haraldsson hefur undanfarin ár einbeitt sér að því að fanga evrópskan módernisma í útjöðrum hins vestræna heims. Myndir hans sýna borgarlandslag og arkitektúr frá miðri 20. öld og varpa m.a. ljósi á hvernig nútímabyggingar endurspegla mannlífið sem í þeim hrærist.

Arni er fæddur á Íslandi en flutti ungur til Kanada. Hann býr og starfar í Vancouver og kennir ljósmyndun við Emily Carr College of Art and Design.

 

Rauðir púðar eftir Marnie Moldenhauer
Í túnfætinum við Skriðuklaustur er umhverfislistaverkið Rauðir púðar, sem þýska listakonan Marnie Moldenhauer vann í júnímánuði. Ætlunin er að hafa listaverkið uppi út júlímánuð og eru áhugasamir því hvattir til að leggja leið sína í Skriðuklaustur og berja það augum hið fyrsta.

Opið er að Skriðuklaustri frá 11-17 alla daga og er Klausturkaffi opið á sama tíma.


17. júní 2001

Sýningar og sumaropnun

Föstudagskvöldið 15. júní opnaði Sigurður Blöndal, fyrrum skógræktarstjóri, sýninguna Austfirsku meistararnir í aðalstofum Skriðuklausturs. Á sýningunni eru verk úr eigu Listasafns Íslands eftir myndlistarmenn sem annaðhvort eru fæddir eða aldir upp á Austurlandi. Þeir sem eiga verk á sýningunni eru: Jóhannes. S. Kjarval, Finnur Jónsson, Svavar Guðnason, Jón Þorleifsson, Nína Tryggvadóttir, Gunnlaugur Scheving, Höskuldur Björnsson, Dunganon, Tryggvi Ólafsson, Elías B. Halldórsson og Ingiberg Magnússon.

Á sama tíma var opnuð sýning í Gallerí Klaustri á ljósmyndaverkum eftir Ólöfu Björk Bragadóttur, útskrifaða myndlistarkonu frá Montpellier í Suður-Frakklandi og núverandi myndlistarkennara við Menntaskólann á Egilsstöðum. Þá er enn opin sýningin SKRIÐA eftir þær stöllur, Elísabetu Stefánsdóttur og Margréti Ómarsdóttur, myndlistarnema úr LHÍ.

Frá og með þessari helgi er opið alla daga kl. 11-17 að Skriðuklaustri fram til 26. ágúst. Þar getur að líta ofangreindar sýningar ásamt grunnsýningu um Gunnar Gunnarsson skáld, Fjallkirkjuteikningar Gunnars yngri listmálara og jafnframt fá gestir persónulega leiðsögn um hús skáldsins. Að því loknu geta gestir síðan sest niður og notið kaffihlaðborðs í veitingastofunni Klausturkaffi sem er á neðri hæð hússins.


23. maí 2001

SKRIÐA á Skriðuklaustri

Laugardagurinn 26. maí er opnunardagur myndlistarsýningar í Gallerí Klaustri að Skriðuklaustri. Elísabet Stefánsdóttir og Margrét Ómarsdóttir, nemar á öðru ári í grafík við Listaháskóla Íslands, sýna verk unnin með blandaðri tækni. Sýningin nefnist SKRIÐA og er liður í Hringferð myndlistarnema LHÍ.
Þetta er jafnframt fyrsti dagur sumaropnunar að Skriðuklaustri. Fram í miðjan júní verður opið um helgar frá 11-17 en eftir það alla daga vikunnar. Myndlistarsýningin SKRIÐA verður í Gallerí Klaustri til 10. júní og er opin á sama tíma og húsið. Þessa fyrstu helgi sumarsins er aðgangur ókeypis að Skriðuklaustri.


3. maí 2001

Sunnudaginn 13. maí kl 15.00 munu Ingveldur G. Ólafsdóttir söngkona og Atli Heimir Sveinsson tónskáld halda tónleika að Skriðuklaustri. Á efnisskrá verða lög Atla Heimis við kvæði Jónasar Hallgrímssonar. Aðgangseyrir er kr. 1.500 og miðapantanir í síma 471-2990. Klausturkaffi verður opið eftir tónleikana.


29. mars 2001

Lomber og kvöldvaka

Næstkomandi miðvikudagskvöld 4. apríl kl. 20 munu þeir sem hafa áhuga á að hittast og spila lomber geta komið saman að Skriðuklaustri. Þátttökugjald er ekkert og spil og spilapeningar á staðnum. Hægt verður að kaupa kaffi. Vonir standa til að áhugamenn um lomber fjölmenni líkt og á lomberdaginn sem haldinn var 3. mars.

 

Kvöldvaka með blandaðri dagskrá verður laugardagskvöldið 7. apríl og hefst kl. 20.30. Á dagskrá verður litskyggnusýning Sigurðar Blöndal frá Leifsbúðum á Nýfundnalandi (L'Anse aux Meadows), Muff Wurden mun flytja þjóðatónlist, Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur mun skyggnast aftur í aldir. Þá mun Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður lesa kvæði nokkurra skálda. Aðgangseyrir er kr. 500. Klausturkaffi verður opið í tengslum við kvöldvökuna.

 


15. mars 2001

Hverjir áttu Ísland við lok 17. aldar?

Sunnudaginn 18. mars nk. mun dr. Gísli Gunnarsson hagsögufræðingur flytja fyrirlestur að Skriðuklaustri um jarðeignir og efnahag við lok 17. aldar. Sérstök áhersla verður lögð á efnahagsástand á Austurlandi með tilliti tileignarhalds á jörðum í fjórðungnum.

 

Gísli Gunnarsson er sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Hann hefur um árabil stundað rannsóknir á íslensku efnahagsástandi og samfélagsgerð, einkum fyrr á tímum. Bók hans, Upp er boðið Ísaland: einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787, sem kom út 1987, er þýdd og endurskoðuð útgáfa doktorsritgerðar hans frá árinu 1983. Gísli er nú í rannsóknarleyfi og hefur að undanförnu dvalist í gestaíbúðinni að Skriðuklaustri við fræðastörf.

 

Fyrirlesturinn hefst kl. 15. Aðgangur er ókeypis. Klausturkaffi verður opið að loknum fyrirlestri.


20. febrúar 2001

Myndlist, lomber og norðurljós

Síðasta sýningarhelgi myndlistarsýningarinnar í febrúar er framundan. Á sunnudaginn verður einnig fyrirlestur um norðurljósin fluttur af Oliver Kochta, þýskum myndlistarmanni. Og síðan er það náttúrlega lomberinn þann 3. mars.

 


22. janúar 2001

Myndlistarsýning og Lomber-dagur

Þá er runnin upp ný öld og tími til kominn að halda áfram með viðburði að Skriðuklaustri. Skammdegið er samt við sig þó að sól sé tekin að hækka á lofti. Í febrúar verður skemmtileg og fersk myndlistarsýning og hinn 3. mars er loksins komið að því sem margir hafa beðið eftir, LOMBER-DAGUR.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur