Fréttir 2007

18. desember 2007

Áramótin nálgast
Lestur Þórarins Eldjárn á Aðventu sunnudaginn 16. desember var síðasti viðburður ársins hjá Gunnarsstofnun þetta árið. Stemmingin sem skapast á skrifstofu skáldsins með snarkið í eldinu í kakalofninum sem undirleik við lesturinn var óviðjafnanleg og ljóst að hér er komin á hefð sem haldið verður um ókomna tíð.

Jólahátíðin og áramótin nálgast og ró færist yfir á Klaustri. Nýju ári fylgja breytingar á rekstrarformi stofnunarinnar en þann 1. janúar tekur formlega gildi breytingin yfir í sjálfseignarstofnun. Skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina var undirrituð 18. maí sl. vor. Breytingin verður lítt sýnileg og starfsemin á Skriðuklaustri verður með svipuðu sniði árið 2008 og síðustu ár. En stofnunin verður hér eftir að standa á eigin fótum þó að áfram njóti hún framlaga frá ríkinu til starfsemi sinnar.

Gunnarsstofnun óskar öllum þeim sem heimsótt hafa Skriðuklaustur eða haft samskipti við stofnunina á árinu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Bestu jólakveðjur fylgja einnig til þeim fjölmörgu sem nutu veitinga hjá Klausturkaffi.


10. desember 2007

Þórarinn Eldjárn les Aðventu
Næstkomandi sunnudag, 16. desember mun Þórarinn Eldjárn rithöfundur lesa Aðventu í skrifstofu skáldsins. Hann mun lesa þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á sögunni sem kom út 1939. Lesturinn hefst kl. 13.30 og stendur í um þrjár klukkustundir með pásum og góðu kaffihléi. Boðið verður upp á kaffi og jólasmákökur. Hægt er að koma inn í lesturinn þegar mönnum hentar.

Þetta er í þriðja sinn sem Gunnarsstofnun stendur fyrir upplestri á Aðventu á þriðja sunnudegi í aðventu. Áður hafa lesið leikkonurnar Vala Þórsdóttir og Birgitta Birgisdóttir. Allir eru velkomnir að njóta kyrrðarinnar á Klaustri og hvíla sig á jólaundirbúningnum.


5. desember 2007

Grýlugleði vel heppnuð og góðar verðlaunasögur

Grýlugleðin heppnaðist vel að venju með tilheyrandi söng og gleði þó að hjónakornin úr Brandsöxlinni hafi reynt að spilla fyrir eins og stundum áður. Gaulálfarnir mættu og sungu með sínu nefi og sagnaálfurinn birtist með ýmis brögð í pokahorninu til að snúa á Grýlu og Leppalúða.

Tilkynnt var um úrslit í Grýlusagnasamkeppni sem Gunnarsstofnun efndi til meðal eldri bekkja grunnskóla. Að þessu sinni átti að skrifa um Grýlu í dag. Fjöldi sagna barst en úrslit urðu þessi:

1. sæti
Erla Guðný Pálsdóttir
8. bekkur, Fellaskóli

2. sæti
Steinunn Rut Friðriksdóttir
9. bekkur E - Egilsstaðaskóli

3. sæti
Vigdís Diljá Óskarsdóttir
8. bekkur Fellaskóli

Verðlaunasögurnar er hægt að nálgast hér.


26. nóvember 2007

Bókavaka og Grýlugleði

Næstkomandi miðvikudagskvöld rennir rithöfundalestin 2007 í hlað á Skriðuklaustri. Þá munu fimm höfundar koma og lesa úr bókum sínum sem eru annað hvort nýkomnar úr prentun eða að renna úr prentsmiðjunni þessa dagana. Höfundarnir eru:

  • Vigdís Grímsdóttir: Sagan um Bíbí Ólafsdóttur (ævisaga)
  • Þráinn Bertelsson: Englar dauðans (skáldsaga)
  • Jón Kalman Stefánsson: Himnaríki og helvíti (skáldsaga)
  • Pétur Blöndal: Sköpunarsögur (viðtalsbók)
  • Kristín Sv. Tómasdóttir: Blótgælur (ljóð)

Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á bókavökunni sem hefst kl. 20.00. Boðið verður upp á kaffi og kökur með upplestrinum en aðgangseyrir er kr. 1.000.

Grýlugleði
Hin árvissa Grýlugleði verður sunnudaginn 2. desember kl. 14.00. Að venju verður dagskrá blönduð og von á gaulálfum og sagnaálfum sem munu láta ljós sitt skína í frásögn og söng um Grýlu og hyski hennar. Gunnarsstofnun efndi þar að auki til smásagnasamkeppni meðal eldri grunnskólanema um Grýlu dagsins í dag og verða tilkynnt úrslit í henni og lesnar verðlaunasögur. Í gallerí Klaustri verður einnig sett upp lítil Grýlusýning. Þá er aldrei að vita nema gömlu hjónin líti við í leit að barnabita. Aðgangseyrir er kr. 500 fyrir fullorðna en frítt fyrir börn 16 ára og yngri. Að lokinni dagskrá verður jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi.


20. nóvember 2007

Velheppnuð ferð í fótspor Fjalla-Bensa

Síðastliðinn sunnudag héldu liðlega sjötíu manns á fjórtán jeppum í fótspor Fjalla-Bensa á Mývatnsöræfum að kanna söguslóðir skáldsögunnar Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Gunnarsstofnun stóð fyrir ferðinni í samvinnu við Ferðafélögin á Fljótsdalshéraði og Húsavík og Húsavíkur- og Austurlandsdeild 4x4 ferðaklúbbsins.
Ferðin hófst við gangnamannahúsið Péturskirkju í Hrauntöglum en síðan var farið að Sæluhúsinu við Jökulsá. Ingvar E. Sigurðsson leikari las valda kafla úr skáldsögunni á áningarstöðunum. Með í för var einnig Arngrímur Geirsson í Álftagerði sem sagði fólki frá þeim aðstæðum sem eftirleitarmenn lifðu við á fyrri hluta síðustu aldar, þar á meðal Benedikt Sigurjónsson sem Gunnar byggði sögupersónu sína í Aðventu á.
Frá Sæluhúsinu var haldið eftir Öskjuleið inn hjá Hrossaborg allt að kofanum Tumba austan í Miðfelli. Ferðinni lauk síðan inni í Herðubreiðarlindum þar sem hópurinn naut húsaskjóls í Þorsteinsskála. Þar las Ingvar lokakafla Aðventu fyrir þátttakendur í froststillunni við rætur Herðubreiðar.
Ferðin gekk vel og lítið um festur enda lítill snjór á fjöllum. Þó hafði Grafarlandaáin hlaupið í krapa . Daginn og nóttina á undan var stórhríð og hvassviðri líkt og það sem Fjalla-Bensi hreppti í umtalaðri eftirleit í desember 1925. Það var frásögn af þeirri ferð sem birtist í Eimreiðinni 1931 sem varð Gunnari Gunnarssyni uppspretta sögunnar Aðventu er þýdd hefur verið á um 20 tungumál og seld í um milljón eintökum frá því hún kom fyrst út í Þýskalandi 1936. Nýverið kom hún út í kilju hjá bókaforlaginu Bjarti og var ferðin meðal annars farin í tilefni þeirrar útgáfu. Hér að neðan getur að líta nokkrar myndir úr ferðinni sem þó ná ekki að fanga kyrrð öræfanna sem umvafði ferðalanga.


13. nóvember 2007

Gunnarsstofnun, í samvinnu við Ferðafélög Fljótsdalshéraðs og Húsavíkur og Austurlands- og Húsavíkurdeildir 4x4, stendur fyrir ferð í fótspor Fjalla-Bensa nk. sunnudag. Skráningarfrestur í ferðina rann út sl. föstudag og nú liggur fyrir að 70 manns munu verða í ferðinni og farið á 15-20 sérútbúnum jeppum bæði frá Húsavík og Egilsstöðum.

Tilefni ferðarinnar er ný útgáfa á Aðventu hjá bókaforlaginu Bjarti sem kom út í sumar. . Áð verður sögustöðum og mun Arngrímur Geirsson í Álftagerði rifja upp svaðilfarir Fjalla-Bensa og annarra eftirleitarmanna. Með í för verður einnig Ingvar E. Sigurðsson leikari sem mun lesa valda kafla úr sögunni. Þá mun Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar fjalla um tildrög sögunnar og útgáfu hennar. Fyrsti viðkomustaður verður gangnamannakofinn Péturskirkja í Nýjahrauni. Síðan verður farið að Sæluhúsinu við Jökulsá, kofann Tumba og ekið inn í Grafarlönd og Herðubreiðarlindir. Í Þorsteinsskála verður tekin góður tími í að hlýða á lesturs Ingvars á sögu Gunnars. 


31. október 2007

Fjölbreytt dagskrá framundan á Dögum myrkurs

Það verður margt um að vera á Skriðuklaustri og á vegum Gunnarsstofnunar næstu vikurnar. Fyrst ber að nefna leshring um hina einstöku skáldsögu Gunnars, Vikivaka, sem fram fer nk. þriðjudagskvöld, 6, nóv. kl. 20 undir handleiðslu Halldóru Tómasdóttur staðarhaldara.

Helgina 10.-11. nóv. og 17.-18. nóv. verður síðan opið á Skriðuklaustri kl. 14-17 bæði lau. og sun. og munu gestir geta skoðað sýningu finnska listamannsins Timo Rytkönen í gallerí Klaustri auk þess sem opið verður hjá Klausturkaffi og áhersla lögð á súkkulaðikökur.

Laugardagskvöldið 10. nóvember verður kvöldvaka kl. 21.00 með blandaðri dagskrá. Í tilefni 200 ára frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar mun Kristinn Haukur Skarphéðinsson líffræðingur flytja erindi um náttúrufræðinginn Jónas. Þá mun Ásgeir hvítaskáld stíga á stokk og finnsku músíkhjónin Matti og Kati Saarinen munu töfra fram ljúfa tóna. Á undan kvöldvökunni verður hægt að vera í herragarðskvöldverði hjá Klausturkaffi (nánari upplýsingar og borðapantanir í síma 471-2992.

Sunnudaginn 18. nóvember stendur Gunnarsstofnun, í samvinnu við Ferðafélög Fljótsdalshéraðs og Húsavíkur og Austurlands- og Húsavíkurdeildir 4x4, fyrir ferð í fótspor Fjalla-Bensa. Tilefnið er ný útgáfa á Aðventu hjá bókaforlaginu Bjarti. Farið verður á sérútbúnum jeppum á söguslóðir Aðventu á Mývatnsöræfum. Áð verður sögustöðum og mun Arngrímur Geirsson í Álftagerði rifja upp svaðilfarir Fjalla-Bensa og annarra eftirleitarmanna. Með í för verður einnig Ingvar E. Sigurðsson leikari sem mun lesa valda kafla úr sögunni. Þá mun Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar fjalla um tildrög sögunnar og útgáfu hennar. Fyrsti viðkomustaður verður sæluhúsið við Jökulsá og síðan verður ekið inn í Grafarlönd. Veitingar verða í Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum í boði Gunnarsstofnunar. Farið verður á sérútbúnum bílum frá Egilsstöðum og Húsavík snemma á sunnudagsmorgninum. Þátttökugjald er kr. 4.500 pr. mann. Sætafjöldi er takmarkaður og skráningarfrestur er til 9. nóvember. Nánari upplýsingar og skráning er hjá Gunnarsstofnun í síma 471-2990. Áhugasamir jeppamenn hafi samband við Villa í Möðrudal í síma 894-0758. Nákvæm ferðaáætlun verður sett hér inn á næstu dögum.

 


10. október 2007

Erindi um Svalbarða sunnudaginn 14. okt.

Aino Grib frá Lófóten í Norður-Noregi dvelur nú um stundir í gestaíbúðinni Klaustrinu á Skriðuklaustri. Hún hefur búið á Svalbarða undanfarin ár og í fyrirlestri sem hún heldur á Skriðuklaustri sunnudaginn 14. október mun hún fjalla um sögu Svalbarða og Longyearbæjarins. Hún mun einnig segja frá því hvernig það er að búa á Svalbarða og sýna kvikmynd sem hún hefur gert og nefnir Svalbarði - ærandi þögn. Myndin veitir góða innsýn í náttúruna, lífið og stemninguna á Svalbarða.
Fyrirlesturinn hefst kl. 15.00. Hann fer fram á ensku en útdrætti á íslensku verður dreift til áheyrenda. Fyrirlesturinn er ókeypis og öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.

OPIÐ VERÐUR Á SKRIÐUKLAUSTRI KL. 14.00-17.00 ÞENNAN DAG OG KAFFIVEITINGAR HJÁ KLAUSTURKAFFI.


27. september 2007

Claudia Schindler sýnir í gallerí Klaustri
- frá Purcell til The Beatles á sunnudaginn

Opið er um helgina frá kl. 13-17 bæði laugardag og sunnudag. Í gallerí Klaustri verður Claudia Schindler með sýningu á verkum sínum og því sem hún hefur unnið að undanfarnar vikur við dvöl í Klaustrinu. Á sunnudaginn kl. 15 verða síðan tónleikarnir "Frá Purcell til The Beatles" þar sem Elzbieta Arsso-Cwalinska sópran og Daníel Arason píanóleikari flytja verk eftir tónskáld frá ýmsum öldum. Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 1000 en frítt fyrir börn.

Rétt er að geta þess að þetta er síðasta helgin sem sýningin um Lagarfljótsorminn verður opin og síðasta helgin með reglulegum opnunartíma þetta haustið.


20. september 2007

Síðasta sýningarhelgi á ljósmyndum Ove Aalo

Sunnudaginn 23. september lýkur sýningu á myndum norska ljósmyndarans Ove Aalo frá Vesteralen í gallerí Klaustri. Myndirnar tók hann meðan hann dvaldi í gestaíbúðinni Klaustrinu haustið 2006. Mest er um að ræða landslagsmyndir en einnig portrett af fljótsdælsku sauðfé. Sýning Ove verður sett upp í Norræna húsinu þegar hún fer frá Skriðuklaustri.

Helgaropnun til mánaðamóta

Opið verður kl. 13-17 á laugardögum og sunnudögum til mánaðamóta. Hægt verður að skoða sýningar og njóta leiðsagnar auk þess sem opið verður hjá Klausturkaffi. Helgina 29.-30 sept. mun þýska listakonan Claudia Schindler sem dvelst um þessar mundir í Klaustrinu sýna verk sín í galleríinu. Sunnudaginn 30. sept. verða söngkonan Elzbieta Cwalinska og Daníel Arason með síðdegistónleika. Sýningunni um Lagarfljótsorminn lýkur 30. sept.

Fyrsti leshringur vetrarins

Í vetur verður framhald á leshringjum um verk Gunnars Gunnarssonar. Fyrsti leshringur vetrarins verður fimmtudagskvöldið 27. september og þá verður Vikivaki tekinn til umræðu. Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari mun sem fyrr stýra leshringjunum og er áhugasömum bent á að hafa samband við hana í síma 471-2990. Allir velkomnir.


27. ágúst 2007

Frábær Fljótsdalsdagur

Fljótsdalsdagurinn, lokadagur Ormsteitis fór fram í gær og tókst frábærlega. Eftir veiðikeppni í Bessastaðaá og gönguferð niður Tröllkonustíg hófst margháttuð dagskrá á Skriðuklaustri. Víkingar úr Rimmugýg börðust á flötunum við Gunnarshús og Without the Balls og Ljótu hálfvitarnir léku fyrir mörg hundruð manns. Þá fóru fram hinir árlegu Þristarleikar með pokahlaupi, steinatökum, fjárdrætti og rababarakasti. Keppt var um lengsta rababarann og bestu sulturnar. Veður var hið besta þrátt fyrir að skúrir vökuðu aðeins mannskapinn. Áætlaður fjöldi þegar flest var er yfir 400 manns.


25. ágúst 2007

Ove Aalo sýnir Minningarbrot - Mementi í gallerí Klaustri

Í dag kl. 14 verður opnuð sýning á ljósmyndum norska ljósmyndarans Ove Aalo í gallerí Klaustri. Ove dvaldi í Klaustrinu sl. haust með styrk frá menningarráði Vesterålen og sýnir nú afrakstur þeirrar dvalar. Sýninguna kallar hann Mementi eða Minningarbrot. Sýningin verður í gallerí Klaustri fram í miðjan september en þá fer hún suður til Reykjavíkur og verður sett upp í Norræna húsinu.

Hálfvitar, víkingar og fjárdráttur á Fljótsdalsdegi

Á morgun, 26. ágúst, verður hinn árlegi Fljótsdalsdagur, lokadagur Ormsteitis á Héraði. Að venju verður margt um að vera og dagskrá frá kl. 10 til kl. 17. Dagurinn hefst með veiðikeppni í Bessastaðaá og gönguferð um Tröllkonustíg. Mæting í veiðikeppni er við Melarétt en við Végarð í gönguferðina. Eftir hádegi kl. 14 hefst síðan dagskrá á Skriðuklaustri þar sem Ljótu hálfvitarnir verða með tónleika og munu Without the balls hita upp fyrir þá. Síðan mun víkingahópurinn Rimmugýgur sýna handverk og bardagalistir. Hinir óhefðbundu Þristarleikar fara síðan fram við Gunnarshús og keppt verður í fjárdrætti, steinatökum, pokahlaupi og rababarakasti. Einnig verður sultukeppni þar sem fólk mætir með sultur sínar og hlaup og dæmt verður í tveimur flokkum um bestu afurðirnar, rababarasultum og öðrum sultum.

Hádegis- og kaffihlaðborð verður hjá Klausturkaffi og í hádeginu verða grillaðar pylsur og hellt upp á ketilkaffi í veislurjóðri Víðivallaskógar. Sjá nánar um dagskrána á www.fljotsdalur.is


1. ágúst 2007

Lagarfljótsormurinn - lifandi goðsögn

Lagarfljótsormurinn er frægasta skrímsli Íslands og hefur gert vart við sig af og til allt frá 1345. Nú hefur verið opnuð sýning um orminn á Skriðuklaustri. Þar er reynt að nálgast sögur og frásagnir af orminum á skapandi hátt og alið á forvitni sýningargesta með fjölbreyttum hætti. Sýningin er hluti af verkefni sem nýtur styrks úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og að því hafa unnið tveir nemar, Sandra Mjöll Jónsdóttir listnemi frá LHÍ og Dagný Bergþóra Indriðadóttir þjóðfræðingur og kynjafræðinemi við HÍ. Partur af vinnu þeirra var að safna sögum í fjórða bindi austfirskra safnrita Gunnarsstofnunar sem inniheldur austfirskar skrímslasögur og er gefið út með styrk úr Menningarsjóði.

Félagið Ormsskrínið hefur einnig komið að verkefninu og getur í tilefni af sýningunni út bækling sem vísar fólki m.a. á upplýsingaskilti um orminn sem komið hefur verið fyrir á þremur stöðum við Lagarfljót. Vegagerðin setti upp nú í vikunni sérstök skilti með lógói Ormsskrínisins sem leiða fólk að skiltunum.

Að lokum má geta þess að ormurinn hefur skriðið á land við Fljótsbotninn við brúna sem þverar Fljótsdalinn. Þar hefur verið gert listverk úr heyrúllum eftir fyrirsögn hollensku listakonunnar Hanni Stolker sem dvaldi í gestaíbúð á Skriðuklaustri fyrr í sumar.


30. júlí 2007

Góð þátttaka í dagskrá á Rauðasandi

Gunnarsstofnun, Bókaforlagið Bjartur og Ferðafélag Íslands efndu til menningardagskrár að Saurbæ á Rauðasandi sl. laugardagskvöld í tilefni nýrrar útgáfu á Svartfugli. Óhætt er að segja að dagskráin hafi verið velheppnuð því um 150 manns mættu og hlýddu á leiklestur úr verkinu, flautuleik og fleira. Veðrið lék við viðstadda og gátu menn notið kaffiveitinga á eftir úti undir berum himni. En myndirnar segja meira en mörg orð.


27. júlí 2007

Á meðan hún sefur
- ný sýning gallerí Klaustri

Sýning Svölu Ólafsdóttur ljósmyndara, sem býr og starfar í Bandaríkjunum, hefur verið opnuð í gallerí Klaustri. Heiti sýningarinnar er Á meðan hún sefur og á henni eru fjögur samsett ljósmyndaverk sem sækja innblástur í móðurástina og m.a. í verk Gunnars Gunnarssonar.

Sýningin stendur yfir næstu fjórar vikur og er opin á sama tíma og hús skáldsins, kl. 10-18 alla daga.


24. júlí 2007

Fallegar kápur bókanna eru hannaðar af Ragnari Helga Ólafssyni.

Svartfugl og Aðventa koma út í dag í kiljum hjá Bjarti

Gunnarsstofnun tók við höfundarrétti Gunnars Gunnarssonar sl. vor og samdi í kjölfarið við Bókaforlagið Bjart um útgáfu á Svartfugli og Aðventu í kiljum. Í dag koma bækurnar út hjá Bjarti og fara í sölu um allt land í vikunni. Þær eru í handhægu broti með fallegum kápum eftir Ragnar Helga Ólafsson. Ítarlegir formálar eftir Jón Yngva Jóhannsson og Jón Kalman Stefánsson eru í bókunum sem veita lesendum góða innsýn í sögurnar og vinnu höfundarins við þær. Sjá nánar á heimasíðu Bjarts.

VIÐ KLUKKNAHLJÓM SYNDUGRA HJARTA heitir menningardagskrá sem efnt verður til að Saurbæ á Rauðasandi nk. laugardagskvöld, 28. júlí kl. 20.00 í tilefni af útgáfunni.

Dagskráin verður flutt í því stórbrotna landslagi sem var rammi þeirra dramatísku atburða er Gunnar notar sem efnivið í söguna, undir stórskornum fjöllum og við rauðgullinn skeljasand. Hún hefst kl. 20.00 með erindi Gunnars Björns Gunnarssonar, afkomanda skáldsins, um Svartfugl. Síðan munu leikararnir Jón Hjartarson, Þorsteinn Gunnarsson og Valgerður Dan leiklesa brot úr bókinni og Áshildur Haraldsdóttir leikur flautuverkið Lethe eftir Atla Heimi Sveinsson. Að lokum verður séra Sveinn Valgeirsson með hugvekju í Saurbæjarkirkju. Boðið verður upp á kaffiveitingar að lokinni dagskrá og er áhugasömum bent á gott tjaldsvæði á staðnum.

Dagskráin er samvinnuverkefni Bókaútgáfunnar Bjarts, Gunnarsstofnunar og Ferðafélags Íslands sem verður með gönguferð um svæðið frá 27. til 30. júlí. Sjá nánar um ferðina á heimasíðu Ferðafélagsins.
 

20. júlí 2007
Steinhellur í gólfi við inngang klausturkirkjunnar.

Uppgröftur sumarsins gengur vel

Fornleifafræðinga hófu störf fyrir um mánuði eins og venjulega á Kirkjutúni neðan við Gunnarshús á Klaustri. Hátt í 20 manns koma að uppgrefrinum, þ.á m. breskir fornleifafræðingar, íslenskir nemar í fornleifafræði og íslenskir fornleifafræðingar ásamt ítölskum beinasérfræðingi og forverði. Leiðsögn er um fornleifasvæðið alla daga á klukkustundarfresti.


Hópurinn sem unnið hefur undanfarnar vikur við fornleifarannsóknina.

Uppgröfturinn hefur gengið vel það sem af er sumri en þetta er sjötta sumarið í röð sem grafið er í rústir klaustursins. Í sumar hefur verið unnið við að grafa upp klausturhúsin og klausturkirkjuna. Í klausturhúsunum hefur hellulagður gangur komið í ljós, auk tveggja herbergja. Uppgröftur á klausturkirkjunni hefur einskorðast við miðskip hennar og inngang. Inngangurinn hefur verið hellulagður en stærð kirkjunnar er enn óljós. Grafnar hafa verið upp nokkrar grafir í kirkjugarðinum við hana en líkt og áður hafa skýr einkenni ýmissa sjúkdóma verið greind af þeim beinagrindum sem í þeim hafa fundist. Í kirkjugarðinum fannst nú í sumar hnífur með skreyttu skafti úr kopar og tré. Einnig fannst nýverið andlit líkneskisins sem brot fundust af sumarið 2005.


Andlit lítils líkneskis úr brenndum leir ásamt vel varðveittum hnífi.


2. júlí 2007

Að heiman og heim aftur - sýning í gallerí Klaustri

 

Sunnudaginn 1. júlí opnaði Ingiberg Magnússon sýningu í gallerí Klaustri sem hann kallar Að heiman og heim aftur. Ingiberg ólst upp á Fljótsdalshéraði og sækir myndefnið á þessari sýningu mikið til æskuslóðanna. Á sýningunni eru 14 verk, unnin með þurrpastellitum á pappír. Í sýningarskrá segir:

 

Yfirskrift sýningarinnar vísar til þess að verkin tengjast flest bernsku minni á Héraði. Sem barni fannst mér tveir staðir búa yfir meiri furðum og leyndardómum en allir aðrir, Héraðssandur og Hallormsstaðaskógur. Þar voru undur meiri en ég gat ímyndað mér að finndust á öðrum stöðum í veröldinni. Svo ólíkir sem þeir eru, auðnin og gróskan, höfðuðu þeir til ímyndunarafls míns með yfirþyrmandi krafti. Að fá að heimsækja þessa staði var mikil veisla sem ég hef haft í farangrinum alla tíð síðan. Þriðja stefið í sýningunni lýsir aðdáun minni á handverki og hugviti fyrri kynslóða í húsagerð. Þó myndirnar séu afrakstur síðari tíma heimsókna á æskustöðvarnar vona ég að þær sýni með einhverjum hætti þá væntumþykju sem ég ber til þeirra staða þar sem æska mín á heimkynni.

 

Sýningin er sölusýning og stendur næstu þrjár vikur. Gallerí Klaustur er opið alla daga á sama tíma og Gunnarshús, kl. 10-18.


27. júní 2007

Fornleifafræðingarnir mættir á svæðið

 

Uppgröftur á klausturrústum neðan Gunnarshúss er hafinn sjötta sumarið. Þrátt fyrir að fjármögnun Kristnihátíðarsjóðs á rannsókninni hafi lokið á síðasta ári tókst að fjármagna rannsóknina áfram. Fornleifafræðingar mættu á svæðið í síðustu viku og hófust handa þar sem frá var horfið í fyrra undir stjórn dr. Steinunnar Kristjánsdóttur. Opnuð hafa verið ný svæði en einnig er verið að ljúka við nokkur frá í fyrra.

 

Í Gunnarshúsi er sýning um rannsóknina og klaustrið með sérstakri áherslu á lækningar og eru sýndir munir er fundist hafa og talið er að tengist lækningum og hjúkrun. Leiðsögn er um fornleifasvæðið alla daga á klukkustundarfresti frá kl. 10 til 17.

 

Dagana 4.-5. júní voru skoskir fornleifafræðingar og stjórnendur á ýmsum sviðum minjavarðveislu og miðlunar á Skriðuklaustri. Þeir voru þátttakendur í Evrópuverkefni með styrk úr Leonardo. Skotarnir unnu m.a. að því að endurbæta hleðslur og bera viðarkurl í rústirnar þar sem gengið hefur verið frá auk þess sem þeir komu að hugmyndavinnu varðandi framtíðarskipulag fornleifasvæðisins. Svæðið er því mjög aðgengilegt um þessar mundir. Gunnarsstofnun og Minjasafn Austurlands ásamt Skriðuklaustursrannsóknum voru gestgjafar þessa hóps en einnig var unnið með Geirsstaðakirkju og Þórarinsstaði.

 

Að heiman og heim aftur - ný sýning

 

Sýningu Hrafnhildar Ingu er að ljúka í galleríinu um þessar mundir. Þá tekur við í gallerí Klaustri Ingiberg Magnússon, sem er löngu landskunnur fyrir grafíkverk sín. Sýning ber heitið Að heima og heim aftur og verður opnuð sunnudaginn 1. júlí. Á henni sýnir Ingiberg pastelmyndir.


4. júní 2007

Landsýn Hrafnhildar Ingu

 

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir opnaði sýninguna Landsýn í gallerí Klaustri sl. föstudag. Á sýningunni er olíumálverk unnin að mestu undanfarna tólf mánuði undir áhrifum frá dvöl Hrafnhildar í Klaustrinu sl. sumar. Myndefnið er fjölbreytt: grónar hlíðar, öræfi, kræklóttir fúaraftar og hraunsprungur. Þetta er sölusýning og hún stendur til 29. júní.


29. maí 2007

Hrafnhildur Inga opnar á föstudag í gallerí Klaustri

 

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir, myndlistakona sem dvaldi í Klaustrinu síðasta sumar, opnar sýningu á verkum sínum í gallerí Klaustri nk. föstudag. Á sýningunni eru olíumálverk sem hún vann eftir dvöl sína í Fljótsdalnum. Sýning stendur til loka júní.


27. maí 2007

Frábærir tónleikar hjá Matti og Kati Saarinen

Laugardaginn 26. maí var Matti Saarinen, gítarleikarinn finnski sem kennir við Tónskóla Austur-Héraðs, með tónleika í stássstofunni á Klaustri. Fyrir hlé lék hann klassísk verk en eftir hlé bættist honum liðsauki í konu sinni, Kati Saarinen, sem söng með honum djasslög við góðar undirtektir tónleikagesta.


22. maí 2007

Tónleikar Matti Saarinen
- síðasta sýningarhelgi Interior Landscape

Laugardaginn 26. maí verða tónleikar með finnska gítarleikaranum Matti Saarinen kl. 17. Hann mun leika bæði klassísk verk og djass. Aðgangseyrir kr. 1.000. Afsláttur fyrir Klausturreglufélaga.

Sýningu Ruth Boerefijn, Interior Landscape, í gallerí Klaustri lýkur um helgina. Opnuð hefur verið sýning um fornleifarannsóknina og miðaldaklaustrið með nokkrum munum úr uppgreftrinum. Þá er opin sýningin Gunnar Gunnarsson og Danmörk.

Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17 fram á föstudag en þá tekur við hinn langi opnunartími sumarsins, alla daga kl. 10-18. Verið velkomin í Klaustur um hvítasunnuna.


18. maí 2007

Vésteinn Ólason undirritar skipulagsskrána f.h. Árnastofnunar.

Gunnarsstofnun gerð að sjálfseignarstofnun
- höfundarrétturinn færður til stofnunarinnar

Í dag, 18. maí, á fæðingardegi Gunnars Gunnarssonar var opnuð sýningin Gunnar og Danmörk. Við sama tækifæri var undirrituð skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina Stofnun Gunnars Gunnarssonar og erfingjar skáldsins færðu höfundarréttinn til stofnunarinnar.

Skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar var undirrituð af fulltrúum stofnaðila: Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra (var fjarstödd) fyrir hönd menntamálaráðuneytis, Jóni Atla Benediktssyni f.h. Háskóla Íslands, Pétri Gunnarssyni f.h. Rithöfundasambands Íslands, Vésteini Ólasyni f.h. Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stefáni Stefánssyni f.h. Þróunarfélags Austurlands. Þessir aðilar skipa í nýja stjórn stofnunarinnar og er tilgreint í skipulagsskránni að fulltrúi menntamálaráðuneytisins skuli vera úr fjölskyldu Gunnars skálds.


Gunnar Gunnarsson, barnabarn skáldsins undirritar samkomulag um tilfærslu höfundarréttar og Gunnar Björn Gunnarsson, systursonur hans, fylgist með.

Gunnar Björn Gunnarsson, sem setið hefur í stjórn Gunnarsstofnunar fyrir hönd fjölskyldunnar, greindi frá því að erfingjar skáldsins hefðu afráðið að afhenda stofnuninni höfundarréttinn að verkum skáldsins. Sú tilfærsla er til næstu fimm ára og mögulegt að framlengja hana samkvæmt samkomulaginu sem undirritað var við þetta tækifæri.


14. maí 2007

Ný sýning um Gunnar og Danmörku

Föstudaginn 18. maí verður opnuð sýning um Gunnar og Danmörk. Tilefnið er að í ár er öld liðin frá því bóndasonurinn steig á skipsfjöl og sigldi frá Vopnafirði til Kaupmannahafnar með þann draum að verða rithöfundur. Sýningin stendur til júlíloka.

Í gallerí Klaustri stendur yfir sýning á verkum bandarísku listakonunnar Ruth Boerefijn sem dvaldi í gestaíbúðinni í ágúst 2005.

Fram til 25. maí er opið á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17 en eftir það tekur við sumaropnunartími kl. 10-18.


2. maí 2007

Sumaropnun hefst um helgina

Sumaropnun hefst um helgina á Skriðuklaustri. Frá og með laugardeginum 5. maí verður opið alla daga. Fram til 25. maí verður opið kl. 12-17 en eftir það kl. 10-18. Klausturkaffi verður opið á sama tíma og býður upp á veitingar bæði í hádegi og kaffi.

Laugardaginn 5. maí verður einnig opnuð sýning á verkum Ruth Boerefijn í gallerí Klaustri. Boerefijn dvaldist í gestaíbúðinni Klaustrinu í ágúst 2005 og sýnir nú brot þeim verkum sem hún vann þá og í kjölfar Íslandsdvalarinnar. Verkin eru unnin með blandaðri tækni en sýninguna kallar hún Interior Landscapes.


17. apríl 2007

Síðustu forvöð að sjá Passíusálmamyndir Barböru Árnason

Opið verður á Skriðuklaustri á sumardaginn fyrsta kl. 13-17 og sumardagskaffihlaðborð hjá Klausturkaffi. Þá gefst gestum færi á að skoða myndir Barböru Árnason við Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Þeirri sýningu lýkur á sunnudag en opið verður um helgina, 22. og 23. apríl, kl. 13-17 bæði laugardag og sunnudag.


10. apríl 2007

Passíusálmalestur á föstudaginn langa og góð aðsókn um páska

Ellefu manns á ýmsum aldri tóku þátt í því að lesa 21 Passíusálm á föstudaginn langa í skrifstofu skáldsins. Fjölmenni var við lesturinn sem tók um þrjár klukkustundir með kaffihléi. Lesnir voru þrír sálmar í lotu og lásu sr. Lára G. Oddsdóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir viðeigandi kafla úr píslarsögunni á undan hverjum sálmi.

Gestir á föstudaginn langa, laugardag og annan í páskum nutu síðan þess að skoða 21 af myndskreytingum Barböru Árnason við Passíusálma Hallgríms.

Opið verður einnig helgina 28.-29. apríl kl. 13-17 en síðan tekur sumaropnun við 5. maí og verður þá opið alla daga fram til 25. maí kl. 12-17 en eftir það kl. 10-18.


3. apríl 2007

Passíusálmar og Passíusálmamyndir um páskana

Föstudaginn langa verður opið kl. 13-18 á Skriðuklaustri. Gestir geta skoðað sýningu á Passíusálmamyndum Barböru Árnason eða hlýtt á valinkunna Héraðsbúa lesa þá sálma Hallgríms sem myndskreytingar Barböru eru við. Lesturinn fer fram milli kl. 14 og 17 og er skipulagður af kirkjusóknunum á Héraði. Opið verður hjá Klausturkaffi.


27. mars 2007

Heimildamyndir 700.is

Laugardaginn 31. mars verða sýndar öðru sinni tólf heimildamyndir sem valdar voru til sýningar á 700.is. Sýningin stendur frá kl. 13-18 en gestir geta komið og farið að vild. Aðgangur er ókeypis. Opið verður hjá Klausturkaffi.

Passíusálmamyndir Barböru Árnason

Sunnudaginn 1. apríl kl. 14 verður opnuð sýning á Passíusálmamyndum Barböru Árnason. Sýndar verða 21 mynd af þeim sem hún gerði fyrir viðhafnar útgáfu á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar árið 1960. Myndirnar eru fengar að láni frá Listasafni Íslands og ekki vitað til þess að þær hafi áður verið sýndar á Austurlandi.

Tónleikar með Willy Merz - Hvað er samtímatónlist?

Ítalska tónskáldið Willy Merz sem dvelst nú í gestaíbúðinni verður með tónleika sunnudaginn 1. apríl kl. 15. Á þeim mun hann leika brot úr verkum eftir Haydn og Satie ásamt eigin tónsmíðum og velta fyrir sér spurningunni um hvað samtímatónlist sé? Aðgangur er ókeypis.

Sem sagt, stór helgi framundan á Skriðuklaustri. Opið kl. 13-18 á laugardag og kl. 14-17 á sunnudaginn. Að sjálfsögðu opið hjá Klausturkaffi á sama tíma.

Um páskahelgina verður einnig opið laugardag og annan í páskum kl. 13-17. Sýning á myndum Barböru er opin en einnig hægt að fá leiðsögn um húsið að venju. Kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi. ATH. Lokað er á skírdag og páskadag.

Gleðilega páska!


19. mars 2007

Lomberslagur við Húnvetninga

Austfirðingar mættu Húnvetningum öðru sinni í lomberslag að Sveinbjarnargerði í Eyjafirði laugardaginn 17. mars. Um 20 spilamenn mættu til leiks úr hvorum landshluta. Minnugir þess hve skaran hluta Austfirðingar báru frá borði 2005 ætluðu menn sér stóra hluti. Svo fór að bæði lið komu út í bullandi mínus þegar hætt var að spila um kl. rúmlega átta um kvöldið. Þó höfðu Húnvetningar tapað heldur minna eða -603 á móti -1033 hjá Austfirðingum. Húnvetningar áttu einnig þann hæsta og lægsta. Var það mál allra er mættu að þetta hefði lukkast vel og stendur hugur mann til að endurtaka leikinn að ári. Fleiri myndir frá slagnum er hægt að sjá hér.

700.is - Hreindýraland

Kvikmynda og videóhátíðin 700.is mun að þessu sinni einnig fara fram að Skriðuklaustri. Gunnarsstofnun er samstarfsaðili og verða sýndar heimildamyndir á Klaustri dagana 25. og 31. mars. Sýningar hvorn dag verða frá kl. 13-18 og verða sýndar myndir frá ýmsum löndum. Sunnudaginn 25. munu tveir höfundanna koma við upphaf sýningarinnar og ræða um myndir sínar. Þetta eru þeir Jóhannes Jónsson sem sýnir myndina Leikur einn, sem gerist á alþjóðlegri leiklistarhátíð, ActAlone á Ísafirði; og James P. Graham með myndina Iddu sem fjallar um gerð samnefndrar 360 gráðu kvikmyndar sem hann tók á hinu virka eldfjalli Stromboli á Ítalíu.

Aðgangur er ókeypis að sýningum 700.is á Skriðuklaustri. Allir velkomnir og gestir geta komið og farið að vild þó að sýning allra myndana taki um fimm klukkustundir. Opið verður hjá Klausturkaffi á meðan á sýningu stendur.

Sjá nánar á 700.is


19. febrúar 2007

Lomber á laugardaginn

Hinn árlegi lomberdagur á Klaustri verður nk. laugardag, 24. febrúar. Spilamennskan hefst kl. 13.00 og er mælt með því að byrjendur mæti þá strax. Vanir spilamenn geta hins vegar bæst í hópinn hvenær sem er dagsins. Sama fyrirkomulag verður á deginum og vanalega, spilað af krafti og kæti milli mála langt fram á kvöld. Þátttökugjald er sem hér segir:

• Spadda (kaffi, kökuhlaðborð og kvöldverður) kr. 3.700
• Manilía (kvöldverður og kaffi) kr. 3.000
• Basti (kökuhlaðborð og kaffi) kr. 1.200.

Ekki er verra að láta vita um þátttöku á lomberdeginum í síma 471-2990.

Leshringur um Svartfugl

Þriðjudagskvöldið 27. febrúar kl. 20 verður leshringur um þessa þekktu skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem stundum er kölluð fyrsti íslenski krimminn. Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari mun leiða samræðurnar. 


6. febrúar 2007

Fyrsti Klausturpósturinn

Í dag var Klausturreglufélögum sendur fyrsti Klausturpósturinn, nýtt fréttabréf frá Skriðuklaustri. Ætlunin er að gefa það út á mánaðarfresti og verður það sent í pósti eða rafrænt til félaga í Klausturreglunni. Efnið verður fyrst og fremst um starfsemina á Skriðuklaustri. Ritstjóri er Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari. Hægt er að skoða þetta 1. tölublað hér.

Lomberkvöld þann 9. febrúar

Föstudagskvöldið 9. febrúar verður lomberkvöld á Klaustri. Að venju hefst spilamennskan kl. 20.00. Nú þurfa sem flestir að mæta því að búið er að ákveða dag fyrir Húnvetningaslag í Eyjafirðinum, þann 17. mars í Sveinbjarnargerði.

Konudagskaffi og listaspjall

Sunnudaginn 18. febrúar, á konudaginn, verður opið á Skriðuklaustri kl. 14-17. Þýsku listakonurnar Christiane Tyrell og Margret Schopka ræða um list sína og sýna myndir. Konudagskaffi með bolluívafi verður hjá Klausturkaffi.

Frá lomberdegi.

Lomberdagur 24. febrúar

Hinn árlegi lomberdagur á Klaustri verður nk. laugardag, 24. febrúar. Spilamennskan hefst kl. 13.00 og er mælt með því að byrjendur mæti þá strax. Vanir spilamenn geta hins vegar bæst í hópinn hvenær sem er dagsins. Sama fyrirkomulag verður á deginum og vanalega, spilað af krafti og kæti milli mála langt fram á kvöld.

Fréttir 2006

23. desember 2006

Birgitta Birgisdóttir les Aðventu við skrifborð langafa síns.

Jólakveðja frá Skriðuklaustri

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi senda öllum sem heimsóttu Skriðuklaustur eða voru í samstarfi við okkur á árinu 2006, hugheilar jólakveðjur og óskir um farsæld á komandi ári. Gleðileg jól!


12. desember 2006

Aðventa lesin á sunnudaginn
- Notaleg kyrrðarstund í jólaamstrinu

Aðventa Gunnars Gunnarssonar kom út í fyrsta sinn fyrir 70 árum í Þýskalandi. Á síðasta ári var tekinn upp sá siður að lesa söguna alla upphátt í skrifstofu skáldsins á aðventunni. Að þessu sinni er það Birgitta Birgisdóttir, leikkona og sonarsonardóttir skáldsins, sem les söguna við snarkið í kakalofninum. Lesturinn hefst kl. 13.30 sunnudaginn 17. des. og stendur í um þrjár klukkustundir. Heitt á könnunni hjá Klausturkaffi meðan á lestrinum stendur.

Birgitta Birgisdóttir (Úlfssonar Gunnarssonar) lauk námi frá leiklistadeild Listaháskóla Íslands vorið 2006. Hún tók þátt í sýningunni, “Forðist okkur” eftir Hugleik Dagsson, samvinnuverkefni Common Nonsense og Listaháskólans og jafnframt eitt af lokaverkefnum í leiklistadeildinni. Hún var einn af stofnendum Reykvíska Listaleikhússins en þau hafa staðið fyrir framsæknum leiklistarviðburðum í Reykjavík síðustu misserinn. Birgitta leikur Konstönsu konu Mozarts í Amadeus sem sýnt er á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu í haust.


12. desember 2006

RITHÖFUNDAVAKA OG GRÝLUGLEÐI

Fimmtudaginn 30. nóvember koma fimm rithöfundar í heimsókn og lesa úr verkum sínum. Rithöfundavakan hefst kl. 20.00 í stássstofunni á Klaustri.

Höfundarnir fimm eru:
Einar Kárason - Úti að aka, ferðasaga
Eiríkur Guðmundsson - Undir himninum, skáldsaga
Halldór Guðmundsson - Skáldalíf, ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri
Ingunn Snædal - Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir - Upp á sigurhæðir, saga Matthíasar Jochumssonar

Aðgangur er kr. 1.000, kaffi og smákökur innifaldar.

 

GRÝLUGLEÐIN árvissa verður haldinn sunnudaginn 3. desember og hefst hún kl. 14.00. Að venju verður dagskráin blönduð með söng og leik og aldrei að vita nema gömlu hjónakornin reki inn sín ljótu nef í leit að bragðgóðum álfum og börnum. Undanfarnar vikur hafa börn í 1.-4. bekk grunnskóla á Austurlandi verið önnum kafin við að gera Grýlumyndir og verða úrslit kynnt í þeirri samkeppni á Grýlugleðinni og verðlaun afhent. Að lokinni gleðinni bíður svo jólakökuhlaðborð Klausturkaffis eftir gestum.


8. nóvember 2006

AUSTFIRSKAR DRAUGASÖGUR Á FÖSTUDAGSKVÖLDIÐ

Föstudagskvöldið 10. nóvember kl. 20.30 verður draugakvöldvaka á Skriðuklaustri í tilefni Daga myrkus og útgáfu Gunnarsstofnunar á þriðja bindi í ritröðinni Austfirsk safnrit. Að þessu sinni kemur út úrval austfirskra draugasagna. Dagskrá kvöldvökunnar verður blönduð. Úlfar Trausti Þórðarson syngur nokkur lög sem tengjast þjóðtrúnni, Halldóra Malín Pétursdóttir les draugasögur og flytur brot úr einleiknum sem hún var með á Borgarfirði sl. sumar og byggðist á þjóðsögum. Þá munu Kristrún Jónsdóttir og Eymundur Magnússon lesa nokkrar sögur úr safnritinu. Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari á Skriðuklaustri innleiðir dagskrána og stýrir henni.

Kvöldvakan verður við arineld í stássstofunni og djöflatertur og draugakökur á boðstólum hjá Klausturkaffi.


Á döfinni á Klaustri

Fimm rithöfundar munu lesa úr nýútkomnum verkum fimmtudagskvöldið 30. nóvember. Höfundarnir eru: Einar Kárason, Eiríkur Guðmundsson, Halldór Guðmundsson, Ingunn Snædal og Þórunn Valdimarsdóttir.

Grýlugleði verður að venju haldin fyrsta sunnudag í aðventu, þ.e. 3. desember. Að þessu sinni verða einnig sýndar teikningar grunnskólabarna sem þessa dagana taka þátt í teiknisamkeppni um Grýlumyndir.

Aðventa Gunnars verður lesin 2. eða 3. sunnudag í aðventu. Nánar kynnt síðar.

Jólahlaðborðin hjá Klausturkaffi verða þrjár helgar í röð, frá 24. nóv. til 9. des., á föstudögum og laugardögum.


7. nóvember 2006

Atli Heimir Sveinsson, Hulda Björk Garðarsdóttir, Daníel Þorsteinsson og Ágúst Ólafsson.

Vel lukkaðir ljóðatónleikar

Ljóðatónleikarnir laugardaginn 4. nóvember tókust vel að mati áheyrenda. Þau Hulda Björk, Ágúst og Daníel fluttu þá 15 lög við kvæði Gunnars eftir átta tónskáld. Eitt tónskáldanna var viðstatt tónleikana, Atli Heimir Sveinsson. Hann samdi í haust lag við sonnettuna Vetrarnótt eftir Gunnar sem birtist í Eimreiðinni 1914. Lagið tileinkar hann Franziscu Gunnarsdóttur, sonardóttir skáldsins, en hún lést fyrir rúmum tveimur árum.

Gunnarsstofnun hefur fengið Daníel Þorsteinsson til að ganga frá lögunum 15 til útgáfu í nótnahefti og verður hægt að kaupa það á Skriðuklaustri eða panta. Áhugasamir geta sent tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


30. október 2006

100 ára höfundarafmæli Gunnars Gunnarssonar
Ljóðatónleikar á Skriðuklaustri 4. nóvember

Laugardaginn 4. nóvember kl. 15.00 verða haldnir ljóðatónleikar á Skriðuklaustri í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því fyrstu bækur Gunnars komu út, ljóðakverin Vorljóð og Móðurminning, sem komu út hjá Oddi Björnssyni á Akureyri 1906. Tónleikarnir voru í Gerðubergi 21. október sl. en verða nú endurteknir á Skriðuklaustri.

Flytjendur: Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Ágúst Ólafsson baritón
Undirleikari: Daníel Þorsteinsson píanóleikari
Inngang flytur Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar

  • Á efnisskrá eru lög eftir átta tónskáld, íslensk, dönsk, sænsk og þýsk við kvæði eftir Gunnar. Flest laganna eru úr fórum Gunnars sjálfs og komu í ljós þegar handritum, bréfum og öðrum skjölum skáldsins var skilað inn til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns til varðveislu. Fæst þeirra hafa því verið flutt opinberlega áður en auk þess verður frumflutt lag sem Atli Heimir Sveinsson samdi nýverið við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914.
    Daníel Þorsteinsson tónlistarmaður og píanóisti hefur útsett lögin og annast undirleik á tónleikunum. Aðgangur er kr. 1.200.

 

DRAUGAKVÖLDVAKA

Föstudagskvöldið 10. nóvember verður kvöldvaka á Skriðuklaustri í tilefni útgáfu Gunnarsstofnunar á þriðja bindi í ritröðinni Austfirsk safnrit. Að þessu sinni kemur út úrval austfirskra draugasagna og verður á kvöldvökunni lesið úr bókinni. Klausturkaffi verður með djöflatertur og draugakökur á boðstólum ásamt bleksvörtu kaffi.


16. október 2006

100 ára höfundarafmæli Gunnars Gunnarssonar
- Leiklestur, málþing og ljóðatónleikar

Afmælisdagskrá eystra og í höfuðborginni

Á þessu ári eru liðin 100 ár frá því fyrstu bækur Gunnars Gunnarssonar komu út. Það voru kvæðakverin Vorljóð og Móður-minningu sem Oddur Björnsson á Akureyri prentaði árið 1906 þegar skáldið var aðeins 17 ára. Gunnarsstofnun setti upp sýningu á Skriðuklaustri í júní í tilefni af afmælinu en framundan er margþætt dagskrá til að fagna tímamótunum í samstarfi við Menningarmálanefnd Vopnafjarðar, Menningarmiðstöðina Gerðuberg og Rithöfundasamband Íslands.

Gunnarskvöld - Nótt og draumur
fimmtudaginn 19. október kl. 20 - Miklagarði Vopnafirði

  • Menningarmálanefnd Vopnafjarðarhrepps og Gunnarsstofnun bjóða til leiklesturs á nýrri leikgerð Jóns Hjartarsonar á Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar. Leikgerðin er unnin upp úr þriðja bindi sögunnar og ber heitið Nótt og draumur. Agnar Már Magnússon tónlistarmaður hefur samið tónlist við ljóð úr fyrstu ljóðabókunum og verða þau felld inn í leiklesturinn. Leikarar munu klæðast búningum og stuðst verður við einfalda leikmynd. Auk heimamanna munu þrír atvinnuleikarar taka þátt í leikgerðinni, Jón Hjartarson, Þráinn Karlsson og Halldóra Malín Pétursdóttir. Dagskráin nýtur styrks frá Menningarráði Austurlands. www.vopnafjardarhreppur.is

Gunnarskvöld - Nótt og draumur
föstudaginn 20. október kl. 20.30 - Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8 Reykjavík

  • Leiklestur úr Fjallkirkjunni í leikgerð Jóns Hjartarsonar. Flutt verða ljóð úr fyrstu bókum skáldsins við frumsamin lög Agnars Más Magnússonar. Auk Jóns og Agnars munu þau Þráinn Karlsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Halldóra Malín Pétursdóttir og nokkrir áhugaleikarar frá Vopnafirði flytja dagskrána. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. www.rsi.is

Málþing um Gunnar
laugardaginn 21. október kl. 14.00 - Menningarmiðstöðinni Gerðubergi

  • Erindi flytja þrír fræðimenn: Jón Yngvi Jóhannsson sem nú vinnur að ævisögu Gunnars. Hann mun fjalla um kvæðakverin tvö sem komu út 1906 og bréf sem tengjast þeim í erindi sem hann kallar „Orkt undir áhrifum“. Gunnar Hersveinn, sem styðst við skáldsögu Gunnars Sælir eru einfaldir við ritun á næstu bók sinni, verður með erindið „Vantraust - sælir eru einfaldir“. Þá mun Halldór Guðmundsson, sem um þessar mundir er að leggja lokahönd á bók um líf rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Þórberg Þórðarsonar, fjalla um Svartfugl og ástina.
    Pallborð verður á eftir erindunum og umræðum stýrir Pétur Gunnarsson rithöfundur. Aðgangur er ókeypis. www.gerduberg.is

Ljóðatónleikar
laugardaginn 21. október kl. 16.00 - Menningarmiðstöðinni Gerðubergi

Flytjendur: Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Ágúst Ólafsson baritón
Undirleikari: Daníel Þorsteinsson píanóleikari
Inngang flytur Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar

  • Á efnisskrá eru lög eftir átta tónskáld, íslensk, dönsk, sænsk og þýsk við kvæði eftir Gunnar. Flest laganna eru úr fórum Gunnars sjálfs og komu í ljós þegar handritum, bréfum og öðrum skjölum skáldsins var skilað inn til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns til varðveislu. Fæst þeirra hafa því verið flutt opinberlega áður en auk þess verður frumflutt lag sem Atli Heimir Sveinsson samdi nýverið við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914.
    Daníel Þorsteinsson tónlistarmaður og píanóisti hefur útsett lögin og annast undirleik á tónleikunum. Aðgangur er kr. 1.200. www.gerduberg.is

Ljóðatónleikar
laugardaginn 4. nóvember kl. 15.00 - Skriðuklaustri

Flytjendur: Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Ágúst Ólafsson baritón
Undirleikari: Daníel Þorsteinsson píanóleikari
Inngang flytur Skúli Björn Gunnarsson

  • Sungin lög átta tónskálda, innlendra og erlendra, við kvæði eftir Gunnar. Sama efnisskrá og í Gerðubergi. Menningarráð Austurlands styrkir verkefnið.

11. september 2006

Vikursteinn sem fannst í uppgreftrinum og hefur verið notaður til að slípa bókfell.

Sýningin um klaustrið að Skriðu
- styttist í sýningarlok

Það líður á septembermánuð og styttist í sýningarlok á þeim sýningum sem nú eru uppi á Skriðuklaustri. Opið er kl. 12-17 alla daga fram til sunnudagsins 17. september en eftir það verður opið næstu tvær helgar, laugardag og sunnudag kl. 13-17. Sýningunni um klaustrið að Skriðu og ljósmyndasýningu Hrannar Axelsdóttur lýkur samkvæmt því sunnudaginn 1. október og þá mun Klaustur-María einnig yfirgefa heimaslóðirnar. Þeir sem eiga enn eftir að skoða muni úr uppgreftrinum eða horfast í augu við Maríu þurfa því að fara að drífa sig í Klaustur.


30. ágúst 2006

Hjálmar kvöddu í Skálanum á Skriðuklaustri
- Fljótsdalsdagurinn vel heppnaður

Lokadagur Ormsteitis var sl. sunnudag í Fljótsdal. Veður var milt en sólin lét ekki sjá sig og seinnipartinn var kominn þéttur rigningarúði. Þrátt fyrir það lögðu 250-300 manns leið sína í Fljótsdalinn til að taka þátt í því sem í boði var, en það var afar fjölbreytt. Veiðikeppni var í Bessastaðaá, fyrsta héraðsmótið í sveppatínslu, skoðunarferð inn í Fljótsdalsstöð, færeysk lúðrasveit, óhefðbundin íþróttakeppni og ýmislegt fleira. Hæst bar tónleika með Hjálmum í Skálanum á Skriðuklaustri sem reyndust vera kveðjutónleikar þessarar vinsælu reggísveitar sem ætlar nú að taka sér langt hlé. Stúlknasveitin austfirska, Without the Balls hitaði upp fyrir Hjálma við mikinn fögnuð áhorfenda. Fyrsta sultukeppnin á Austurlandi var haldin og skráðar 18 krukkur af sultutaui úr ýmsum ávöxtum. Þá var í fyrsta sinn keppnt í rabbabarakasti.

Nokkrar myndir frá Fljótsdalsdegi:


Tónleikagestir í Skálanum.


Dómnefnd að störfum í sultukeppni


Fjárdrátturinn sívinsæli.


Keppendur í pokahlaupi.


Áhorfendur á íþróttamóti.


Sigurvegarar í veiðikeppni.


Fyrsti Héraðsmeistarinn í sveppatínslu, Sigríður Stefánsdóttir.

Opnunartími næstu vikur

Opið verður á Skriðuklaustri kl. 12-17 alla daga fram til 17. september. Sýning um Klaustrið að Skriðu verður uppi til þess tíma og sömuleiðis ljósmyndasýning Hrannar Axelsdóttur á huldufólksstöðum og álagablettum.


22. ágúst 2006

Fljótsdalsdagur Ormsteitis framundan með tónleikum og fleiru

Ormsteitinu lýkur að venju í Fljótsdal með veglegri dagskrá sem hægt er að skoða á heimasíðu Fljótsdalshrepps. Klausturkaffi verður með hádegishlaðborð og kaffihlaðborð en annars hefst dagskráin á Skriðuklaustri kl. 14.00. Kennir þar ýmissa grasa, bæði árviss atriði í íþróttamóti en einnig sitthvað nýtt:

TÓNLEIKAR - Without the Balls hita upp fyrir HJÁLMAR sem spila á stéttinni við Gunnarshús eða í Skálanum ef veður verður óhagstætt.
ÍÞRÓTTAMÓT ÞRISTAR - keppt í fjárdrætti, steinatökum, rababaraspjótkasti og pokahlaupi.
SULTUKEPPNI - menn mæta með heimagerðar sultur eða hlaup og dómnefnd velur þá bestu.
Keppni um STÆRSTA RABABARANN - börnin mæta með rababaraleggi og dæmt verður eftir lengd

Ormsteiti verður síðan slitið á Skriðuklaustri kl. 17.00

 


15. ágúst 2006

Teneritashópurinn með barokktónleika fimmtudaginn 17. ágúst

Fimmtudagskvöldið 17. ágúst kl. 20 heldur Teneritashópurinn tónleika á Skriðuklaustri. Teneritashópurinn var stofnaður árið 2002 af Ólöfu Sigursveinsdóttur og Hönnu Loftsdóttur með það að markmiði að flytja tónlist frá barokktímabilinu fyrir barokkselló og gömbu. Þær hafa haldið nokkra tónleika hérlendis síðustu árin en í þetta sinn spilar með þeim sænski theorbu-leikarinn Fredrik Bock. Efnisskráin er fjölbreytt og ekki á hverjum degi sem teflt er saman þessum sjaldséðu hljóðfærum á Íslandi, þ.e. barokksellói, gömbu og barokkgítar.

Á efnisskránni eru sónötur, svítur og einleiksverk eftir barokktónskáldin Alexis, Magito, Marin Marais, Francois Couperin, Gaspar Sanz og Johann Sebald Triemer.

Aðgangseyrir er kr. 1000.


15. ágúst 2006

Sýning um klaustrið og fornleifarnar opnuð að nýju

Opnuð hefur verið sýning um miðaldaklaustrið að Skriðu og fornleifarannsóknina sem staðið hefur yfir síðustu árin. Á sýningunni er varpað ljósi á klausturlíf á miðöldum og sýndir munir sem fundist hafa við uppgröft síðustu fimm sumur. Þar á meðal eru lítil handritsbrot úr einni af þeim þremur bókum sem fundust í gröfum í klausturkirkjunni nú í sumar og textíll úr líkklæði.


30. júlí 2006

Sýningum Kamillu Talbot og Ingrid Larssen að ljúka
- nýjar sýningar taka við

Sýningu bandarísku listakonunnar Kamillu Talbot í gallerí Klaustri lýkur föstudaginn 4. ágúst og sýningu á hálsskarti Ingrid Larssen í stássstofu lýkur 7. ágúst. Sunnudaginn 5. ágúst verður opnuð sýning á ljósmyndum Hrannar Axelsdóttur í gallerí Klaustri sem hún kallar Huldufólk og álagabletti. Eftir verslunarmannahelgina verður síðan sett upp í stássstofunni sýning um Ágústínusarklaustrið sem stóð að Skriðu á 16. öld og á henni verða m.a. sýndir munir úr fornleifarannsókninni sem staðið hefur síðustu ár.


13. júlí 2006

Tvær nýjar sýningar:
Hálsskart og vatnslitamyndir

Miðvikudaginn 12. júlí voru opnaðar tvær nýjar sýningar. Sýning listakonunnar Ingrid Larssen frá Vesterålen í Norður-Noregi á einstöku hálsskarti og sýning bandaríska listmálarans Kamillu Talbot á vatnslitamyndum af íslensku landslagi. Sýningarnar eru opnar kl. 10-18 alla daga.


11. júlí 2006

Ljósm. Trym Ivar Bergsmo.

Ný sýning:
Ingrid Larssen sýnir hálsskart

Miðvikudaginn 12. júlí verður opnuð á Skriðuklaustri sýning norsku listakonunnar Ingrid Larssen á hálsskarti. Ingrid býr og starfar í Vesterålen í Norður-Noregi en hefur sýnt í listgalleríum víða um heim og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. Hálsskartið vinnur hún úr silki en notar jafnframt perlur, ull og fiskroð við iðju sína. Hún sækir hugmyndir að verkunum í náttúruna bæði hvað varðar liti og form svo úr verða einstakir gripir sem vefjast um háls þeirra er þá bera.

Ingrid hefur ekki áður sýnt verk sín hér á landi. Sýningin á Skriðuklaustri stendur til 6. ágúst og er opin alla daga kl. 10-18. Í kjölfar hennar verða verkin sýnd í sal Handverks og hönnunar í Reykjavík.

Gunnarsstofnun og Menningarráð Austurlands standa að sýningunni á Skriðuklaustri og er hún liður í menningarsamstarfi Austurlands og Vesterålen.

Frá Stykkishólmi.

Gallerí Klaustur:
Kamilla Talbot sýnir vatnslitamyndir

Miðvikudaginn 12. júlí verður opnuð sýning í gallerí Klaustri á Skriðuklaustri á vatnslitamyndum Kamillu Talbot af íslensku landslagi. Verkin eru unnin á síðustu vikum í ferð sem Kamilla fer í fótspor afa síns, danska listmálarans Johannes Larsen, en hann ferðaðist um Ísland á árunum 1927-1930 og teiknaði myndir í nýja danska útgáfu á Íslendingasögunum sem Gunnar Gunnarsson og fleiri stóðu að.

Kamilla Talbot býr og starfar í Bandaríkjunum og hefur skapað sér nafn sem landslagsmálari. Hún dvelst um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu á Skriðuklaustri. Sýning hennar stendur til 3. ágúst og er opin alla daga kl. 10-18.


9. júní 2006

Ný sýning um Gunnar Gunnarsson

Á morgun, laugardaginn 10. júni verður opnuð ný sýning um Gunnar Gunnarsson í stássstofunni á Skriðuklaustri í tilefni þess að nú eru liðin 100 ár frá því fyrstu bækur skáldsins komu út. Það voru ljóðabækurnar Vorljóð og Móður-minning sem Oddur Björnsson á Akureyri gaf út fyrir hinn 17 ára ungling frá Ljótsstöðum í Vopnafirði.

Sýningin fjallar um verk Gunnars og ákveðna þætti í lífi hans. Á henni getur að líta muni úr eigu skáldsins, ljósmyndir og blaðaúrklippur frá langri ævi ásamt upptökum og myndbrotum úr ljósvakamiðlum.

Við opnunin munu Daníel Þorsteinsson píanóleikari og Hulda Björk Garðarsdóttir sópran flytja lög þriggja erlendra tónskálda sem voru samtíða Gunnari og sömdu sönglög við kvæði hans á dönsku og þýsku.

Sýningin stendur í mánuð og er opin alla daga kl. 10-18 eins og hús skáldsins. Aðgangseyrir á Skriðuklaustri er kr. 500 fyrr fullorðna en börn yngri en 16 ára frá frítt inn.

Agnieszka Sosnowska sýnir í gallerí Klaustri

Laugardaginn 10. júní verður einnig opnuð sýning á ljósmyndum Agniezsku Sosnowsku í gallerí Klaustri. Agnieszka hefur m.a. búið og starfað í New York undanfarin ár en er nú flutt á Fljótsdalshérað. Hún dvaldi í vor í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri en verkin sem hún sýnir eru tekin á síðustu mánuðum.

Sýning Agnieszku stendur fram í júlí og er opin á sama tíma og hús skáldsins, kl. 10-18 alla daga.


1. júní 2006

Vortónleikar Selmu og Gunnars á annan í hvítasunnu

Mánudaginn 5. júní kl. 17 (annan í hvítasunnu) halda þau Gunnar Kvaran sellóleikari og Selma Guðmundsdóttir píanóleikari tónleika í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri. Á efnisskrá tónleikanna er Svíta eftir franska tónskáldið Couperin, Sónata “Arpeggione” eftir Franz Schubert, Fantasíuþættir opus 73 eftir Robert Schumann og Íslensk þjóðlög í útsetningu Hafliða Hallgrímssonar.

Aðgangseyrir er kr. 1000 en Klausturreglufélagar frá frítt inn.

Gunnar Kvaran og Selma Guðmundsdóttir hafa starfað saman að tónleikahaldi frá árinu 1995. Þau hafa leikið saman tónlist inn á tvo geisladiska. Sá fyrri, Elegía, kom út hjá Japis árið 1996. Fyrir rúmu ári kom svo út hjá Smekkleysu diskurinn Gunnar og Selma með flutningi þeirra á nokkrum rómantískum verkum, þar á meðal sónata Frederic Chopin fyrir selló og píanó.
Gunnar og Selma starfa bæði sem kennarar við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík.

Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Félagi íslenskra tónlistarmanna og Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri með styrk frá Menntamálaráðuneytinu.


3. maí 2006

Ó-HREIN-DÝR Svandísar

Svandís Egilsdóttir myndlistarkona opnar sýninguna ó-hrein-dýr í gallerí Klaustri laugardaginn 6. maí kl. 15. Á henni eru olíumyndir sem Svandís hefur málað síðustu misseri eftir að hún flutti til Austurlands.

Sumaropnun hefst á Skriðuklaustri sama dag. Fram til 26. maí verður opið alla daga frá kl. 12-17 en þá tekur við hinn hefðbundni sumaropnunartími, kl. 10-18.

Í stássstofu verða næstu vikur sýnd verk í eigu Gunnarsstofnunar eftir ýmsa listamenn og inni á skrifstofu skáldisins verða sýnd sýnishorn úr því gríðarstóra úrklippusafni sem Gunnarsstofnun vinnur nú að flokkun á.


27. apríl 2006

Ráðning staðarhaldara á Skriðuklaustri

Halldóra Tómasdóttir íslenskufræðingur hefur verið ráðinn til Stofnun Gunnars Gunnarsonar sem staðarhaldari. Hún kemur til starfa í júlímánuði og mun hafa umsjón með menningarstarfsemi Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Jafnframt mun hún vinna að kynningarmálum og ýmsum verkefnum stofnunarinnar með forstöðumanni.

Halldóra er 38 ára með háskólapróf í íslensku frá Háskóla Íslands 1993 og lagði stund á háskólanám í dönsku við Kaupmannahafnarháskóla 1995-1999. Hún var kynningarfulltrúi við Háskóla Íslands árin 2000-2003 og lektor í íslensku við Háskólann í Kiel í Þýskalandi 2003-2004 en stundar nú cand mag. nám í menningar- og miðlunarfræði við Syddansk Universitet í Danmörku.

Halldóra er gift Úlfari Trausta Þórðarsyni og eiga þau þrjú börn.


10. apríl 2006

Kristur um víða veröld og opnunartími á næstunni

Í tilefni páskanna verður sett upp sýning á Kristsmyndum í stássstofunni á Klaustri. Á henni getur að líta hvernig listamenn annarra þjóða sýna Krist og hvernig þeir myndgera frásagnir guðspjallanna af atburðum í lífi hans. Mismunandi menningar-áhrif og listform gefa sýningunni margbreyti-leika og vídd sem gaman er að kynnast.

Sýningin kemur upphaflega frá Svíþjóð og hefur farið víða um. Sýningin verður opnuð á föstudaginn langa (kl. 14) og stendur í þrjár vikur.

OPNUNARTÍMI Á NÆSTUNNI

  • á föstudaginn langa, kl. 14-18
  • á annan í páskum, kl. 14-18
  • sumardaginn fyrsta, kl. 14-18

Einnig verður opið sunnudagana 23. og 30. apríl. kl. 14-18.
Heitt súkkulaði, kökur og brauðréttir hjá Klausturkaffi.


19. mars 2006

Gunnarsstofnun auglýsir eftir klausturhaldara

Stofnun Gunnars Gunnarssonar leitar að staðarhaldara að Skriðuklaustri. Starfið er nýtt og mun starfsmaðurinn móta það í samvinnu við stjórnendur stofnunarinnar.

Starfssvið:

  • að annast sýningarstjórn og skipulag menningarviðburða
  • að stýra móttöku ferðamanna
  • að bera ábyrgð á ákveðnum verkefnum Gunnarsstofnunar
  • að hafa umsjón með gestaíbúð
  • að hafa eftirlit með húsum
  • að vera staðgengill forstöðumanns

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun eða sambærilegt
  • Skipulags- og stjórnunarhæfileikar
  • Þekking og reynsla af lista- og menningarstarfsemi
  • Sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði
  • Reynsla af félagsstörfum
  • Góð tungumálakunnátta

Við leitum að drífandi og metnaðarfullum einstaklingi sem hefur yndi af samskiptum við fólk og býr yfir góðum skipulagshæfileikum, frumkvæði og víðtækri þekkingu og reynslu á lista- og menningarstarfi.

Starfið krefst sveigjanleika í vinnutíma og búseta er bundin við starfsmannabústað á Skriðuklaustri. Æskilegt er að viðkomandi hafi bíl til umráða.

Í boði er krefjandi en lifandi starf sem hæfir metnaðarfullum konum sem körlum. Launakjör eru í samræmi við kjarasamninga BHM. Viðkomandi þarf helst að geta hafið störf 1. maí 2006.


16. mars 2006

Djass og danskur húmor

Rithöfundurinn Johannes Møllehave og djasstríó Valdemars Rasmussen mæta í Skriðuklaustur þriðjudagskvöldið 21. mars. Dagskráin er helguð H.C. Andersen og mun Møllehave láta gamminn geysa af sinni alkunni snilld um ævintýrahöfundinn í bland við ljúfa djasstóna. Þeir félagar eru nú á ferð um landið fyrir tilstilli Norrænu upplýsingaskrifstofanna í Flensborg og á Akureyri og koma einnig fram á Akureyri og í Norræna húsinu í Reykjavík. Til Austurlands koma þeir fyrir tilstilli Menningarráðs Austurlands og Gunnarsstofnunar.

Dagskráin á þriðjudagskvöldið hefst kl. 20.30 og aðgangseyrir er kr. 1500. Allir áhugamenn um dönsku og ekki síst danskan húmor eru hvattir til að mæta.


Jóhann F. Þórhallsson, varaoddviti Fljótsdalshrepps, og Helgi Gíslason, stjórnarformaður Gunnarsstofnunar undirrita samninginn við skrifborð skáldsins.

Þjónustusamningur Fljótsdalshrepps og Gunnarsstofnunar

10. mars 2006 Í dag, 10. mars, var undirritaður á Skriðuklaustri þjónustusamningur milli Gunnarsstofnunar og Fljótsdalshrepps. Með samningnum tekur Gunnarsstofnun að sér tiltekin verkefni á sviði menningar og ferðaþjónustu fyrir sveitarfélagið. Stofnunin á m.a. að vera sveitarfélaginu til ráðgjafar og taka að sér áætlanagerð vegna málefna á þessu sviði. Þá mun stofnunin hafa umsjón með verkefnum er lúta að miðlun á sögu Fljótdals til ferðamanna með merkingum og öðrum hætti. Sérstaklega er tiltekið í samningnum að stofnunin annist þróunarverkefni sem snýst um að nýta Grýlusögur og Grýlukvæði til að skapa fjölbreytta afþreyingu fyrir ferðamenn í Fljótsdal.

Fljótsdalshreppur greiðir Gunnarsstofnun 2 m.kr. á ári fyrir vinnu við verkefnin. Samningurinn nær til ársloka 2007 en gert er ráð fyrir að samningsaðilar kanni grundvöll fyrir gerð nýs samnings sex mánuðum fyrir þann tíma.


6. mars 2006

Frá lomberdegi.

Lomberdagur 11. mars

Hinn árlegi lomberdagur á Klaustri verður nk. laugardag, 11. mars. Spilamennskan hefst kl. 13.30 og er mælt með því að byrjendur mæti þá strax. Vanir spilamenn geta hins vegar bæst í hópinn hvenær sem er dagsins. Sama fyrirkomulag verður á deginum og vanalega, spilað af krafti og kæti milli mála langt fram á kvöld.

  • Spadda (kaffi, kökuhlaðborð og kvöldverður) kr. 3.700
  • Manilía (kvöldverður og kaffi) kr. 3.000
  • Basti (kökuhlaðborð og kaffi) kr. 1.200.

Í tilefni lomberdagsins verður Klausturkaffi með steikarhlaðborð um kvöldið sem aðrir en lombermenn geta einnig skráð sig í en vissara er að panta borð tímanlega í síma 471-2992/2990.


16. febrúar 2006

Úr verkinu Order.

Videólist og konudagskaffi á sunnudaginn

Sunnudaginn 19. febrúar, á konudaginn, verður opið kl. 14-17. Klausturkaffi verður með kaffihlaðborð í tilefni konudags. Kristina Inciuraite frá Litháen sýnir vidéoverk en hún dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu. Kristina vinnur í verkum sínum með félagslegar og sálfræðilegar breytingar sem orðið hafa á litháensku samfélagi eftir að landið öðlaðist sjálfstæði. Verk hennar hafa verið sýnd víða í Evrópu en hún vinnur jafnframt sem sýningarstjóri á nýlistasafninu í Vilníus.

Um verkin sem sýnd verða á sunnudaginn segir Kristina eftirfarandi: "Kórinn í Liepaites mun aldrei njóta fyrri frægðar þar sem skemmtanaiðnaðurinn með lélegri söngvurum hefur tekið yfir (Rehearsal, 2002). Konurnar í Visaginas þurfa trúlega að flytja frá borginni þegar kjarnorkuverinu verður lokað (Leisure, 2003). Unglingarnir á betrunarhælinu í Vilníus sem leika piparjómfrúr í leikritinu verða trúlega áfram ógiftir ef þeir halda áfram að reka á reiðanum í samfélaginu (Spinsters, 2003). Lögreglukonurnar í Vilníus þurfa enn að takast á við sjónarmið karla um að konur eigi að halda sig heima (Order, 2004). Gestir á veitingastað gamla Gintaras hótelsins munu aldrei upplifa hið hverfandi andrúmsloft munaðar sem sovéskir stílistar sjöunda áratugarins sköpuðu (Shutdown, 2004). Kvikmyndahúsgestir í Ozo munu ásamt hetjum svarthvítu myndanna verða vitni að falli gömlu kvikmyndahúsanna í Vilníus sem er sambærilegt á myndhverfan hátt við fall Rómarveldis (Fall, 2005). Það er ekki hægt að ætlast til þess að skólabörnin í Siauliai sem finnst lítið um menningarviðburði muni reisa menningarlíf bæjarins við til framtíðar (Fire, 2005).

Fréttir 2005

16. desember 2005

Jólakveðjur frá Klaustri

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi senda öllum þeim sem sóttu Skriðuklaustur heim árið 2005 hugheilar jóla- og nýárskveðjur. Vonandi sjáum við sem flesta af þeim 10 þúsund gestum sem komu í Klaustur aftur á nýju ári.

 


15. desember 2005

Yfirlýsing frá stjórn og forstöðumanni Gunnarsstofnunar

Stjórn og forstöðumaður Gunnarsstofnunar senda frá sér svohljóðandi yfirlýsingu vegna blaðaskrifa sem fram hafa farið um Gunnar Gunnarsson og Nóbelsverðlaunin að undanförnu:

Stofnun Gunnars Gunnarssonar fagnar því að loksins skuli komnar fram upplýsingar sem varpa ljósi á ástæður þess að Gunnar Gunnarsson varð ekki þess heiðurs aðnjótandi að taka við Nóbelsverðlaunum í Stokkhólmi 1955. Svo virðist sem skáldið hafi ekki verið metið af framlagi sínu til heimsbókmenntanna heldur hafi óréttmæt sjónarmið verið lögð til grundvallar við ákvörðun sænsku akademíunnar. Nú þegar hálf öld er liðin frá því Íslendingar eignuðust Nóbelskáld er tímabært að hið sanna komi fram og gögn akademíunnar munu væntanlega leiða sannleikann í ljós þegar leynd verður létt af þeim. Staðreyndin er hins vegar sú að Íslendingar áttu tvo framúrskarandi rithöfunda á 20. öld sem báðir voru álitnir verðugir kandídatar til að taka við æðstu viðurkenningu í bókmenntum. Aðeins öðrum þeirra hlotnaðist heiðurinn en verk beggja lifa. Gunnarsstofnun hvetur til málefnalegrar umræðu og umfjöllunar um ævi og verk stórskáldanna sem eiga annað og betra skilið en aðdróttanir og upphrópanir fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslenskrar menningar. Þjóðin hefur með veglegum hætti heiðrað minningu þeirra með því að koma á fót menningarsetri að Skriðuklaustri og safni að Gljúfrasteini. Á báðum stöðum gefst gestum tækifæri á að kynna sér skáldin en andagiftin og orðsnilldin lifa í verkum þeirra.


Helgi Gíslason formaður
Gunnar Björn Gunnarsson
Hrafnkell A. Jónsson
Sigríður Sigmundsdóttir
Stefán Snæbjörnsson
Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður


14. desember 2005

 

Aðventa lesin við skrifborð skáldsins

Sunnudaginn 11. desember var Aðventa lesin upphátt við skrifborð Gunnars skáld á skrifstofu hans að Skriðuklaustri. Vala Þórsdóttir leikkona las söguna og tók lesturinn um þrjár og hálfa klukkustund. Hlustendur nutu þess að verða samferða Bensa, Leó og Eitli inn á öræfin og úti blés hvass vestanvindur sem magnaði lesturinn.

 

Gunnarsstofnun ætlar að gera þetta að árlegum viðburði enda fátt betur við hæfi í aðdraganda jólanna en heiðra minningu skáldsins með upplestri á Aðventu.


6. desember 2005

teikn. Gunnar Gunnarsson yngri

Aðventa lesin upphátt sunnudaginn 11. des.
- Vala Þórsdóttir leikkona les

Sunnudaginn 11. desember verður í fyrsta sinn efnt til upplesturs á Aðventu Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklausturi, en ætlunin er að gera þetta að árvissum viðburði. Sagan um eftirleitir Fjalla-Bensa á öræfum síðustu dagana fyrir jól verður að þessu sinni lesin af leikkonunni Völu Þórsdóttur. Hefst lesturinn kl. 13 og lýkur um kl.17. Lesið verður í hálftíma lotum með 10 mínútna hléum á milli. Reynt verður að skapa notalega stemningu við arineld í stofum Gunnarshúss. Aðgangur er ókeypis en gestir geta keypt sér kaffi og kökur.

Auk þess munu gestir geta skoðað sýningu um Brynjólf biskup Sveinsson og 17. öldina sem hangir nú uppi á Skriðuklaustri.


29. nóvember 2005

Sunnudaginn 4. des. verður hin árlega Grýlugleði að Skriðuklaustri. Að venju verður dagskráin blönduð og sagt frá ýmsu er varðar Grýlu og hyski hennar. Undanfarin fimm ár hafa hin ófríðu hjónakorn birst óvænt á höttunum eftir matarbita og eru skipuleggjendur gleðinnar því við öllu búnir. Að þessu sinni mun trúbador Rásar 2, Svavar Knútur, sjá um Grýlulögin og eftir dagskrána er jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi. Dagskráin hefst kl. 14 og kostar 500 kr. inn fyrir fullorðna en frítt fyrir börnin (16 ára og yngri).

Árleg Grýlugleði sunnudaginn 4. des. kl. 14
- Svavar Knútur mætir með gítarinn

Síðasti lomber fyrir jól spilaður á Egilsstöðum

Síðasta lomberkvöld fyrir jól verður í kjallara Gistihússins Egilsstöðum föstudaginn 2. des. og hefst spilamennska kl. 20. Allir velkomnir og beðnir um að minna aðra lomberspilara á aðra staðsetningu en vanalega.


23. nóvember 2005

Skáldin lesa sunnudaginn 27. nóv. kl. 14

Sunnudaginn 27. nóvember er komið að árlegri dagskrá með nokkrum völdum höfundum. Að þessu sinni eru það eftirfarandi höfundar sem lesa úr verkum sínum:

Gerður Kristný Guðjónsdóttir : Myndin af pabba

Guðlaugur Arason: Gamla góða Kaupmannahöfn

Gunnar Hersveinn Sigursteinsson: Gæfuspor, gildin í lífinu

Jón Kalman Stefánsson: Sumarljós, og svo kemur nóttin

Yrsa Sigurðardóttir: Þriðja táknið

Dagskráin hefst kl. 14.00. Aðgangseyrir kr. 500. Frítt fyrir 16 ára og yngri. Eftir dagskrá verður heitt á könnunni og kökur á boðstólum hjá Klausturkaffi.

Brynjólfssýningin er opin á sama tíma: kl. 13-17 á sunnudaginn.


21. nóvember 2005
Halldór Guðmundsson sagði frá verkefni sem hann vinnur að um þessar mundir, að rita saman um ævi Gunnars Gunnarssonar og Þórbergs Þórðarsonar.

30 ár liðin frá andláti Gunnars skálds

Í dag eru 30 ár liðin frá því Gunnar Gunnarsson skáld andaðist í Reykjavík 86 ára að aldri. Efnt var til Gunnarsvöku að Skriðuklaustri laugardaginn 19. nóv. til að minnast þess. Dagskráin var blönduð, flutt erindi og spjallað um lífshlaup Gunnars og verk hans fyrir herragarðskvöldverð sem var með dönsku sniði að hætti frú Franziscu. Um kvöldið var síðan lesið úr nokkrum verkum og Þorbjörn Rúnarsson söng fimm lög fjögurra tónskáldra, danskra og sænskra, sem samin voru við kvæði Gunnars á fyrri hluta síðustu aldar.


14. nóvember 2005

Gunnarsvaka laugard. 19. nóvember

Hinn 21. nóvember nk. verða 30 ár liðin frá því Gunnar Gunnarsson skáld lést. Í tilefni þess efnir Gunnarsstofnun til Gunnarsvöku laugardaginn 19. nóvember. Dagskráin er blönduð og geta gestir snætt herragarðskvöldverð að hætti frú Franziscu. Frítt er inn á dagskrána en herragarðskvöldverður m. fordrykk kostar kr. 3.900. Æskilegt er að panta borð í kvöldverðinn.

Dagskrá Gunnarsvöku:

Kl. 16.00-18.00 -

  • Portrett af skáldi - Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar
  • Mest um Gunnar - og svolítið um Þórberg - Halldór Guðmundsson bókmenntafr.
  • Gunnar í erlendum blöðum - Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir mannfræðingur

Kl. 18.00 Fordrykkur og spjall

Kl. 18.30 Herragarðskvöldverður að hætti frú Franziscu

Kl. 20.30 - 22.00

  • Sönglög við kvæði Gunnars - Þorbjörn Rúnarsson flytur lög sem tónskáldin Thorvald Aagaard, Ejnar Jacobsen, Axel Raoul Wachtmeister og M. Livstov-Saabye sömdu við kvæði Gunnars. Undirleikari Suncana Slamnig.
  • Lesið úr verkum skáldsins - Steinunn Jóhannesdóttir, Arndís Þorvaldsdóttir, Guðmundur Beck og Skúli Björn Gunnarsson.

Brynjólfur biskup - sýning og málþing sunnud. 20. nóv.

Í ár eru liðin 400 ár frá fæðingu Brynjólfs biskups Sveinssonar sem hafði mikil áhrif á 17. öldina á Íslandi. Í tilefni þess tók fjöldi stofnana og félaga sig saman í haust, setti saman sýningu og efndi til ráðstefnu í Þjóðarbókhlöðunni og Skálholti. Nú er hluti af þessari sýningu kominn í Skriðuklaustur og verður hún opnuð sunnudaginn 20. nóv. kl. 14 með litlu málþingi um Brynjólf þar sem eftirtalin erindi verða flutt:

  • Steinunn Jóhannesdóttir: Brynjólfur Sveinsson: Drög að sjálfsævisögu,. Sonur, Bróðir, maki, mágur, tengdasonur, faðir og afi.
  • Einar Sigurbjörnsson: Um Maríukveðskap Brynjólfs.
  • Loftur Guttormsson: Af vísitasíubókum og máldaga Brynjólfs biskups.

Frítt er inn á sýningaropnunina og málþingið.

Í tilefni af Dögum myrkurs verður Klausturkaffi með súkkulaðikökur með meiru síðdegis.


 
3. nóvember 2005

Brynjólfssýning og Gunnarsvaka

Á Dögum myrkurs verður mikið um að vera á Skriðuklaustri. Laugardaginn 19. nóvember verður efnt til Gunnarsvöku í tilefni 30 ára ártíðar skáldsins, en þann 21. nóv. verða liðin 30 ár frá því Gunnar Gunnarsson lést. Dagskráin mun hefjast kl. 16. en standa fram á kvöld og í tengslum við hana verður sérstakur herragarðskvöldverður hjá Klausturkaffi í anda Franziscu. Dagskráin verður kynnt betur er nær dregur en verður blönduð af upplestri, erindum og tónlistarflutningi.

Sömu helgi verður opnuð sýning um Brynjólf biskup Sveinsson sem uppi var á 17. öld. Sýningin er minni gerð af stórri sýningu sem er í Þjóðarbókhlöðunni um þessar mundir í tilefni þess að 450 ár eru liðin síðan þessi merki lærdómsmaður var uppi. Í tengslum við opnun sýningarinnar verður málþing sunnudaginn 20. nóv. kl. 14. þar sem fræðimenn flytja nokkur erindi um Brynjólf.


20. september 2005

Sögusýningin um Klaustrið að Skriðu framlengd

Ákveðið hefur verið að framlengja sýninguna um Klaustrið að Skriðu sem staðið hefur frá því í júlílok. Á henni getur að líta muni sem fundist hafa við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri síðustu sumur og upplýsingar um klausturlífið að Skriðu eins og menn telja að það hafi verið fyrir 500 árum. Skriðuklaustursrannsóknir og Gunnarsstofnun standa saman að sýningunni og hún nýtur styrks frá Menningarráði Austurlands.

Opið verður á Skriðuklaustri sem hér segir: sunnudaginn 25. sept. kl. 13-17. Allar helgar í október, lau. og sun. kl. 13-17. Þess utan geta hópar ætíð pantað þjónustu og eru skólar sérstaklega hvattir til að koma og skoða sýninguna um klaustrið.


15. ágúst 2005

Helga Erlendsdóttir sýnir í gallerí Klaustri

Opnuð hefur verið sýning á olíumálverkum Helgu Erlendsdóttur í gallerí Klaustri. Á sýningunni eru þrettán myndir sem eiga uppruna sinn í jökullandslagi Hornafjarðar.

Helga Erlendsdóttir fæddist í Reykjavík 1948. Hún lauk listnámi við Fjölbrautaskóla Breiðholts árið 1992 en jafnhliða námi þar lærði hún m.a. við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Jafnframt hefur Helga verið í einkanámi hjá nokkrum virtum listmálurum. Sumarið 1992 flutti Helga að Árnanesi í Hornafirði. Þar rekur hún gallerí og ferðaþjónustu ásamt manni sínum Ásmundi Gíslasyni.

Í listsköpun sinni fæst Helga ýmist við vatnsliti eða olíu. Náttúran er megin uppspretta verkanna og viðfangsefnin gjarna kunnugleg þó að oftar en ekki verði málverkin óhlutbundin. Helga hefur einnig prófað nýstárlegar leiðir í listinni eins og þegar hún tók þátt í CAMP-Hornafjörður árið 2002. Verk eftir Helgu eru í eigu fólks um allt Ísland og fjöldi verka á einkaheimilum víða um heim.

Sýning Helgu stendur frá 15.ágúst og til 18. september og er opin á sama tíma og hús skáldsins, kl. 10-18 alla daga fram til 28. ágúst en eftir það kl. 12-17.


4. ágúst 2005

Klaustur-María komin heim

Þjóðminjasafn Íslands hefur lánað til sýningar á Skriðuklaustri Maríulíkneski það sem talið er að staðið hafi í klausturkirkjunni á sínum tíma. Líkneskið er úr eik og sýnir Maríu með Jesúbarnið. Það komst í eigu ensks fiskkaupmanns um aldamótin 1900 en einkasafn hans var gefið til Þjóðminjasafnsins um 1950. Líkneskið er fagurlega útskorið og vel varðveitt. Sú saga fylgir því að það hafi fundist þegar bóndinn á Klaustri við Lagarfljót var að gera við fjósvegg sinn. Líkur eru á að við siðaskiptin hafi líkneskið verið falið til að það yrði ekki eyðilagt en síðan hafi það fundist aftur 60-80 árum síðar og þá verið komið fyrir að nýju í klausturkirkjunni sem var notuð allt til 1792. Heimildir eru fyrir því að í kirkjunni var Maríulíkneski á 17. öld enda var kirkjan helguð Maríu mey og hinu heilaga blóði.

Líkneskinu var komið fyrir í traustu sýningarherbergi þjóðminja á Skriðuklaustri og verður þar næstu mánuðina.

Graham Langford forvörður á Þjóðminjasafninu kom með líkneskið í Klaustur.


22. júlí 2005

Klaustrið að Skriðu
- sýning opnuð í dag um klausturlíf og fornleifarannsókn

Í dag var opnuð sýning undir yfirskriftinni, Klaustrið að Skriðu. Á henni getur að líta muni sem fundist hafa við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri síðustu sumur og upplýsingar um klausturlífið að Skriðu eins og menn telja að það hafi verið fyrir 500 árum.

Hnífar og brýni

Skriðuklaustursrannsóknir og Gunnarsstofnun standa saman að sýningunni og hún nýtur styrks frá Menningarráði Austurlands. Hún mun standa yfir til 18. september og verður opin fram að 28. ágúst alla daga kl. 10-18.

Bænaperlur sem fundist hafa við uppgröftinn.


14. júlí 2005

Á DÖFINNI Á SKRIÐUKLAUSTRI:

Giuseppe sýnir í gallerí Klaustri

Á morgun, föstudaginn 15. júlí kl. 13, verður opnuð sýning á teikningum eftir ítalska listamanninn og forvörðinn Guiseppe Venturini í gallerí Klaustri. Hann hefur undanfarin þrjú sumur unnið að forvörslu gripa sem fundist hafa við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri en notað frístundir til að teikna landslag og kletta í Fljótsdalnum.

Giuseppe Venturini lærði við Listaakademíuna í Flórens 1963-1968 og var virkur í listinni á 6. og 7. áratugnum. Frá 1972 hefur hann unnið sem forvörður í Flórens og í stórum fornleifaverkefnum víða um heim.

Sýning Giuseppe Venturini stendur til 14. ágúst.

Tónleikar Ýlis mánudagskvöldið 18. júlí

Næsta mánudagskvöld, þann 18. júlí, munu þau Gerður Gunnarsdóttir og Claudio Puntin halda tónleika á Skriðuklaustri. Ýlir er nafnið á hljómsveitinni og hafa þau gefið út hljómdisk undir sama heiti sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Gerður leikur á fiðlu og syngur en Claudio á klarinett og bassaklarinett og þau spila íslenska tónlist með alþjóðlegu ívafi.

Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 og aðgangseyrir er kr. 1000.

Rétt er að benda á að Klausturkaffi verður með létt MATARHLAÐBORÐ á undan því frá kl. 18.30 fyrir þá sem hafa áhuga á að eyða kvöldinu í notalegheitum á Klaustri.

Snæfellssýningu að ljúka og Klaustrið að taka við

Framundan er síðasta sýningarhelgi á Snæfellsmyndum þeim sem hangið hafa uppi síðan 7. maí. Sú sýning verður tekin niður 20. júlí og föstudaginn 22. júlí verður opnuð sýning um klaustrið sem stóð að Skriðu á 15. og 16. öld. Á henni verður m.a. sýnt margt þeirra gripa sem komið hafa upp við fornleifarannsóknina undanfarin sumur. Reiknað er með að opna sýninguna formlega kl. 16 föstudaginn 22. júlí.


5. júlí 2005

SAFNADAGURINN á sunnudag

Sunnudaginn 10. júlí er safnadagur um allt land. Þann dag verður aðgangur ókeypis á Skriðuklaustri til að skoða sýningar. Jafnframt verða fornleifafræðingar að leiðsegja fólki um fornleifauppgröftinn á Kirkjutúni eftir hádegi.


16. júní 2005

Myndir úr Fjallkirkjunni leiklesnar á Vopnafirði

Laugardaginn 18. júní kl. 20.30 er Skáldakvöld á Vopnafirði í félagsheimilinu Miklagarði. Þar verða kynnt verk Gunnars Gunnarssonar og Jóns Múla og Jóns Árnasona. Forstöðumaður Gunnarsstofnunar segir frá Gunnari skáldi og síðan mun hópur atvinnu- og áhugaleikara leiklesa "Myndir úr Fjallkirkjunni" sem Lárus Pálsson og Bjarni Benediktsson unnu á sínum tíma upp úr verki skáldsins. Meðal leiklesara eru Hilmir Snær Guðnason, Guðrún Ásmundsdóttir, Gunnar Eyjólfsson, Kristján Franklín Magnúss, Ólafur B. Valgeirsson og Bjartur Aðalbjörnsson sem les fyrir Ugga sjálfan.

Að loknum leiklestrinum taka við verk þeirra bræða Jóns Múla og Jónasar í flutningi ýmissa tónlistarmanna.

Miðaverð er kr. 1.500 fyrir fullorðna, kr. 1.000 fyrir börn.


15. júní 2005

Sýningin Þytur í gallerí Klaustri

Föstudaginn 17. júní kl. 18 opnar Sveinbjörg Hallgrímsdóttir grafíksýningu í gallerí Klaustri. Á sýningunni eru tréristur og er þema þeirra sótt í íslenska náttúru. Verkin eru öll unnin á vetrarmánuðum og fjalla um skammdegið, birtuna, veðrið og náttúruna sem er allt um kring. Eftir því sem vorið og birtan breytast þá breytist viðfangsefnið með.

Sveinbjörg dvaldi í gestaíbúðinni Klaustrinu sl. haust og eiga sum verkin rætur í þeirri dvöl. Hún hefur haldið átta einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga heima og erlendis. Sveinbjörg býr og starfar á Akureyri þar sem hún rekur í Brekkugötu 3a vinnstofu og sýningarsalinn Svartfugl og Hvítspóa ásamt annarri listakonu. Hún fékk listamannalaun Akureyrarbæjar á sl. ári. Heimasíða hennar er www.svartfugl.is.

Allir eru velkomnir á opnunina kl. 18 á Þjóðhátíðardaginn. Í tengslum við hana mun Klausturkaffi bjóða upp á kvöldverðarhlaðborð.


3. maí 2005

Tvær sýningaropnanir og vortónleikar um helgina

Laugardaginn 7. maí kl. 14 verður opnuð sýning á málverkum og vatnslitamyndum átta myndlistarmanna af Snæfelli. Á sýningunni eru verk eftir: Eyjólf J. Eyfells, Finn Jónsson, Hrafnhildi Ingu Sigurðardóttur, Jóhannes S. Kjarval, Kristínu Þorkelsdóttur, Ólöfu Birnu Blöndal og Steinþór Eiríksson. Sýningin stendur til 20. júlí.

Á laugardaginn opnar Sigurður Blöndal, fyrrum skógræktarstjóri, einnig sýningu á svarthvítum ljósmyndum í gallerí Klaustri. Sýninguna kallar hann Fólk en á henni eru níu ljósmyndir teknar á 6x9 myndavél á árunum 1950-1965.

Jón í Möðrudal. Ljósm. Sig.Blöndal.

VORTÓNLEIKAR Á SUNNUDAGINN
Hinir árlegu vortónleikar á Skriðuklaustri verða á sunnudaginn, 8. maí og hefjast kl. 14.00. Á þeim flytja Snorri Örn Snorrason gítarleikari og Marta Guðrún Halldórsdóttir söngkona m.a. íslensk og erlend þjóðlög útsett fyrir gítar og rödd. Að venju fá Klausturreglufélagar frítt inn á tónleikana en aðgangseyrir fyrir aðra er kr. 1000.

SUMAROPNUN
Þessi viðburðir marka upphaf sumarstarfsins á Skriðuklaustri. Frá og með helginni verður opið frá kl. 12-17 alla daga fram til 27. maí. Eftir það tekur við hefðbundinn sumaropnun, kl. 10-18 alla daga.


28. apríl 2005

Sýningarlok Hallgrímssýninga á sunnudaginn

Það verður opið kl. 13-18 á Skriðuklaustri sunnudaginn 1. maí. Þá verða sýningarlok á sýningu um Skáld mánaðarins, Hallgrím Pétursson, sem og á Passíu-innsetningu þeirra Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í gallerí Klaustri.

Opið einnig hjá Klausturkaffi kl. 13-18 á sunnudaginn.


19. apríl 2005

Opið á sumardaginn fyrsta og nk. sunnudag
- styttist í sýningarlok á Hallgrímssýningum

Nú fer hver að verða síðastur að sjá innsetningu Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í gallerí Klaustri og sýningu um skáld mánaðarins, Hallgrím Pétursson. Í tilefni af sumarkomu verður opið á sumardaginn fyrsta kl. 13-18 og aðgangur ókeypis. Klausturkaffi verður með sumartilboð á veitingum í tilefni dagsins. Þá verður einnig opið nk. sunnud. kl. 13-18.

Síðasti lomber vetrarins verður nk. föstudagskvöld, 22. apríl og hefst spilamennskan að venju kl. 20.00.


4. apríl 2005

Opið á Skriðuklaustri næstu sunnudaga
- Hallgrímssýning og passíuinnsetning í galleríi

Föstudaginn langa voru opnaðar tvær sýningar á Skriðuklaustri í tilefni þess að Hallgrímur Pétursson er skáld mánaðarins í samstarfsverkefni Þjóðmenningarhúss, Árnastofnunar, Landsbókasafns, Skólavefjarins og Gunnarsstofnunar. Annars vegar var um að ræða litla sýningu um skáldið þar sem m.a. eru sýndar ýmsar útgáfur Passíusálmanna. Hin sýningin er innsetning Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í gallerí Klaustri sem þau byggja á Passíusálmunum.

Opið verður á Skriðuklaustri kl. 14-18 næstu tvo sunnudaga, þ.e. 10. apríl og 17. apríl. Klausturkaffi verður að venju með heitt súkkulaði, kökur og brauðréttir á boðstólum.


23. mars 2005

Hallgrímur Pétursson um páskana
- innsetning Lóu og Sigga í galleríi

Föstudaginn langa verða opnaðar tvær sýningar á Skriðuklaustri í tilefni þess að Hallgrímur Pétursson er skáld mánaðarins í samstarfsverkefni Þjóðmenningarhúss, Árnastofnunar, Landsbókasafns, Skólavefjarins og Gunnarsstofnunar. Annars vegar er um að ræða litla sýningu um skáldið þar sem m.a. eru sýndar gamlar útgáfur Passíusálmanna. Hin sýningin er innsetning Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í gallerí Klaustri sem þau byggja á Passíusálmunum.

Báðar sýningarnar verða opnaðar kl. 14 á föstudaginn langa og verður opið til kl. 18 þann dag. Einnig verður opið á Skriðuklaustri kl. 14-18 laugardaginn 26. mars og á annan í páskum. Lokað verður á páskadag. Klausturkaffi verður að venju með heitt súkkulaði, kökur og brauðréttir á boðstólum.

www.skolavefurinn.is hefur að geyma meiri upplýsingar um skáld mánaðarins.


16. mars 2005

Þýsk heimildamynd um álfa sýnd á föstudagskvöld
– Silfurberg með tónleika á laugardaginn

Föstudagskvöldið 18. mars mun þýska kvikmyndagerðarkonan Dörthe Eickelberg sýna heimildamynd sem hún gerði á Íslandi 2002 og 2003. Dvaldist hún m.a. í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri við vinnu sína og tók viðtöl við marga Austfirðinga. Myndin hefur nú þegar verið sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum víða um heim og hlotið góðar viðtökur og verðlaun.

Myndin ber heitið Álfar og aðrar sögur (Fairies and other tales) og var útskriftarverkefni Dörthe Eickelberg frá kvikmyndaakademíunni í Baden-Württemberg. Hægt er að nálgast meiri upplýsingar um myndina á slóðinni:

www.unpronounceable.de

Kvikmyndasýningin hefst kl. 20.30 á föstudagskvöld.

KAMMERSVEITIN SILFURBERG heldur kammertónleika á Skriðuklaustri laugardaginn 19. mars kl. 17.00. Á tónleikunum verða flutt verk eftir frönsk tónskáld frá 20. öld fyrir þverflaut, óbó, klarinett, saxófón, fagott og píanó.

Silfurbergið skipa fjórir tónlistarkennarar á Austurlandi, Tristan Willems, Imogene Newland, Clarissa Payne og Gillian Haworth.

Opið verður á Skriðuklaustri frá kl. 14 á laugardaginn og heitt á könnunni hjá Klausturkaffi. Sunnudaginn 20. mars verður hins vegar lokað.


9. mars 2005

Einar Már les og spjallar á sunnudaginn
– álfamynd og tónleikar um aðra helgi

Sunnudaginn 13. mars verður opið á Skriðuklaustri frá kl. 14-17. Einar Már Guðmundsson rithöfundur mun lesa úr verkum sínum og spjalla við gesti kl. 14.30. Veitingastofan verður opin með heitt súkkulaði, kökur og brauðrétti.

Föstudagskvöldið 18. mars verður sýnd á Skriðuklaustri kvikmynd sem þýska kvikmyndagerðarkonan Dörthe Eickelberg gerði árin 2002 og 2003. Myndin fjallar um álfatrú Íslendinga og í henni er rætt við fjölda fólks og álfastaðir heimsóttir. Austurland og Austfirðingar leika stórt hlutverk í myndinni enda dvaldi kvikmyndagerðarfólkið m.a. í gestaíbúðinni Klaustrinu. Sýningin hefst kl. 20.30 og mun Dörthe Eickelberg verða viðstödd hana og ræða við sýningargesti.

Síðdegis laugardaginn 19. mars verða tónleikar þar sem nokkrir tónlistarkennarar af Austurlandi leiða saman hesta sína. Nánar um það síðar.


Frá lomberdegi.

1. mars 2005

Hinn árlegi lomberdagur á laugardaginn kemur
– opið næstu tvo sunnudaga

Hinn árlegi lomberdagur verður á Skriðuklaustri laugardaginn 5. mars. Gert er ráð fyrir að hefja spilamennsku kl. 13.30 og eru byrjendur beðnir um að vera mættir þá. Reyndir spilamenn geta bæst í hópinn fram eftir degi en að venju verður spilað fram á rauða nótt. Konur boðnar sérstaklega velkomnar.

Verðskrá fyrir lomberdaginn:

  • Spadda (kaffi, kökuhlaðborð og kvöldverður) kr. 3.500
  • Manilía (kvöldverður og kaffi) kr. 2.500.
  • Basti (kökuhlaðborð og kaffi) kr. 1.000.

Sunnudagsopnun
Opið verður á sunnudaginn kl. 14-17. Að venju er eitt og annað að sjá og skoða en væntanlega verða þó allir lombermenn farnir heim. Klausturkaffi verður með heitt súkkulaði, kökur og brauðrétti að venju.

Sunnudaginn 13. mars verður einnig opið kl. 14-17 og kl. 14.30 þá mun Einar Már Guðmundsson rithöfundur lesa úr verkum sínum og spjalla við gesti.


23. febrúar 2005

Opið sunnudaginn 27. febrúar kl. 14-17:
Ulrike Geitel og Ulrich Dürrenfeld segja frá og sýna

Opið verður á Skriðuklaustri sunnudaginn 27. febrúar milli kl. 14 og17. Klukkan 15.00 munu þýsku myndlistarmennirnir Ulrike Geitel og Ulrich Dürrenfeld segja frá listsköpun sinni og sýna það sem þau hafa unnið síðustu vikur, en þau dvelja nú í gestaíbúðinni Klaustrinu. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. www.ulrich-duerrenfeld.de

Klausturkaffi verður með kökuhlaðborð á sunnudaginn kl. 14-17.


16. febrúar 2005

Skáld mánaðarins:
Dagskrá um Davíð Stefánsson á sunnudaginn

Í tilefni þess að Davíð Stefánsson er skáld mánaðarins í samstarfsverkefni Þjóðmenningarhúss, Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns, Skólavefjarins og Gunnarsstofnunar verður efnt til dagskrár á Skriðuklaustri sunnudaginn 20. febrúar.

Erindin eru:

  • Davíð á ýmsa vegu - Ljóð Davíðs Stefánssonar sem áreiti til tónsköpunar. dr. Bjarki Sveinbjörnsson tónlistarfræðingur
  • Gleðisveinninn og vandlætarinn. Um andstæður í kveðskap Davíðs Stefánssonar. Sigríður Albertsdóttir bókmenntafræðingur
  • Davíð Stefánsson - hrafninn í íslenskri ljóðlist. dr. Sigurður Ingólfsson bókmenntafræðingur

Einnig verða lesin og sungin kvæði eftir Davíð Stefánsson.

Dagskráin hefst kl. 14.00 og aðgangseyrir er kr. 1.000.

Klausturkaffi verður með konudagskaffi eftir dagskrána.

(Þeir sem hafa áhuga á að skoða skáldið á Skólavefnum smelli hér)


mynd frá 1941.

2. febrúar 2005

Bollukaffi og lomber framundan

Klausturkaffi verður með bollukaffi sunnudaginn 6. febrúar milli kl. 14-17. Gestum gefst tækifæri á að skoða listaverk í eigu Gunnarsstofnunar.

Föstudagskvöldið 18. febrúar er fyrirhugaður lomber en hinn árlegi lomberdagur verður haldinn laugardaginn 5. mars.

Með hækkandi sól mun aftur færast líf í starfið á Skriðuklaustri og von á kvöldvöku, fyrirlestrum og sýningum. Nánar um það síðar.

Fréttir 2004

2. desember 2004

Rithöfundar lesa úr verkum sínum

Laugardaginn 4. desember kl. 14 munu rithöfundarnir:

  • Einar Már Guðmundsson (Bítlaávarpið),
  • Kristín Steinsdóttir (Sól sest að morgni, Vítahringur),
  • Sigmundur Ernir Rúnarsson (Barn að eilífu),
  • Þorvaldur Þorsteinsson (Blíðfinnur og svörtu teningarnir: lokaorrustan)
  • Þórarinn Eldjárn (Baróninn)

lesa úr nýútkomnum verkum sínum og spjalla við gesti yfir kaffi.

Aðgangseyrir er kr. 1000 en innifalið er kaffi og kökur meðan á lestrinum stendur. Frítt fyrir 12 ára og yngri og 13-18 ára greiða hálft gjald.


15. nóvember 2004

Lomber, Grýlugleði, rithöfundar og jólahlaðborð

Hefðbundin dagskrá er framundan næstu vikur á Skriðuklaustri. Vegna fjarveru staðarhaldara verður þó engin kvöldvaka þetta árið á Dögum myrkurs en henni er lofað í febrúar eða mars.

Síðasta lomberkvöld ársins verður föstudaginn 26. nóvember kl. 20. Hin árvissa Grýlugleði þar sem sagt er frá Grýlu og hyski hennar verður síðan sunnudaginn 28. nóvember og jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi.

Laugardaginn 4. desember kl. 14 er von á góðum gestum, einum fimm rithöfundum sem munu þá kynna ný verk. Að öllum líkindum verða þetta þeir: Einar Már Guðmundsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þorvaldur Þorsteinsson, Halldór Guðmundsson og Þórarinn Eldjárn.

Klausturkaffi verður síðan með jólahlaðborð 3., 4., 10, og 11. desember og er nú þegar upppantað einhver kvöld svo að það er rétt fyrir áhugasama að hafa samband sem fyrst.


12. nóvember 2004

Myndlistarkona frá Suður-Afríku

Sunnudaginn 14. nóvember kl. 14 mun myndlistarkonan Liz Crossley, sem er frá Suður-Afríku en býr í Þýskalandi, halda fyrirlestur um listsköpun sína að Skriðuklaustri. Hún dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri og vinnur að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast landslagi og sögum. Liz Crossley mun í erindi sínu segja frá vinnu sinni og bregða upp myndum af list sinni og því umhverfi sem hún kemur úr.

Aðgangur er ókeypis og opið verður hjá Klausturkaffi eftir erindið.

http://www.galerie-herrmann.de/arts/crossley/index.htm


 

10. október 2004

Handverk og tölvugrafík í október

Laugardaginn 9. október var opnuð á Skriðuklaustri afmælissýning Handverks og hönnunar og stendur hún til 24. október. Sýning verður opin um helgar lau. og sun. kl. 13-17. Hópar geta haft samband vilji þeir skoða sýninguna utan þessa tíma. Á sýningunni er fjöldi fagurra muna sem sérstök valnefnd valdi til sýningar á 10 ára afmæli verkefnisins.

Þá var einnig á laugardaginn opnuð sýning á tölvugrafík eftir Ellert Grétarsson í gallerí Klaustri. Ellert hefur um nokkurra ára skeið unnið að tölvugrafík og átt myndir í vefgalleríum víða um heim. Sýning hans er opin á sama tíma og sýning Handverks og hönnunar.



Spiladós e. Margréti Jónsd.

5. október 2004

Afmælissýning Handverks og hönnunar

Laugardaginn 9. október verður opnuð á Skriðuklaustri afmælissýning Handverks og hönnunar. Þessi sýning hefur farið víða og þeir sem eiga verk á henni eru:

Anna Guðmundsdóttir - Arndís Jóhannsdóttir - Ástþór Helgason
Dýrfinna Torfadóttir - Fríða S. Kristinsdóttir - George Hollanders
Guðbjörg Kr. Ingvarsdóttir - Guðrún Indriðadóttir - Helga Pálína Brynjólfsdóttir - Helgi Björnsson - Hulda B. Ágústsdóttir - Jóhanna Svala Rafnsdóttir -Jón Sæmundur Auðarson - Kjartan Örn Kjartansson - Kolbrún Björgólfsdóttir - Kristín Sigfríður Garðarsdóttir - Lára Gunnarsdóttir - Margrét Jónsdóttir - Ólöf Erla Bjarnadóttir - Philippe Ricart - Tó-Tó: Anna Þóra Karlsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir - Unnur Knudsen - Þorbjörg Valdimarsdóttir

Sérstök nefnd valdi verkin á sýninguna sem haldin er í tilefni af 10 ára afmæli verkefnsins Handverks og hönnunar. Sýningin verður á Skriðuklaustri til sunnudagsins 24. október og opin um helgar frá kl. 13-17. Annars samkvæmt samkomulagi.

ELG sýnir í gallerí Klaustri
Á laugardaginn verður einnig opnuð í gallerí Klaustri sýning Ellerts Grétarssonar á tölvuunnum myndum. Ellert hefur sýnt í vefgalleríum um víða veröld og hlotið viðurkenningar fyrir myndir sínar. Sýning hans stendur einnig til 24. október og er opin um helgar milli kl. 13-17.

Lomber á föstudagskvöld
Annað lomberkvöld vetrarins verður á föstudagskvöldið 8. okt. Allir velkomnir og nýliðar hvattir sérstaklega til að mæta og læra þetta skemmtilega spil.

Skáld mánaðarins og Í skuggsjá fortíðar
Minnt er á sérsýningu um Gunnar Gunnarsson sem Skáld mánaðarins. Þá stendur enn sýningin Í skuggsjá fortíðar, sýning á nokkrum austfirskum kirkjumunum frá Þjóðminjasafninu.


14. september 2004

Lomber, tónlist og ljóð um næstu helgi

Fyrsta lomberkvöldið
Fyrsta lomberkvöld vetrarins verður föstudaginn 17. september kl. 20 og eru nýir sem gamlir lomberspilarar hvattir til að mæta og ræða hvernig vetrarstarfinu verði best háttað.

Síðasta opnunarhelgin í september
Helgin 18. - 19. september er síðasta helgin sem opið verður á Skriðuklaustri í september. Opið verður laugardag og sunnudag frá kl. 13-17 og geta gestir þá m.a. skoðað nýja sérsýningu um Gunnar skáld sem er Skáld mánaðarins á skolavefurinn.is og hlýtt á gömul sjónvarpsviðtöl við hann og upplestra í útvarpi.

Fyrirlestur tónlistarmannsins Kitundu
Á laugardeginum kl. 16.30 mun tónlistarmaðurinn Walter Kitundu, sem dvelst um þessar mundir í gestaíbúðinni, segja frá listsköpun sinni og hljóðfærasmíði, en hann hefur getið sér gott orð víða um heim fyrir hljóðfæri þar sem hann tengir gjarna saman strengi og grammófón (phonoharps) www.kitundu.com.

Ljóðaúrval Jörgens frá Húsum kynnt
Á sunnudeginum kl. 17 mun Félag ljóðaunnenda á Austurlandi kynna nýja ljóðabók sem félagið gefur út nú á haustdögum. Það er bókin Fljótsdalsgrund, úrval ljóða eftir Jörgen E. Kjerúlf frá Húsum í Fljótsdal.(1878-1961).


11. september 2004

Gunnar Gunnarsson er skáld mánaðarins
- Gunnarsstofnun í samstarf við þjóðarsöfnin

Í gær var opnuð sýning á verkum Gunnars Gunnarssonar, bókum og handritum, í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Sýningin er hluti af verkefinu Skáld mánaðarins sem Skólavefurinn, Þjóðmenningarhúsið, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Þjóðminjasafnið hafa átt samstarf um síðustu vetur. Við opnunina í gær varð Gunnarsstofnun formlegur samstarfsaðili að verkefninu og í dag, laugardag kl. 14, verður opnuð lítil sérsýning um Gunnar skáld á Skriðuklaustri.


Diddú að syngja úr Sonnettusveignum.

Við opnun í Þjóðmenningarhúsinu frumflutti Sigrún Hjálmtýsdóttir við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur hluta úr Söngvasinfóníu Áskels Mássonar sem hann byggir á Sonnettusveig Gunnars Gunnarssonar.


Frá sýningunni í Þjóðmenningarhúsinu.

Á sýningunni sem opnuð verður á Skriðuklaustri í dag mun Herbjörn Þórðarson syngja tvö lög eftir sænska tónskáldið Axel Raoul Wachtmeister sem hann samdi um 1940 við tvö kvæði Gunnars í Vargi í véum. Þá mun Ingólfur Kristjánsson einn af stofnendum Skólavefsins kynna verkefnið Skáld mánaðarsins. Hægt er að skoða vefgáttina um Gunnar á www.skolavefurinn.is/skald.


Útskorin pennastöng sem Gunnar notaði við skriftir.


Staurakast á íþróttamóti 2003.

17. ágúst 2004

Borð og stólar, bændaglíma og fjárdráttur

Framundan er viðburðarík helgi á Skriðuklaustri. Þetta verður seinasta helgi sumarsins sem leiðsögn verður um fornleifasvæðið á Kirkjutúni. Stendur hún frá kl. 14-18 laugardag og sunnudag. Síðasta kvöldverðarhlaðborð sumarsins hjá Klausturkaffi verður laugardagskvöldið 21. ágúst. Á sunnudaginn er síðan Fljótsdalsdagur í Ormsteiti með tilheyrandi íþróttamóti í umsjá Umf. Þristar á Skriðuklaustri frá kl. 14-16. Keppt verður í fjárdrætti, bændaglímu, steinatökum, pokahlaupi og rófukasti. Á sunnudaginn verður líka opnuð ný sýning í gallerí Klaustri en sýningu Pjeturs Stefánssonar lýkur á laugardaginn. Sýningin sem opnuð verður kl. 13.30 á sunnudaginn er afrakstur af samstarfi skoska hönnuðarins Thomas Hawson við sex norræna handverks- og listiðnaðarmenn. Á sýningunni verða tveir stólar og borð sem sækja form sitt til víkingatímans og eru unnin úr eik og áli.


31. júlí 2004

Grafíksumar á Austurlandi

Föstudaginn 30. júlí var opnuð sýning frá Íslenskri Grafík í stofunum á Skriðuklaustri. Sýningin er hluti af Grafíksumri á Austurlandi sem Íslensk Grafík, Ríkharður Valtingojer og Gunnarsstofnun eiga samstarf um. Annar hluti sýningarverkefnisins er í Samkomuhúsi Stöðvarfjarðar.

Alls eiga 23 listamenn verk á sýningunum og eru þær m.a. haldnar í tilefni 35 ára afmælis Íslenskrar Grafíkur.

Sýningin á Skriðuklaustri verður opin daglega til 12. september en sú á Stöðvarfirði verður opin til 22. ágúst.


27. júlí 2004

Góð bókagjöf

Fimmtudaginn 22. júlí fékk Gunnarsstofnun góða bókagjöf. Herborg Halldórsdóttir og Ragnar Halldórsson, börn Halldórs Stefánssonar alþingismanns og seinni konu hans, Halldóru Sigfúsdóttur, færðu stofnuninni bækur og önnur rit sem faðir þeirra ritaði og eða stóð að útgáfu að. Flest þessara rita varða Austurland og má meðal annars nefna sjö binda safn austfirskra fræða sem Halldór ritstýrði ásamt Þorsteini M. Jónssyni og bar heitið Austurland.

Fyrri kona Halldórs var Björg Halldórsdóttir Benediktssonar bónda að Skriðuklaustri. Í gjafabréfi með bókunum segir að fyrstu tvö búskaparár sín hafi þau búið á Skriðuklaustri enda var Halldór þá ráðsmaður hjá tengdaföður sínum. Þau bjuggu síðan á Seyðisfirði í sex ár en á Hamborg, næsta bæ við Skriðuklaustur, frá 1909 til 1921.

Í gjafabréfinu segir ennfremur: "Það var föður okkar mikið áhugaefni, að varðveita sögu Austurlands og tók hann þátt í félögum, sem voru starfandi á þeim vettvangi af heilum huga, bæði í orði og á borði. Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum eru varðveitt margs konar skjöl, myndir og fróðleikur um Austurland, sem faðir okkar afhenti til varðveizlu þar. Vegna tengsla föður okkar og fyrri konu hans við Skriðuklaustur þykir okkur systkinum við hæfi, að rit hans séu að finna í Gunnarsstofnun."

Gunnarsstofnun þakkar þessa góðu gjöf sem mun nýtast fræðimönnum vel við rannsóknir sínar á búsetu og menningarsögu Austurlands í framtíðinni.


19. júlí 2004

Fyrirlestrar um fornleifarannsóknir

Í dag, mánudaginn 19. júlí verða haldnir á Skriðuklaustri tveir fyrirlestrar um fornleifarannsóknir. Annars vegar mun dr. Jürg Goll frá Sviss flytja fyrirlestur um rannsókn sem hann hefur stýrt frá 1987 á St. Johan klaustrinu í Müstair í Sviss sem er á heimsminjaskrá. Fyrirlesturinn ber heitið: "Müstair í Sviss - klaustur frá tímum Karlamagnúsar".

Hinn fyrirlesarinn er Kristján Mímisson, fornleifa- og beinafræðingur, sem mun segja frá mannabeinarannsóknum á Skriðuklaustri og víðar, en hann hefur m.a. unnið við rannsóknina í Müstair.

Aðgangur að fyrirlestrunum er innifalinn í aðgangseyri að Skriðuklaustri, kr. 500. Klausturreglufélagar fá frítt inn.


4. júlí 2004

MÁL
- sýning um
Gunnar Gunnarsson og Svavar Guðnason

Laugardaginn 3. júlí nk. var opnuð sýning á Skriðuklaustri sem ber heitið MÁL. Sýningin er liður í samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar þar sem Gunnar Gunnarsson rithöfundur og Svavar Guðnason listmálari er teknir fyrir sem tveir skapandi einstaklingar er skoruðu heiminn á hólm og öðluðust frægð fyrir verk sín. Á sýningunni á Skriðuklaustri er teflt saman myndum eftir Svavar og textabrotum frá Gunnari. Þá er leitast við að draga upp mynd af því sem þessir tveir listamenn áttu sameiginlegt og viðhorf þeirra til listarinnar, lífsins og landsins skoðuð.

Sýningin verður á Skriðuklaustri í júlí en flyst í Pakkhúsið á Höfn í Hornafirði í ágústbyrjun. Í haust verður síðan efnt til ritgerðarsamkeppni meðal ungs fólks og málþings þar sem frægð fyrr og síðar verður í brennidepli.

Verkefnið er styrkt af Menningarráði Austurlands og Nýsköpunarsjóði námsmanna.


1. júlí 2004

Petra Gimmi sýnir í gallerí Klaustri

Opnuð hefur verið sýningin "Ring twice in urgent cases - paintings and patience in Iceland" í gallerí Klaustri. Á sýningunni er 15 verk eftir þýsku listakonuna Petru Gimmi, unnin í olíu, vatnsliti og með blandaðri tækni. Sýningin stendur til 14. júlí nk.


25. júní 2004

Fantasy Island framlengd á Skriðuklaustri

Laugardaginn 29. maí var opnaður á Skriðuklaustri fyrsti hluti sýningarinnar Fantasy Island. Hinn 19. júní opnaði frú Dorrit Moussaieff síðan aðalsýninguna í trjásafninu á Hallormsstað og á Eiðum. Vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að framlengja sýninguna á Klaustri til 30. júní svo að fleiri gestum gefist tækifæri á að bera saman hugmyndir listamannanna og skissur við endanlega útkomu í skóginum.

Af þessum sökum er opnun sýningar um Gunnar skáld og Svavar Guðnason, Austfirðingana tvo sem sigruðu heiminn, frestað um viku, til 3. júlí.


Atelier van Lieshout

Paul McCarthy

Jason Rhoades

Katrín Sigurðardóttir

Elin Wikström

Björn Roth

Þorvaldur Þorsteinsson

Hannes Lárusson

Ráðherra opnar sýninguna með því að "afhjúpa" eina af "sápum" Pauls McCarthys og Jasonar Rhoades.

1. júní 2004

Fantasy Island - opnuð á Skriðuklaustri

Laugardaginn 29. maí opnaði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrsta hluta alþjóðlegu sýningarinnar FANTASY ISLAND í stássstofunni á Skriðuklaustri. Sýnd er hugmyndavinna átta listamanna sem undanfarna mánuði hafa unnið að þróun listaverka sem komið verður fyrir í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum í júnímánuði.

Listamenn „Fantasy Island" eru: Atelier van Lieshout (Hollandi), Paul McCarthy (Bandaríkjunum), Jason Rhoades (Bandaríkjunum), Katrín Sigurðardóttir, Elin Wikström (Svíþjóð), Björn Roth, Þorvaldur Þorsteinsson og Hannes Lárusson.

Að sýningunni standa Skógræktin á Hallormsstað, Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri og Hannes Lárusson myndlistarmaður sem jafnframt er sýningarstjóri. Auk þess eru Eiðar ehf samstarfsaðili og Hekla Dögg Jónsdóttir mun hafa umsjón með framkvæmd sýningarinnar. Sýningin er liður í Listahátíð í Reykjavík 2004.

Um verkefnið

Á síðustu árum hefur Skógræktin á Hallormsstað staðið fyrir listsýningum í skóginum (í trjásafninu) með nokkurra ára millibili. Fram til þessa hefur eingöngu verið um að ræða íslenska listamenn en sýningarnar hafa mælst vel fyrir og hafa tugþúsundir manna séð þær.

Fyrir tveimur árum var hafist handa við undirbúning þeirrar sýningar sem nú er framundan. Ákveðið var að setja markið hátt og bjóða til þátttöku þekktum samtímalistamönnum, erlendum sem innlendum.

Listamennirnir sem völdust til þátttöku hafa allir verið áberandi á vettvangi samtímalistar undanfarin ár og meðal þeirra heimsfrægir listamenn. Rýmishugsun í fjölbreyttum myndum, oftast í samfélagslegu návígi, einkennir vinnubrögð þeirra ásamt vissu óstýrilæti, óvæntu hugmyndaflugi og innri spennu.

Listamennirnir munu vinna að hluta til á staðnum að gerð og uppsetningu verkanna fyrri hluta júnímánaðar en undirbúningsvinna hefur staðið yfir frá síðasta hausti. Sýning á þróun og úrvinnslu hugmynda með teikningum og líkönum verður hins vegar á Skriðuklaustri 29. maí til 25. júní en aðalsýningin, sem verður í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum, verður opnuð um miðjan júní.

Ljóst er að sýningin á eftir að vekja mikla athygli innanlands sem utan og draga að fjölda fólks enda um að ræða einstæðan atburð í austfirsku menningarlífi og reyndar stórviðburð í íslensku myndlistarlíf almennt.

Verk Þorvaldar Þorsteinssonar.

Um listamennina

ELIN WIKSTRÖM er prófessor í myndlist við Listaháskólann í Umeå í Svíþjóð. Undanfarin ár hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga víðsvegar um Evrópu og er með langtímaverk í vinnslu í Kambódíu. Við fyrstu sýn virðist listsköpun Elínar vera eins konar samfélagslegt prakkarastrik eða andfélagslegt athæfi í ætt við það þegar fólk krotar óviðeigandi skilaboð á veggi eða breytir merkingu opinberra skilta með því að stroka út stafi eða orð. Við nánari athugun kemur í ljós afar meðvituð samfélagsrýni sem vekur með áhorfendum, sem gjarnan sjá verk Elínar eins og af tilviljun, nýja vitund um samhengi hlutanna. Verk hennar varpa fram áleitnum spurningum um sjálfsvitund, frelsi og félagslegt taumhald.

ÞORVALDUR ÞORSTEINSSON er einn fjölhæfasti og afkastamesti listamaður Íslands. Hann virðist jafnvígur á myndlist sem ritlist og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á báðum sviðum. Þó að verksvið hans sé fjölþætt þá leyna höfundareinkennin sér ekki. Verk Þorvaldar byggja jafnan á afar næmri tilfinningu fyrir hegðun og breytni fólks og miða oft, með beinum eða óbeinum hætti, að virkri þátttöku áhorfandans. Í verkunum er jafnan að finna mikla sköpunargleði, útsjónarsemi og léttleika í bland við afhjúpandi og gagnrýna nálgun við mannlegt eðli og samfélag. Listsköpun hans í hvaða miðli sem er virðist byggja á þeirri bjargföstu trú að listin eigi raunverulegt og ómissandi erindi við samfélagið.

JASON RHOADES er í hópi eftirtektarverðustu myndlistarmanna af yngri kynlóðinni í Bandaríkjunum um þessar mundir. Verk hans hafa verið sýnd á helstu listasöfnum og stórsýningum víða um heim. Jason hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi fyrir efnismiklar innsetningar. Í innsetningar sínar notast Jason við alla hugsanlega miðla og blandar saman handgerðum verkum og aðkeyptum hlutum sem geta verið allt frá Ferrari bílum til niðurrifinna fatabúta sem seldir eru sem afþurrkunarklútar. Með kaupgleði sinni, söfnunaráráttu og athafnasemi glímir Jason Rhoades við yfirþyrmandi afl neyslusamfélagsins en taumlaus hrærigrautur hluta og efnis sem blasir við í verkum hans varpar um leið fram áleitnum spurningum um þanþol og möguleika listsköpunar í nútímasamfélagi.


Hluti af verkum Pauls McCarthys og Jasonar Rhoades.


PAUL McCARTHY er einn af þekktustu núlifandi myndlistarmönnum í Bandaríkjunum og einn áhrifamesti frumkvöðull sinnar kynslóðar í myndlist. Hann hefur verið mjög virkur í myndlistarheiminum í nær fjóra áratugi og unnið með gjörninga og innsetningar þar sem hann býr til einskonar söguþráð og notar búninga, grímur, leikbrúður og sérhannaða leikmynd en í stað gerviefni notast hann við hversdagslegar neysluvörur, s.s. mayones, tómatsósur og súkkulaði sem tákn fyrir líkamsvökva. Paul tekur fyrir mótsagnakennda og oft öfgafulla menningu Bandaríkjanna, nýtir sér draumkennt og veruleikafirrt uppeldisefni sjónvarpsins og teflir því gegn gráðugri, ofbeldisfullri og kynlífsþrunginni fjöldaafþreyingu fullorðinna.

KATRÍN SIGURÐARDÓTTIR hefur getið sér gott orð og vakið athygli fyrir listsköpun sína víða um heim. Hún skoðar í verkum sínum fjarlægð og minni og hvernig þessi fyrirbæri taka á sig form í byggingarlist, skipulagi og kortagerð. Oft er gerð verkanna æfing minnisins, nokkurskonar staðlæg upprifjun. Staðirnir sem skapaðir eru byggja gjarnan á raunverulegum stöðum, stöðum sem tákna heimili eða heimaland. Þeir eru upphafsstaðir, áfangastaðir og endastöðvar, jafn smáir í fjarlægð tíma og rúms og líkönin sem Katrín gerir af þeim.

HANNES LÁRUSSON hefur um árabil fjallað um samhengi samtímalistar og þjóðlegs menningararfs, hlutverk og stöðu listamannins í þjóðfélaginu og tengsl handverks og hugmyndafræði. Hann er einn helsti gjörningamaður þjóðarinnar, drifkraftur í sjónrænni umræðu og höfundur margbrotinna verka þar sem hugmyndafræði listarinnar mætir alþýðlegum sjónarmiðum og gildum hefðarinnar.

BJÖRN ROTH hefur verið í hringiðu samtímalistar undanfarna áratugi. Hann hefur fengist við flestar aðferðir í myndlist, allt frá kraftmiklum málverkum yfir í flókna gjörninga. Þá hefur Björn unnið mörg verk í samvinnu við föður sinn Dieter Roth. Mörg þessara samvinnuverka eru afar umfangsmikil og markbrotin og takast á við margar af grundvallarspurningum í allri listsköpun af einstakri einurð: óreiðu og reglu, þanþol hugmyndaflugsins, merkingu og markleysu, verðmæti og úrgang og takmarkanir miðlana og umgjarðar.

ATELIER VAN LIESHOUT (AVL) er alþjóðlegt fyrirtæki í Hollandi sem vinnur að myndlist, hönnun og byggingarlist. AVL var stofnað árið 1995 af listamanninum Joep van Lieshout sem þá hafði um árabil vakið athygli á vettvangi samtímalistar. Áhersla er lögð á að öll verk sem koma frá AVL séu unnin af hópi skapandi einstaklinga en eigi ekki rætur að rekja til hugmynda eins einstaklings. Verkin sem eru gerð undir merkjum fyrirtækisins eru einföld, traust og notadrjúg og spanna allt frá húsgögnum, skúlptúrum, innréttingum og hjólhýsum til flókinna nýbygginga. Tilraunir með ný efni, ekki síst plastefni, gegna mikilvægu hlutverki.



Stelkur flutti tónverk við opnunina

 

13. maí 2004

Vortónleikar á Skriðuklaustri 16. maí

Sunnudaginn 16. maí verða haldnir hinir árlegu vortónleikar á Skriðuklaustri. Að þessu sinni eru það Guðrún S. Birgisdóttir þverflautuleikari og Pétur Jónasson gítarleikari sem mæta til leiks. Þau munu spila verk fyrir flautu og gítar eftir íslensk og erlend tónskáld. Má þar nefna: Hjálmar H. Ragnarsson, Atla Heimi Sveinsson, Þorkel Sigurbjörnsson og Áskel Másson.

Tónleikarnir hefjast kl. 15.00 í stássstofunni á Skriðuklaustri og aðgangseyrir er kr. 1.000. Þess má geta að frá og með 15. maí er opið á Skriðuklaustri alla daga frá kl. 10-18.


10. maí 2004

Sýning um Sjón í gallerí Klaustri

Skáldið Sjón opnaði sýningu á verkum sínum og ýmsum munum tengdum þeim í gallerí Klaustri hinn 9. maí sl. Meðal þess sem getur að líta á sýningunni eru fágætar ljóðabækur höfundarins sem gaf út sína fyrstu fimmtán ára gamall árið 1978 og ýmislegt annað forvitnilegt eins og: leikbrúðu, miða að Óskarshátíð, handrit, ljósmyndir og hluti tengdra Medúsu-hreyfingunni. Sýningin er opin alla daga frá kl. 10-18 fram til 23. maí.

Við opnun sýningarinnar var Sjón með erindi þar sem hann fór yfir ferilinn, las úr verkum og sagði frá tilurð þeirra. Í lokin lék tríóið NasaSjón síðan tvö lög eftir Björk sem Sjón samdi texta við og Luftgítar var fluttur með sveiflu.

Svipmyndir af sýningunni:


SJÓN

6. maí 2004

Skáldið Sjón á Skriðuklaustri

Sunnudaginn 9. maí nk. verður opnuð lítil sýning um skáldið Sjón í gallerí Klaustri. Sama dag kl. 15 mun Sjón lesa úr eigin verkum og deila hugrenningum sínum með gestum. Aðgangseyrir er kr. 500 en frítt fyrir 16 ára og yngri. Að venju verður kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi að lokinni dagskrá. Sýning í gallerí Klaustri mun standa til 23. maí.

Rithöfundurinn Sigurjón Birgir Sigurðsson (Sjón) er fæddur í Reykjavík 27. ágúst 1962. Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók Sýnir aðeins 15 ára gamall og vakti hún athygli því að ljóðin voru súrrealísk. Árið 1979 kom út næsta ljóðabók Madonna og sama ár stofnaði Sjón listamannahópinn Medúsu sem hafði listsköpun í anda súrrealisma að leiðarljósi í útgáfustarfi og viðburðum. Fram til 1987 einbeitti Sjón sér að ljóðagerð en þá kom út fyrsta skáldsagan, Stálnótt. Skáldsögurnar eru nú orðnar fimm talsins en auk skáldsagna- og ljóðasmíða hefur Sjón fengist við ýmsa aðra listsköpun, eins og myndlist, leikritun og textagerð. Frægir eru textar hans við lög Bjarkar í myndinni Dancer in the Dark eftir Lars von Trier en fyrir þá var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna.

Sjón er um þessar mundir skáld mánaðarins í Þjóðmenningarhúsinu og á Skólavefnum þar sem hægt er að nálgast meiri upplýsingar um hann.


21. apríl 2004

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi óska öllum gleðilegs sumars og þakka fyrir góðar heimsóknir í vetur. Lomber verður spilaður föstudagskvöldið 23. apríl. Um helgina, þ.e. 24. og 25. apríl, verður opið frá kl. 13-17 báða daga. Eitt og annað getur að líta og fyrir þá sem enn hafa ekki náð að sjá þjóðminjasýninguna frá síðasta sumri er nú síðasta tækifærið áður en ný sýning tekur við. Opið verður um helgar fram til 15. maí en frá og með þeim degi verður opið kl. 10-18 alla daga fram á haust.

Framundan er síðan eitt og annað skemmtilegt. Að öllum líkindum verður opnuð lítil sýning með skáldi mánaðarins, Sjón, um miðjan maí og sunnudaginn 16. maí verða vortónleikar með Guðrúnu S. Birgisdóttur og Pétri Jónassyni. Þá verður 29. maí opnuð sýning á hugmyndavinnu listamannanna átta sem sýna í Fantasy Island stórsýningunni í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum í sumar. Er sýningin liður í Listahátíð í Reykjavík.


15. apríl 2004

Spennandi sumar framundan á Skriðuklaustri

Sumardagurinn fyrsti er í næstu viku og þá styttist í viðburðaríkt vor og spennandi sumar á Skriðuklaustri. Ætlunin er að hafa meira opið í maí en undanfarin ár og árlegir vortónleikar verða þá um miðjan mánuðinn.

Hinn 29. maí verður opnuð hugmyndasýning alþjóðlegu stórsýningarinnar Fantasy Island, en það er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar, Skógræktarinnar á Hallormstað og Hannesar Lárussonar myndlistarmanns sem jafnframt er sýningarstjóri. Auk þess eru Eiðar ehf samstarfsaðili og Hekla Dögg Jónsdóttir hefur umsjón með framkvæmd sýningarinnar sem er liður í Listahátíð í Reykjavík 2004. Meðal þeirra átta sem taka þátt í verkefninu eru heimsfrægir erlendir listamenn. Hugmyndasýningin verður uppi á Skriðuklaustri til 25. júní en þann 19. júní verður aðalsýningin opnuð í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum.

Undir mánaðamótin júní júlí tekur við ný sýning sem er samvinnuverkefni Gunnarsstofnunar og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Á henni verður teflt saman verkum og hugmyndum Gunnars Gunnarssonar og Svavars Guðnasonar og reynt að greina hvað gerði það að verkum að þessir tveir Austfirðingar "sigruðu heiminn".

Í ágústbyrjun tekur við sýning á grafíkverkum eftir fjölda íslenskra grafíklistamanna sem Ríkharður Valtingojer, Pjetur Stefánsson og fleiri félagar í Íslensk grafík standa að. Sýningin verður samtímis á Stöðvarfirði og Skriðuklaustri og stendur fram um miðjan september.

Að venju verður samtímalist í gallerí Klaustri og reiknað með sex sýningum þar frá vori til hausts. Þá verður framhaldið samstarfi Gunnarsstofnunar og Þjóðminjasafnsins, Í skuggsjá fortíðar, og nokkrir vel valdir munir úr eigu safnsins sýndir á Skriðuklaustri.

Á þessu yfirliti má sjá að enginn verður fyrir vonbrigðum með að kíkja í Klaustur næstu mánuðina. Sumaropnunin verður alla daga frá kl. 10-18 eins og verið hefur en einnig er reiknað með einhverri kvöldopnun í júlí og ágúst með viðburðum. Klausturkaffi mun að sjálfsögðu alltaf vera opið um leið og hús skáldsins og síðan taka á móti hópum utan þess tima og skal hér bent á matseðla veitingastofunar hér á heimasíðunni.


4. apríl 2004

Frumkvöðulsverðlaun til Skriðuklausturs

Á aðalfundi Markaðsstofu Austurlands á dögunum var að venju úthlutað viðurkenningunni Frumkvöðull í ferðamálum. Að þessu sinni kom hún í hlut Skriðuklausturs, eða hjónanna Elísabetar Þorsteinsdóttur og Skúla Björns Gunnarssonar. Gunnarsstofnun og Klausturkaffi þakka heiðurinn sem starfseminni er sýndur með þessari viðurkenningu.


5. mars 2004

Franzisca Gunnarsdóttir er látin

Látin er Franzisca Gunnarsdóttir, sálfræðingur og rithöfundur. Hún fæddist á Skriðuklaustri 9. júlí 1942, dóttir Gunnars listmálara og Signýjar Sveinsdóttur. Þar ólst hún upp til 8 ára aldurs er hún flutti til Reykjavíkur með afa sínum og ömmu, Gunnari skáldi og Franziscu konu hans. Franzisca Gunnarsdóttir átti afar stóran þátt í því að Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri varð að veruleika og einnig að Gunnarshús á Dyngjuvegi varð aðsetur Rithöfundasambands Íslands. Eftirlifandi sonur Franziscu er Gunnar Björn Gunnarsson viðskiptafræðingur.

Fréttir 2003

14. nóvember 2003

Kvöldvaka á Dögum myrkurs og Grýlugleði

Föstudagskvöldið 21. nóvember stendur Gunnarsstofnun fyrir kvöldvöku með blandaðri dagskrá að Skriðuklaustri. Kvöldvakan er liður í Dögum myrkurs á Austurlandi og þar koma meðal annars fram:

Hjalti Pálsson sagnaþulur úr Skagafirði sem mun fjalla um valinkunna hagyrðinga og láta vaða á súðum með vísukornum og sögum. Kristín Heiða Kristinsdóttir félagi í Drauga- og tröllaskoðunarfélagi Evrópu mun segja frá hinu nýopnaða draugasetri á Stokkseyri og rekja sögur af draugum.

Þá mun tónskörungurinn Muff Worden mæta með hörpu sína og slá á létta strengi. Kvöldvakan hefst kl. 20.00 og aðgangseyrir er kr. 1.300 (kaffi og meðlæti innifalið).

Grýlugleði verður að venju haldin fyrsta sunnudag í aðventu sem nú ber upp á 30. nóvember. Að þessu sinni verður hún kl. 15.00 og þar verður m.a. flutt Grýlusaga Gunnars Karlssonar í máli, tónum og myndum. Þá munu börn úr 4. og 5. bekk Fellaskóla flytja leikbrúðuþætti um Grýlu gömlu. Hvort Grýla og hyski hennar lætur sjá sig er óvíst þar sem álfunum í nágrenni Skriðuklausturs hefur fækkað ískyggilega síðustu ár. Aðgangseyrir er kr. 500 fyrir fullorðna en frítt fyrir börnin. Klausturkaffi verður með jólakökuhlaðborð á eftir dagskránni.


2. október 2003

Ráðstefna norrænna bókmenntasafna

Dagana 2.-5. október nk. verður í fyrsta sinn haldin hér á landi ráðstefna norræna bókmenntasafna og -stofnana, þ.e. persónusafna sem láta sig varða rithöfunda og tónskáld. Ráðstefnan fer fram í Reykjavík, Reykholti og á Skriðuklaustri og Egilsstöðum. Tema ráðstefnunnar er bókmenntir og þjóðerniskennd og verður einn fyrirlesari frá hverju landi með erindi undir þeirri yfirskrift.

Ráðstefnan hefst í Norræna húsinu með setningarávarpi forseta Íslands, hr. Ólafs Ragnars Grímssonar kl. 9.30 föstudaginn 3. október. Fyrst á dagskrá er erindi Einars Más Guðmundssonar um "Mit museum" en síðan taka við praktísk, stutt erindi frá safnafólki við söfn Griegs, Ibsens, Strindbergs, Björnsons, H.C. Andersens, Runebergs og Gunnars Gunnarssonar. Eftir hádegið eru síðan pallborðsumræður um bókmenntasöfn, hvers vegna þau þurfa að vera til og hvernig þau eigi að vera. Þessi dagskrá í Norræna húsinu er opið málþing innan ráðstefnunnar.

Á föstudeginum verður síðan Snorrastofa í Reykholti heimsótt. Á laugardeginum fara ráðstefnugestir í Þjóðmenningarhúsið eftir hádegi en síðan verður haldið austur á land þar sem hátíðarkvöldverður verður snæddur að Skriðuklaustri. Lokadagur ráðstefnunnar verður á Hótel Héraði á Egilsstöðum þar sem síðustu fyrirlestrar og umræður fara fram.

Það eru Gunnarsstofnun og Snorrastofa ásamt ráðstefnufyrirtækinu Staði og stund sem annast undirbúning og framkvæmd ráðstefnunnar en hana sækja um 40 manns.

Heimasíða ráðstefnunnar er www.skriduklaustur.is/konferanse


29. september 2003

Haustið komið á Skriðuklaustri

Helgaropnun haustsins er nú lokið á Skriðuklaustri og teknar verða niður sýningarnar Álfar og huldar vættir og Í skuggsjá fortíðar. Í vetur má búast við sýningum og viðburðum eins og undanfarna vetur. Dagar myrkurs verða á sínum stað í nóvember og sömuleiðis Grýlugleði. Þá er fyrsta lomberkvöld vetrarins nýafstaðið og reiknað er með að spila einu sinni til tvisvar í mánuði. Að sjálfsögðu eru hópar alltaf velkomnir í heimsókn og einnig geta einstaklingar hringt á undan sér og kannað hvort möguleiki sé að að fá að líta inn. Sömu sögu er að segja um þjónustu Klausturkaffis.


26. ágúst 2003

Ormsteitið tókst vel í Fljótsdal

Fljótsdælingar blótuðu orminn sl. helgi með töðugjöldum á Skriðuklaustri á laugardagskvöldið og síðan veiðikeppni, íþróttamóti og fleiru skemmtilegu á sunnudeginum. Góð þátttaka var í öllu og sýndu menn og konur, ungir sem aldnir, ótrúleg tilþrif í hinum ýmsu keppnisgreinum sem fram fóru á flötinni við Gunnarshús.


Dagrún Drótt Valgarðsdóttir vann sigur í veiðikeppni í Kelduá


Siggi Max með tilþrif í staurakasti.


 


Skrúður. Ljósm. Sigurður Stefán Jónsson. Myndin er á sýningu hans í gallerí Klaustri.

22. ágúst 2003

Sumarlok á Skriðuklaustri
- opið kl. 10-18 fram til 7. september

Fljótsdalurinn hefur verið fjölsóttur í sumar. Áætla má að 20-30 þúsund manns hafi gengið upp að Hengifossi sem telst vera þriðji hæsti foss landsins samkvæmt mælingum síðasta sumars. Margir hafa lagt leið sína í kynninarmiðstöð Landsvirkjunar í Végarði og um átta þúsund gestir hafa komið í Skriðuklaustur í sumar þar sem nú styttist í að hefðbundinni sumaropnun ljúki.

Framundan er stór helgi í Fljótsdalnum en laugardagskvöldið 23. ágúst verða töðugjöld á Skriðuklaustri með steikarhlaðborði og Kaleihd bandið frá Seyðisfirði leikur á stéttinni ef veður leyfir. Sunnudagurinn er síðan

Fljótsdalsdagur í Ormsteiti og hefst kl. hálfellefu við Víðivallaskóg þar sem mæting er í gönguferð á Grýluslóðir og veiðikeppni í Keldá. Um kl. eitt verður síðan pylsugrill í veislurjóðri Víðivallabænda og kl. þrjú hefst óhefðbundið íþróttamót á Skriðuklaustri þar sem keppt verður í sauðadrætti eða sauðburði, staurakasti, pokahlaupi, steinatökum og fleiri greinum. Að sjálfsögðu verður opið í Végarði á sunnudaginn og kaffihlaðborð og sýningar í húsi skáldsins. Sunnudagurinn er síðasti sýningardagur á austfirskum landslagsljósmyndum Sigurðar Stefáns Jónssonar en á mánudaginn verður opnuð sýningin Aðflutt landslag sem eru ljósmyndir Péturs Thomsen við ljóð Sveins Yngva Egilssonar.


2. ágúst 2003

Álfar og huldar vættir
Huldufólk í íslensku þjóðsögunum

Í gær, 1. ágúst, var opnuð sýningin Álfar og huldar vættir - huldufólk í íslensku þjóðsögunum. Sýningin er hluti af þjóðfræðaverkefni sem unnið er með tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Menningarráðs Austurlands. Að verkefninu unnu annars vegar Kristín Birna Kristjánsdóttir þjóðfræðinemi og hins vegar Guðjón Bragi Stefánsson nemi í grafískri hönnun við LHÍ. Verkefnið fólst í að kanna heim huldufólks í þjóðsögum og safna þeim sögum sem teljast austfirskar en í tengslum við sýninguna kemur út bókin Austfirskar huldufólkssögur sem er annað bindið í flokki Austfirskra safnrita sem Gunnarsstofnun gefur út. Stofnunin fékk styrk frá Menningarsjóði til útgáfunnar. Einnig kom út bæklingur um álfaslóð í Fljótsdal í tengslum við sýninguna.

Á sýningunni á Skriðuklaustri eru tekin fyrir ákveðin minni þjóðsagnanna og reynt að virkja ímyndunaraflið hjá gestum. Þá eru vaktar upp spurningar um tilvist huldufólks í dag.

Sýningin er opin alla daga frá kl. 10-18 til 7. september.


31. júlí 2003

Gallerí Klaustur
Hulinsheimar Sólrúnar Friðriksdóttur

Miðvikudagskvöldið 30. júlí var opnuð í Gallerí Klaustri sýning á verkum eftir Sólrúnu Friðriksdóttur frá Stöðvarfirði. Á sýningunni eru ellefu verk unnin með blandaðri tækni og eitt textílverk. Sýningin er opin á sama tíma og hús skáldsins frá kl. 10-18 alla daga og stendur til 14. ágúst.


9. júlí 2003

Gallerí Klaustur
Innsetning Ingu Jónsdóttur um orku og tími, álfar

Í kvöld var opnuð ný sýning í gallerí Klaustri. Fram til 28. júlí verður þar innsetning Ingu Jónsdóttur um orku og tíma. Í sýningarskrá stendur:

"Listin er hluti daglega lífsins líkt og ryk, sem skráir tímann.
Ryk er á sveimi, litbrigði þess eru mörg og svifhraði þess er misjafn. Það er afleiðing sköpunuarafla og þess að við erum til. Rykið sest en verður misþykkt. Stundum færist það eða undirstaða þess úr stað og til verður ný sköpun, lágmynd eða riss; verndandi eða kæfandi tímaeining. Tímaeiningar gærdagsins, tímaeiningar dagsins í dag og tímaeiningar dagsins á morgun.

Hinar ósjálfráðu og hinar sjálfráðu, hinar vitsmunalegu og hinar tilfinningalegu, hinar ávölu og hinar köntuðu. Hið mjúka hjarta, tákn tilfinninganna og hörð burðargrind raflínanna kallast á yfir tólgina sem var orkugjafi gærdagsins og er ógnvaldur æðakerfisins í dag. Rykið er verðlaust en tíminn er dýrkeyptur."

Inga Jónsdóttir lauk námi frá Myndlista- og handíðarskólanum og listaskóla í Þýskalandi fyrir rúmum áratug. Síðan þá hefur hún haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Hún er nú búsett á Höfn í Hornafirði.


1. júlí 2003

Á döfinni
Sauðmaður, dagbækur, orka, tími, álfar og huldufólk

Það er margt að skoða og sjá á Skriðuklaustri um þessar mundir. Tvær stórar sýningar standa yfir með Austfirsku landslagi og völdum munum frá Þjóðminjasafninu (sjá hér að neðan). Í gallerí Klaustri er síðasta vikan af vídeóinnsetningu þýska listamannsins Maximilian Moll sem hefur yfirskriftin Sauður undir úlfsfeldi. Á miðvikudagskvöldið 2. júlí kl. 20.30 heldur Davíð Ólafsson sagnfræðingur erindi um dagbækur og dagbókarritun og rýnir m.a. í dagbækur austfirskrar alþýðu. Á sama tíma miðvikudagskvöldið 9. júlí verður svo opnuð sýning Ingu Jónsdóttur í gallerí Klaustri sem er innsetning um orku og tíma. Fornleifauppgröfturinn er hafinn að nýju og leiðsögn veitt við rústirnar á Kirkjutúni.

Rétt er að benda á að alla miðvikudaga í júlí verður opið til kl. 22 en annars er opnunartíminn 10-18. Klausturkaffi býður nú upp á hádegisverðarhlaðborð alla daga auk kaffihlaðborðsins hefðbundna og á miðvikudögum verður kvöldverðarhlaðborð.


Christian Blache - Ved Eskifjördur, 1881.

7. júní 2003

Tvær sýningar opnaðar:
Austfirskt landslag og álfkonudúkurinn

Föstudagskvöldið 6. júní voru opnaðar tvær sýningar á Skriðuklaustri. Annars vegar sumarsýningin Austfirskt landslag í íslenskri myndlist sem er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og er styrkt af Menningarráði Austurlands. Á sýningunni eru olíumálverk og vatnslitamyndir eftir 13 listamenn, þ.á m. Þórarin B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval, Finn Jónsson, Svein Þórarinsson, Eirík Smith, Tryggva Ólafsson og Georg Guðna. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur valdi verkin á sýninguna og ritaði í sýningarskrá.


Álfkonudúkurinn frá Bustarfelli. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.

Hin sýningin sem var opnuð er Í skuggsjá fortíðar, sýning á völdum gripum frá Þjóðminjasafni Íslands. Á henni er til sýnis kinga frá Skriðuklaustri, bollasteinn frá Gautlöndum og hurðarhringur frá Stafafelli. Hæst ber þó altarisklæði frá Hofi í Vopnafirði, betur þekkt sem álfkonudúkurinn frá Bustarfelli. Sagan segir að sýslumannskonu á Bustarfelli hafi verið gefinn dúkurinn af álfkonu sem hún hjálpaði í barnsnauð.
Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Landsvirkjunar og Gunnarsstofnunar.

Þessar sýningar eru báðar opnar á opnunartíma Skriðuklausturs sem er kl. 10-18 alla daga í allt sumar.


30. maí 2003

Marietta sýnir í gallerí Klaustri

Dagana 29. maí til 14. júní stendur yfir sýning í Gallerí Klaustri á verkum eftir listakonuna Mariettu Maissen frá Höskuldsstöðum í Breiðdal. Á sýningunni eru grafíkverk, vatnslitamyndir og verk unnin með blandaðri tækni.


Fólkið í dalnum e. Soffíu Sæm.

13. maí 2003

Opnunartími í maí

Ákveðið hefur verið að fram til 31. maí verði opnunartími á Skriðuklaustri sem hér segir: Opið verður frá kl. 13 - 17 á fimmtudögum, föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Sýning stendur yfir á verkum í eigu Gunnarsstofnunar eftir ýmsa listamenn sem dvalið hafa í Klaustrinu eða sýnt í gallerí Klaustri. Þá er gaman fyrir gesti að skoða hinn umtalaða kakalofn sem nú er nýendurgerður í skrifstofu skáldsins og njóta leiðsagnar um húsið. Kaffi og kökur hjá Klausturkaffi. Rétt er að minna á að hópar geta alltaf haft samband vegna heimsókna eða kaupa á veitingum utan auglýsts opnunartíma.


23. apríl 2003

Kvöldvaka á föstudaginn 25. apríl

Í tilefni af Degi bókarinnar, sem er í dag 23. apríl, verður kvöldvaka föstudaginn 25. apríl kl. 20.30 með fjölbreyttri dagskrá (ath. einum degi fyrr en auglýst er í Dagskránni). Fjallað verður um endurgerð kakalofnsins, lesið úr bókum, flutt ljóð og leikin tónlist, svo nokkuð sé nefnt. Meðal flytjenda eru: Charles Ross, Sigurður Ingólfsson, Hildigunnur Valdemarsdóttir og Sveinn Snorri Sveinsson. Aðgangur er kr. 1500 fyrir fullorðna. Kökur og kaffi innifalið. (Klausturreglufélagar kr. 1000).


15. apríl 2003

Kakalofn og Klausturlist
Opið laugardaginn fyrir páska - kvöldvaka 25. apríl

Það verður opið á Skriðuklaustri laugard. 19. apríl kl. 13-18. Sýning á verkum í eigu staðarins og kveikt upp í 150 ára gömlum postulínsarni í skrifstofu skáldsins. Kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi. Aðgangseyrir er kr. 400, frítt fyrir 16 ára og yngri og Klausturreglufélaga.

Í tilefni af Degi bókarinnar, sem er 23. apríl, verður kvöldvaka föstudaginn 25. apríl kl. 20.30 með fjölbreyttri dagskrá (ath. einum degi fyrr en auglýst er í Dagskránni). Fjallað verður um endurgerð kakalofnsins, lesið úr bókum, flutt ljóð og leikin tónlist, svo nokkuð sé nefnt. Aðgangur er kr. 1500 fyrir fullorðna. Kökur og kaffi innifalið. (Klausturreglufélagar kr. 1000).


3. apríl 2003

Úthlutun menningarstyrkja á Austurlandi
Kveikt upp í kakkelofninum

Í dag 3. apríl fór fram á Skriðuklaustri úthlutun Menningarráðs Austurlands á 21 milljón króna til 83 verkefna víðs vegar um fjórðunginn. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra afhenti fulltrúum þeirra 15 verkefna sem hlutu styrki að upphæð 400 þús. kr. staðfestingu þess efnis og flutt voru tónlistaratriði og ávörp. Hægt er að lesa nánar um þetta á heimasíðu Menningarráðsins.

Einn liður í dagskránni var að kveikja í formlega upp í nýendurgerðum 150 ára gömlum postulínsofni í skrifstofu Gunnars skálds. Menntamálaráðherra kveikti upp með aðstoð sonardóttur skáldsins, Franziscu Gunnarsdóttur. Sjá nánar um kakkelofninn hér neðar á síðunni.


Kakkelofn og Klausturlist
– laugardaginn 5. apríl kl. 13-16

Laugardaginn 5. apríl gefst gestum kostur á að skoða nýuppgerðan 150 ára gamlan kakkelofn sem kominn er á sinn gamla stað í skrifstofu skáldsins. Einnig prýða listaverk úr eigu stofnunarinnar stássstofu og gallerí.

Klausturkaffi verður með lítið kaffihlaðborð á sama tíma.

Aðgangur ókeypis í tilefni af endurkomu kakkelofnsins.


Frá uppsetningu kakkelofnsins sem norski sérfræðingurinn William Jansen annaðist með aðstoð Benedikts Jónassonar múrara.

Kakkelofninn á Skriðuklaustri

Gunnar Gunnarsson skáld keypti kakkelofninn til þess að setja hann upp í húsi sínu að Skriðuklaustri. Ofninn er sænskur að uppruna og frá 1820-1850. Honum var komið fyrir í skrifstofu skáldsins þegar húsið var byggt 1939.

Árið 1962 var ofninn rifinn og postulínsflísarnar utan af honum settar upp á háaloft til geymslu. Þar hafa þær legið síðustu 40 ár enda á færi fárra manna í heiminum að endurgera gamla postulínsofna.

Árið 2000 komst Gunnarsstofnun í samband við Norðmanninn William Jansen fyrir tilhlutan Þóru Kristjánsdóttur listfræðings. William þessi er nefndur "faðir kakkelofnsins" í Noregi þar sem hann endurvakti þessa gömlu hefð þar í landi fyrir um 20 árum. Það var síðan í febrúar á þessu ári sem látið var til skara skríða og William kom til að endurgera ofninn á sínum stað á Skriðuklaustri. Eimskip flutti frítt frá Noregi múrsteina í ofninn sem þurfti til að byggja hann upp að nýju og menntamálaráðuneytið styrkti framkvæmdina.

Á nokkrum dögum var ofninn endurreistur í skrifstofu skáldsins og getur nú þjónað þar sínum gamla tilgangi auk þess að vera gestur staðarins mikið augnayndi. Ofninn mun vera einn af sárafáum postulínsofnum hér á landi og eru þeir sem vita um slíka ofna vinsamlega beðnir um að hafa samband við forstöðumann Gunnarsstofnunar.


Gamlar ljósmyndir og bollukaffi
- sunnudaginn 2. mars

Ljósmyndasafn Austurlands verður með ljósmyndasýningu á Skriðuklaustri sunnudaginn 2. mars kl. 14.30. Sýndar verða gamlar myndir frá atvinnuháttum og mannlífi á Austurlandi fyrr á tíð. Ennfremur myndir af Fljótsdælingum og fleiri Héraðsbúum frá ýmsum tíma. Myndirnar eru skannaðar í tölvu og sýndar með myndvarpa á tjaldi. Þá verður starfsemi Héraðsskjalasafns Austfirðinga kynnt í stuttu máli.

Sýningin er styrkt af Menningarráði Austurlands og er aðgangur ókeypis.

Klausturkaffi verður með bollukaffi í tengslum við sýninguna. Jafnframt er fólki heimilt að koma í kaffi án þess að fylgjast með ljósmyndasýningunni.



Gamalt brauðmót sem varðveitt er á Minjasafni Austurlands.

28. janúar 2003

Þjóðlegt handverk

Guðrún H. Bjarnadóttir (Hadda) listakona frá Akureyri mun halda fyrirlestur um þjóðlegt handverk á Skriðuklaustri laugardaginn 8. febrúar kl. 13.30-18.00. Sýndar verða myndir, sýnishorn og efnt til umræðna í lokin. Þátttökugjald er kr. 1.200 og er kaffi innifalið í því.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur