Fréttir 2000

6. desember 2000

Stórkostlegur Sonnettusöngur
- metaðsókn á Grýlugleði

Óhætt er að segja að skammdegisviðburðir að Skriðuklaustri hafi tekist vel. Sem áður greinir var góð aðsókn á kvöldvöku á Degi myrkursins. Sömu sögu er að segja um Sonnettusönginn sunnudaginn 26. nóvember.

Um 25 gestir nutu þar stórkostlegra tónsmíða Keiths Reed við fimm af ástarsonnettum Gunnars Gunnarssonar úr Sonnettusveigi, sem hann orti til Franziscu heitkonu sinnar 1912. Auk Keiths fluttu lögin nokkrir nemenda hans og tónlistarfólk á Héraði.

 

 

Grýlugleði var haldinn sunnudaginn 3. desember og varð húsfyllir, svo vægt sé til orða tekið. Á hana mættu 120-130 manns af Héraði og neðan af Fjörðum. Fjöldi barna var mikill og skemmtu þau sér konunglega eins og hinir fullorðnu. Sagnaálfurinn Dvalinn stýrði gleðinni og sagði frá kynnum sínum og álfanna af Grýlu. Skógartríóið söng og lék Grýlukvæði. Krakkar úr Hallormsstaðaskóla lásu veislukvæði um Grýlu og sviðsettu það. Því miður komu þau Grýla og Leppalúði þegar gleðin stóð sem hæst og höfðu Dvalin sagnaálf á brott með sér. Upp úr því lauk skemmtuninni en við tók kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi.

 

Miðað við frábæra aðsókn og góða stemmningu er ráðgert að gera Grýlugleði að árvissum viðburði að Skriðuklaustri.

 


21. nóvember 2000

Góð aðsókn á kvöldvöku - Sonnettusöngur á sunnudag

Góð aðsókn var á kvöldvökuna á Degi myrkursins. Um 30 gestir hlýddu á dagskrá sem stóð í hátt í tvær klukkustundir með kaffipásum. Dagskráin fór fram við arineld í stásstofu Gunnarshúss og nutu menn þar góðra veitinga og skemmtilegrar dagskrár.

 

Næsti viðburður er frumflutningur á lögum Keiths Reed við nokkrar af sonnettum Gunnars Gunnarssonar úr Sonnettu sveigi sem skáldið orti til konu sinnar Franziscu. Þeir tónleikar verða sunnudaginn 26. nóvember kl. 15.00 og er nauðsynlegt að panta sér miða til að tryggja sér sæti þar sem sætaframboð er takmarkað.


17. nóvember 2000

Kvöldvaka myrkursins

KVÖLDVAKA helguð Degi íslenskrar tungu og Degi myrkursins. Fjölbreytt dagskrá með upplestri, leiklestri, erindum og tónlist. Skemmtilegt fyrir alla nema e.t.v. þau allra yngstu. Kaffiveitingar á boðstólum. 


23. október 2000

Nytjalist úr náttúrunni - Frábær aðsókn

2000nytjaskilti

Nytjalistarsýning Handverks og hönnunar, sem stóð frá 13. til 22. október, hlaut frábærar viðtökur að Skriðuklaustri. Um 500 manns lögðu leið sína í Fljótsdalinn til að sjá sýninguna. Flestir nýttu sér einnig kaffihlaðborðið hjá Klausturkaffi og áttu góðan dag að Skriðuklaustri. Ánægjulegt var að skólahópar úr grunnskólum og framhaldsskólum komu einnig og fræddust í leiðinni um Gunnar skáld og Skriðuklaustur.

 


10. október 2000

Nytjalist úr náttúrunni 13. - 22. október

Nytjalist úr náttúrunni er heiti sýningar sem er framlag HANDVERKS OG HÖNNUNAR til dagskrár Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000. Sýningin var fyrst sett upp í Ráðhúsi Reykjavíkur í lok ágúst en nú er hún komin á ferð um landið. Fyrst verður hún sett upp hjá Gunnarsstofnun að Skriðuklaustri.

 


4. október 2000

Velheppnaður menningarminjadagur

2000heritage2

Menningarminjadagur Evrópu var haldinn hátíðlegur að Skriðuklaustri í Fljótsdal laugardaginn 30. september. Dagskráin var helguð klausturminjum á staðnum en þar var starfrækt munkaklaustur af Ágústínusarreglu frá 1493 til 1552. Var það eina klaustrið á Austurlandi í kaþólskum sið. Á þriðja tug gesta kom og tók þátt í fjögurra tíma langri dagskrá sem var bæði utandyra og innan.


27. september 2000

Vetrardagskrá í mótun

Vetrardagskrá Gunnarsstofnunar að Skriðuklaustri er í mótun. Þó er ljóst að 30. september nk. verður dagskrá í tengslum við Menningarminjadag Evrópu þar sem farið verður yfir gerðar og fyrirhugaðar fornleifarannsóknir á Skriðuklaustri. (Sjá nánar). Jafnframt er búið að ákveða að 14.-22. október verði að Skriðuklaustri opin sýning á vegum Handverks og hönnunar á nytjalist sem unnin var út frá þemanu VATN. Þá mun Dagur íslenskrar tungu verða haldinn hátíðlegur með dagskrá 16. nóvember og verið er að leggja drög að kvöldvökum og lomber-námskeiði.


20. september 2000

Sumaropnun lokið

Sumartíma á Skriðuklaustri er nú lokið. Húsið er ekki lengur opið alla daga frá 11-17. Engu að síður geta hópar haft samband við forstöðumann í síma 471-2990 og fengið leiðsögn um húsið. Sömu sögu er að segja um veitingastofuna Klausturkaffi. Hún er býður þjónustu við hópa, hvort sem er kaffiveitingar eða mat. Hægt er að ná í veitingaraðilann í heimasíma 471-2909 eða 471-2992.

 

Þá er rétt að minna á að virðuleg fundarstofa er að Skriðuklaustri sem hentar vel fyrir smærri fundi, allt að 10 manns. Gunnarsstofnun leigir út þessa aðstöðu og síðan geta menn keypt sér veitingar hjá Klausturkaffi. Áhugasamir hafi samband við forstöðumann stofnunarinnar.


20. júní 2000

Fyrsti almenni opnunardagur

Skriðuklaustur opnaði í morgun kl. 11.00 fyrir gestum. Í sumar verður opið frá 11.00 til 17.00 alla daga nema mánudaga allt fram í september. Í húsinu eru nú þegar komnar upp tvær sýningar, annars vegar á málverkum og teikningum eftir Gunnar Gunnarsson yngri listmálara og hins vegar grunnsýning á veggspjöldum um Gunnar Gunnarsson eldri skáld. Þá eru komin upprunaleg húsgögn úr eigu Gunnars og Franziscu konu hans sem voru á Skriðuklaustri á sínum tíma.

 

Veitingastofa sem býður léttan hádegisverð og kaffiveitingar, auk sérþjónustu ef eftir er óskað, er starfrækt í húsinu og opin á sama tíma, þ.e. 11-17. Sími veitingastofu er 471-2992.


18. júní 2000

Opnunarhátíð að Skriðuklaustri

Í dag hóf Björn Bjarnason formlega starfsemi Gunnarsstofnunar að Skriðuklaustri með því að klippa á borða sem opnaði leið inn í hús skáldsins. Þar með er skipulögð starfsemi stofnunarinnar á Skriðuklaustri hafin með sýningum á listaverkum eftir Gunnar Gunnarsson yngri listmálara og grunnsýningu um Gunnar skáld. Einnig hefur tekið til starfa í húsinu veitingastofa þar sem hægt er að fá léttan hádegisverð og kaffiveitingar.

 

Við opnunina sagði menntamálaráðherra að Gunnarsstofnun væri þungamiðja í menningarstarfsemi á Austurlandi um þessar mundir. Hann lýsti yfir ánægju sinni með hversu hratt og örugglega hefði gengið að koma starfsemi af stað á Skriðuklaustri enda væri kominn tími til eftir áratugalangar þrautir margra forvera sinna og annarra ráðamanna.

 

Á annað hundrað manns mættu til opnunarhátíðarinnar og ríkti almenn ánægja með þær endurbætur sem gerðar hafa verið á Gunnarshúsi og einnig með þær sýningar sem settar hafa verið upp.


15. júní 2000

Landsvirkjun bakhjarl Skriðuklausturs númer eitt

2000landsvirkjun

Samkomulag það sem stjórnendur Stofnunar Gunnars Gunnarssonar og Landsvirkjunar skrifa undir hér í dag, 15. júní, felur í sér að Landsvirkjun leggur til á næstu fimm árum 15 milljónir króna í skipulag og framkvæmdir á lóð þeirri sem Gunnarsstofnun hefur til umráða að Skriðuklaustri. Í staðinn fær Landsvirkjun afdrep undir sýningu á raforkumálum í einu herbergi Gunnarshúss og einnig utandyra.

Markmiðið með samkomulaginu er að rækta skipulega upp 15 ha svæði sem myndar veglega umgjörð um hús Gunnars Gunnarssonar og hefur útivistar- og fræðslugildi fyrir allan almenning. Við hönnun svæðisins verður tekið tillit til allra sögu- og náttúruminja sem á því finnast og reynt að nýta landslagið eins og það er til að skapa fallegt útivistarsvæði.

Með undirritun þessa samkomulags verður Landsvirkjun Bakhjarl Skriðuklausturs númer eitt. Það er von stjórnenda Gunnarsstofnunar að fleiri aðilar fylgi í kjölfarið og styðji uppbyggingu menningar-, sögu- og fræðaseturs í Fljótsdal af jafnmiklum myndugleik og Landsvirkjun sýnir með framlagi sínu.

Landsvirkjun leggur strax fram 4 m.kr. til verkefnisins og mun skipulagning svæðisins á Skriðuklaustri hefjast hið fyrsta. Ætlunin er að hefja lóðarframkvæmdir einnig á þessu ári. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á þessum 15 ha að mestu leyti fyrir árið 2005.


29. mars 2000

15 milljónir úr Endurbótasjóði menningarbygginga
– Stefnt að opnun um miðjan júní

Endurbótasjóður menningarbygginga hefur samþykkt að veita Gunnarsstofnun allt að 15 milljónir króna til nauðsynlegra endurbóta á húsum að Skriðuklaustri í Fljótsdal á þessu ári. Framkvæmdir eru hafnar í húsi Gunnars Gunnarssonar sem miða að því að búa húsið undir nýtt hlutverk. Ætlunin er að þeim verði lokið innan tveggja mánaða, enda stefnt að því að hefja starfsemi þar undir merkjum Gunnarsstofnunar um miðjan júní og opna þá húsið fyrir almenningi. Einnig verður ráðist í endurbætur á fyrirhuguðum bústað forstöðumanns á þessu ári.

Framkvæmdir vegna nýrrar starfsemi felast fyrst og fremst í nauðsynlegum endurbótum eins og endurnýjun lagna, fjölgun snyrtinga, uppsetningu brunaviðvörunarkerfis og aðstöðu til veitingasölu. Með þeim eiga öll herbergi hússins, sem eru um 30 talsins, að geta nýst undir starfsemi Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri.

Gunnarsstofnun hefur nú verið mörkuð stefna til næstu ára. Samkvæmt henni verður Skriðuklaustur byggt upp sem menningar-, sögu- og fræðasetur með starfsemi allan ársins hring. Að sumri verður áherslan lögð á að taka á móti ferðamönnum og margvíslegar sýningar settar upp í húsi skáldsins. Að vetri mun starfsemin á Skriðuklaustri snúast meira um að rækta menningu þjóðar og sögu með samstarfi við skóla og aðra aðila. Þá verður áfram rekin gestaíbúð fyrir lista- og fræðimenn í húsinu auk þess sem gert er ráð fyrir að koma upp frekari aðstöðu fyrir fræðaiðkendur.

 


10. janúar 2000

Menntamálaráðherra hefur skipað nýja stjórn Gunnarsstofnunar. Í henni eiga sæti: Helgi Gíslason stjórnarformaður, skipaður án tilnefningar, Hrafnkell A. Jónsson, tilnefndur af Safnastofnun Austurlands, Sigríður Sigmundsdóttir, tilnefnd af Atvinnuþróunarfélagi Austurlands, Stefán Snæbjörnsson, án tilnefningar, og Gunnar Björn Gunnarsson, án tilnefningar.

 


1. janúar 2000

Reglum Gunnarsstofnunar hefur verið breytt lítillega. Bætt hefur verið við tveimur stjórnarmönnum til viðbótar við þá þrjá sem fyrir voru. Eru þessir tveir stjórnarmenn skipaðir án tilnefningar.

 


5. okt. 1999

Hinn 1. október sl. tók Skúli Björn Gunnarsson við starfi forstöðumanns Gunnarsstofnunar. Hann mun fyrst um sinn hafa aðsetur að Lagarfelli 8 í Fellabæ. Síminn hjá honum er 471-2910.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur