Fréttir 2007
18. desember 2007
Áramótin nálgast
Lestur Þórarins Eldjárn á Aðventu sunnudaginn 16. desember var síðasti viðburður ársins hjá Gunnarsstofnun þetta árið. Stemmingin sem skapast á skrifstofu skáldsins með snarkið í eldinu í kakalofninum sem undirleik við lesturinn var óviðjafnanleg og ljóst að hér er komin á hefð sem haldið verður um ókomna tíð.
Jólahátíðin og áramótin nálgast og ró færist yfir á Klaustri. Nýju ári fylgja breytingar á rekstrarformi stofnunarinnar en þann 1. janúar tekur formlega gildi breytingin yfir í sjálfseignarstofnun. Skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina var undirrituð 18. maí sl. vor. Breytingin verður lítt sýnileg og starfsemin á Skriðuklaustri verður með svipuðu sniði árið 2008 og síðustu ár. En stofnunin verður hér eftir að standa á eigin fótum þó að áfram njóti hún framlaga frá ríkinu til starfsemi sinnar.
Gunnarsstofnun óskar öllum þeim sem heimsótt hafa Skriðuklaustur eða haft samskipti við stofnunina á árinu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Bestu jólakveðjur fylgja einnig til þeim fjölmörgu sem nutu veitinga hjá Klausturkaffi.
10. desember 2007
Þórarinn Eldjárn les Aðventu
Næstkomandi sunnudag, 16. desember mun Þórarinn Eldjárn rithöfundur lesa Aðventu í skrifstofu skáldsins. Hann mun lesa þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á sögunni sem kom út 1939. Lesturinn hefst kl. 13.30 og stendur í um þrjár klukkustundir með pásum og góðu kaffihléi. Boðið verður upp á kaffi og jólasmákökur. Hægt er að koma inn í lesturinn þegar mönnum hentar.
Þetta er í þriðja sinn sem Gunnarsstofnun stendur fyrir upplestri á Aðventu á þriðja sunnudegi í aðventu. Áður hafa lesið leikkonurnar Vala Þórsdóttir og Birgitta Birgisdóttir. Allir eru velkomnir að njóta kyrrðarinnar á Klaustri og hvíla sig á jólaundirbúningnum.
5. desember 2007
Grýlugleði vel heppnuð og góðar verðlaunasögur
Grýlugleðin heppnaðist vel að venju með tilheyrandi söng og gleði þó að hjónakornin úr Brandsöxlinni hafi reynt að spilla fyrir eins og stundum áður. Gaulálfarnir mættu og sungu með sínu nefi og sagnaálfurinn birtist með ýmis brögð í pokahorninu til að snúa á Grýlu og Leppalúða.
Tilkynnt var um úrslit í Grýlusagnasamkeppni sem Gunnarsstofnun efndi til meðal eldri bekkja grunnskóla. Að þessu sinni átti að skrifa um Grýlu í dag. Fjöldi sagna barst en úrslit urðu þessi:
1. sæti
Erla Guðný Pálsdóttir
8. bekkur, Fellaskóli
2. sæti
Steinunn Rut Friðriksdóttir
9. bekkur E - Egilsstaðaskóli
3. sæti
Vigdís Diljá Óskarsdóttir
8. bekkur Fellaskóli
Verðlaunasögurnar er hægt að nálgast hér.
26. nóvember 2007
Bókavaka og Grýlugleði
Næstkomandi miðvikudagskvöld rennir rithöfundalestin 2007 í hlað á Skriðuklaustri. Þá munu fimm höfundar koma og lesa úr bókum sínum sem eru annað hvort nýkomnar úr prentun eða að renna úr prentsmiðjunni þessa dagana. Höfundarnir eru:
- Vigdís Grímsdóttir: Sagan um Bíbí Ólafsdóttur (ævisaga)
- Þráinn Bertelsson: Englar dauðans (skáldsaga)
- Jón Kalman Stefánsson: Himnaríki og helvíti (skáldsaga)
- Pétur Blöndal: Sköpunarsögur (viðtalsbók)
- Kristín Sv. Tómasdóttir: Blótgælur (ljóð)
Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á bókavökunni sem hefst kl. 20.00. Boðið verður upp á kaffi og kökur með upplestrinum en aðgangseyrir er kr. 1.000.
Grýlugleði
Hin árvissa Grýlugleði verður sunnudaginn 2. desember kl. 14.00. Að venju verður dagskrá blönduð og von á gaulálfum og sagnaálfum sem munu láta ljós sitt skína í frásögn og söng um Grýlu og hyski hennar. Gunnarsstofnun efndi þar að auki til smásagnasamkeppni meðal eldri grunnskólanema um Grýlu dagsins í dag og verða tilkynnt úrslit í henni og lesnar verðlaunasögur. Í gallerí Klaustri verður einnig sett upp lítil Grýlusýning. Þá er aldrei að vita nema gömlu hjónin líti við í leit að barnabita. Aðgangseyrir er kr. 500 fyrir fullorðna en frítt fyrir börn 16 ára og yngri. Að lokinni dagskrá verður jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi.
20. nóvember 2007
Velheppnuð ferð í fótspor Fjalla-Bensa
Síðastliðinn sunnudag héldu liðlega sjötíu manns á fjórtán jeppum í fótspor Fjalla-Bensa á Mývatnsöræfum að kanna söguslóðir skáldsögunnar Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Gunnarsstofnun stóð fyrir ferðinni í samvinnu við Ferðafélögin á Fljótsdalshéraði og Húsavík og Húsavíkur- og Austurlandsdeild 4x4 ferðaklúbbsins.
Ferðin hófst við gangnamannahúsið Péturskirkju í Hrauntöglum en síðan var farið að Sæluhúsinu við Jökulsá. Ingvar E. Sigurðsson leikari las valda kafla úr skáldsögunni á áningarstöðunum. Með í för var einnig Arngrímur Geirsson í Álftagerði sem sagði fólki frá þeim aðstæðum sem eftirleitarmenn lifðu við á fyrri hluta síðustu aldar, þar á meðal Benedikt Sigurjónsson sem Gunnar byggði sögupersónu sína í Aðventu á.
Frá Sæluhúsinu var haldið eftir Öskjuleið inn hjá Hrossaborg allt að kofanum Tumba austan í Miðfelli. Ferðinni lauk síðan inni í Herðubreiðarlindum þar sem hópurinn naut húsaskjóls í Þorsteinsskála. Þar las Ingvar lokakafla Aðventu fyrir þátttakendur í froststillunni við rætur Herðubreiðar.
Ferðin gekk vel og lítið um festur enda lítill snjór á fjöllum. Þó hafði Grafarlandaáin hlaupið í krapa . Daginn og nóttina á undan var stórhríð og hvassviðri líkt og það sem Fjalla-Bensi hreppti í umtalaðri eftirleit í desember 1925. Það var frásögn af þeirri ferð sem birtist í Eimreiðinni 1931 sem varð Gunnari Gunnarssyni uppspretta sögunnar Aðventu er þýdd hefur verið á um 20 tungumál og seld í um milljón eintökum frá því hún kom fyrst út í Þýskalandi 1936. Nýverið kom hún út í kilju hjá bókaforlaginu Bjarti og var ferðin meðal annars farin í tilefni þeirrar útgáfu. Hér að neðan getur að líta nokkrar myndir úr ferðinni sem þó ná ekki að fanga kyrrð öræfanna sem umvafði ferðalanga.
Gunnarsstofnun, í samvinnu við Ferðafélög Fljótsdalshéraðs og Húsavíkur og Austurlands- og Húsavíkurdeildir 4x4, stendur fyrir ferð í fótspor Fjalla-Bensa nk. sunnudag. Skráningarfrestur í ferðina rann út sl. föstudag og nú liggur fyrir að 70 manns munu verða í ferðinni og farið á 15-20 sérútbúnum jeppum bæði frá Húsavík og Egilsstöðum.
Tilefni ferðarinnar er ný útgáfa á Aðventu hjá bókaforlaginu Bjarti sem kom út í sumar. . Áð verður sögustöðum og mun Arngrímur Geirsson í Álftagerði rifja upp svaðilfarir Fjalla-Bensa og annarra eftirleitarmanna. Með í för verður einnig Ingvar E. Sigurðsson leikari sem mun lesa valda kafla úr sögunni. Þá mun Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar fjalla um tildrög sögunnar og útgáfu hennar. Fyrsti viðkomustaður verður gangnamannakofinn Péturskirkja í Nýjahrauni. Síðan verður farið að Sæluhúsinu við Jökulsá, kofann Tumba og ekið inn í Grafarlönd og Herðubreiðarlindir. Í Þorsteinsskála verður tekin góður tími í að hlýða á lesturs Ingvars á sögu Gunnars.
31. október 2007
Fjölbreytt dagskrá framundan á Dögum myrkurs
Það verður margt um að vera á Skriðuklaustri og á vegum Gunnarsstofnunar næstu vikurnar. Fyrst ber að nefna leshring um hina einstöku skáldsögu Gunnars, Vikivaka, sem fram fer nk. þriðjudagskvöld, 6, nóv. kl. 20 undir handleiðslu Halldóru Tómasdóttur staðarhaldara.
Helgina 10.-11. nóv. og 17.-18. nóv. verður síðan opið á Skriðuklaustri kl. 14-17 bæði lau. og sun. og munu gestir geta skoðað sýningu finnska listamannsins Timo Rytkönen í gallerí Klaustri auk þess sem opið verður hjá Klausturkaffi og áhersla lögð á súkkulaðikökur.
Laugardagskvöldið 10. nóvember verður kvöldvaka kl. 21.00 með blandaðri dagskrá. Í tilefni 200 ára frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar mun Kristinn Haukur Skarphéðinsson líffræðingur flytja erindi um náttúrufræðinginn Jónas. Þá mun Ásgeir hvítaskáld stíga á stokk og finnsku músíkhjónin Matti og Kati Saarinen munu töfra fram ljúfa tóna. Á undan kvöldvökunni verður hægt að vera í herragarðskvöldverði hjá Klausturkaffi (nánari upplýsingar og borðapantanir í síma 471-2992.
Sunnudaginn 18. nóvember stendur Gunnarsstofnun, í samvinnu við Ferðafélög Fljótsdalshéraðs og Húsavíkur og Austurlands- og Húsavíkurdeildir 4x4, fyrir ferð í fótspor Fjalla-Bensa. Tilefnið er ný útgáfa á Aðventu hjá bókaforlaginu Bjarti. Farið verður á sérútbúnum jeppum á söguslóðir Aðventu á Mývatnsöræfum. Áð verður sögustöðum og mun Arngrímur Geirsson í Álftagerði rifja upp svaðilfarir Fjalla-Bensa og annarra eftirleitarmanna. Með í för verður einnig Ingvar E. Sigurðsson leikari sem mun lesa valda kafla úr sögunni. Þá mun Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar fjalla um tildrög sögunnar og útgáfu hennar. Fyrsti viðkomustaður verður sæluhúsið við Jökulsá og síðan verður ekið inn í Grafarlönd. Veitingar verða í Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum í boði Gunnarsstofnunar. Farið verður á sérútbúnum bílum frá Egilsstöðum og Húsavík snemma á sunnudagsmorgninum. Þátttökugjald er kr. 4.500 pr. mann. Sætafjöldi er takmarkaður og skráningarfrestur er til 9. nóvember. Nánari upplýsingar og skráning er hjá Gunnarsstofnun í síma 471-2990. Áhugasamir jeppamenn hafi samband við Villa í Möðrudal í síma 894-0758. Nákvæm ferðaáætlun verður sett hér inn á næstu dögum.
10. október 2007
Erindi um Svalbarða sunnudaginn 14. okt.
Aino Grib frá Lófóten í Norður-Noregi dvelur nú um stundir í gestaíbúðinni Klaustrinu á Skriðuklaustri. Hún hefur búið á Svalbarða undanfarin ár og í fyrirlestri sem hún heldur á Skriðuklaustri sunnudaginn 14. október mun hún fjalla um sögu Svalbarða og Longyearbæjarins. Hún mun einnig segja frá því hvernig það er að búa á Svalbarða og sýna kvikmynd sem hún hefur gert og nefnir Svalbarði - ærandi þögn. Myndin veitir góða innsýn í náttúruna, lífið og stemninguna á Svalbarða.
Fyrirlesturinn hefst kl. 15.00. Hann fer fram á ensku en útdrætti á íslensku verður dreift til áheyrenda. Fyrirlesturinn er ókeypis og öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.
OPIÐ VERÐUR Á SKRIÐUKLAUSTRI KL. 14.00-17.00 ÞENNAN DAG OG KAFFIVEITINGAR HJÁ KLAUSTURKAFFI.
27. september 2007
Claudia Schindler sýnir í gallerí Klaustri
- frá Purcell til The Beatles á sunnudaginn
Opið er um helgina frá kl. 13-17 bæði laugardag og sunnudag. Í gallerí Klaustri verður Claudia Schindler með sýningu á verkum sínum og því sem hún hefur unnið að undanfarnar vikur við dvöl í Klaustrinu. Á sunnudaginn kl. 15 verða síðan tónleikarnir "Frá Purcell til The Beatles" þar sem Elzbieta Arsso-Cwalinska sópran og Daníel Arason píanóleikari flytja verk eftir tónskáld frá ýmsum öldum. Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 1000 en frítt fyrir börn.
Rétt er að geta þess að þetta er síðasta helgin sem sýningin um Lagarfljótsorminn verður opin og síðasta helgin með reglulegum opnunartíma þetta haustið.
20. september 2007
Síðasta sýningarhelgi á ljósmyndum Ove Aalo
Sunnudaginn 23. september lýkur sýningu á myndum norska ljósmyndarans Ove Aalo frá Vesteralen í gallerí Klaustri. Myndirnar tók hann meðan hann dvaldi í gestaíbúðinni Klaustrinu haustið 2006. Mest er um að ræða landslagsmyndir en einnig portrett af fljótsdælsku sauðfé. Sýning Ove verður sett upp í Norræna húsinu þegar hún fer frá Skriðuklaustri.
Helgaropnun til mánaðamóta
Opið verður kl. 13-17 á laugardögum og sunnudögum til mánaðamóta. Hægt verður að skoða sýningar og njóta leiðsagnar auk þess sem opið verður hjá Klausturkaffi. Helgina 29.-30 sept. mun þýska listakonan Claudia Schindler sem dvelst um þessar mundir í Klaustrinu sýna verk sín í galleríinu. Sunnudaginn 30. sept. verða söngkonan Elzbieta Cwalinska og Daníel Arason með síðdegistónleika. Sýningunni um Lagarfljótsorminn lýkur 30. sept.
Fyrsti leshringur vetrarins
Í vetur verður framhald á leshringjum um verk Gunnars Gunnarssonar. Fyrsti leshringur vetrarins verður fimmtudagskvöldið 27. september og þá verður Vikivaki tekinn til umræðu. Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari mun sem fyrr stýra leshringjunum og er áhugasömum bent á að hafa samband við hana í síma 471-2990. Allir velkomnir.
27. ágúst 2007
Frábær Fljótsdalsdagur
Fljótsdalsdagurinn, lokadagur Ormsteitis fór fram í gær og tókst frábærlega. Eftir veiðikeppni í Bessastaðaá og gönguferð niður Tröllkonustíg hófst margháttuð dagskrá á Skriðuklaustri. Víkingar úr Rimmugýg börðust á flötunum við Gunnarshús og Without the Balls og Ljótu hálfvitarnir léku fyrir mörg hundruð manns. Þá fóru fram hinir árlegu Þristarleikar með pokahlaupi, steinatökum, fjárdrætti og rababarakasti. Keppt var um lengsta rababarann og bestu sulturnar. Veður var hið besta þrátt fyrir að skúrir vökuðu aðeins mannskapinn. Áætlaður fjöldi þegar flest var er yfir 400 manns.
25. ágúst 2007
Ove Aalo sýnir Minningarbrot - Mementi í gallerí Klaustri
Í dag kl. 14 verður opnuð sýning á ljósmyndum norska ljósmyndarans Ove Aalo í gallerí Klaustri. Ove dvaldi í Klaustrinu sl. haust með styrk frá menningarráði Vesterålen og sýnir nú afrakstur þeirrar dvalar. Sýninguna kallar hann Mementi eða Minningarbrot. Sýningin verður í gallerí Klaustri fram í miðjan september en þá fer hún suður til Reykjavíkur og verður sett upp í Norræna húsinu.
Hálfvitar, víkingar og fjárdráttur á Fljótsdalsdegi
Á morgun, 26. ágúst, verður hinn árlegi Fljótsdalsdagur, lokadagur Ormsteitis á Héraði. Að venju verður margt um að vera og dagskrá frá kl. 10 til kl. 17. Dagurinn hefst með veiðikeppni í Bessastaðaá og gönguferð um Tröllkonustíg. Mæting í veiðikeppni er við Melarétt en við Végarð í gönguferðina. Eftir hádegi kl. 14 hefst síðan dagskrá á Skriðuklaustri þar sem Ljótu hálfvitarnir verða með tónleika og munu Without the balls hita upp fyrir þá. Síðan mun víkingahópurinn Rimmugýgur sýna handverk og bardagalistir. Hinir óhefðbundu Þristarleikar fara síðan fram við Gunnarshús og keppt verður í fjárdrætti, steinatökum, pokahlaupi og rababarakasti. Einnig verður sultukeppni þar sem fólk mætir með sultur sínar og hlaup og dæmt verður í tveimur flokkum um bestu afurðirnar, rababarasultum og öðrum sultum.
Hádegis- og kaffihlaðborð verður hjá Klausturkaffi og í hádeginu verða grillaðar pylsur og hellt upp á ketilkaffi í veislurjóðri Víðivallaskógar. Sjá nánar um dagskrána á www.fljotsdalur.is
1. ágúst 2007
Lagarfljótsormurinn - lifandi goðsögn
Lagarfljótsormurinn er frægasta skrímsli Íslands og hefur gert vart við sig af og til allt frá 1345. Nú hefur verið opnuð sýning um orminn á Skriðuklaustri. Þar er reynt að nálgast sögur og frásagnir af orminum á skapandi hátt og alið á forvitni sýningargesta með fjölbreyttum hætti. Sýningin er hluti af verkefni sem nýtur styrks úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og að því hafa unnið tveir nemar, Sandra Mjöll Jónsdóttir listnemi frá LHÍ og Dagný Bergþóra Indriðadóttir þjóðfræðingur og kynjafræðinemi við HÍ. Partur af vinnu þeirra var að safna sögum í fjórða bindi austfirskra safnrita Gunnarsstofnunar sem inniheldur austfirskar skrímslasögur og er gefið út með styrk úr Menningarsjóði.
Félagið Ormsskrínið hefur einnig komið að verkefninu og getur í tilefni af sýningunni út bækling sem vísar fólki m.a. á upplýsingaskilti um orminn sem komið hefur verið fyrir á þremur stöðum við Lagarfljót. Vegagerðin setti upp nú í vikunni sérstök skilti með lógói Ormsskrínisins sem leiða fólk að skiltunum.
Að lokum má geta þess að ormurinn hefur skriðið á land við Fljótsbotninn við brúna sem þverar Fljótsdalinn. Þar hefur verið gert listverk úr heyrúllum eftir fyrirsögn hollensku listakonunnar Hanni Stolker sem dvaldi í gestaíbúð á Skriðuklaustri fyrr í sumar.
30. júlí 2007
Góð þátttaka í dagskrá á Rauðasandi
Gunnarsstofnun, Bókaforlagið Bjartur og Ferðafélag Íslands efndu til menningardagskrár að Saurbæ á Rauðasandi sl. laugardagskvöld í tilefni nýrrar útgáfu á Svartfugli. Óhætt er að segja að dagskráin hafi verið velheppnuð því um 150 manns mættu og hlýddu á leiklestur úr verkinu, flautuleik og fleira. Veðrið lék við viðstadda og gátu menn notið kaffiveitinga á eftir úti undir berum himni. En myndirnar segja meira en mörg orð.
27. júlí 2007
Á meðan hún sefur
- ný sýning gallerí Klaustri
Sýning Svölu Ólafsdóttur ljósmyndara, sem býr og starfar í Bandaríkjunum, hefur verið opnuð í gallerí Klaustri. Heiti sýningarinnar er Á meðan hún sefur og á henni eru fjögur samsett ljósmyndaverk sem sækja innblástur í móðurástina og m.a. í verk Gunnars Gunnarssonar.
Sýningin stendur yfir næstu fjórar vikur og er opin á sama tíma og hús skáldsins, kl. 10-18 alla daga.
24. júlí 2007
Fallegar kápur bókanna eru hannaðar af Ragnari Helga Ólafssyni.Svartfugl og Aðventa koma út í dag í kiljum hjá Bjarti
Gunnarsstofnun tók við höfundarrétti Gunnars Gunnarssonar sl. vor og samdi í kjölfarið við Bókaforlagið Bjart um útgáfu á Svartfugli og Aðventu í kiljum. Í dag koma bækurnar út hjá Bjarti og fara í sölu um allt land í vikunni. Þær eru í handhægu broti með fallegum kápum eftir Ragnar Helga Ólafsson. Ítarlegir formálar eftir Jón Yngva Jóhannsson og Jón Kalman Stefánsson eru í bókunum sem veita lesendum góða innsýn í sögurnar og vinnu höfundarins við þær. Sjá nánar á heimasíðu Bjarts.
VIÐ KLUKKNAHLJÓM SYNDUGRA HJARTA heitir menningardagskrá sem efnt verður til að Saurbæ á Rauðasandi nk. laugardagskvöld, 28. júlí kl. 20.00 í tilefni af útgáfunni.
Dagskráin er samvinnuverkefni Bókaútgáfunnar Bjarts, Gunnarsstofnunar og Ferðafélags Íslands sem verður með gönguferð um svæðið frá 27. til 30. júlí. Sjá nánar um ferðina á heimasíðu Ferðafélagsins.
Uppgröftur sumarsins gengur vel
Fornleifafræðinga hófu störf fyrir um mánuði eins og venjulega á Kirkjutúni neðan við Gunnarshús á Klaustri. Hátt í 20 manns koma að uppgrefrinum, þ.á m. breskir fornleifafræðingar, íslenskir nemar í fornleifafræði og íslenskir fornleifafræðingar ásamt ítölskum beinasérfræðingi og forverði. Leiðsögn er um fornleifasvæðið alla daga á klukkustundarfresti.
Hópurinn sem unnið hefur undanfarnar vikur við fornleifarannsóknina.
Uppgröfturinn hefur gengið vel það sem af er sumri en þetta er sjötta sumarið í röð sem grafið er í rústir klaustursins. Í sumar hefur verið unnið við að grafa upp klausturhúsin og klausturkirkjuna. Í klausturhúsunum hefur hellulagður gangur komið í ljós, auk tveggja herbergja. Uppgröftur á klausturkirkjunni hefur einskorðast við miðskip hennar og inngang. Inngangurinn hefur verið hellulagður en stærð kirkjunnar er enn óljós. Grafnar hafa verið upp nokkrar grafir í kirkjugarðinum við hana en líkt og áður hafa skýr einkenni ýmissa sjúkdóma verið greind af þeim beinagrindum sem í þeim hafa fundist. Í kirkjugarðinum fannst nú í sumar hnífur með skreyttu skafti úr kopar og tré. Einnig fannst nýverið andlit líkneskisins sem brot fundust af sumarið 2005.
Andlit lítils líkneskis úr brenndum leir ásamt vel varðveittum hnífi.
2. júlí 2007
Að heiman og heim aftur - sýning í gallerí Klaustri
Sunnudaginn 1. júlí opnaði Ingiberg Magnússon sýningu í gallerí Klaustri sem hann kallar Að heiman og heim aftur. Ingiberg ólst upp á Fljótsdalshéraði og sækir myndefnið á þessari sýningu mikið til æskuslóðanna. Á sýningunni eru 14 verk, unnin með þurrpastellitum á pappír. Í sýningarskrá segir:
Yfirskrift sýningarinnar vísar til þess að verkin tengjast flest bernsku minni á Héraði. Sem barni fannst mér tveir staðir búa yfir meiri furðum og leyndardómum en allir aðrir, Héraðssandur og Hallormsstaðaskógur. Þar voru undur meiri en ég gat ímyndað mér að finndust á öðrum stöðum í veröldinni. Svo ólíkir sem þeir eru, auðnin og gróskan, höfðuðu þeir til ímyndunarafls míns með yfirþyrmandi krafti. Að fá að heimsækja þessa staði var mikil veisla sem ég hef haft í farangrinum alla tíð síðan. Þriðja stefið í sýningunni lýsir aðdáun minni á handverki og hugviti fyrri kynslóða í húsagerð. Þó myndirnar séu afrakstur síðari tíma heimsókna á æskustöðvarnar vona ég að þær sýni með einhverjum hætti þá væntumþykju sem ég ber til þeirra staða þar sem æska mín á heimkynni.
Sýningin er sölusýning og stendur næstu þrjár vikur. Gallerí Klaustur er opið alla daga á sama tíma og Gunnarshús, kl. 10-18.
27. júní 2007
Fornleifafræðingarnir mættir á svæðið
Uppgröftur á klausturrústum neðan Gunnarshúss er hafinn sjötta sumarið. Þrátt fyrir að fjármögnun Kristnihátíðarsjóðs á rannsókninni hafi lokið á síðasta ári tókst að fjármagna rannsóknina áfram. Fornleifafræðingar mættu á svæðið í síðustu viku og hófust handa þar sem frá var horfið í fyrra undir stjórn dr. Steinunnar Kristjánsdóttur. Opnuð hafa verið ný svæði en einnig er verið að ljúka við nokkur frá í fyrra.
Í Gunnarshúsi er sýning um rannsóknina og klaustrið með sérstakri áherslu á lækningar og eru sýndir munir er fundist hafa og talið er að tengist lækningum og hjúkrun. Leiðsögn er um fornleifasvæðið alla daga á klukkustundarfresti frá kl. 10 til 17.
Dagana 4.-5. júní voru skoskir fornleifafræðingar og stjórnendur á ýmsum sviðum minjavarðveislu og miðlunar á Skriðuklaustri. Þeir voru þátttakendur í Evrópuverkefni með styrk úr Leonardo. Skotarnir unnu m.a. að því að endurbæta hleðslur og bera viðarkurl í rústirnar þar sem gengið hefur verið frá auk þess sem þeir komu að hugmyndavinnu varðandi framtíðarskipulag fornleifasvæðisins. Svæðið er því mjög aðgengilegt um þessar mundir. Gunnarsstofnun og Minjasafn Austurlands ásamt Skriðuklaustursrannsóknum voru gestgjafar þessa hóps en einnig var unnið með Geirsstaðakirkju og Þórarinsstaði.
Að heiman og heim aftur - ný sýning
Sýningu Hrafnhildar Ingu er að ljúka í galleríinu um þessar mundir. Þá tekur við í gallerí Klaustri Ingiberg Magnússon, sem er löngu landskunnur fyrir grafíkverk sín. Sýning ber heitið Að heima og heim aftur og verður opnuð sunnudaginn 1. júlí. Á henni sýnir Ingiberg pastelmyndir.
4. júní 2007
Landsýn Hrafnhildar Ingu
Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir opnaði sýninguna Landsýn í gallerí Klaustri sl. föstudag. Á sýningunni er olíumálverk unnin að mestu undanfarna tólf mánuði undir áhrifum frá dvöl Hrafnhildar í Klaustrinu sl. sumar. Myndefnið er fjölbreytt: grónar hlíðar, öræfi, kræklóttir fúaraftar og hraunsprungur. Þetta er sölusýning og hún stendur til 29. júní.
29. maí 2007
Hrafnhildur Inga opnar á föstudag í gallerí Klaustri
Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir, myndlistakona sem dvaldi í Klaustrinu síðasta sumar, opnar sýningu á verkum sínum í gallerí Klaustri nk. föstudag. Á sýningunni eru olíumálverk sem hún vann eftir dvöl sína í Fljótsdalnum. Sýning stendur til loka júní.
27. maí 2007
Frábærir tónleikar hjá Matti og Kati Saarinen
Laugardaginn 26. maí var Matti Saarinen, gítarleikarinn finnski sem kennir við Tónskóla Austur-Héraðs, með tónleika í stássstofunni á Klaustri. Fyrir hlé lék hann klassísk verk en eftir hlé bættist honum liðsauki í konu sinni, Kati Saarinen, sem söng með honum djasslög við góðar undirtektir tónleikagesta.
22. maí 2007
Tónleikar Matti Saarinen
- síðasta sýningarhelgi Interior Landscape
Laugardaginn 26. maí verða tónleikar með finnska gítarleikaranum Matti Saarinen kl. 17. Hann mun leika bæði klassísk verk og djass. Aðgangseyrir kr. 1.000. Afsláttur fyrir Klausturreglufélaga.
Sýningu Ruth Boerefijn, Interior Landscape, í gallerí Klaustri lýkur um helgina. Opnuð hefur verið sýning um fornleifarannsóknina og miðaldaklaustrið með nokkrum munum úr uppgreftrinum. Þá er opin sýningin Gunnar Gunnarsson og Danmörk.
Opið er á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17 fram á föstudag en þá tekur við hinn langi opnunartími sumarsins, alla daga kl. 10-18. Verið velkomin í Klaustur um hvítasunnuna.
18. maí 2007
Vésteinn Ólason undirritar skipulagsskrána f.h. Árnastofnunar.
Gunnarsstofnun gerð að sjálfseignarstofnun
- höfundarrétturinn færður til stofnunarinnar
Í dag, 18. maí, á fæðingardegi Gunnars Gunnarssonar var opnuð sýningin Gunnar og Danmörk. Við sama tækifæri var undirrituð skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina Stofnun Gunnars Gunnarssonar og erfingjar skáldsins færðu höfundarréttinn til stofnunarinnar.
Skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar var undirrituð af fulltrúum stofnaðila: Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra (var fjarstödd) fyrir hönd menntamálaráðuneytis, Jóni Atla Benediktssyni f.h. Háskóla Íslands, Pétri Gunnarssyni f.h. Rithöfundasambands Íslands, Vésteini Ólasyni f.h. Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stefáni Stefánssyni f.h. Þróunarfélags Austurlands. Þessir aðilar skipa í nýja stjórn stofnunarinnar og er tilgreint í skipulagsskránni að fulltrúi menntamálaráðuneytisins skuli vera úr fjölskyldu Gunnars skálds.
Gunnar Gunnarsson, barnabarn skáldsins undirritar samkomulag um tilfærslu höfundarréttar og Gunnar Björn Gunnarsson, systursonur hans, fylgist með.
Gunnar Björn Gunnarsson, sem setið hefur í stjórn Gunnarsstofnunar fyrir hönd fjölskyldunnar, greindi frá því að erfingjar skáldsins hefðu afráðið að afhenda stofnuninni höfundarréttinn að verkum skáldsins. Sú tilfærsla er til næstu fimm ára og mögulegt að framlengja hana samkvæmt samkomulaginu sem undirritað var við þetta tækifæri.
14. maí 2007
Ný sýning um Gunnar og Danmörku
Föstudaginn 18. maí verður opnuð sýning um Gunnar og Danmörk. Tilefnið er að í ár er öld liðin frá því bóndasonurinn steig á skipsfjöl og sigldi frá Vopnafirði til Kaupmannahafnar með þann draum að verða rithöfundur. Sýningin stendur til júlíloka.
Í gallerí Klaustri stendur yfir sýning á verkum bandarísku listakonunnar Ruth Boerefijn sem dvaldi í gestaíbúðinni í ágúst 2005.
Fram til 25. maí er opið á Skriðuklaustri alla daga kl. 12-17 en eftir það tekur við sumaropnunartími kl. 10-18.
2. maí 2007
Sumaropnun hefst um helgina
Sumaropnun hefst um helgina á Skriðuklaustri. Frá og með laugardeginum 5. maí verður opið alla daga. Fram til 25. maí verður opið kl. 12-17 en eftir það kl. 10-18. Klausturkaffi verður opið á sama tíma og býður upp á veitingar bæði í hádegi og kaffi.
Laugardaginn 5. maí verður einnig opnuð sýning á verkum Ruth Boerefijn í gallerí Klaustri. Boerefijn dvaldist í gestaíbúðinni Klaustrinu í ágúst 2005 og sýnir nú brot þeim verkum sem hún vann þá og í kjölfar Íslandsdvalarinnar. Verkin eru unnin með blandaðri tækni en sýninguna kallar hún Interior Landscapes.
17. apríl 2007
Síðustu forvöð að sjá Passíusálmamyndir Barböru Árnason
Opið verður á Skriðuklaustri á sumardaginn fyrsta kl. 13-17 og sumardagskaffihlaðborð hjá Klausturkaffi. Þá gefst gestum færi á að skoða myndir Barböru Árnason við Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Þeirri sýningu lýkur á sunnudag en opið verður um helgina, 22. og 23. apríl, kl. 13-17 bæði laugardag og sunnudag.
10. apríl 2007
Passíusálmalestur á föstudaginn langa og góð aðsókn um páska
Ellefu manns á ýmsum aldri tóku þátt í því að lesa 21 Passíusálm á föstudaginn langa í skrifstofu skáldsins. Fjölmenni var við lesturinn sem tók um þrjár klukkustundir með kaffihléi. Lesnir voru þrír sálmar í lotu og lásu sr. Lára G. Oddsdóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir viðeigandi kafla úr píslarsögunni á undan hverjum sálmi.
Gestir á föstudaginn langa, laugardag og annan í páskum nutu síðan þess að skoða 21 af myndskreytingum Barböru Árnason við Passíusálma Hallgríms.
Opið verður einnig helgina 28.-29. apríl kl. 13-17 en síðan tekur sumaropnun við 5. maí og verður þá opið alla daga fram til 25. maí kl. 12-17 en eftir það kl. 10-18.
3. apríl 2007
Passíusálmar og Passíusálmamyndir um páskana
Föstudaginn langa verður opið kl. 13-18 á Skriðuklaustri. Gestir geta skoðað sýningu á Passíusálmamyndum Barböru Árnason eða hlýtt á valinkunna Héraðsbúa lesa þá sálma Hallgríms sem myndskreytingar Barböru eru við. Lesturinn fer fram milli kl. 14 og 17 og er skipulagður af kirkjusóknunum á Héraði. Opið verður hjá Klausturkaffi.
27. mars 2007
Heimildamyndir 700.is
Laugardaginn 31. mars verða sýndar öðru sinni tólf heimildamyndir sem valdar voru til sýningar á 700.is. Sýningin stendur frá kl. 13-18 en gestir geta komið og farið að vild. Aðgangur er ókeypis. Opið verður hjá Klausturkaffi.
Passíusálmamyndir Barböru Árnason
Sunnudaginn 1. apríl kl. 14 verður opnuð sýning á Passíusálmamyndum Barböru Árnason. Sýndar verða 21 mynd af þeim sem hún gerði fyrir viðhafnar útgáfu á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar árið 1960. Myndirnar eru fengar að láni frá Listasafni Íslands og ekki vitað til þess að þær hafi áður verið sýndar á Austurlandi.
Tónleikar með Willy Merz - Hvað er samtímatónlist?
Ítalska tónskáldið Willy Merz sem dvelst nú í gestaíbúðinni verður með tónleika sunnudaginn 1. apríl kl. 15. Á þeim mun hann leika brot úr verkum eftir Haydn og Satie ásamt eigin tónsmíðum og velta fyrir sér spurningunni um hvað samtímatónlist sé? Aðgangur er ókeypis.
Sem sagt, stór helgi framundan á Skriðuklaustri. Opið kl. 13-18 á laugardag og kl. 14-17 á sunnudaginn. Að sjálfsögðu opið hjá Klausturkaffi á sama tíma.
Um páskahelgina verður einnig opið laugardag og annan í páskum kl. 13-17. Sýning á myndum Barböru er opin en einnig hægt að fá leiðsögn um húsið að venju. Kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi. ATH. Lokað er á skírdag og páskadag.
Gleðilega páska!
19. mars 2007
Lomberslagur við Húnvetninga
Austfirðingar mættu Húnvetningum öðru sinni í lomberslag að Sveinbjarnargerði í Eyjafirði laugardaginn 17. mars. Um 20 spilamenn mættu til leiks úr hvorum landshluta. Minnugir þess hve skaran hluta Austfirðingar báru frá borði 2005 ætluðu menn sér stóra hluti. Svo fór að bæði lið komu út í bullandi mínus þegar hætt var að spila um kl. rúmlega átta um kvöldið. Þó höfðu Húnvetningar tapað heldur minna eða -603 á móti -1033 hjá Austfirðingum. Húnvetningar áttu einnig þann hæsta og lægsta. Var það mál allra er mættu að þetta hefði lukkast vel og stendur hugur mann til að endurtaka leikinn að ári. Fleiri myndir frá slagnum er hægt að sjá hér.
700.is - Hreindýraland
Kvikmynda og videóhátíðin 700.is mun að þessu sinni einnig fara fram að Skriðuklaustri. Gunnarsstofnun er samstarfsaðili og verða sýndar heimildamyndir á Klaustri dagana 25. og 31. mars. Sýningar hvorn dag verða frá kl. 13-18 og verða sýndar myndir frá ýmsum löndum. Sunnudaginn 25. munu tveir höfundanna koma við upphaf sýningarinnar og ræða um myndir sínar. Þetta eru þeir Jóhannes Jónsson sem sýnir myndina Leikur einn, sem gerist á alþjóðlegri leiklistarhátíð, ActAlone á Ísafirði; og James P. Graham með myndina Iddu sem fjallar um gerð samnefndrar 360 gráðu kvikmyndar sem hann tók á hinu virka eldfjalli Stromboli á Ítalíu.
Aðgangur er ókeypis að sýningum 700.is á Skriðuklaustri. Allir velkomnir og gestir geta komið og farið að vild þó að sýning allra myndana taki um fimm klukkustundir. Opið verður hjá Klausturkaffi á meðan á sýningu stendur.
Sjá nánar á 700.is
19. febrúar 2007
Lomber á laugardaginn
Hinn árlegi lomberdagur á Klaustri verður nk. laugardag, 24. febrúar. Spilamennskan hefst kl. 13.00 og er mælt með því að byrjendur mæti þá strax. Vanir spilamenn geta hins vegar bæst í hópinn hvenær sem er dagsins. Sama fyrirkomulag verður á deginum og vanalega, spilað af krafti og kæti milli mála langt fram á kvöld. Þátttökugjald er sem hér segir:
• Spadda (kaffi, kökuhlaðborð og kvöldverður) kr. 3.700
• Manilía (kvöldverður og kaffi) kr. 3.000
• Basti (kökuhlaðborð og kaffi) kr. 1.200.
Ekki er verra að láta vita um þátttöku á lomberdeginum í síma 471-2990.
Leshringur um Svartfugl
Þriðjudagskvöldið 27. febrúar kl. 20 verður leshringur um þessa þekktu skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem stundum er kölluð fyrsti íslenski krimminn. Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari mun leiða samræðurnar.
6. febrúar 2007
Fyrsti Klausturpósturinn
Í dag var Klausturreglufélögum sendur fyrsti Klausturpósturinn, nýtt fréttabréf frá Skriðuklaustri. Ætlunin er að gefa það út á mánaðarfresti og verður það sent í pósti eða rafrænt til félaga í Klausturreglunni. Efnið verður fyrst og fremst um starfsemina á Skriðuklaustri. Ritstjóri er Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari. Hægt er að skoða þetta 1. tölublað hér.
Lomberkvöld þann 9. febrúar
Föstudagskvöldið 9. febrúar verður lomberkvöld á Klaustri. Að venju hefst spilamennskan kl. 20.00. Nú þurfa sem flestir að mæta því að búið er að ákveða dag fyrir Húnvetningaslag í Eyjafirðinum, þann 17. mars í Sveinbjarnargerði.
Konudagskaffi og listaspjall
Sunnudaginn 18. febrúar, á konudaginn, verður opið á Skriðuklaustri kl. 14-17. Þýsku listakonurnar Christiane Tyrell og Margret Schopka ræða um list sína og sýna myndir. Konudagskaffi með bolluívafi verður hjá Klausturkaffi.
Frá lomberdegi.
Lomberdagur 24. febrúar
Hinn árlegi lomberdagur á Klaustri verður nk. laugardag, 24. febrúar. Spilamennskan hefst kl. 13.00 og er mælt með því að byrjendur mæti þá strax. Vanir spilamenn geta hins vegar bæst í hópinn hvenær sem er dagsins. Sama fyrirkomulag verður á deginum og vanalega, spilað af krafti og kæti milli mála langt fram á kvöld.