Fréttir 2006
23. desember 2006
Birgitta Birgisdóttir les Aðventu við skrifborð langafa síns.
Jólakveðja frá Skriðuklaustri
Gunnarsstofnun og Klausturkaffi senda öllum sem heimsóttu Skriðuklaustur eða voru í samstarfi við okkur á árinu 2006, hugheilar jólakveðjur og óskir um farsæld á komandi ári. Gleðileg jól!
12. desember 2006
Aðventa lesin á sunnudaginn
- Notaleg kyrrðarstund í jólaamstrinu
Aðventa Gunnars Gunnarssonar kom út í fyrsta sinn fyrir 70 árum í Þýskalandi. Á síðasta ári var tekinn upp sá siður að lesa söguna alla upphátt í skrifstofu skáldsins á aðventunni. Að þessu sinni er það Birgitta Birgisdóttir, leikkona og sonarsonardóttir skáldsins, sem les söguna við snarkið í kakalofninum. Lesturinn hefst kl. 13.30 sunnudaginn 17. des. og stendur í um þrjár klukkustundir. Heitt á könnunni hjá Klausturkaffi meðan á lestrinum stendur.
Birgitta Birgisdóttir (Úlfssonar Gunnarssonar) lauk námi frá leiklistadeild Listaháskóla Íslands vorið 2006. Hún tók þátt í sýningunni, “Forðist okkur” eftir Hugleik Dagsson, samvinnuverkefni Common Nonsense og Listaháskólans og jafnframt eitt af lokaverkefnum í leiklistadeildinni. Hún var einn af stofnendum Reykvíska Listaleikhússins en þau hafa staðið fyrir framsæknum leiklistarviðburðum í Reykjavík síðustu misserinn. Birgitta leikur Konstönsu konu Mozarts í Amadeus sem sýnt er á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu í haust.
12. desember 2006
RITHÖFUNDAVAKA OG GRÝLUGLEÐI
Fimmtudaginn 30. nóvember koma fimm rithöfundar í heimsókn og lesa úr verkum sínum. Rithöfundavakan hefst kl. 20.00 í stássstofunni á Klaustri.
Höfundarnir fimm eru:
Einar Kárason - Úti að aka, ferðasaga
Eiríkur Guðmundsson - Undir himninum, skáldsaga
Halldór Guðmundsson - Skáldalíf, ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri
Ingunn Snædal - Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir - Upp á sigurhæðir, saga Matthíasar Jochumssonar
Aðgangur er kr. 1.000, kaffi og smákökur innifaldar.
GRÝLUGLEÐIN árvissa verður haldinn sunnudaginn 3. desember og hefst hún kl. 14.00. Að venju verður dagskráin blönduð með söng og leik og aldrei að vita nema gömlu hjónakornin reki inn sín ljótu nef í leit að bragðgóðum álfum og börnum. Undanfarnar vikur hafa börn í 1.-4. bekk grunnskóla á Austurlandi verið önnum kafin við að gera Grýlumyndir og verða úrslit kynnt í þeirri samkeppni á Grýlugleðinni og verðlaun afhent. Að lokinni gleðinni bíður svo jólakökuhlaðborð Klausturkaffis eftir gestum.
8. nóvember 2006
AUSTFIRSKAR DRAUGASÖGUR Á FÖSTUDAGSKVÖLDIÐ
Föstudagskvöldið 10. nóvember kl. 20.30 verður draugakvöldvaka á Skriðuklaustri í tilefni Daga myrkus og útgáfu Gunnarsstofnunar á þriðja bindi í ritröðinni Austfirsk safnrit. Að þessu sinni kemur út úrval austfirskra draugasagna. Dagskrá kvöldvökunnar verður blönduð. Úlfar Trausti Þórðarson syngur nokkur lög sem tengjast þjóðtrúnni, Halldóra Malín Pétursdóttir les draugasögur og flytur brot úr einleiknum sem hún var með á Borgarfirði sl. sumar og byggðist á þjóðsögum. Þá munu Kristrún Jónsdóttir og Eymundur Magnússon lesa nokkrar sögur úr safnritinu. Halldóra Tómasdóttir staðarhaldari á Skriðuklaustri innleiðir dagskrána og stýrir henni.
Kvöldvakan verður við arineld í stássstofunni og djöflatertur og draugakökur á boðstólum hjá Klausturkaffi.
Á döfinni á Klaustri
Fimm rithöfundar munu lesa úr nýútkomnum verkum fimmtudagskvöldið 30. nóvember. Höfundarnir eru: Einar Kárason, Eiríkur Guðmundsson, Halldór Guðmundsson, Ingunn Snædal og Þórunn Valdimarsdóttir.
Grýlugleði verður að venju haldin fyrsta sunnudag í aðventu, þ.e. 3. desember. Að þessu sinni verða einnig sýndar teikningar grunnskólabarna sem þessa dagana taka þátt í teiknisamkeppni um Grýlumyndir.
Aðventa Gunnars verður lesin 2. eða 3. sunnudag í aðventu. Nánar kynnt síðar.
Jólahlaðborðin hjá Klausturkaffi verða þrjár helgar í röð, frá 24. nóv. til 9. des., á föstudögum og laugardögum.
7. nóvember 2006
Atli Heimir Sveinsson, Hulda Björk Garðarsdóttir, Daníel Þorsteinsson og Ágúst Ólafsson.
Vel lukkaðir ljóðatónleikar
Ljóðatónleikarnir laugardaginn 4. nóvember tókust vel að mati áheyrenda. Þau Hulda Björk, Ágúst og Daníel fluttu þá 15 lög við kvæði Gunnars eftir átta tónskáld. Eitt tónskáldanna var viðstatt tónleikana, Atli Heimir Sveinsson. Hann samdi í haust lag við sonnettuna Vetrarnótt eftir Gunnar sem birtist í Eimreiðinni 1914. Lagið tileinkar hann Franziscu Gunnarsdóttur, sonardóttir skáldsins, en hún lést fyrir rúmum tveimur árum.
Gunnarsstofnun hefur fengið Daníel Þorsteinsson til að ganga frá lögunum 15 til útgáfu í nótnahefti og verður hægt að kaupa það á Skriðuklaustri eða panta. Áhugasamir geta sent tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
30. október 2006
100 ára höfundarafmæli Gunnars Gunnarssonar
Ljóðatónleikar á Skriðuklaustri 4. nóvember
Laugardaginn 4. nóvember kl. 15.00 verða haldnir ljóðatónleikar á Skriðuklaustri í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því fyrstu bækur Gunnars komu út, ljóðakverin Vorljóð og Móðurminning, sem komu út hjá Oddi Björnssyni á Akureyri 1906. Tónleikarnir voru í Gerðubergi 21. október sl. en verða nú endurteknir á Skriðuklaustri.
Flytjendur: Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Ágúst Ólafsson baritón
Undirleikari: Daníel Þorsteinsson píanóleikari
Inngang flytur Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar
- Á efnisskrá eru lög eftir átta tónskáld, íslensk, dönsk, sænsk og þýsk við kvæði eftir Gunnar. Flest laganna eru úr fórum Gunnars sjálfs og komu í ljós þegar handritum, bréfum og öðrum skjölum skáldsins var skilað inn til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns til varðveislu. Fæst þeirra hafa því verið flutt opinberlega áður en auk þess verður frumflutt lag sem Atli Heimir Sveinsson samdi nýverið við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914.
Daníel Þorsteinsson tónlistarmaður og píanóisti hefur útsett lögin og annast undirleik á tónleikunum. Aðgangur er kr. 1.200.
DRAUGAKVÖLDVAKA
Föstudagskvöldið 10. nóvember verður kvöldvaka á Skriðuklaustri í tilefni útgáfu Gunnarsstofnunar á þriðja bindi í ritröðinni Austfirsk safnrit. Að þessu sinni kemur út úrval austfirskra draugasagna og verður á kvöldvökunni lesið úr bókinni. Klausturkaffi verður með djöflatertur og draugakökur á boðstólum ásamt bleksvörtu kaffi.
16. október 2006
100 ára höfundarafmæli Gunnars Gunnarssonar
- Leiklestur, málþing og ljóðatónleikar
Afmælisdagskrá eystra og í höfuðborginni
Á þessu ári eru liðin 100 ár frá því fyrstu bækur Gunnars Gunnarssonar komu út. Það voru kvæðakverin Vorljóð og Móður-minningu sem Oddur Björnsson á Akureyri prentaði árið 1906 þegar skáldið var aðeins 17 ára. Gunnarsstofnun setti upp sýningu á Skriðuklaustri í júní í tilefni af afmælinu en framundan er margþætt dagskrá til að fagna tímamótunum í samstarfi við Menningarmálanefnd Vopnafjarðar, Menningarmiðstöðina Gerðuberg og Rithöfundasamband Íslands.
Gunnarskvöld - Nótt og draumur
fimmtudaginn 19. október kl. 20 - Miklagarði Vopnafirði
- Menningarmálanefnd Vopnafjarðarhrepps og Gunnarsstofnun bjóða til leiklesturs á nýrri leikgerð Jóns Hjartarsonar á Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar. Leikgerðin er unnin upp úr þriðja bindi sögunnar og ber heitið Nótt og draumur. Agnar Már Magnússon tónlistarmaður hefur samið tónlist við ljóð úr fyrstu ljóðabókunum og verða þau felld inn í leiklesturinn. Leikarar munu klæðast búningum og stuðst verður við einfalda leikmynd. Auk heimamanna munu þrír atvinnuleikarar taka þátt í leikgerðinni, Jón Hjartarson, Þráinn Karlsson og Halldóra Malín Pétursdóttir. Dagskráin nýtur styrks frá Menningarráði Austurlands. www.vopnafjardarhreppur.is
Gunnarskvöld - Nótt og draumur
föstudaginn 20. október kl. 20.30 - Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8 Reykjavík
- Leiklestur úr Fjallkirkjunni í leikgerð Jóns Hjartarsonar. Flutt verða ljóð úr fyrstu bókum skáldsins við frumsamin lög Agnars Más Magnússonar. Auk Jóns og Agnars munu þau Þráinn Karlsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Halldóra Malín Pétursdóttir og nokkrir áhugaleikarar frá Vopnafirði flytja dagskrána. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. www.rsi.is
Málþing um Gunnar
laugardaginn 21. október kl. 14.00 - Menningarmiðstöðinni Gerðubergi
- Erindi flytja þrír fræðimenn: Jón Yngvi Jóhannsson sem nú vinnur að ævisögu Gunnars. Hann mun fjalla um kvæðakverin tvö sem komu út 1906 og bréf sem tengjast þeim í erindi sem hann kallar „Orkt undir áhrifum“. Gunnar Hersveinn, sem styðst við skáldsögu Gunnars Sælir eru einfaldir við ritun á næstu bók sinni, verður með erindið „Vantraust - sælir eru einfaldir“. Þá mun Halldór Guðmundsson, sem um þessar mundir er að leggja lokahönd á bók um líf rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Þórberg Þórðarsonar, fjalla um Svartfugl og ástina.
Pallborð verður á eftir erindunum og umræðum stýrir Pétur Gunnarsson rithöfundur. Aðgangur er ókeypis. www.gerduberg.is
Ljóðatónleikar
laugardaginn 21. október kl. 16.00 - Menningarmiðstöðinni Gerðubergi
Flytjendur: Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Ágúst Ólafsson baritón
Undirleikari: Daníel Þorsteinsson píanóleikari
Inngang flytur Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar
- Á efnisskrá eru lög eftir átta tónskáld, íslensk, dönsk, sænsk og þýsk við kvæði eftir Gunnar. Flest laganna eru úr fórum Gunnars sjálfs og komu í ljós þegar handritum, bréfum og öðrum skjölum skáldsins var skilað inn til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns til varðveislu. Fæst þeirra hafa því verið flutt opinberlega áður en auk þess verður frumflutt lag sem Atli Heimir Sveinsson samdi nýverið við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914.
Daníel Þorsteinsson tónlistarmaður og píanóisti hefur útsett lögin og annast undirleik á tónleikunum. Aðgangur er kr. 1.200. www.gerduberg.is
Ljóðatónleikar
laugardaginn 4. nóvember kl. 15.00 - Skriðuklaustri
Flytjendur: Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Ágúst Ólafsson baritón
Undirleikari: Daníel Þorsteinsson píanóleikari
Inngang flytur Skúli Björn Gunnarsson
- Sungin lög átta tónskálda, innlendra og erlendra, við kvæði eftir Gunnar. Sama efnisskrá og í Gerðubergi. Menningarráð Austurlands styrkir verkefnið.
11. september 2006
Vikursteinn sem fannst í uppgreftrinum og hefur verið notaður til að slípa bókfell.
Sýningin um klaustrið að Skriðu
- styttist í sýningarlok
Það líður á septembermánuð og styttist í sýningarlok á þeim sýningum sem nú eru uppi á Skriðuklaustri. Opið er kl. 12-17 alla daga fram til sunnudagsins 17. september en eftir það verður opið næstu tvær helgar, laugardag og sunnudag kl. 13-17. Sýningunni um klaustrið að Skriðu og ljósmyndasýningu Hrannar Axelsdóttur lýkur samkvæmt því sunnudaginn 1. október og þá mun Klaustur-María einnig yfirgefa heimaslóðirnar. Þeir sem eiga enn eftir að skoða muni úr uppgreftrinum eða horfast í augu við Maríu þurfa því að fara að drífa sig í Klaustur.
30. ágúst 2006
Hjálmar kvöddu í Skálanum á Skriðuklaustri
- Fljótsdalsdagurinn vel heppnaður
Lokadagur Ormsteitis var sl. sunnudag í Fljótsdal. Veður var milt en sólin lét ekki sjá sig og seinnipartinn var kominn þéttur rigningarúði. Þrátt fyrir það lögðu 250-300 manns leið sína í Fljótsdalinn til að taka þátt í því sem í boði var, en það var afar fjölbreytt. Veiðikeppni var í Bessastaðaá, fyrsta héraðsmótið í sveppatínslu, skoðunarferð inn í Fljótsdalsstöð, færeysk lúðrasveit, óhefðbundin íþróttakeppni og ýmislegt fleira. Hæst bar tónleika með Hjálmum í Skálanum á Skriðuklaustri sem reyndust vera kveðjutónleikar þessarar vinsælu reggísveitar sem ætlar nú að taka sér langt hlé. Stúlknasveitin austfirska, Without the Balls hitaði upp fyrir Hjálma við mikinn fögnuð áhorfenda. Fyrsta sultukeppnin á Austurlandi var haldin og skráðar 18 krukkur af sultutaui úr ýmsum ávöxtum. Þá var í fyrsta sinn keppnt í rabbabarakasti.
Nokkrar myndir frá Fljótsdalsdegi:
Tónleikagestir í Skálanum.
Dómnefnd að störfum í sultukeppni
Fjárdrátturinn sívinsæli.
Keppendur í pokahlaupi.
Áhorfendur á íþróttamóti.
Sigurvegarar í veiðikeppni.
Fyrsti Héraðsmeistarinn í sveppatínslu, Sigríður Stefánsdóttir.
Opnunartími næstu vikur
Opið verður á Skriðuklaustri kl. 12-17 alla daga fram til 17. september. Sýning um Klaustrið að Skriðu verður uppi til þess tíma og sömuleiðis ljósmyndasýning Hrannar Axelsdóttur á huldufólksstöðum og álagablettum.
22. ágúst 2006
Fljótsdalsdagur Ormsteitis framundan með tónleikum og fleiru
Ormsteitinu lýkur að venju í Fljótsdal með veglegri dagskrá sem hægt er að skoða á heimasíðu Fljótsdalshrepps. Klausturkaffi verður með hádegishlaðborð og kaffihlaðborð en annars hefst dagskráin á Skriðuklaustri kl. 14.00. Kennir þar ýmissa grasa, bæði árviss atriði í íþróttamóti en einnig sitthvað nýtt:
TÓNLEIKAR - Without the Balls hita upp fyrir HJÁLMAR sem spila á stéttinni við Gunnarshús eða í Skálanum ef veður verður óhagstætt.
ÍÞRÓTTAMÓT ÞRISTAR - keppt í fjárdrætti, steinatökum, rababaraspjótkasti og pokahlaupi.
SULTUKEPPNI - menn mæta með heimagerðar sultur eða hlaup og dómnefnd velur þá bestu.
Keppni um STÆRSTA RABABARANN - börnin mæta með rababaraleggi og dæmt verður eftir lengd
Ormsteiti verður síðan slitið á Skriðuklaustri kl. 17.00
15. ágúst 2006
Teneritashópurinn með barokktónleika fimmtudaginn 17. ágúst
Fimmtudagskvöldið 17. ágúst kl. 20 heldur Teneritashópurinn tónleika á Skriðuklaustri. Teneritashópurinn var stofnaður árið 2002 af Ólöfu Sigursveinsdóttur og Hönnu Loftsdóttur með það að markmiði að flytja tónlist frá barokktímabilinu fyrir barokkselló og gömbu. Þær hafa haldið nokkra tónleika hérlendis síðustu árin en í þetta sinn spilar með þeim sænski theorbu-leikarinn Fredrik Bock. Efnisskráin er fjölbreytt og ekki á hverjum degi sem teflt er saman þessum sjaldséðu hljóðfærum á Íslandi, þ.e. barokksellói, gömbu og barokkgítar.
Á efnisskránni eru sónötur, svítur og einleiksverk eftir barokktónskáldin Alexis, Magito, Marin Marais, Francois Couperin, Gaspar Sanz og Johann Sebald Triemer.
Aðgangseyrir er kr. 1000.
15. ágúst 2006
Sýning um klaustrið og fornleifarnar opnuð að nýju
Opnuð hefur verið sýning um miðaldaklaustrið að Skriðu og fornleifarannsóknina sem staðið hefur yfir síðustu árin. Á sýningunni er varpað ljósi á klausturlíf á miðöldum og sýndir munir sem fundist hafa við uppgröft síðustu fimm sumur. Þar á meðal eru lítil handritsbrot úr einni af þeim þremur bókum sem fundust í gröfum í klausturkirkjunni nú í sumar og textíll úr líkklæði.
30. júlí 2006
Sýningum Kamillu Talbot og Ingrid Larssen að ljúka
- nýjar sýningar taka við
Sýningu bandarísku listakonunnar Kamillu Talbot í gallerí Klaustri lýkur föstudaginn 4. ágúst og sýningu á hálsskarti Ingrid Larssen í stássstofu lýkur 7. ágúst. Sunnudaginn 5. ágúst verður opnuð sýning á ljósmyndum Hrannar Axelsdóttur í gallerí Klaustri sem hún kallar Huldufólk og álagabletti. Eftir verslunarmannahelgina verður síðan sett upp í stássstofunni sýning um Ágústínusarklaustrið sem stóð að Skriðu á 16. öld og á henni verða m.a. sýndir munir úr fornleifarannsókninni sem staðið hefur síðustu ár.
13. júlí 2006
Tvær nýjar sýningar:
Hálsskart og vatnslitamyndir
Miðvikudaginn 12. júlí voru opnaðar tvær nýjar sýningar. Sýning listakonunnar Ingrid Larssen frá Vesterålen í Norður-Noregi á einstöku hálsskarti og sýning bandaríska listmálarans Kamillu Talbot á vatnslitamyndum af íslensku landslagi. Sýningarnar eru opnar kl. 10-18 alla daga.
11. júlí 2006
Ljósm. Trym Ivar Bergsmo.
Ný sýning:
Ingrid Larssen sýnir hálsskart
Miðvikudaginn 12. júlí verður opnuð á Skriðuklaustri sýning norsku listakonunnar Ingrid Larssen á hálsskarti. Ingrid býr og starfar í Vesterålen í Norður-Noregi en hefur sýnt í listgalleríum víða um heim og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. Hálsskartið vinnur hún úr silki en notar jafnframt perlur, ull og fiskroð við iðju sína. Hún sækir hugmyndir að verkunum í náttúruna bæði hvað varðar liti og form svo úr verða einstakir gripir sem vefjast um háls þeirra er þá bera.
Ingrid hefur ekki áður sýnt verk sín hér á landi. Sýningin á Skriðuklaustri stendur til 6. ágúst og er opin alla daga kl. 10-18. Í kjölfar hennar verða verkin sýnd í sal Handverks og hönnunar í Reykjavík.
Gunnarsstofnun og Menningarráð Austurlands standa að sýningunni á Skriðuklaustri og er hún liður í menningarsamstarfi Austurlands og Vesterålen.
Frá Stykkishólmi.
Gallerí Klaustur:
Kamilla Talbot sýnir vatnslitamyndir
Miðvikudaginn 12. júlí verður opnuð sýning í gallerí Klaustri á Skriðuklaustri á vatnslitamyndum Kamillu Talbot af íslensku landslagi. Verkin eru unnin á síðustu vikum í ferð sem Kamilla fer í fótspor afa síns, danska listmálarans Johannes Larsen, en hann ferðaðist um Ísland á árunum 1927-1930 og teiknaði myndir í nýja danska útgáfu á Íslendingasögunum sem Gunnar Gunnarsson og fleiri stóðu að.
Kamilla Talbot býr og starfar í Bandaríkjunum og hefur skapað sér nafn sem landslagsmálari. Hún dvelst um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu á Skriðuklaustri. Sýning hennar stendur til 3. ágúst og er opin alla daga kl. 10-18.
9. júní 2006
Ný sýning um Gunnar Gunnarsson
Á morgun, laugardaginn 10. júni verður opnuð ný sýning um Gunnar Gunnarsson í stássstofunni á Skriðuklaustri í tilefni þess að nú eru liðin 100 ár frá því fyrstu bækur skáldsins komu út. Það voru ljóðabækurnar Vorljóð og Móður-minning sem Oddur Björnsson á Akureyri gaf út fyrir hinn 17 ára ungling frá Ljótsstöðum í Vopnafirði.
Sýningin fjallar um verk Gunnars og ákveðna þætti í lífi hans. Á henni getur að líta muni úr eigu skáldsins, ljósmyndir og blaðaúrklippur frá langri ævi ásamt upptökum og myndbrotum úr ljósvakamiðlum.
Við opnunin munu Daníel Þorsteinsson píanóleikari og Hulda Björk Garðarsdóttir sópran flytja lög þriggja erlendra tónskálda sem voru samtíða Gunnari og sömdu sönglög við kvæði hans á dönsku og þýsku.
Sýningin stendur í mánuð og er opin alla daga kl. 10-18 eins og hús skáldsins. Aðgangseyrir á Skriðuklaustri er kr. 500 fyrr fullorðna en börn yngri en 16 ára frá frítt inn.
Agnieszka Sosnowska sýnir í gallerí Klaustri
Laugardaginn 10. júní verður einnig opnuð sýning á ljósmyndum Agniezsku Sosnowsku í gallerí Klaustri. Agnieszka hefur m.a. búið og starfað í New York undanfarin ár en er nú flutt á Fljótsdalshérað. Hún dvaldi í vor í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri en verkin sem hún sýnir eru tekin á síðustu mánuðum.
Sýning Agnieszku stendur fram í júlí og er opin á sama tíma og hús skáldsins, kl. 10-18 alla daga.
1. júní 2006
Vortónleikar Selmu og Gunnars á annan í hvítasunnu
Mánudaginn 5. júní kl. 17 (annan í hvítasunnu) halda þau Gunnar Kvaran sellóleikari og Selma Guðmundsdóttir píanóleikari tónleika í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri. Á efnisskrá tónleikanna er Svíta eftir franska tónskáldið Couperin, Sónata “Arpeggione” eftir Franz Schubert, Fantasíuþættir opus 73 eftir Robert Schumann og Íslensk þjóðlög í útsetningu Hafliða Hallgrímssonar.
Aðgangseyrir er kr. 1000 en Klausturreglufélagar frá frítt inn.
Gunnar Kvaran og Selma Guðmundsdóttir hafa starfað saman að tónleikahaldi frá árinu 1995. Þau hafa leikið saman tónlist inn á tvo geisladiska. Sá fyrri, Elegía, kom út hjá Japis árið 1996. Fyrir rúmu ári kom svo út hjá Smekkleysu diskurinn Gunnar og Selma með flutningi þeirra á nokkrum rómantískum verkum, þar á meðal sónata Frederic Chopin fyrir selló og píanó.
Gunnar og Selma starfa bæði sem kennarar við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík.
Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Félagi íslenskra tónlistarmanna og Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri með styrk frá Menntamálaráðuneytinu.
3. maí 2006
Ó-HREIN-DÝR Svandísar
Svandís Egilsdóttir myndlistarkona opnar sýninguna ó-hrein-dýr í gallerí Klaustri laugardaginn 6. maí kl. 15. Á henni eru olíumyndir sem Svandís hefur málað síðustu misseri eftir að hún flutti til Austurlands.
Sumaropnun hefst á Skriðuklaustri sama dag. Fram til 26. maí verður opið alla daga frá kl. 12-17 en þá tekur við hinn hefðbundni sumaropnunartími, kl. 10-18.
Í stássstofu verða næstu vikur sýnd verk í eigu Gunnarsstofnunar eftir ýmsa listamenn og inni á skrifstofu skáldisins verða sýnd sýnishorn úr því gríðarstóra úrklippusafni sem Gunnarsstofnun vinnur nú að flokkun á.
27. apríl 2006
Ráðning staðarhaldara á Skriðuklaustri
Halldóra Tómasdóttir íslenskufræðingur hefur verið ráðinn til Stofnun Gunnars Gunnarsonar sem staðarhaldari. Hún kemur til starfa í júlímánuði og mun hafa umsjón með menningarstarfsemi Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Jafnframt mun hún vinna að kynningarmálum og ýmsum verkefnum stofnunarinnar með forstöðumanni.
Halldóra er 38 ára með háskólapróf í íslensku frá Háskóla Íslands 1993 og lagði stund á háskólanám í dönsku við Kaupmannahafnarháskóla 1995-1999. Hún var kynningarfulltrúi við Háskóla Íslands árin 2000-2003 og lektor í íslensku við Háskólann í Kiel í Þýskalandi 2003-2004 en stundar nú cand mag. nám í menningar- og miðlunarfræði við Syddansk Universitet í Danmörku.
Halldóra er gift Úlfari Trausta Þórðarsyni og eiga þau þrjú börn.
10. apríl 2006
Kristur um víða veröld og opnunartími á næstunni
Í tilefni páskanna verður sett upp sýning á Kristsmyndum í stássstofunni á Klaustri. Á henni getur að líta hvernig listamenn annarra þjóða sýna Krist og hvernig þeir myndgera frásagnir guðspjallanna af atburðum í lífi hans. Mismunandi menningar-áhrif og listform gefa sýningunni margbreyti-leika og vídd sem gaman er að kynnast.
Sýningin kemur upphaflega frá Svíþjóð og hefur farið víða um. Sýningin verður opnuð á föstudaginn langa (kl. 14) og stendur í þrjár vikur.
OPNUNARTÍMI Á NÆSTUNNI
- á föstudaginn langa, kl. 14-18
- á annan í páskum, kl. 14-18
- sumardaginn fyrsta, kl. 14-18
Einnig verður opið sunnudagana 23. og 30. apríl. kl. 14-18.
Heitt súkkulaði, kökur og brauðréttir hjá Klausturkaffi.
19. mars 2006
Gunnarsstofnun auglýsir eftir klausturhaldara
Stofnun Gunnars Gunnarssonar leitar að staðarhaldara að Skriðuklaustri. Starfið er nýtt og mun starfsmaðurinn móta það í samvinnu við stjórnendur stofnunarinnar.
Starfssvið:
- að annast sýningarstjórn og skipulag menningarviðburða
- að stýra móttöku ferðamanna
- að bera ábyrgð á ákveðnum verkefnum Gunnarsstofnunar
- að hafa umsjón með gestaíbúð
- að hafa eftirlit með húsum
- að vera staðgengill forstöðumanns
Menntunar- og hæfniskröfur:
- Háskólamenntun eða sambærilegt
- Skipulags- og stjórnunarhæfileikar
- Þekking og reynsla af lista- og menningarstarfsemi
- Sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði
- Reynsla af félagsstörfum
- Góð tungumálakunnátta
Við leitum að drífandi og metnaðarfullum einstaklingi sem hefur yndi af samskiptum við fólk og býr yfir góðum skipulagshæfileikum, frumkvæði og víðtækri þekkingu og reynslu á lista- og menningarstarfi.
Starfið krefst sveigjanleika í vinnutíma og búseta er bundin við starfsmannabústað á Skriðuklaustri. Æskilegt er að viðkomandi hafi bíl til umráða.
Í boði er krefjandi en lifandi starf sem hæfir metnaðarfullum konum sem körlum. Launakjör eru í samræmi við kjarasamninga BHM. Viðkomandi þarf helst að geta hafið störf 1. maí 2006.
16. mars 2006
Djass og danskur húmor
Rithöfundurinn Johannes Møllehave og djasstríó Valdemars Rasmussen mæta í Skriðuklaustur þriðjudagskvöldið 21. mars. Dagskráin er helguð H.C. Andersen og mun Møllehave láta gamminn geysa af sinni alkunni snilld um ævintýrahöfundinn í bland við ljúfa djasstóna. Þeir félagar eru nú á ferð um landið fyrir tilstilli Norrænu upplýsingaskrifstofanna í Flensborg og á Akureyri og koma einnig fram á Akureyri og í Norræna húsinu í Reykjavík. Til Austurlands koma þeir fyrir tilstilli Menningarráðs Austurlands og Gunnarsstofnunar.
Dagskráin á þriðjudagskvöldið hefst kl. 20.30 og aðgangseyrir er kr. 1500. Allir áhugamenn um dönsku og ekki síst danskan húmor eru hvattir til að mæta.
Jóhann F. Þórhallsson, varaoddviti Fljótsdalshrepps, og Helgi Gíslason, stjórnarformaður Gunnarsstofnunar undirrita samninginn við skrifborð skáldsins.
Þjónustusamningur Fljótsdalshrepps og Gunnarsstofnunar
10. mars 2006 Í dag, 10. mars, var undirritaður á Skriðuklaustri þjónustusamningur milli Gunnarsstofnunar og Fljótsdalshrepps. Með samningnum tekur Gunnarsstofnun að sér tiltekin verkefni á sviði menningar og ferðaþjónustu fyrir sveitarfélagið. Stofnunin á m.a. að vera sveitarfélaginu til ráðgjafar og taka að sér áætlanagerð vegna málefna á þessu sviði. Þá mun stofnunin hafa umsjón með verkefnum er lúta að miðlun á sögu Fljótdals til ferðamanna með merkingum og öðrum hætti. Sérstaklega er tiltekið í samningnum að stofnunin annist þróunarverkefni sem snýst um að nýta Grýlusögur og Grýlukvæði til að skapa fjölbreytta afþreyingu fyrir ferðamenn í Fljótsdal.
Fljótsdalshreppur greiðir Gunnarsstofnun 2 m.kr. á ári fyrir vinnu við verkefnin. Samningurinn nær til ársloka 2007 en gert er ráð fyrir að samningsaðilar kanni grundvöll fyrir gerð nýs samnings sex mánuðum fyrir þann tíma.
6. mars 2006
Frá lomberdegi.
Lomberdagur 11. mars
Hinn árlegi lomberdagur á Klaustri verður nk. laugardag, 11. mars. Spilamennskan hefst kl. 13.30 og er mælt með því að byrjendur mæti þá strax. Vanir spilamenn geta hins vegar bæst í hópinn hvenær sem er dagsins. Sama fyrirkomulag verður á deginum og vanalega, spilað af krafti og kæti milli mála langt fram á kvöld.
- Spadda (kaffi, kökuhlaðborð og kvöldverður) kr. 3.700
- Manilía (kvöldverður og kaffi) kr. 3.000
- Basti (kökuhlaðborð og kaffi) kr. 1.200.
Í tilefni lomberdagsins verður Klausturkaffi með steikarhlaðborð um kvöldið sem aðrir en lombermenn geta einnig skráð sig í en vissara er að panta borð tímanlega í síma 471-2992/2990.
16. febrúar 2006
Úr verkinu Order.
Videólist og konudagskaffi á sunnudaginn
Sunnudaginn 19. febrúar, á konudaginn, verður opið kl. 14-17. Klausturkaffi verður með kaffihlaðborð í tilefni konudags. Kristina Inciuraite frá Litháen sýnir vidéoverk en hún dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni Klaustrinu. Kristina vinnur í verkum sínum með félagslegar og sálfræðilegar breytingar sem orðið hafa á litháensku samfélagi eftir að landið öðlaðist sjálfstæði. Verk hennar hafa verið sýnd víða í Evrópu en hún vinnur jafnframt sem sýningarstjóri á nýlistasafninu í Vilníus.
Um verkin sem sýnd verða á sunnudaginn segir Kristina eftirfarandi: "Kórinn í Liepaites mun aldrei njóta fyrri frægðar þar sem skemmtanaiðnaðurinn með lélegri söngvurum hefur tekið yfir (Rehearsal, 2002). Konurnar í Visaginas þurfa trúlega að flytja frá borginni þegar kjarnorkuverinu verður lokað (Leisure, 2003). Unglingarnir á betrunarhælinu í Vilníus sem leika piparjómfrúr í leikritinu verða trúlega áfram ógiftir ef þeir halda áfram að reka á reiðanum í samfélaginu (Spinsters, 2003). Lögreglukonurnar í Vilníus þurfa enn að takast á við sjónarmið karla um að konur eigi að halda sig heima (Order, 2004). Gestir á veitingastað gamla Gintaras hótelsins munu aldrei upplifa hið hverfandi andrúmsloft munaðar sem sovéskir stílistar sjöunda áratugarins sköpuðu (Shutdown, 2004). Kvikmyndahúsgestir í Ozo munu ásamt hetjum svarthvítu myndanna verða vitni að falli gömlu kvikmyndahúsanna í Vilníus sem er sambærilegt á myndhverfan hátt við fall Rómarveldis (Fall, 2005). Það er ekki hægt að ætlast til þess að skólabörnin í Siauliai sem finnst lítið um menningarviðburði muni reisa menningarlíf bæjarins við til framtíðar (Fire, 2005).