Fréttir 2005
16. desember 2005
Jólakveðjur frá Klaustri
Gunnarsstofnun og Klausturkaffi senda öllum þeim sem sóttu Skriðuklaustur heim árið 2005 hugheilar jóla- og nýárskveðjur. Vonandi sjáum við sem flesta af þeim 10 þúsund gestum sem komu í Klaustur aftur á nýju ári.
15. desember 2005
Yfirlýsing frá stjórn og forstöðumanni Gunnarsstofnunar
Stofnun Gunnars Gunnarssonar fagnar því að loksins skuli komnar fram upplýsingar sem varpa ljósi á ástæður þess að Gunnar Gunnarsson varð ekki þess heiðurs aðnjótandi að taka við Nóbelsverðlaunum í Stokkhólmi 1955. Svo virðist sem skáldið hafi ekki verið metið af framlagi sínu til heimsbókmenntanna heldur hafi óréttmæt sjónarmið verið lögð til grundvallar við ákvörðun sænsku akademíunnar. Nú þegar hálf öld er liðin frá því Íslendingar eignuðust Nóbelskáld er tímabært að hið sanna komi fram og gögn akademíunnar munu væntanlega leiða sannleikann í ljós þegar leynd verður létt af þeim. Staðreyndin er hins vegar sú að Íslendingar áttu tvo framúrskarandi rithöfunda á 20. öld sem báðir voru álitnir verðugir kandídatar til að taka við æðstu viðurkenningu í bókmenntum. Aðeins öðrum þeirra hlotnaðist heiðurinn en verk beggja lifa. Gunnarsstofnun hvetur til málefnalegrar umræðu og umfjöllunar um ævi og verk stórskáldanna sem eiga annað og betra skilið en aðdróttanir og upphrópanir fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslenskrar menningar. Þjóðin hefur með veglegum hætti heiðrað minningu þeirra með því að koma á fót menningarsetri að Skriðuklaustri og safni að Gljúfrasteini. Á báðum stöðum gefst gestum tækifæri á að kynna sér skáldin en andagiftin og orðsnilldin lifa í verkum þeirra.
Helgi Gíslason formaður
Gunnar Björn Gunnarsson
Hrafnkell A. Jónsson
Sigríður Sigmundsdóttir
Stefán Snæbjörnsson
Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður
Aðventa lesin við skrifborð skáldsins
Sunnudaginn 11. desember var Aðventa lesin upphátt við skrifborð Gunnars skáld á skrifstofu hans að Skriðuklaustri. Vala Þórsdóttir leikkona las söguna og tók lesturinn um þrjár og hálfa klukkustund. Hlustendur nutu þess að verða samferða Bensa, Leó og Eitli inn á öræfin og úti blés hvass vestanvindur sem magnaði lesturinn.
Gunnarsstofnun ætlar að gera þetta að árlegum viðburði enda fátt betur við hæfi í aðdraganda jólanna en heiðra minningu skáldsins með upplestri á Aðventu.
6. desember 2005
Aðventa lesin upphátt sunnudaginn 11. des.
- Vala Þórsdóttir leikkona les
Sunnudaginn 11. desember verður í fyrsta sinn efnt til upplesturs á Aðventu Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklausturi, en ætlunin er að gera þetta að árvissum viðburði. Sagan um eftirleitir Fjalla-Bensa á öræfum síðustu dagana fyrir jól verður að þessu sinni lesin af leikkonunni Völu Þórsdóttur. Hefst lesturinn kl. 13 og lýkur um kl.17. Lesið verður í hálftíma lotum með 10 mínútna hléum á milli. Reynt verður að skapa notalega stemningu við arineld í stofum Gunnarshúss. Aðgangur er ókeypis en gestir geta keypt sér kaffi og kökur.
Auk þess munu gestir geta skoðað sýningu um Brynjólf biskup Sveinsson og 17. öldina sem hangir nú uppi á Skriðuklaustri.
Sunnudaginn 4. des. verður hin árlega Grýlugleði að Skriðuklaustri. Að venju verður dagskráin blönduð og sagt frá ýmsu er varðar Grýlu og hyski hennar. Undanfarin fimm ár hafa hin ófríðu hjónakorn birst óvænt á höttunum eftir matarbita og eru skipuleggjendur gleðinnar því við öllu búnir. Að þessu sinni mun trúbador Rásar 2, Svavar Knútur, sjá um Grýlulögin og eftir dagskrána er jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi. Dagskráin hefst kl. 14 og kostar 500 kr. inn fyrir fullorðna en frítt fyrir börnin (16 ára og yngri).
Árleg Grýlugleði sunnudaginn 4. des. kl. 14
- Svavar Knútur mætir með gítarinn
Síðasti lomber fyrir jól spilaður á Egilsstöðum
Síðasta lomberkvöld fyrir jól verður í kjallara Gistihússins Egilsstöðum föstudaginn 2. des. og hefst spilamennska kl. 20. Allir velkomnir og beðnir um að minna aðra lomberspilara á aðra staðsetningu en vanalega.
Skáldin lesa sunnudaginn 27. nóv. kl. 14
Sunnudaginn 27. nóvember er komið að árlegri dagskrá með nokkrum völdum höfundum. Að þessu sinni eru það eftirfarandi höfundar sem lesa úr verkum sínum:
Gerður Kristný Guðjónsdóttir : Myndin af pabba
Guðlaugur Arason: Gamla góða Kaupmannahöfn
Gunnar Hersveinn Sigursteinsson: Gæfuspor, gildin í lífinu
Jón Kalman Stefánsson: Sumarljós, og svo kemur nóttin
Yrsa Sigurðardóttir: Þriðja táknið
Dagskráin hefst kl. 14.00. Aðgangseyrir kr. 500. Frítt fyrir 16 ára og yngri. Eftir dagskrá verður heitt á könnunni og kökur á boðstólum hjá Klausturkaffi.
Brynjólfssýningin er opin á sama tíma: kl. 13-17 á sunnudaginn.
30 ár liðin frá andláti Gunnars skálds
Í dag eru 30 ár liðin frá því Gunnar Gunnarsson skáld andaðist í Reykjavík 86 ára að aldri. Efnt var til Gunnarsvöku að Skriðuklaustri laugardaginn 19. nóv. til að minnast þess. Dagskráin var blönduð, flutt erindi og spjallað um lífshlaup Gunnars og verk hans fyrir herragarðskvöldverð sem var með dönsku sniði að hætti frú Franziscu. Um kvöldið var síðan lesið úr nokkrum verkum og Þorbjörn Rúnarsson söng fimm lög fjögurra tónskáldra, danskra og sænskra, sem samin voru við kvæði Gunnars á fyrri hluta síðustu aldar.
Gunnarsvaka laugard. 19. nóvember
Hinn 21. nóvember nk. verða 30 ár liðin frá því Gunnar Gunnarsson skáld lést. Í tilefni þess efnir Gunnarsstofnun til Gunnarsvöku laugardaginn 19. nóvember. Dagskráin er blönduð og geta gestir snætt herragarðskvöldverð að hætti frú Franziscu. Frítt er inn á dagskrána en herragarðskvöldverður m. fordrykk kostar kr. 3.900. Æskilegt er að panta borð í kvöldverðinn.
Dagskrá Gunnarsvöku:
Kl. 16.00-18.00 -
- Portrett af skáldi - Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar
- Mest um Gunnar - og svolítið um Þórberg - Halldór Guðmundsson bókmenntafr.
- Gunnar í erlendum blöðum - Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir mannfræðingur
Kl. 18.00 Fordrykkur og spjall
Kl. 18.30 Herragarðskvöldverður að hætti frú Franziscu
Kl. 20.30 - 22.00
- Sönglög við kvæði Gunnars - Þorbjörn Rúnarsson flytur lög sem tónskáldin Thorvald Aagaard, Ejnar Jacobsen, Axel Raoul Wachtmeister og M. Livstov-Saabye sömdu við kvæði Gunnars. Undirleikari Suncana Slamnig.
- Lesið úr verkum skáldsins - Steinunn Jóhannesdóttir, Arndís Þorvaldsdóttir, Guðmundur Beck og Skúli Björn Gunnarsson.
Brynjólfur biskup - sýning og málþing sunnud. 20. nóv.
Í ár eru liðin 400 ár frá fæðingu Brynjólfs biskups Sveinssonar sem hafði mikil áhrif á 17. öldina á Íslandi. Í tilefni þess tók fjöldi stofnana og félaga sig saman í haust, setti saman sýningu og efndi til ráðstefnu í Þjóðarbókhlöðunni og Skálholti. Nú er hluti af þessari sýningu kominn í Skriðuklaustur og verður hún opnuð sunnudaginn 20. nóv. kl. 14 með litlu málþingi um Brynjólf þar sem eftirtalin erindi verða flutt:
- Steinunn Jóhannesdóttir: Brynjólfur Sveinsson: Drög að sjálfsævisögu,. Sonur, Bróðir, maki, mágur, tengdasonur, faðir og afi.
- Einar Sigurbjörnsson: Um Maríukveðskap Brynjólfs.
- Loftur Guttormsson: Af vísitasíubókum og máldaga Brynjólfs biskups.
Frítt er inn á sýningaropnunina og málþingið.
Í tilefni af Dögum myrkurs verður Klausturkaffi með súkkulaðikökur með meiru síðdegis.
Brynjólfssýning og Gunnarsvaka
Á Dögum myrkurs verður mikið um að vera á Skriðuklaustri. Laugardaginn 19. nóvember verður efnt til Gunnarsvöku í tilefni 30 ára ártíðar skáldsins, en þann 21. nóv. verða liðin 30 ár frá því Gunnar Gunnarsson lést. Dagskráin mun hefjast kl. 16. en standa fram á kvöld og í tengslum við hana verður sérstakur herragarðskvöldverður hjá Klausturkaffi í anda Franziscu. Dagskráin verður kynnt betur er nær dregur en verður blönduð af upplestri, erindum og tónlistarflutningi.
Sömu helgi verður opnuð sýning um Brynjólf biskup Sveinsson sem uppi var á 17. öld. Sýningin er minni gerð af stórri sýningu sem er í Þjóðarbókhlöðunni um þessar mundir í tilefni þess að 450 ár eru liðin síðan þessi merki lærdómsmaður var uppi. Í tengslum við opnun sýningarinnar verður málþing sunnudaginn 20. nóv. kl. 14. þar sem fræðimenn flytja nokkur erindi um Brynjólf.
20. september 2005
Sögusýningin um Klaustrið að Skriðu framlengd
Ákveðið hefur verið að framlengja sýninguna um Klaustrið að Skriðu sem staðið hefur frá því í júlílok. Á henni getur að líta muni sem fundist hafa við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri síðustu sumur og upplýsingar um klausturlífið að Skriðu eins og menn telja að það hafi verið fyrir 500 árum. Skriðuklaustursrannsóknir og Gunnarsstofnun standa saman að sýningunni og hún nýtur styrks frá Menningarráði Austurlands.
Opið verður á Skriðuklaustri sem hér segir: sunnudaginn 25. sept. kl. 13-17. Allar helgar í október, lau. og sun. kl. 13-17. Þess utan geta hópar ætíð pantað þjónustu og eru skólar sérstaklega hvattir til að koma og skoða sýninguna um klaustrið.
Helga Erlendsdóttir sýnir í gallerí Klaustri
Opnuð hefur verið sýning á olíumálverkum Helgu Erlendsdóttur í gallerí Klaustri. Á sýningunni eru þrettán myndir sem eiga uppruna sinn í jökullandslagi Hornafjarðar.
Helga Erlendsdóttir fæddist í Reykjavík 1948. Hún lauk listnámi við Fjölbrautaskóla Breiðholts árið 1992 en jafnhliða námi þar lærði hún m.a. við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Jafnframt hefur Helga verið í einkanámi hjá nokkrum virtum listmálurum. Sumarið 1992 flutti Helga að Árnanesi í Hornafirði. Þar rekur hún gallerí og ferðaþjónustu ásamt manni sínum Ásmundi Gíslasyni.
Í listsköpun sinni fæst Helga ýmist við vatnsliti eða olíu. Náttúran er megin uppspretta verkanna og viðfangsefnin gjarna kunnugleg þó að oftar en ekki verði málverkin óhlutbundin. Helga hefur einnig prófað nýstárlegar leiðir í listinni eins og þegar hún tók þátt í CAMP-Hornafjörður árið 2002. Verk eftir Helgu eru í eigu fólks um allt Ísland og fjöldi verka á einkaheimilum víða um heim.
Sýning Helgu stendur frá 15.ágúst og til 18. september og er opin á sama tíma og hús skáldsins, kl. 10-18 alla daga fram til 28. ágúst en eftir það kl. 12-17.
4. ágúst 2005
Klaustur-María komin heim
Þjóðminjasafn Íslands hefur lánað til sýningar á Skriðuklaustri Maríulíkneski það sem talið er að staðið hafi í klausturkirkjunni á sínum tíma. Líkneskið er úr eik og sýnir Maríu með Jesúbarnið. Það komst í eigu ensks fiskkaupmanns um aldamótin 1900 en einkasafn hans var gefið til Þjóðminjasafnsins um 1950. Líkneskið er fagurlega útskorið og vel varðveitt. Sú saga fylgir því að það hafi fundist þegar bóndinn á Klaustri við Lagarfljót var að gera við fjósvegg sinn. Líkur eru á að við siðaskiptin hafi líkneskið verið falið til að það yrði ekki eyðilagt en síðan hafi það fundist aftur 60-80 árum síðar og þá verið komið fyrir að nýju í klausturkirkjunni sem var notuð allt til 1792. Heimildir eru fyrir því að í kirkjunni var Maríulíkneski á 17. öld enda var kirkjan helguð Maríu mey og hinu heilaga blóði.
Líkneskinu var komið fyrir í traustu sýningarherbergi þjóðminja á Skriðuklaustri og verður þar næstu mánuðina.
Graham Langford forvörður á Þjóðminjasafninu kom með líkneskið í Klaustur.
22. júlí 2005
Klaustrið að Skriðu
- sýning opnuð í dag um klausturlíf og fornleifarannsókn
Í dag var opnuð sýning undir yfirskriftinni, Klaustrið að Skriðu. Á henni getur að líta muni sem fundist hafa við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri síðustu sumur og upplýsingar um klausturlífið að Skriðu eins og menn telja að það hafi verið fyrir 500 árum.
Hnífar og brýni
Skriðuklaustursrannsóknir og Gunnarsstofnun standa saman að sýningunni og hún nýtur styrks frá Menningarráði Austurlands. Hún mun standa yfir til 18. september og verður opin fram að 28. ágúst alla daga kl. 10-18.
Bænaperlur sem fundist hafa við uppgröftinn.
14. júlí 2005
Á DÖFINNI Á SKRIÐUKLAUSTRI:
Giuseppe sýnir í gallerí Klaustri
Á morgun, föstudaginn 15. júlí kl. 13, verður opnuð sýning á teikningum eftir ítalska listamanninn og forvörðinn Guiseppe Venturini í gallerí Klaustri. Hann hefur undanfarin þrjú sumur unnið að forvörslu gripa sem fundist hafa við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri en notað frístundir til að teikna landslag og kletta í Fljótsdalnum.
Giuseppe Venturini lærði við Listaakademíuna í Flórens 1963-1968 og var virkur í listinni á 6. og 7. áratugnum. Frá 1972 hefur hann unnið sem forvörður í Flórens og í stórum fornleifaverkefnum víða um heim.
Sýning Giuseppe Venturini stendur til 14. ágúst.
Tónleikar Ýlis mánudagskvöldið 18. júlí
Næsta mánudagskvöld, þann 18. júlí, munu þau Gerður Gunnarsdóttir og Claudio Puntin halda tónleika á Skriðuklaustri. Ýlir er nafnið á hljómsveitinni og hafa þau gefið út hljómdisk undir sama heiti sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Gerður leikur á fiðlu og syngur en Claudio á klarinett og bassaklarinett og þau spila íslenska tónlist með alþjóðlegu ívafi.
Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 og aðgangseyrir er kr. 1000.
Rétt er að benda á að Klausturkaffi verður með létt MATARHLAÐBORÐ á undan því frá kl. 18.30 fyrir þá sem hafa áhuga á að eyða kvöldinu í notalegheitum á Klaustri.
Snæfellssýningu að ljúka og Klaustrið að taka við
Framundan er síðasta sýningarhelgi á Snæfellsmyndum þeim sem hangið hafa uppi síðan 7. maí. Sú sýning verður tekin niður 20. júlí og föstudaginn 22. júlí verður opnuð sýning um klaustrið sem stóð að Skriðu á 15. og 16. öld. Á henni verður m.a. sýnt margt þeirra gripa sem komið hafa upp við fornleifarannsóknina undanfarin sumur. Reiknað er með að opna sýninguna formlega kl. 16 föstudaginn 22. júlí.
5. júlí 2005
SAFNADAGURINN á sunnudag
Sunnudaginn 10. júlí er safnadagur um allt land. Þann dag verður aðgangur ókeypis á Skriðuklaustri til að skoða sýningar. Jafnframt verða fornleifafræðingar að leiðsegja fólki um fornleifauppgröftinn á Kirkjutúni eftir hádegi.
16. júní 2005
Myndir úr Fjallkirkjunni leiklesnar á Vopnafirði
Laugardaginn 18. júní kl. 20.30 er Skáldakvöld á Vopnafirði í félagsheimilinu Miklagarði. Þar verða kynnt verk Gunnars Gunnarssonar og Jóns Múla og Jóns Árnasona. Forstöðumaður Gunnarsstofnunar segir frá Gunnari skáldi og síðan mun hópur atvinnu- og áhugaleikara leiklesa "Myndir úr Fjallkirkjunni" sem Lárus Pálsson og Bjarni Benediktsson unnu á sínum tíma upp úr verki skáldsins. Meðal leiklesara eru Hilmir Snær Guðnason, Guðrún Ásmundsdóttir, Gunnar Eyjólfsson, Kristján Franklín Magnúss, Ólafur B. Valgeirsson og Bjartur Aðalbjörnsson sem les fyrir Ugga sjálfan.
Að loknum leiklestrinum taka við verk þeirra bræða Jóns Múla og Jónasar í flutningi ýmissa tónlistarmanna.
Miðaverð er kr. 1.500 fyrir fullorðna, kr. 1.000 fyrir börn.
15. júní 2005
Sýningin Þytur í gallerí Klaustri
Föstudaginn 17. júní kl. 18 opnar Sveinbjörg Hallgrímsdóttir grafíksýningu í gallerí Klaustri. Á sýningunni eru tréristur og er þema þeirra sótt í íslenska náttúru. Verkin eru öll unnin á vetrarmánuðum og fjalla um skammdegið, birtuna, veðrið og náttúruna sem er allt um kring. Eftir því sem vorið og birtan breytast þá breytist viðfangsefnið með.
Sveinbjörg dvaldi í gestaíbúðinni Klaustrinu sl. haust og eiga sum verkin rætur í þeirri dvöl. Hún hefur haldið átta einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga heima og erlendis. Sveinbjörg býr og starfar á Akureyri þar sem hún rekur í Brekkugötu 3a vinnstofu og sýningarsalinn Svartfugl og Hvítspóa ásamt annarri listakonu. Hún fékk listamannalaun Akureyrarbæjar á sl. ári. Heimasíða hennar er www.svartfugl.is.
Allir eru velkomnir á opnunina kl. 18 á Þjóðhátíðardaginn. Í tengslum við hana mun Klausturkaffi bjóða upp á kvöldverðarhlaðborð.
3. maí 2005
Tvær sýningaropnanir og vortónleikar um helgina
Laugardaginn 7. maí kl. 14 verður opnuð sýning á málverkum og vatnslitamyndum átta myndlistarmanna af Snæfelli. Á sýningunni eru verk eftir: Eyjólf J. Eyfells, Finn Jónsson, Hrafnhildi Ingu Sigurðardóttur, Jóhannes S. Kjarval, Kristínu Þorkelsdóttur, Ólöfu Birnu Blöndal og Steinþór Eiríksson. Sýningin stendur til 20. júlí.
Á laugardaginn opnar Sigurður Blöndal, fyrrum skógræktarstjóri, einnig sýningu á svarthvítum ljósmyndum í gallerí Klaustri. Sýninguna kallar hann Fólk en á henni eru níu ljósmyndir teknar á 6x9 myndavél á árunum 1950-1965.
Jón í Möðrudal. Ljósm. Sig.Blöndal.
VORTÓNLEIKAR Á SUNNUDAGINN
Hinir árlegu vortónleikar á Skriðuklaustri verða á sunnudaginn, 8. maí og hefjast kl. 14.00. Á þeim flytja Snorri Örn Snorrason gítarleikari og Marta Guðrún Halldórsdóttir söngkona m.a. íslensk og erlend þjóðlög útsett fyrir gítar og rödd. Að venju fá Klausturreglufélagar frítt inn á tónleikana en aðgangseyrir fyrir aðra er kr. 1000.
SUMAROPNUN
Þessi viðburðir marka upphaf sumarstarfsins á Skriðuklaustri. Frá og með helginni verður opið frá kl. 12-17 alla daga fram til 27. maí. Eftir það tekur við hefðbundinn sumaropnun, kl. 10-18 alla daga.
28. apríl 2005
Sýningarlok Hallgrímssýninga á sunnudaginn
Það verður opið kl. 13-18 á Skriðuklaustri sunnudaginn 1. maí. Þá verða sýningarlok á sýningu um Skáld mánaðarins, Hallgrím Pétursson, sem og á Passíu-innsetningu þeirra Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í gallerí Klaustri.
Opið einnig hjá Klausturkaffi kl. 13-18 á sunnudaginn.
19. apríl 2005
Opið á sumardaginn fyrsta og nk. sunnudag
- styttist í sýningarlok á Hallgrímssýningum
Nú fer hver að verða síðastur að sjá innsetningu Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í gallerí Klaustri og sýningu um skáld mánaðarins, Hallgrím Pétursson. Í tilefni af sumarkomu verður opið á sumardaginn fyrsta kl. 13-18 og aðgangur ókeypis. Klausturkaffi verður með sumartilboð á veitingum í tilefni dagsins. Þá verður einnig opið nk. sunnud. kl. 13-18.
Síðasti lomber vetrarins verður nk. föstudagskvöld, 22. apríl og hefst spilamennskan að venju kl. 20.00.
4. apríl 2005
Opið á Skriðuklaustri næstu sunnudaga
- Hallgrímssýning og passíuinnsetning í galleríi
Föstudaginn langa voru opnaðar tvær sýningar á Skriðuklaustri í tilefni þess að Hallgrímur Pétursson er skáld mánaðarins í samstarfsverkefni Þjóðmenningarhúss, Árnastofnunar, Landsbókasafns, Skólavefjarins og Gunnarsstofnunar. Annars vegar var um að ræða litla sýningu um skáldið þar sem m.a. eru sýndar ýmsar útgáfur Passíusálmanna. Hin sýningin er innsetning Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í gallerí Klaustri sem þau byggja á Passíusálmunum.
Opið verður á Skriðuklaustri kl. 14-18 næstu tvo sunnudaga, þ.e. 10. apríl og 17. apríl. Klausturkaffi verður að venju með heitt súkkulaði, kökur og brauðréttir á boðstólum.
23. mars 2005
Hallgrímur Pétursson um páskana
- innsetning Lóu og Sigga í galleríi
Föstudaginn langa verða opnaðar tvær sýningar á Skriðuklaustri í tilefni þess að Hallgrímur Pétursson er skáld mánaðarins í samstarfsverkefni Þjóðmenningarhúss, Árnastofnunar, Landsbókasafns, Skólavefjarins og Gunnarsstofnunar. Annars vegar er um að ræða litla sýningu um skáldið þar sem m.a. eru sýndar gamlar útgáfur Passíusálmanna. Hin sýningin er innsetning Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í gallerí Klaustri sem þau byggja á Passíusálmunum.
Báðar sýningarnar verða opnaðar kl. 14 á föstudaginn langa og verður opið til kl. 18 þann dag. Einnig verður opið á Skriðuklaustri kl. 14-18 laugardaginn 26. mars og á annan í páskum. Lokað verður á páskadag. Klausturkaffi verður að venju með heitt súkkulaði, kökur og brauðréttir á boðstólum.
www.skolavefurinn.is hefur að geyma meiri upplýsingar um skáld mánaðarins.
16. mars 2005
Þýsk heimildamynd um álfa sýnd á föstudagskvöld
– Silfurberg með tónleika á laugardaginn
Föstudagskvöldið 18. mars mun þýska kvikmyndagerðarkonan Dörthe Eickelberg sýna heimildamynd sem hún gerði á Íslandi 2002 og 2003. Dvaldist hún m.a. í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri við vinnu sína og tók viðtöl við marga Austfirðinga. Myndin hefur nú þegar verið sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum víða um heim og hlotið góðar viðtökur og verðlaun.
Myndin ber heitið Álfar og aðrar sögur (Fairies and other tales) og var útskriftarverkefni Dörthe Eickelberg frá kvikmyndaakademíunni í Baden-Württemberg. Hægt er að nálgast meiri upplýsingar um myndina á slóðinni:
Kvikmyndasýningin hefst kl. 20.30 á föstudagskvöld.
KAMMERSVEITIN SILFURBERG heldur kammertónleika á Skriðuklaustri laugardaginn 19. mars kl. 17.00. Á tónleikunum verða flutt verk eftir frönsk tónskáld frá 20. öld fyrir þverflaut, óbó, klarinett, saxófón, fagott og píanó.
Silfurbergið skipa fjórir tónlistarkennarar á Austurlandi, Tristan Willems, Imogene Newland, Clarissa Payne og Gillian Haworth.
Opið verður á Skriðuklaustri frá kl. 14 á laugardaginn og heitt á könnunni hjá Klausturkaffi. Sunnudaginn 20. mars verður hins vegar lokað.
9. mars 2005
Einar Már les og spjallar á sunnudaginn
– álfamynd og tónleikar um aðra helgi
Sunnudaginn 13. mars verður opið á Skriðuklaustri frá kl. 14-17. Einar Már Guðmundsson rithöfundur mun lesa úr verkum sínum og spjalla við gesti kl. 14.30. Veitingastofan verður opin með heitt súkkulaði, kökur og brauðrétti.
Föstudagskvöldið 18. mars verður sýnd á Skriðuklaustri kvikmynd sem þýska kvikmyndagerðarkonan Dörthe Eickelberg gerði árin 2002 og 2003. Myndin fjallar um álfatrú Íslendinga og í henni er rætt við fjölda fólks og álfastaðir heimsóttir. Austurland og Austfirðingar leika stórt hlutverk í myndinni enda dvaldi kvikmyndagerðarfólkið m.a. í gestaíbúðinni Klaustrinu. Sýningin hefst kl. 20.30 og mun Dörthe Eickelberg verða viðstödd hana og ræða við sýningargesti.
Síðdegis laugardaginn 19. mars verða tónleikar þar sem nokkrir tónlistarkennarar af Austurlandi leiða saman hesta sína. Nánar um það síðar.
1. mars 2005
Hinn árlegi lomberdagur á laugardaginn kemur
– opið næstu tvo sunnudaga
Hinn árlegi lomberdagur verður á Skriðuklaustri laugardaginn 5. mars. Gert er ráð fyrir að hefja spilamennsku kl. 13.30 og eru byrjendur beðnir um að vera mættir þá. Reyndir spilamenn geta bæst í hópinn fram eftir degi en að venju verður spilað fram á rauða nótt. Konur boðnar sérstaklega velkomnar.
Verðskrá fyrir lomberdaginn:
- Spadda (kaffi, kökuhlaðborð og kvöldverður) kr. 3.500
- Manilía (kvöldverður og kaffi) kr. 2.500.
- Basti (kökuhlaðborð og kaffi) kr. 1.000.
Sunnudagsopnun
Opið verður á sunnudaginn kl. 14-17. Að venju er eitt og annað að sjá og skoða en væntanlega verða þó allir lombermenn farnir heim. Klausturkaffi verður með heitt súkkulaði, kökur og brauðrétti að venju.
Sunnudaginn 13. mars verður einnig opið kl. 14-17 og kl. 14.30 þá mun Einar Már Guðmundsson rithöfundur lesa úr verkum sínum og spjalla við gesti.
23. febrúar 2005
Opið sunnudaginn 27. febrúar kl. 14-17:
Ulrike Geitel og Ulrich Dürrenfeld segja frá og sýna
Opið verður á Skriðuklaustri sunnudaginn 27. febrúar milli kl. 14 og17. Klukkan 15.00 munu þýsku myndlistarmennirnir Ulrike Geitel og Ulrich Dürrenfeld segja frá listsköpun sinni og sýna það sem þau hafa unnið síðustu vikur, en þau dvelja nú í gestaíbúðinni Klaustrinu. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. www.ulrich-duerrenfeld.de
Klausturkaffi verður með kökuhlaðborð á sunnudaginn kl. 14-17.
16. febrúar 2005
Skáld mánaðarins:
Dagskrá um Davíð Stefánsson á sunnudaginn
Í tilefni þess að Davíð Stefánsson er skáld mánaðarins í samstarfsverkefni Þjóðmenningarhúss, Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns, Skólavefjarins og Gunnarsstofnunar verður efnt til dagskrár á Skriðuklaustri sunnudaginn 20. febrúar.
Erindin eru:
- Davíð á ýmsa vegu - Ljóð Davíðs Stefánssonar sem áreiti til tónsköpunar. dr. Bjarki Sveinbjörnsson tónlistarfræðingur
- Gleðisveinninn og vandlætarinn. Um andstæður í kveðskap Davíðs Stefánssonar. Sigríður Albertsdóttir bókmenntafræðingur
- Davíð Stefánsson - hrafninn í íslenskri ljóðlist. dr. Sigurður Ingólfsson bókmenntafræðingur
Einnig verða lesin og sungin kvæði eftir Davíð Stefánsson.
Dagskráin hefst kl. 14.00 og aðgangseyrir er kr. 1.000.
Klausturkaffi verður með konudagskaffi eftir dagskrána.
(Þeir sem hafa áhuga á að skoða skáldið á Skólavefnum smelli hér)
mynd frá 1941.
2. febrúar 2005
Bollukaffi og lomber framundan
Klausturkaffi verður með bollukaffi sunnudaginn 6. febrúar milli kl. 14-17. Gestum gefst tækifæri á að skoða listaverk í eigu Gunnarsstofnunar.
Föstudagskvöldið 18. febrúar er fyrirhugaður lomber en hinn árlegi lomberdagur verður haldinn laugardaginn 5. mars.
Með hækkandi sól mun aftur færast líf í starfið á Skriðuklaustri og von á kvöldvöku, fyrirlestrum og sýningum. Nánar um það síðar.