Fréttir 2004

2. desember 2004

Rithöfundar lesa úr verkum sínum

Laugardaginn 4. desember kl. 14 munu rithöfundarnir:

  • Einar Már Guðmundsson (Bítlaávarpið),
  • Kristín Steinsdóttir (Sól sest að morgni, Vítahringur),
  • Sigmundur Ernir Rúnarsson (Barn að eilífu),
  • Þorvaldur Þorsteinsson (Blíðfinnur og svörtu teningarnir: lokaorrustan)
  • Þórarinn Eldjárn (Baróninn)

lesa úr nýútkomnum verkum sínum og spjalla við gesti yfir kaffi.

Aðgangseyrir er kr. 1000 en innifalið er kaffi og kökur meðan á lestrinum stendur. Frítt fyrir 12 ára og yngri og 13-18 ára greiða hálft gjald.


15. nóvember 2004

Lomber, Grýlugleði, rithöfundar og jólahlaðborð

Hefðbundin dagskrá er framundan næstu vikur á Skriðuklaustri. Vegna fjarveru staðarhaldara verður þó engin kvöldvaka þetta árið á Dögum myrkurs en henni er lofað í febrúar eða mars.

Síðasta lomberkvöld ársins verður föstudaginn 26. nóvember kl. 20. Hin árvissa Grýlugleði þar sem sagt er frá Grýlu og hyski hennar verður síðan sunnudaginn 28. nóvember og jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi.

Laugardaginn 4. desember kl. 14 er von á góðum gestum, einum fimm rithöfundum sem munu þá kynna ný verk. Að öllum líkindum verða þetta þeir: Einar Már Guðmundsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þorvaldur Þorsteinsson, Halldór Guðmundsson og Þórarinn Eldjárn.

Klausturkaffi verður síðan með jólahlaðborð 3., 4., 10, og 11. desember og er nú þegar upppantað einhver kvöld svo að það er rétt fyrir áhugasama að hafa samband sem fyrst.


12. nóvember 2004

Myndlistarkona frá Suður-Afríku

Sunnudaginn 14. nóvember kl. 14 mun myndlistarkonan Liz Crossley, sem er frá Suður-Afríku en býr í Þýskalandi, halda fyrirlestur um listsköpun sína að Skriðuklaustri. Hún dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri og vinnur að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast landslagi og sögum. Liz Crossley mun í erindi sínu segja frá vinnu sinni og bregða upp myndum af list sinni og því umhverfi sem hún kemur úr.

Aðgangur er ókeypis og opið verður hjá Klausturkaffi eftir erindið.

http://www.galerie-herrmann.de/arts/crossley/index.htm


 

10. október 2004

Handverk og tölvugrafík í október

Laugardaginn 9. október var opnuð á Skriðuklaustri afmælissýning Handverks og hönnunar og stendur hún til 24. október. Sýning verður opin um helgar lau. og sun. kl. 13-17. Hópar geta haft samband vilji þeir skoða sýninguna utan þessa tíma. Á sýningunni er fjöldi fagurra muna sem sérstök valnefnd valdi til sýningar á 10 ára afmæli verkefnisins.

Þá var einnig á laugardaginn opnuð sýning á tölvugrafík eftir Ellert Grétarsson í gallerí Klaustri. Ellert hefur um nokkurra ára skeið unnið að tölvugrafík og átt myndir í vefgalleríum víða um heim. Sýning hans er opin á sama tíma og sýning Handverks og hönnunar.



Spiladós e. Margréti Jónsd.

5. október 2004

Afmælissýning Handverks og hönnunar

Laugardaginn 9. október verður opnuð á Skriðuklaustri afmælissýning Handverks og hönnunar. Þessi sýning hefur farið víða og þeir sem eiga verk á henni eru:

Anna Guðmundsdóttir - Arndís Jóhannsdóttir - Ástþór Helgason
Dýrfinna Torfadóttir - Fríða S. Kristinsdóttir - George Hollanders
Guðbjörg Kr. Ingvarsdóttir - Guðrún Indriðadóttir - Helga Pálína Brynjólfsdóttir - Helgi Björnsson - Hulda B. Ágústsdóttir - Jóhanna Svala Rafnsdóttir -Jón Sæmundur Auðarson - Kjartan Örn Kjartansson - Kolbrún Björgólfsdóttir - Kristín Sigfríður Garðarsdóttir - Lára Gunnarsdóttir - Margrét Jónsdóttir - Ólöf Erla Bjarnadóttir - Philippe Ricart - Tó-Tó: Anna Þóra Karlsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir - Unnur Knudsen - Þorbjörg Valdimarsdóttir

Sérstök nefnd valdi verkin á sýninguna sem haldin er í tilefni af 10 ára afmæli verkefnsins Handverks og hönnunar. Sýningin verður á Skriðuklaustri til sunnudagsins 24. október og opin um helgar frá kl. 13-17. Annars samkvæmt samkomulagi.

ELG sýnir í gallerí Klaustri
Á laugardaginn verður einnig opnuð í gallerí Klaustri sýning Ellerts Grétarssonar á tölvuunnum myndum. Ellert hefur sýnt í vefgalleríum um víða veröld og hlotið viðurkenningar fyrir myndir sínar. Sýning hans stendur einnig til 24. október og er opin um helgar milli kl. 13-17.

Lomber á föstudagskvöld
Annað lomberkvöld vetrarins verður á föstudagskvöldið 8. okt. Allir velkomnir og nýliðar hvattir sérstaklega til að mæta og læra þetta skemmtilega spil.

Skáld mánaðarins og Í skuggsjá fortíðar
Minnt er á sérsýningu um Gunnar Gunnarsson sem Skáld mánaðarins. Þá stendur enn sýningin Í skuggsjá fortíðar, sýning á nokkrum austfirskum kirkjumunum frá Þjóðminjasafninu.


14. september 2004

Lomber, tónlist og ljóð um næstu helgi

Fyrsta lomberkvöldið
Fyrsta lomberkvöld vetrarins verður föstudaginn 17. september kl. 20 og eru nýir sem gamlir lomberspilarar hvattir til að mæta og ræða hvernig vetrarstarfinu verði best háttað.

Síðasta opnunarhelgin í september
Helgin 18. - 19. september er síðasta helgin sem opið verður á Skriðuklaustri í september. Opið verður laugardag og sunnudag frá kl. 13-17 og geta gestir þá m.a. skoðað nýja sérsýningu um Gunnar skáld sem er Skáld mánaðarins á skolavefurinn.is og hlýtt á gömul sjónvarpsviðtöl við hann og upplestra í útvarpi.

Fyrirlestur tónlistarmannsins Kitundu
Á laugardeginum kl. 16.30 mun tónlistarmaðurinn Walter Kitundu, sem dvelst um þessar mundir í gestaíbúðinni, segja frá listsköpun sinni og hljóðfærasmíði, en hann hefur getið sér gott orð víða um heim fyrir hljóðfæri þar sem hann tengir gjarna saman strengi og grammófón (phonoharps) www.kitundu.com.

Ljóðaúrval Jörgens frá Húsum kynnt
Á sunnudeginum kl. 17 mun Félag ljóðaunnenda á Austurlandi kynna nýja ljóðabók sem félagið gefur út nú á haustdögum. Það er bókin Fljótsdalsgrund, úrval ljóða eftir Jörgen E. Kjerúlf frá Húsum í Fljótsdal.(1878-1961).


11. september 2004

Gunnar Gunnarsson er skáld mánaðarins
- Gunnarsstofnun í samstarf við þjóðarsöfnin

Í gær var opnuð sýning á verkum Gunnars Gunnarssonar, bókum og handritum, í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Sýningin er hluti af verkefinu Skáld mánaðarins sem Skólavefurinn, Þjóðmenningarhúsið, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Þjóðminjasafnið hafa átt samstarf um síðustu vetur. Við opnunina í gær varð Gunnarsstofnun formlegur samstarfsaðili að verkefninu og í dag, laugardag kl. 14, verður opnuð lítil sérsýning um Gunnar skáld á Skriðuklaustri.


Diddú að syngja úr Sonnettusveignum.

Við opnun í Þjóðmenningarhúsinu frumflutti Sigrún Hjálmtýsdóttir við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur hluta úr Söngvasinfóníu Áskels Mássonar sem hann byggir á Sonnettusveig Gunnars Gunnarssonar.


Frá sýningunni í Þjóðmenningarhúsinu.

Á sýningunni sem opnuð verður á Skriðuklaustri í dag mun Herbjörn Þórðarson syngja tvö lög eftir sænska tónskáldið Axel Raoul Wachtmeister sem hann samdi um 1940 við tvö kvæði Gunnars í Vargi í véum. Þá mun Ingólfur Kristjánsson einn af stofnendum Skólavefsins kynna verkefnið Skáld mánaðarsins. Hægt er að skoða vefgáttina um Gunnar á www.skolavefurinn.is/skald.


Útskorin pennastöng sem Gunnar notaði við skriftir.


Staurakast á íþróttamóti 2003.

17. ágúst 2004

Borð og stólar, bændaglíma og fjárdráttur

Framundan er viðburðarík helgi á Skriðuklaustri. Þetta verður seinasta helgi sumarsins sem leiðsögn verður um fornleifasvæðið á Kirkjutúni. Stendur hún frá kl. 14-18 laugardag og sunnudag. Síðasta kvöldverðarhlaðborð sumarsins hjá Klausturkaffi verður laugardagskvöldið 21. ágúst. Á sunnudaginn er síðan Fljótsdalsdagur í Ormsteiti með tilheyrandi íþróttamóti í umsjá Umf. Þristar á Skriðuklaustri frá kl. 14-16. Keppt verður í fjárdrætti, bændaglímu, steinatökum, pokahlaupi og rófukasti. Á sunnudaginn verður líka opnuð ný sýning í gallerí Klaustri en sýningu Pjeturs Stefánssonar lýkur á laugardaginn. Sýningin sem opnuð verður kl. 13.30 á sunnudaginn er afrakstur af samstarfi skoska hönnuðarins Thomas Hawson við sex norræna handverks- og listiðnaðarmenn. Á sýningunni verða tveir stólar og borð sem sækja form sitt til víkingatímans og eru unnin úr eik og áli.


31. júlí 2004

Grafíksumar á Austurlandi

Föstudaginn 30. júlí var opnuð sýning frá Íslenskri Grafík í stofunum á Skriðuklaustri. Sýningin er hluti af Grafíksumri á Austurlandi sem Íslensk Grafík, Ríkharður Valtingojer og Gunnarsstofnun eiga samstarf um. Annar hluti sýningarverkefnisins er í Samkomuhúsi Stöðvarfjarðar.

Alls eiga 23 listamenn verk á sýningunum og eru þær m.a. haldnar í tilefni 35 ára afmælis Íslenskrar Grafíkur.

Sýningin á Skriðuklaustri verður opin daglega til 12. september en sú á Stöðvarfirði verður opin til 22. ágúst.


27. júlí 2004

Góð bókagjöf

Fimmtudaginn 22. júlí fékk Gunnarsstofnun góða bókagjöf. Herborg Halldórsdóttir og Ragnar Halldórsson, börn Halldórs Stefánssonar alþingismanns og seinni konu hans, Halldóru Sigfúsdóttur, færðu stofnuninni bækur og önnur rit sem faðir þeirra ritaði og eða stóð að útgáfu að. Flest þessara rita varða Austurland og má meðal annars nefna sjö binda safn austfirskra fræða sem Halldór ritstýrði ásamt Þorsteini M. Jónssyni og bar heitið Austurland.

Fyrri kona Halldórs var Björg Halldórsdóttir Benediktssonar bónda að Skriðuklaustri. Í gjafabréfi með bókunum segir að fyrstu tvö búskaparár sín hafi þau búið á Skriðuklaustri enda var Halldór þá ráðsmaður hjá tengdaföður sínum. Þau bjuggu síðan á Seyðisfirði í sex ár en á Hamborg, næsta bæ við Skriðuklaustur, frá 1909 til 1921.

Í gjafabréfinu segir ennfremur: "Það var föður okkar mikið áhugaefni, að varðveita sögu Austurlands og tók hann þátt í félögum, sem voru starfandi á þeim vettvangi af heilum huga, bæði í orði og á borði. Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum eru varðveitt margs konar skjöl, myndir og fróðleikur um Austurland, sem faðir okkar afhenti til varðveizlu þar. Vegna tengsla föður okkar og fyrri konu hans við Skriðuklaustur þykir okkur systkinum við hæfi, að rit hans séu að finna í Gunnarsstofnun."

Gunnarsstofnun þakkar þessa góðu gjöf sem mun nýtast fræðimönnum vel við rannsóknir sínar á búsetu og menningarsögu Austurlands í framtíðinni.


19. júlí 2004

Fyrirlestrar um fornleifarannsóknir

Í dag, mánudaginn 19. júlí verða haldnir á Skriðuklaustri tveir fyrirlestrar um fornleifarannsóknir. Annars vegar mun dr. Jürg Goll frá Sviss flytja fyrirlestur um rannsókn sem hann hefur stýrt frá 1987 á St. Johan klaustrinu í Müstair í Sviss sem er á heimsminjaskrá. Fyrirlesturinn ber heitið: "Müstair í Sviss - klaustur frá tímum Karlamagnúsar".

Hinn fyrirlesarinn er Kristján Mímisson, fornleifa- og beinafræðingur, sem mun segja frá mannabeinarannsóknum á Skriðuklaustri og víðar, en hann hefur m.a. unnið við rannsóknina í Müstair.

Aðgangur að fyrirlestrunum er innifalinn í aðgangseyri að Skriðuklaustri, kr. 500. Klausturreglufélagar fá frítt inn.


4. júlí 2004

MÁL
- sýning um
Gunnar Gunnarsson og Svavar Guðnason

Laugardaginn 3. júlí nk. var opnuð sýning á Skriðuklaustri sem ber heitið MÁL. Sýningin er liður í samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar þar sem Gunnar Gunnarsson rithöfundur og Svavar Guðnason listmálari er teknir fyrir sem tveir skapandi einstaklingar er skoruðu heiminn á hólm og öðluðust frægð fyrir verk sín. Á sýningunni á Skriðuklaustri er teflt saman myndum eftir Svavar og textabrotum frá Gunnari. Þá er leitast við að draga upp mynd af því sem þessir tveir listamenn áttu sameiginlegt og viðhorf þeirra til listarinnar, lífsins og landsins skoðuð.

Sýningin verður á Skriðuklaustri í júlí en flyst í Pakkhúsið á Höfn í Hornafirði í ágústbyrjun. Í haust verður síðan efnt til ritgerðarsamkeppni meðal ungs fólks og málþings þar sem frægð fyrr og síðar verður í brennidepli.

Verkefnið er styrkt af Menningarráði Austurlands og Nýsköpunarsjóði námsmanna.


1. júlí 2004

Petra Gimmi sýnir í gallerí Klaustri

Opnuð hefur verið sýningin "Ring twice in urgent cases - paintings and patience in Iceland" í gallerí Klaustri. Á sýningunni er 15 verk eftir þýsku listakonuna Petru Gimmi, unnin í olíu, vatnsliti og með blandaðri tækni. Sýningin stendur til 14. júlí nk.


25. júní 2004

Fantasy Island framlengd á Skriðuklaustri

Laugardaginn 29. maí var opnaður á Skriðuklaustri fyrsti hluti sýningarinnar Fantasy Island. Hinn 19. júní opnaði frú Dorrit Moussaieff síðan aðalsýninguna í trjásafninu á Hallormsstað og á Eiðum. Vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að framlengja sýninguna á Klaustri til 30. júní svo að fleiri gestum gefist tækifæri á að bera saman hugmyndir listamannanna og skissur við endanlega útkomu í skóginum.

Af þessum sökum er opnun sýningar um Gunnar skáld og Svavar Guðnason, Austfirðingana tvo sem sigruðu heiminn, frestað um viku, til 3. júlí.


Atelier van Lieshout

Paul McCarthy

Jason Rhoades

Katrín Sigurðardóttir

Elin Wikström

Björn Roth

Þorvaldur Þorsteinsson

Hannes Lárusson

Ráðherra opnar sýninguna með því að "afhjúpa" eina af "sápum" Pauls McCarthys og Jasonar Rhoades.

1. júní 2004

Fantasy Island - opnuð á Skriðuklaustri

Laugardaginn 29. maí opnaði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrsta hluta alþjóðlegu sýningarinnar FANTASY ISLAND í stássstofunni á Skriðuklaustri. Sýnd er hugmyndavinna átta listamanna sem undanfarna mánuði hafa unnið að þróun listaverka sem komið verður fyrir í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum í júnímánuði.

Listamenn „Fantasy Island" eru: Atelier van Lieshout (Hollandi), Paul McCarthy (Bandaríkjunum), Jason Rhoades (Bandaríkjunum), Katrín Sigurðardóttir, Elin Wikström (Svíþjóð), Björn Roth, Þorvaldur Þorsteinsson og Hannes Lárusson.

Að sýningunni standa Skógræktin á Hallormsstað, Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri og Hannes Lárusson myndlistarmaður sem jafnframt er sýningarstjóri. Auk þess eru Eiðar ehf samstarfsaðili og Hekla Dögg Jónsdóttir mun hafa umsjón með framkvæmd sýningarinnar. Sýningin er liður í Listahátíð í Reykjavík 2004.

Um verkefnið

Á síðustu árum hefur Skógræktin á Hallormsstað staðið fyrir listsýningum í skóginum (í trjásafninu) með nokkurra ára millibili. Fram til þessa hefur eingöngu verið um að ræða íslenska listamenn en sýningarnar hafa mælst vel fyrir og hafa tugþúsundir manna séð þær.

Fyrir tveimur árum var hafist handa við undirbúning þeirrar sýningar sem nú er framundan. Ákveðið var að setja markið hátt og bjóða til þátttöku þekktum samtímalistamönnum, erlendum sem innlendum.

Listamennirnir sem völdust til þátttöku hafa allir verið áberandi á vettvangi samtímalistar undanfarin ár og meðal þeirra heimsfrægir listamenn. Rýmishugsun í fjölbreyttum myndum, oftast í samfélagslegu návígi, einkennir vinnubrögð þeirra ásamt vissu óstýrilæti, óvæntu hugmyndaflugi og innri spennu.

Listamennirnir munu vinna að hluta til á staðnum að gerð og uppsetningu verkanna fyrri hluta júnímánaðar en undirbúningsvinna hefur staðið yfir frá síðasta hausti. Sýning á þróun og úrvinnslu hugmynda með teikningum og líkönum verður hins vegar á Skriðuklaustri 29. maí til 25. júní en aðalsýningin, sem verður í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum, verður opnuð um miðjan júní.

Ljóst er að sýningin á eftir að vekja mikla athygli innanlands sem utan og draga að fjölda fólks enda um að ræða einstæðan atburð í austfirsku menningarlífi og reyndar stórviðburð í íslensku myndlistarlíf almennt.

Verk Þorvaldar Þorsteinssonar.

Um listamennina

ELIN WIKSTRÖM er prófessor í myndlist við Listaháskólann í Umeå í Svíþjóð. Undanfarin ár hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga víðsvegar um Evrópu og er með langtímaverk í vinnslu í Kambódíu. Við fyrstu sýn virðist listsköpun Elínar vera eins konar samfélagslegt prakkarastrik eða andfélagslegt athæfi í ætt við það þegar fólk krotar óviðeigandi skilaboð á veggi eða breytir merkingu opinberra skilta með því að stroka út stafi eða orð. Við nánari athugun kemur í ljós afar meðvituð samfélagsrýni sem vekur með áhorfendum, sem gjarnan sjá verk Elínar eins og af tilviljun, nýja vitund um samhengi hlutanna. Verk hennar varpa fram áleitnum spurningum um sjálfsvitund, frelsi og félagslegt taumhald.

ÞORVALDUR ÞORSTEINSSON er einn fjölhæfasti og afkastamesti listamaður Íslands. Hann virðist jafnvígur á myndlist sem ritlist og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á báðum sviðum. Þó að verksvið hans sé fjölþætt þá leyna höfundareinkennin sér ekki. Verk Þorvaldar byggja jafnan á afar næmri tilfinningu fyrir hegðun og breytni fólks og miða oft, með beinum eða óbeinum hætti, að virkri þátttöku áhorfandans. Í verkunum er jafnan að finna mikla sköpunargleði, útsjónarsemi og léttleika í bland við afhjúpandi og gagnrýna nálgun við mannlegt eðli og samfélag. Listsköpun hans í hvaða miðli sem er virðist byggja á þeirri bjargföstu trú að listin eigi raunverulegt og ómissandi erindi við samfélagið.

JASON RHOADES er í hópi eftirtektarverðustu myndlistarmanna af yngri kynlóðinni í Bandaríkjunum um þessar mundir. Verk hans hafa verið sýnd á helstu listasöfnum og stórsýningum víða um heim. Jason hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi fyrir efnismiklar innsetningar. Í innsetningar sínar notast Jason við alla hugsanlega miðla og blandar saman handgerðum verkum og aðkeyptum hlutum sem geta verið allt frá Ferrari bílum til niðurrifinna fatabúta sem seldir eru sem afþurrkunarklútar. Með kaupgleði sinni, söfnunaráráttu og athafnasemi glímir Jason Rhoades við yfirþyrmandi afl neyslusamfélagsins en taumlaus hrærigrautur hluta og efnis sem blasir við í verkum hans varpar um leið fram áleitnum spurningum um þanþol og möguleika listsköpunar í nútímasamfélagi.


Hluti af verkum Pauls McCarthys og Jasonar Rhoades.


PAUL McCARTHY er einn af þekktustu núlifandi myndlistarmönnum í Bandaríkjunum og einn áhrifamesti frumkvöðull sinnar kynslóðar í myndlist. Hann hefur verið mjög virkur í myndlistarheiminum í nær fjóra áratugi og unnið með gjörninga og innsetningar þar sem hann býr til einskonar söguþráð og notar búninga, grímur, leikbrúður og sérhannaða leikmynd en í stað gerviefni notast hann við hversdagslegar neysluvörur, s.s. mayones, tómatsósur og súkkulaði sem tákn fyrir líkamsvökva. Paul tekur fyrir mótsagnakennda og oft öfgafulla menningu Bandaríkjanna, nýtir sér draumkennt og veruleikafirrt uppeldisefni sjónvarpsins og teflir því gegn gráðugri, ofbeldisfullri og kynlífsþrunginni fjöldaafþreyingu fullorðinna.

KATRÍN SIGURÐARDÓTTIR hefur getið sér gott orð og vakið athygli fyrir listsköpun sína víða um heim. Hún skoðar í verkum sínum fjarlægð og minni og hvernig þessi fyrirbæri taka á sig form í byggingarlist, skipulagi og kortagerð. Oft er gerð verkanna æfing minnisins, nokkurskonar staðlæg upprifjun. Staðirnir sem skapaðir eru byggja gjarnan á raunverulegum stöðum, stöðum sem tákna heimili eða heimaland. Þeir eru upphafsstaðir, áfangastaðir og endastöðvar, jafn smáir í fjarlægð tíma og rúms og líkönin sem Katrín gerir af þeim.

HANNES LÁRUSSON hefur um árabil fjallað um samhengi samtímalistar og þjóðlegs menningararfs, hlutverk og stöðu listamannins í þjóðfélaginu og tengsl handverks og hugmyndafræði. Hann er einn helsti gjörningamaður þjóðarinnar, drifkraftur í sjónrænni umræðu og höfundur margbrotinna verka þar sem hugmyndafræði listarinnar mætir alþýðlegum sjónarmiðum og gildum hefðarinnar.

BJÖRN ROTH hefur verið í hringiðu samtímalistar undanfarna áratugi. Hann hefur fengist við flestar aðferðir í myndlist, allt frá kraftmiklum málverkum yfir í flókna gjörninga. Þá hefur Björn unnið mörg verk í samvinnu við föður sinn Dieter Roth. Mörg þessara samvinnuverka eru afar umfangsmikil og markbrotin og takast á við margar af grundvallarspurningum í allri listsköpun af einstakri einurð: óreiðu og reglu, þanþol hugmyndaflugsins, merkingu og markleysu, verðmæti og úrgang og takmarkanir miðlana og umgjarðar.

ATELIER VAN LIESHOUT (AVL) er alþjóðlegt fyrirtæki í Hollandi sem vinnur að myndlist, hönnun og byggingarlist. AVL var stofnað árið 1995 af listamanninum Joep van Lieshout sem þá hafði um árabil vakið athygli á vettvangi samtímalistar. Áhersla er lögð á að öll verk sem koma frá AVL séu unnin af hópi skapandi einstaklinga en eigi ekki rætur að rekja til hugmynda eins einstaklings. Verkin sem eru gerð undir merkjum fyrirtækisins eru einföld, traust og notadrjúg og spanna allt frá húsgögnum, skúlptúrum, innréttingum og hjólhýsum til flókinna nýbygginga. Tilraunir með ný efni, ekki síst plastefni, gegna mikilvægu hlutverki.



Stelkur flutti tónverk við opnunina

 

13. maí 2004

Vortónleikar á Skriðuklaustri 16. maí

Sunnudaginn 16. maí verða haldnir hinir árlegu vortónleikar á Skriðuklaustri. Að þessu sinni eru það Guðrún S. Birgisdóttir þverflautuleikari og Pétur Jónasson gítarleikari sem mæta til leiks. Þau munu spila verk fyrir flautu og gítar eftir íslensk og erlend tónskáld. Má þar nefna: Hjálmar H. Ragnarsson, Atla Heimi Sveinsson, Þorkel Sigurbjörnsson og Áskel Másson.

Tónleikarnir hefjast kl. 15.00 í stássstofunni á Skriðuklaustri og aðgangseyrir er kr. 1.000. Þess má geta að frá og með 15. maí er opið á Skriðuklaustri alla daga frá kl. 10-18.


10. maí 2004

Sýning um Sjón í gallerí Klaustri

Skáldið Sjón opnaði sýningu á verkum sínum og ýmsum munum tengdum þeim í gallerí Klaustri hinn 9. maí sl. Meðal þess sem getur að líta á sýningunni eru fágætar ljóðabækur höfundarins sem gaf út sína fyrstu fimmtán ára gamall árið 1978 og ýmislegt annað forvitnilegt eins og: leikbrúðu, miða að Óskarshátíð, handrit, ljósmyndir og hluti tengdra Medúsu-hreyfingunni. Sýningin er opin alla daga frá kl. 10-18 fram til 23. maí.

Við opnun sýningarinnar var Sjón með erindi þar sem hann fór yfir ferilinn, las úr verkum og sagði frá tilurð þeirra. Í lokin lék tríóið NasaSjón síðan tvö lög eftir Björk sem Sjón samdi texta við og Luftgítar var fluttur með sveiflu.

Svipmyndir af sýningunni:


SJÓN

6. maí 2004

Skáldið Sjón á Skriðuklaustri

Sunnudaginn 9. maí nk. verður opnuð lítil sýning um skáldið Sjón í gallerí Klaustri. Sama dag kl. 15 mun Sjón lesa úr eigin verkum og deila hugrenningum sínum með gestum. Aðgangseyrir er kr. 500 en frítt fyrir 16 ára og yngri. Að venju verður kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi að lokinni dagskrá. Sýning í gallerí Klaustri mun standa til 23. maí.

Rithöfundurinn Sigurjón Birgir Sigurðsson (Sjón) er fæddur í Reykjavík 27. ágúst 1962. Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók Sýnir aðeins 15 ára gamall og vakti hún athygli því að ljóðin voru súrrealísk. Árið 1979 kom út næsta ljóðabók Madonna og sama ár stofnaði Sjón listamannahópinn Medúsu sem hafði listsköpun í anda súrrealisma að leiðarljósi í útgáfustarfi og viðburðum. Fram til 1987 einbeitti Sjón sér að ljóðagerð en þá kom út fyrsta skáldsagan, Stálnótt. Skáldsögurnar eru nú orðnar fimm talsins en auk skáldsagna- og ljóðasmíða hefur Sjón fengist við ýmsa aðra listsköpun, eins og myndlist, leikritun og textagerð. Frægir eru textar hans við lög Bjarkar í myndinni Dancer in the Dark eftir Lars von Trier en fyrir þá var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna.

Sjón er um þessar mundir skáld mánaðarins í Þjóðmenningarhúsinu og á Skólavefnum þar sem hægt er að nálgast meiri upplýsingar um hann.


21. apríl 2004

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn

Gunnarsstofnun og Klausturkaffi óska öllum gleðilegs sumars og þakka fyrir góðar heimsóknir í vetur. Lomber verður spilaður föstudagskvöldið 23. apríl. Um helgina, þ.e. 24. og 25. apríl, verður opið frá kl. 13-17 báða daga. Eitt og annað getur að líta og fyrir þá sem enn hafa ekki náð að sjá þjóðminjasýninguna frá síðasta sumri er nú síðasta tækifærið áður en ný sýning tekur við. Opið verður um helgar fram til 15. maí en frá og með þeim degi verður opið kl. 10-18 alla daga fram á haust.

Framundan er síðan eitt og annað skemmtilegt. Að öllum líkindum verður opnuð lítil sýning með skáldi mánaðarins, Sjón, um miðjan maí og sunnudaginn 16. maí verða vortónleikar með Guðrúnu S. Birgisdóttur og Pétri Jónassyni. Þá verður 29. maí opnuð sýning á hugmyndavinnu listamannanna átta sem sýna í Fantasy Island stórsýningunni í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum í sumar. Er sýningin liður í Listahátíð í Reykjavík.


15. apríl 2004

Spennandi sumar framundan á Skriðuklaustri

Sumardagurinn fyrsti er í næstu viku og þá styttist í viðburðaríkt vor og spennandi sumar á Skriðuklaustri. Ætlunin er að hafa meira opið í maí en undanfarin ár og árlegir vortónleikar verða þá um miðjan mánuðinn.

Hinn 29. maí verður opnuð hugmyndasýning alþjóðlegu stórsýningarinnar Fantasy Island, en það er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar, Skógræktarinnar á Hallormstað og Hannesar Lárussonar myndlistarmanns sem jafnframt er sýningarstjóri. Auk þess eru Eiðar ehf samstarfsaðili og Hekla Dögg Jónsdóttir hefur umsjón með framkvæmd sýningarinnar sem er liður í Listahátíð í Reykjavík 2004. Meðal þeirra átta sem taka þátt í verkefninu eru heimsfrægir erlendir listamenn. Hugmyndasýningin verður uppi á Skriðuklaustri til 25. júní en þann 19. júní verður aðalsýningin opnuð í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum.

Undir mánaðamótin júní júlí tekur við ný sýning sem er samvinnuverkefni Gunnarsstofnunar og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Á henni verður teflt saman verkum og hugmyndum Gunnars Gunnarssonar og Svavars Guðnasonar og reynt að greina hvað gerði það að verkum að þessir tveir Austfirðingar "sigruðu heiminn".

Í ágústbyrjun tekur við sýning á grafíkverkum eftir fjölda íslenskra grafíklistamanna sem Ríkharður Valtingojer, Pjetur Stefánsson og fleiri félagar í Íslensk grafík standa að. Sýningin verður samtímis á Stöðvarfirði og Skriðuklaustri og stendur fram um miðjan september.

Að venju verður samtímalist í gallerí Klaustri og reiknað með sex sýningum þar frá vori til hausts. Þá verður framhaldið samstarfi Gunnarsstofnunar og Þjóðminjasafnsins, Í skuggsjá fortíðar, og nokkrir vel valdir munir úr eigu safnsins sýndir á Skriðuklaustri.

Á þessu yfirliti má sjá að enginn verður fyrir vonbrigðum með að kíkja í Klaustur næstu mánuðina. Sumaropnunin verður alla daga frá kl. 10-18 eins og verið hefur en einnig er reiknað með einhverri kvöldopnun í júlí og ágúst með viðburðum. Klausturkaffi mun að sjálfsögðu alltaf vera opið um leið og hús skáldsins og síðan taka á móti hópum utan þess tima og skal hér bent á matseðla veitingastofunar hér á heimasíðunni.


4. apríl 2004

Frumkvöðulsverðlaun til Skriðuklausturs

Á aðalfundi Markaðsstofu Austurlands á dögunum var að venju úthlutað viðurkenningunni Frumkvöðull í ferðamálum. Að þessu sinni kom hún í hlut Skriðuklausturs, eða hjónanna Elísabetar Þorsteinsdóttur og Skúla Björns Gunnarssonar. Gunnarsstofnun og Klausturkaffi þakka heiðurinn sem starfseminni er sýndur með þessari viðurkenningu.


5. mars 2004

Franzisca Gunnarsdóttir er látin

Látin er Franzisca Gunnarsdóttir, sálfræðingur og rithöfundur. Hún fæddist á Skriðuklaustri 9. júlí 1942, dóttir Gunnars listmálara og Signýjar Sveinsdóttur. Þar ólst hún upp til 8 ára aldurs er hún flutti til Reykjavíkur með afa sínum og ömmu, Gunnari skáldi og Franziscu konu hans. Franzisca Gunnarsdóttir átti afar stóran þátt í því að Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri varð að veruleika og einnig að Gunnarshús á Dyngjuvegi varð aðsetur Rithöfundasambands Íslands. Eftirlifandi sonur Franziscu er Gunnar Björn Gunnarsson viðskiptafræðingur.

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur