Fréttir 2003
14. nóvember 2003
Kvöldvaka á Dögum myrkurs og Grýlugleði
Föstudagskvöldið 21. nóvember stendur Gunnarsstofnun fyrir kvöldvöku með blandaðri dagskrá að Skriðuklaustri. Kvöldvakan er liður í Dögum myrkurs á Austurlandi og þar koma meðal annars fram:
Hjalti Pálsson sagnaþulur úr Skagafirði sem mun fjalla um valinkunna hagyrðinga og láta vaða á súðum með vísukornum og sögum. Kristín Heiða Kristinsdóttir félagi í Drauga- og tröllaskoðunarfélagi Evrópu mun segja frá hinu nýopnaða draugasetri á Stokkseyri og rekja sögur af draugum.
Þá mun tónskörungurinn Muff Worden mæta með hörpu sína og slá á létta strengi. Kvöldvakan hefst kl. 20.00 og aðgangseyrir er kr. 1.300 (kaffi og meðlæti innifalið).
Grýlugleði verður að venju haldin fyrsta sunnudag í aðventu sem nú ber upp á 30. nóvember. Að þessu sinni verður hún kl. 15.00 og þar verður m.a. flutt Grýlusaga Gunnars Karlssonar í máli, tónum og myndum. Þá munu börn úr 4. og 5. bekk Fellaskóla flytja leikbrúðuþætti um Grýlu gömlu. Hvort Grýla og hyski hennar lætur sjá sig er óvíst þar sem álfunum í nágrenni Skriðuklausturs hefur fækkað ískyggilega síðustu ár. Aðgangseyrir er kr. 500 fyrir fullorðna en frítt fyrir börnin. Klausturkaffi verður með jólakökuhlaðborð á eftir dagskránni.
2. október 2003
Ráðstefna norrænna bókmenntasafna
Dagana 2.-5. október nk. verður í fyrsta sinn haldin hér á landi ráðstefna norræna bókmenntasafna og -stofnana, þ.e. persónusafna sem láta sig varða rithöfunda og tónskáld. Ráðstefnan fer fram í Reykjavík, Reykholti og á Skriðuklaustri og Egilsstöðum. Tema ráðstefnunnar er bókmenntir og þjóðerniskennd og verður einn fyrirlesari frá hverju landi með erindi undir þeirri yfirskrift.
Ráðstefnan hefst í Norræna húsinu með setningarávarpi forseta Íslands, hr. Ólafs Ragnars Grímssonar kl. 9.30 föstudaginn 3. október. Fyrst á dagskrá er erindi Einars Más Guðmundssonar um "Mit museum" en síðan taka við praktísk, stutt erindi frá safnafólki við söfn Griegs, Ibsens, Strindbergs, Björnsons, H.C. Andersens, Runebergs og Gunnars Gunnarssonar. Eftir hádegið eru síðan pallborðsumræður um bókmenntasöfn, hvers vegna þau þurfa að vera til og hvernig þau eigi að vera. Þessi dagskrá í Norræna húsinu er opið málþing innan ráðstefnunnar.
Á föstudeginum verður síðan Snorrastofa í Reykholti heimsótt. Á laugardeginum fara ráðstefnugestir í Þjóðmenningarhúsið eftir hádegi en síðan verður haldið austur á land þar sem hátíðarkvöldverður verður snæddur að Skriðuklaustri. Lokadagur ráðstefnunnar verður á Hótel Héraði á Egilsstöðum þar sem síðustu fyrirlestrar og umræður fara fram.
Það eru Gunnarsstofnun og Snorrastofa ásamt ráðstefnufyrirtækinu Staði og stund sem annast undirbúning og framkvæmd ráðstefnunnar en hana sækja um 40 manns.
Heimasíða ráðstefnunnar er www.skriduklaustur.is/konferanse
29. september 2003
Haustið komið á Skriðuklaustri
Helgaropnun haustsins er nú lokið á Skriðuklaustri og teknar verða niður sýningarnar Álfar og huldar vættir og Í skuggsjá fortíðar. Í vetur má búast við sýningum og viðburðum eins og undanfarna vetur. Dagar myrkurs verða á sínum stað í nóvember og sömuleiðis Grýlugleði. Þá er fyrsta lomberkvöld vetrarins nýafstaðið og reiknað er með að spila einu sinni til tvisvar í mánuði. Að sjálfsögðu eru hópar alltaf velkomnir í heimsókn og einnig geta einstaklingar hringt á undan sér og kannað hvort möguleiki sé að að fá að líta inn. Sömu sögu er að segja um þjónustu Klausturkaffis.
26. ágúst 2003
Ormsteitið tókst vel í Fljótsdal
Fljótsdælingar blótuðu orminn sl. helgi með töðugjöldum á Skriðuklaustri á laugardagskvöldið og síðan veiðikeppni, íþróttamóti og fleiru skemmtilegu á sunnudeginum. Góð þátttaka var í öllu og sýndu menn og konur, ungir sem aldnir, ótrúleg tilþrif í hinum ýmsu keppnisgreinum sem fram fóru á flötinni við Gunnarshús.
Dagrún Drótt Valgarðsdóttir vann sigur í veiðikeppni í Kelduá
Siggi Max með tilþrif í staurakasti.
Skrúður. Ljósm. Sigurður Stefán Jónsson. Myndin er á sýningu hans í gallerí Klaustri.
22. ágúst 2003
Sumarlok á Skriðuklaustri
- opið kl. 10-18 fram til 7. september
Fljótsdalurinn hefur verið fjölsóttur í sumar. Áætla má að 20-30 þúsund manns hafi gengið upp að Hengifossi sem telst vera þriðji hæsti foss landsins samkvæmt mælingum síðasta sumars. Margir hafa lagt leið sína í kynninarmiðstöð Landsvirkjunar í Végarði og um átta þúsund gestir hafa komið í Skriðuklaustur í sumar þar sem nú styttist í að hefðbundinni sumaropnun ljúki.
Framundan er stór helgi í Fljótsdalnum en laugardagskvöldið 23. ágúst verða töðugjöld á Skriðuklaustri með steikarhlaðborði og Kaleihd bandið frá Seyðisfirði leikur á stéttinni ef veður leyfir. Sunnudagurinn er síðan
Fljótsdalsdagur í Ormsteiti og hefst kl. hálfellefu við Víðivallaskóg þar sem mæting er í gönguferð á Grýluslóðir og veiðikeppni í Keldá. Um kl. eitt verður síðan pylsugrill í veislurjóðri Víðivallabænda og kl. þrjú hefst óhefðbundið íþróttamót á Skriðuklaustri þar sem keppt verður í sauðadrætti eða sauðburði, staurakasti, pokahlaupi, steinatökum og fleiri greinum. Að sjálfsögðu verður opið í Végarði á sunnudaginn og kaffihlaðborð og sýningar í húsi skáldsins. Sunnudagurinn er síðasti sýningardagur á austfirskum landslagsljósmyndum Sigurðar Stefáns Jónssonar en á mánudaginn verður opnuð sýningin Aðflutt landslag sem eru ljósmyndir Péturs Thomsen við ljóð Sveins Yngva Egilssonar.
2. ágúst 2003
Álfar og huldar vættir
Huldufólk í íslensku þjóðsögunum
Í gær, 1. ágúst, var opnuð sýningin Álfar og huldar vættir - huldufólk í íslensku þjóðsögunum. Sýningin er hluti af þjóðfræðaverkefni sem unnið er með tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Menningarráðs Austurlands. Að verkefninu unnu annars vegar Kristín Birna Kristjánsdóttir þjóðfræðinemi og hins vegar Guðjón Bragi Stefánsson nemi í grafískri hönnun við LHÍ. Verkefnið fólst í að kanna heim huldufólks í þjóðsögum og safna þeim sögum sem teljast austfirskar en í tengslum við sýninguna kemur út bókin Austfirskar huldufólkssögur sem er annað bindið í flokki Austfirskra safnrita sem Gunnarsstofnun gefur út. Stofnunin fékk styrk frá Menningarsjóði til útgáfunnar. Einnig kom út bæklingur um álfaslóð í Fljótsdal í tengslum við sýninguna.
Á sýningunni á Skriðuklaustri eru tekin fyrir ákveðin minni þjóðsagnanna og reynt að virkja ímyndunaraflið hjá gestum. Þá eru vaktar upp spurningar um tilvist huldufólks í dag.
Sýningin er opin alla daga frá kl. 10-18 til 7. september.
31. júlí 2003
Gallerí Klaustur
Hulinsheimar Sólrúnar Friðriksdóttur
Miðvikudagskvöldið 30. júlí var opnuð í Gallerí Klaustri sýning á verkum eftir Sólrúnu Friðriksdóttur frá Stöðvarfirði. Á sýningunni eru ellefu verk unnin með blandaðri tækni og eitt textílverk. Sýningin er opin á sama tíma og hús skáldsins frá kl. 10-18 alla daga og stendur til 14. ágúst.
9. júlí 2003
Gallerí Klaustur
Innsetning Ingu Jónsdóttur um orku og tími, álfar
Í kvöld var opnuð ný sýning í gallerí Klaustri. Fram til 28. júlí verður þar innsetning Ingu Jónsdóttur um orku og tíma. Í sýningarskrá stendur:
"Listin er hluti daglega lífsins líkt og ryk, sem skráir tímann.
Ryk er á sveimi, litbrigði þess eru mörg og svifhraði þess er misjafn. Það er afleiðing sköpunuarafla og þess að við erum til. Rykið sest en verður misþykkt. Stundum færist það eða undirstaða þess úr stað og til verður ný sköpun, lágmynd eða riss; verndandi eða kæfandi tímaeining. Tímaeiningar gærdagsins, tímaeiningar dagsins í dag og tímaeiningar dagsins á morgun.
Hinar ósjálfráðu og hinar sjálfráðu, hinar vitsmunalegu og hinar tilfinningalegu, hinar ávölu og hinar köntuðu. Hið mjúka hjarta, tákn tilfinninganna og hörð burðargrind raflínanna kallast á yfir tólgina sem var orkugjafi gærdagsins og er ógnvaldur æðakerfisins í dag. Rykið er verðlaust en tíminn er dýrkeyptur."
Inga Jónsdóttir lauk námi frá Myndlista- og handíðarskólanum og listaskóla í Þýskalandi fyrir rúmum áratug. Síðan þá hefur hún haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Hún er nú búsett á Höfn í Hornafirði.
1. júlí 2003
Á döfinni
Sauðmaður, dagbækur, orka, tími, álfar og huldufólk
Það er margt að skoða og sjá á Skriðuklaustri um þessar mundir. Tvær stórar sýningar standa yfir með Austfirsku landslagi og völdum munum frá Þjóðminjasafninu (sjá hér að neðan). Í gallerí Klaustri er síðasta vikan af vídeóinnsetningu þýska listamannsins Maximilian Moll sem hefur yfirskriftin Sauður undir úlfsfeldi. Á miðvikudagskvöldið 2. júlí kl. 20.30 heldur Davíð Ólafsson sagnfræðingur erindi um dagbækur og dagbókarritun og rýnir m.a. í dagbækur austfirskrar alþýðu. Á sama tíma miðvikudagskvöldið 9. júlí verður svo opnuð sýning Ingu Jónsdóttur í gallerí Klaustri sem er innsetning um orku og tíma. Fornleifauppgröfturinn er hafinn að nýju og leiðsögn veitt við rústirnar á Kirkjutúni.
Rétt er að benda á að alla miðvikudaga í júlí verður opið til kl. 22 en annars er opnunartíminn 10-18. Klausturkaffi býður nú upp á hádegisverðarhlaðborð alla daga auk kaffihlaðborðsins hefðbundna og á miðvikudögum verður kvöldverðarhlaðborð.
Christian Blache - Ved Eskifjördur, 1881.
7. júní 2003
Tvær sýningar opnaðar:
Austfirskt landslag og álfkonudúkurinn
Föstudagskvöldið 6. júní voru opnaðar tvær sýningar á Skriðuklaustri. Annars vegar sumarsýningin Austfirskt landslag í íslenskri myndlist sem er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og er styrkt af Menningarráði Austurlands. Á sýningunni eru olíumálverk og vatnslitamyndir eftir 13 listamenn, þ.á m. Þórarin B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval, Finn Jónsson, Svein Þórarinsson, Eirík Smith, Tryggva Ólafsson og Georg Guðna. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur valdi verkin á sýninguna og ritaði í sýningarskrá.
Álfkonudúkurinn frá Bustarfelli. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.
Hin sýningin sem var opnuð er Í skuggsjá fortíðar, sýning á völdum gripum frá Þjóðminjasafni Íslands. Á henni er til sýnis kinga frá Skriðuklaustri, bollasteinn frá Gautlöndum og hurðarhringur frá Stafafelli. Hæst ber þó altarisklæði frá Hofi í Vopnafirði, betur þekkt sem álfkonudúkurinn frá Bustarfelli. Sagan segir að sýslumannskonu á Bustarfelli hafi verið gefinn dúkurinn af álfkonu sem hún hjálpaði í barnsnauð.
Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Landsvirkjunar og Gunnarsstofnunar.
Þessar sýningar eru báðar opnar á opnunartíma Skriðuklausturs sem er kl. 10-18 alla daga í allt sumar.
30. maí 2003
Marietta sýnir í gallerí Klaustri
Dagana 29. maí til 14. júní stendur yfir sýning í Gallerí Klaustri á verkum eftir listakonuna Mariettu Maissen frá Höskuldsstöðum í Breiðdal. Á sýningunni eru grafíkverk, vatnslitamyndir og verk unnin með blandaðri tækni.
Fólkið í dalnum e. Soffíu Sæm.
13. maí 2003
Opnunartími í maí
Ákveðið hefur verið að fram til 31. maí verði opnunartími á Skriðuklaustri sem hér segir: Opið verður frá kl. 13 - 17 á fimmtudögum, föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Sýning stendur yfir á verkum í eigu Gunnarsstofnunar eftir ýmsa listamenn sem dvalið hafa í Klaustrinu eða sýnt í gallerí Klaustri. Þá er gaman fyrir gesti að skoða hinn umtalaða kakalofn sem nú er nýendurgerður í skrifstofu skáldsins og njóta leiðsagnar um húsið. Kaffi og kökur hjá Klausturkaffi. Rétt er að minna á að hópar geta alltaf haft samband vegna heimsókna eða kaupa á veitingum utan auglýsts opnunartíma.
23. apríl 2003
Kvöldvaka á föstudaginn 25. apríl
Í tilefni af Degi bókarinnar, sem er í dag 23. apríl, verður kvöldvaka föstudaginn 25. apríl kl. 20.30 með fjölbreyttri dagskrá (ath. einum degi fyrr en auglýst er í Dagskránni). Fjallað verður um endurgerð kakalofnsins, lesið úr bókum, flutt ljóð og leikin tónlist, svo nokkuð sé nefnt. Meðal flytjenda eru: Charles Ross, Sigurður Ingólfsson, Hildigunnur Valdemarsdóttir og Sveinn Snorri Sveinsson. Aðgangur er kr. 1500 fyrir fullorðna. Kökur og kaffi innifalið. (Klausturreglufélagar kr. 1000).
15. apríl 2003
Kakalofn og Klausturlist
Opið laugardaginn fyrir páska - kvöldvaka 25. apríl
Það verður opið á Skriðuklaustri laugard. 19. apríl kl. 13-18. Sýning á verkum í eigu staðarins og kveikt upp í 150 ára gömlum postulínsarni í skrifstofu skáldsins. Kaffihlaðborð hjá Klausturkaffi. Aðgangseyrir er kr. 400, frítt fyrir 16 ára og yngri og Klausturreglufélaga.
Í tilefni af Degi bókarinnar, sem er 23. apríl, verður kvöldvaka föstudaginn 25. apríl kl. 20.30 með fjölbreyttri dagskrá (ath. einum degi fyrr en auglýst er í Dagskránni). Fjallað verður um endurgerð kakalofnsins, lesið úr bókum, flutt ljóð og leikin tónlist, svo nokkuð sé nefnt. Aðgangur er kr. 1500 fyrir fullorðna. Kökur og kaffi innifalið. (Klausturreglufélagar kr. 1000).
3. apríl 2003
Úthlutun menningarstyrkja á Austurlandi
Kveikt upp í kakkelofninum
Í dag 3. apríl fór fram á Skriðuklaustri úthlutun Menningarráðs Austurlands á 21 milljón króna til 83 verkefna víðs vegar um fjórðunginn. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra afhenti fulltrúum þeirra 15 verkefna sem hlutu styrki að upphæð 400 þús. kr. staðfestingu þess efnis og flutt voru tónlistaratriði og ávörp. Hægt er að lesa nánar um þetta á heimasíðu Menningarráðsins.
Einn liður í dagskránni var að kveikja í formlega upp í nýendurgerðum 150 ára gömlum postulínsofni í skrifstofu Gunnars skálds. Menntamálaráðherra kveikti upp með aðstoð sonardóttur skáldsins, Franziscu Gunnarsdóttur. Sjá nánar um kakkelofninn hér neðar á síðunni.
Kakkelofn og Klausturlist
– laugardaginn 5. apríl kl. 13-16
Laugardaginn 5. apríl gefst gestum kostur á að skoða nýuppgerðan 150 ára gamlan kakkelofn sem kominn er á sinn gamla stað í skrifstofu skáldsins. Einnig prýða listaverk úr eigu stofnunarinnar stássstofu og gallerí.
Klausturkaffi verður með lítið kaffihlaðborð á sama tíma.
Aðgangur ókeypis í tilefni af endurkomu kakkelofnsins.
Frá uppsetningu kakkelofnsins sem norski sérfræðingurinn William Jansen annaðist með aðstoð Benedikts Jónassonar múrara.
Kakkelofninn á Skriðuklaustri
Gunnar Gunnarsson skáld keypti kakkelofninn til þess að setja hann upp í húsi sínu að Skriðuklaustri. Ofninn er sænskur að uppruna og frá 1820-1850. Honum var komið fyrir í skrifstofu skáldsins þegar húsið var byggt 1939.
Árið 1962 var ofninn rifinn og postulínsflísarnar utan af honum settar upp á háaloft til geymslu. Þar hafa þær legið síðustu 40 ár enda á færi fárra manna í heiminum að endurgera gamla postulínsofna.
Árið 2000 komst Gunnarsstofnun í samband við Norðmanninn William Jansen fyrir tilhlutan Þóru Kristjánsdóttur listfræðings. William þessi er nefndur "faðir kakkelofnsins" í Noregi þar sem hann endurvakti þessa gömlu hefð þar í landi fyrir um 20 árum. Það var síðan í febrúar á þessu ári sem látið var til skara skríða og William kom til að endurgera ofninn á sínum stað á Skriðuklaustri. Eimskip flutti frítt frá Noregi múrsteina í ofninn sem þurfti til að byggja hann upp að nýju og menntamálaráðuneytið styrkti framkvæmdina.
Á nokkrum dögum var ofninn endurreistur í skrifstofu skáldsins og getur nú þjónað þar sínum gamla tilgangi auk þess að vera gestur staðarins mikið augnayndi. Ofninn mun vera einn af sárafáum postulínsofnum hér á landi og eru þeir sem vita um slíka ofna vinsamlega beðnir um að hafa samband við forstöðumann Gunnarsstofnunar.
Gamlar ljósmyndir og bollukaffi
- sunnudaginn 2. mars
Ljósmyndasafn Austurlands verður með ljósmyndasýningu á Skriðuklaustri sunnudaginn 2. mars kl. 14.30. Sýndar verða gamlar myndir frá atvinnuháttum og mannlífi á Austurlandi fyrr á tíð. Ennfremur myndir af Fljótsdælingum og fleiri Héraðsbúum frá ýmsum tíma. Myndirnar eru skannaðar í tölvu og sýndar með myndvarpa á tjaldi. Þá verður starfsemi Héraðsskjalasafns Austfirðinga kynnt í stuttu máli.
Sýningin er styrkt af Menningarráði Austurlands og er aðgangur ókeypis.
Klausturkaffi verður með bollukaffi í tengslum við sýninguna. Jafnframt er fólki heimilt að koma í kaffi án þess að fylgjast með ljósmyndasýningunni.
Gamalt brauðmót sem varðveitt er á Minjasafni Austurlands.
28. janúar 2003
Þjóðlegt handverk
Guðrún H. Bjarnadóttir (Hadda) listakona frá Akureyri mun halda fyrirlestur um þjóðlegt handverk á Skriðuklaustri laugardaginn 8. febrúar kl. 13.30-18.00. Sýndar verða myndir, sýnishorn og efnt til umræðna í lokin. Þátttökugjald er kr. 1.200 og er kaffi innifalið í því.