Anna Karín sýnir stuttmyndir í gallerí Klaustri
Anna Karín Lárusdóttir er listamaður maímánaðar í gallerí Klaustri. Sýning á stuttmyndum hennar var opnuð á uppstigningardag 9. maí. Listakonan var á staðnum og sýhdi stuttmyndirnar tvær í stássstofu á efri hæðinni. Þær fóru síðan í sýningar í gallerí Klaustri á neðri hæð og stendur sýningin til 31. maí.
Anna Karín er kvikmyndagerðarkona frá Egilsstöðum. Hún útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2019 og hefur síðan þá unnið meðal annars sem leikstjóri, höfundur, klippari og framleiðandi, bæði sjálfstætt en einnig hjá RÚV og Sagafilm. Hún hefur gríðarlega mikinn áhuga á samfélaginu, fjölskyldutengslum, kynjamálum og tilfinningalífi ungmenna og fjallar um þessi málefni í verkum sínum. Stuttmyndirnar hennar Felt Cute og XY hafa ferðast víða um heim og unnið til ýmissa verðlauna. Anna Karín hlaut einnig viðurkenninguna “Uppgötvun ársins” á Edduverðlaunum 2024.