Saga Borgarættarinnar - kvikmyndatónleikar í (maí) mars 2021

Það er ánægjulegt að kynna hér stórt samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar við Kvikmyndasafn Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem lýkur með hátíðarsýningum í Hofi á Akureyri sunnudaginn 3. maí og viku síðar í Eldborg Hörpu í Reykjavík, 10. maí. ATHUGIÐ! VEGNA COVID-19 ER ÞESSUM SÝNINGUM FRESTAÐ TIL 14. OG 15. MARS 2021. (uppfærsla sett inn 25. mars 2020)

Kvikmyndin Saga Borgarættarinnar markar upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndin var gerð af Nordisk Films Kompagni eftir samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem færði honum frægð og frama í Danmörku. Hún var að stærstum hluta tekin upp á Íslandi haustið 1919 en frumsýnd ári síðar og telst til stórmynda norrænnar kvikmyndasögu á tíma þöglu myndanna. 

Leikstjóri myndarinnar var Gunnar Sommerfeldt sem einnig lék eitt aðalhlutverkið. Aðalleikarar voru flestir danskir nema Guðmundur Thorsteinsson, betur þekktur sem myndlistarmaðurinn Muggur, en hann lék aðalsögupersónuna, Ormarr Örlygsson, og þótti fara á kostum í myndinni.

Saga Borgarættarinnar vakti gríðarlega athygli og var sýnd í allt að fimmtán löndum þegar hún kom út. Hérlendis var hún frumsýnd snemma árs 1921 og hefur allar götur síðan verið hjartfólgin Íslendingum. Löngu eftir tilkomu talmynda var hún sýnd reglulega í Nýja Bíói fyrir fullu húsi þar til Sjónvarpið tók við sýningarkeflinu um 1970. 

Til að fagna 100 ára afmæli myndarinnar hefur Kvikmyndasafn Íslands í samvinnu við Dansk Film Institut endurgert myndina á stafrænu formi í háskerpu. Þórður Magnússon tónskáld hefur samið tónlist við myndina enda tímabært að hún fái sína eigin frumsömdu tónlist á aldarafmælinu. Þórður hefur helgað sig tónsmíðum í rúman aldarfjórðung og hlotið margvíslegar viðurkenningar. Tónlistin er samin fyrir 40 manna hljómsveit og sér Sinfóníuhljómsveit Norðurlands um lifandi flutning við myndina.  

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur á undanförnum árum sérhæft sig í flutningi kvikmyndatónlistar, bæði á sýningum og til upptöku. Þetta er eitt stærsta verkefni hennar af þeim toga enda um að ræða þriggja tíma langa þögla kvikmynd. Hljómsveitin nýtur traustrar leiðsagnar hins rómaða finnska hljómsveitarstjóra Petri Sakari. Hann þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum því að hann var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil og hefur stýrt mörgum stórum tónlistarverkefnum um allan heim.

Miðasala er á tix.is

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur