Sumarsýningar í gallerí Klaustri

Fjölbreyttar sýningar eru í gallerí Klaustri þetta sumarið. Í júní sýndi hollenska leirlistakonan Marie-Anne Jongmans fjölbreytt verk sem hún sótti innblástur til þegar hún dvaldi í gestaíbúðinni í árslok 2017. Þar á meðal mátti sjá skúlptúra sem líkja eftir íslenskum hraunfléttum. Í júlí tók við sýning á ljósmyndum eftir annan listamann sem dvaldi í gestaíbúðinni árið 2014 þegar gosið í Holuhrauni stóð sem hæst. Tasha Doremus er fædd í Bretlandi en ólst m.a. upp í Japan. Hún býr nú og starfar í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Verk hennar voru ljósmyndir af ljósmyndum teknum á sama stað og í sumum kom eldur hraunsins fram. 

Seinni hluta ágústmánaðar sýnir Örn Þorsteinsson myndhöggvari og málari litla skúlptúra sem hann kallar Ferðamyndir. Verkin eru unnin á ferðalögum í grænlenskan kljástein eða plastefni og síðan steypt í brons. 

Í september verða síðan landslagsmálverk eftir Tryggva Þórhallsson á veggjum gallerísins. 

130 ár frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar

„Sjálfsskilningur okkar grundvallast af sögunni og tungumálinu og þannig mætti segja að sjálfsmynd þjóðar verði til í bókmenntum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í ávarpi sínu í dagskrá sem Gunnarsstofnun efndi til í tilefni 130 ára frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar þann 18. maí sl. Við það tækifæri var m.a. undirritaður nýr samningur á milli Gunnarsstofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem tryggir stofnuninni um 50 m.kr árlegt framlag á fjárlögum.

Afmælisdagskráin fór fram í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 á fæðingardegi Gunnars og færði viðstöddum heim sanninn um það að sköpunarkraftur skáldsins hefur skilað sér til nýrra kynslóða. Hljómsveitin Mógil flutti tvö lög af hljómdiski sem sækir innblástur og texta í Aðventu. Diskurinn kemur út hjá þýska útgáfufyrirtækinu Winter und Winter í haust og mun hljómsveitin fylgja honum eftir með tónleikaferð um Þýskaland í mars 2020.

Þá var undirritaður samstarfssamningur Gunnarsstofnunar, Kvikmyndasafns Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands um aldarafmæli kvikmyndarinnar Saga Borgarættarinnar sem Nordisk Film Kompagni gerði eftir skáldsögu Gunnars og kvikmyndaði á Íslandi árið 1919. Í tilefni aldarafmælis myndarinnar verður lokið við stafræna endurgerð hennar hjá Kvikmyndasafninu og Þórður Magnússon tónskáld hefur verið fenginn til að semja tónlist við myndina. Kvikmyndin verður síðan sýnd í Hofi og Hörpu við lifandi undirleik Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands vorið 2020 þegar 100 ár verða liðin frá frumsýningu hennar. Stjórn Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar ákvað að setja allt fjármagn til úthlutunar árið 2019 í þetta metnaðarfulla verkefni og var tilkynnt um 1,5 m.kr. framlag sjóðsins.

Í dagskránni í Gunnarshúsi var minnst á tvö kvikmyndaverkefni tengd sögum Gunnars. Annars vegar er Kvikmyndafélag Íslands að vinna að fjármögnun kvikmyndar eftir Aðventu sem Ottó Geir Borg hefur skrifað handrit að. Hins vegar var nýverið undirritaður samningur við erfingja skáldsins um sjónvarpsþáttaröð sem byggir á Svartfugli. Margrét Örnólfsdóttir sagði stuttlega frá því verkefni sem hún mun skrifa handritið að ásamt Páli Grímssyni kvikmyndaframleiðanda.

„Gunnar Gunnarsson lifir áfram í verkum sínum og arfleifð hans veitir innblástur og orku til nýrrar listsköpunar,“ sagði Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, sem stýrði dagskránni á Dyngjuvegi. 

Á meðfylgjand mynd má sjá Gunnar Björn Gunnarsson stjórnarformann og Lilju Alfreðsdótturr mennta- og menningarmálaráðherra undirrita nýjan samning. Ljósm. SBG.

Atli Heimir látinn

Atli Heimir Sveinsson tónskáld er látinn. Hann hefur um áratugaskeið verið eitt fjölhæfasta og merkasta tónskáld Íslendinga og eftir hann liggja laglínur sem lifa munu um aldir með þjóðinni. Atli Heimir hélt mikið upp á skáldverk Gunnars Gunnarssonar. Eitt af þeim stóru verkefnum sem hann vann var sjónvarpsóperan Vikivaki sem flutt var samtímis á norrænu sjónvarpsstöðvunum árið 1989 þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Gunnars skálds. Tónskáldið hafði gengið með þá hugmynd í aldarfjórðung að gera stórt sviðsverk upp úr skáldsögunni. Annar merkur listamaður sem nú er einnig látinn, Thor Vilhjálmsson, orti söngtexta (liberetto) út frá sögunni sem Atli Heimir samdi tónlist við. Að verkefninu komu síðan listamenn, leikarar og söngvarar af öllum Norðurlöndunum og hljómsveit Danska ríkisútvarpsins lék undir stjórn Petri Sakari. Sjónvarpsóperan vakti mikla athygli og var eitt stærsta verkefnið sem ráðist var í til að fagna aldarafmæli Gunnars.

Atli Heimir lagði einnig hönd á plóg þegar 100 ára rithöfundarafmælis Gunnars var minnst árið 2006. Þá samdi hann lag við sonnettuna Vetrarnótt sem birtist í Eimreiðinni 1914. Lagið tileinkaði hann Franziscu Gunnarsdóttur sonardóttur skáldsins. Það var flutt á tónleikum í Gerðubergi og á Skriðuklaustri af Huldu Björk Garðarsdóttur, Ágústi Ólafssyni og Daníel Þorsteinssyni. 

Í Sinfóníu nr. 3 sem frumflutt var á Myrkum músíkdögum 2008 sótti Atli Heimir einnig innblástur í verk Gunnars, að þessu sinni í nóvelluna Drenginn. Þar nýtti hann ljóð þriggja eyjaskálda, Heinesens, Kasantsakisar og Gunnars til að semja söngsinfóníu um lífið, frelsið og dauðann. 

Atli Heimir dvaldi í nokkur skipti í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri og þakka stjórn og starfsfólk Gunnarsstofnunar fyrir yndisleg kynni og gott samstarf um leið og við sendum fjölskyldu tónskáldsins innilegar samúðarkveðjur.

Á myndinni hér að ofan er Atli Heimir ásamt Huldu Björk Garðarsdóttur, Daníel Þorsteinssyni og Ágústi Ólafssyni á tónleikum á Skriðuklaustri 2006.

Páskasýningar 2019 - Hreindýradraugur og +/- 100

Páskasýningarnar á Skriðuklaustri 2019 snúast um hreindýr og nytjalist úr austfirsku hráefni. Í stássstofunni er sýning franska listmannsins François Lelong á skúlptúrum, teikningum og málverkum. Í verkum sínum leitast listamaðurinn við að draga fram tengingu manns og náttúru gegnum lífvist hreindýra. Í gallerí Klaustri sýnir Hús handanna þrjú samstarfsverkefni um hönnun á nytjahlutum úr staðbundnu hráefni. Innblásturinn er sóttur í bændamenningu Íslendinga og efniviðurinn í austfirska skóga. Sýningarnar eru opnar alla daga kl. 12-16 og til kl. 17 um helgar og páska. Þær standa til 27. apríl. 

Fyrirlestrar, málþing og vinnustofur

Gunnarsstofnun stóð fyrir fjórum velheppnuðum viðburðum vikuna 24. febrúar til 3. mars. Á konudaginn flutti Stefán Þórarinsson læknir erindi um brunann á Brekku 1944 og Gunnar skáld. Skrifstofa skáldsins var fullsetin enda áhugaverður fyrirlestur um byggðaþróun á Héraði.

Miðvikudaginn 27. febrúar stóð Gunnarsstofnun í samvinnu við fleiri aðila fyrir málþingi á Hótel Héraði á Egilsstöðum undir yfirskriftinni Þar liggur hundurinn grafinn. Á því var fjallað um menningar- og söguferðaþjónustu og tækifæri í henni á Austurlandi. Málþingið var haldið í tengslum við heimsókn nemenda úr hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands til Austurlands. 

Leiðin lá í Suðursveit föstudaginn 1. mars þar sem haldin var vinnustofa á vettvangi í CINE-verkefninu og lítið málþing á Þórbergssetri að Hala í kjölfar þess. Skoðaðar voru minjar um verstöðvar frá 16. öld sem finnast í Kambstúni vestan við Hestgerðiskamb. Þar átti Skriðuklaustur útræði á klausturtíma. Vinnustofan kallaðist Lesið í landið og reyndu þátttakendur að gera sér grein fyrir ógreinilegum rústum i Kambstúni og prófa smáforrit snjalltíma til að skrásetja þær. Á Þórbergssetri hélt Hjörleifur Guttormsson síðan áhugavert erindi um fornar ferðaleiðir yfir og umhverfis Vatnajökul auk þess sem CINE-verkefnið var kynnt.

Síðasti viðburður vikunnar var sunnudaginn 3. mars á Skriðuklaustri. Þar ræddi Skúli Björn Gunnarsson um menningarmiðlar og margmiðlun og kynnti CINE-verkefnið. 

Hafðu samband

  • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Komdu í heimsókn

Fylgdu okkur