Skip to main content

Gunnarshús í þrívídd

Gunnarshús á Skriðuklaustri var byggt árið 1939 og telst enn í dag vera eitt af tíu stærstu einbýlishúsum landsins. Húsið var byggt sem herragarðshús fyrir húsbændur og hjú og er grunnflötur þess um 330 fermetrar. Tvær meginhæðir eru í húsinu og yfir því öllu ris sem notað hefur verið sem geymsluloft frá upphafi.

Árið 2023 fór Gunnarsstofnun í samstarf við verkfræðistofuna EFLU um að skanna allt húsið í krók og kima og búa til einskonar stafrænan tvíbura. Notuð var Matterport Pro3 myndavél við verkið en hún er einnig búin laserskanna til að mæla rýmin og búa til nákvæm punktaský. Skönnun hússins var gerð í tveimur atrennum og fór sú seinni fram á haustdögum 2024. Hafþór Snjólfur Helgason stýrði verkinu af hálfu EFLU.

Afrakstur verkefnisins er nákvæmt líkan þar sem hægt er að ferðast um allt húsið og skoða rými sem ekki eru sýnileg hinum almenna ferðamanni sem heimsækir staðinn. Líkanið er aðgengilegt hér á heimasíðunni gegnum gátt Matterport og þeir sem eiga sýndarveruleikagleraugu geta farið inn á gáttina gegnum þau og upplifað alltumlykjandi sýndarferðalag um húsið.