Búsetuminjar í Fljótsdal - Myndræn skráning og lýðvirkjun
Gunnarsstofnun efndi árið 2022 til samstarfs við Fljótsdalshrepp, Minjastofnun, Rannsóknasetur HÍ á Egilsstöðum og Sagnabrunn ehf. um verkefni á sviði minjaskráningar. Verkefnið hlaut styrk úr Fornminjasjóði og Nýsköpunarsjóði námsmanna auk þess sem sveitarfélagið lagði því til fé. Verkefnið var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og varð eitt af þeim sex verkefnum sem veittar voru viðurkenningar fyrir á Bessastöðum í janúar 2023. Verkefninu var framhaldið árin 2023 og 2024 með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna og fleiri aðila.
Markmið og tilgangur
Markmið verkefnisins var að þróa aðferðir til að afla gagna og ná yfirsýn yfir minjar á stóru svæði á sem skemmstum tíma með markvissum vinnubrögðum og beitingu nýjustu tækni. Nýsköpunargildið fólst fyrst og fremst í því að prufukeyra aðgengilega tækni sem almenningur hefur aðgang að til að kanna hvort hægt sé að lýðvæða öflun myndrænna gagna af menningarminjum.
Í verkefninu voru skrásettar minjar um búsetu í Fljótsdal í þeim tilgangi að búa til ítarlegt gagnasafn sem nýtist bæði til miðlunar og frekari skráningar eða rannsókna. Við myndatöku og hnitsetningu var notast við dróna, snjallsíma og spjaldtölvu með innbyggðum lidar-skanna til þrívíddarskönnunar. Lagt var upp með að komast yfir sem flestar jarðir í Fljótsdal neðan við heiðarbrún og tókst það að mestu á þremur sumrum.
Lýðvirkjun við minjaskráningu
Hluti af verkefninu var að skoða hvernig virkja má almenning til að taka þátt og koma að gagnaöflun. Þeim fjölgar æ sem eiga dróna og flestir landsmenn eiga snjallsíma sem býr yfir mikilli vinnslugetu ef beitt er réttu smáforritunum. Haldnar voru vinnustofur fyrir heimamenn og bættu þeir við gögnum eins og ljósmyndum af vörðum og smalabyrgjum uppi á heiðum.
Gögnin sem safnað var í verkefninu verða hluti af gagnagrunni Minjastofnunar Íslands og bæta við upplýsingar sem þar er að finna. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að með einföldum leiðbeiningum og skýrum verkferlum fyrir almenning megi auka lýðvirkjun og afla ítarlegra og mikilvægra upplýsinga um staðsetningu og ástand menningarminja víða um land.
Nýjar leiðir til skráningar og miðlunar
Inn í verkefnið fléttaðist uppfærsla á örnefnaskráningu í Fljótsdal. Beitt var nýrri aðferð við að staðsetja örnefnin með staðkunnugum og út frá örnefnaskrám. Í búsetuminjaverkefninu voru teknar 360° ljósmyndir með dróna vítt og breitt um dalinn. Örnefnin voru færð inn á þær um leið og staðsetning var staðfest eða leiðrétt í örnefnasjá Landmælinga. Gáttin kuula.co var nýtt í þennan hluta verkefnisins og verður nýtt til frekari miðlunar á gögnum búsetuminjaverkefnisins eins og sjá má dæmi um hér á síðunni.