Saga Borgarættarinnar
Fyrsta skáldsaga Gunnars, Saga Borgarættarinnar, var kvikmynduð árið 1919. Tökulið og leikarar á vegum Nordisk Film komu frá Kaupmannahöfn og tóku upp á Suður- og Vesturlandi. Í ágúst 1920 var myndin síðan frumsýnd í Kaupmannahöfn og fór víða um heim í kjölfarið.
Til að fagna aldarafmæli kvikmndarinnar tók Gunnarsstofnun höndum saman við Kvikmyndasafn Íslands. Verkefnið var í undirbúningi um nokkurra ára skeið í samvinnu við Kvikmyndasafnið og Dansk Film Institut. Meðal annars var leitað að upprunalegum filmum af myndinni víða um lönd og gerðar stafrænar upptökur af þeim filmum sem fundust.
Þórður Magnússon tónskáld var ráðinn til að semja nýja tónlist við myndina sem aldrei hafði átt sitt eigið skor. Árið 2020 stóð til að halda hátíðarsýningar á myndinni með lifandi undirleik Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á tónlist Þórðar í Hörpu og Hofi. Hátíðarsýningum var hins vegar frestað vegna Covid-faraldursins og um haustið 2020 var tekin ákvörðun um að hætta við slíkar sýningar og einbeita sér að upptökum á tónlistinni þegar aðstæður leyfðu. Þær aðstæður sköpuðust ekki fyrr en í febrúar 2021 þegar þrír tímar af tónlist Þórðar Magnússonar voru teknir upp í Hofi hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.
Ný og vönduð uppgerð Kvikmyndasafn Íslands á myndinni með tónlist Þórðar var síðan frumsýnd 3. október 2021 samtímis í Hofi Akureyri, Bíó Paradís í Reykjavík og í Herðubreið á Seyðisfirði. Gunnarsstofnun hélt utan um stóran hluta af þessu afmælisverkefni, sá um kynningarmál, umsóknir um styrki og fleira. Menningarsjóður Gunnarsstofnunar og Gunnarsstofnun lögðu fjármuni í verkefnið en styrkir fengust einnig úr nokkrum íslenskum sjóðum. Myndin var síðan sýnd í Ríkissjónvarpinu í byrjun árs 2022 og hefur farið á kvikmyndahátíðir úti í heimi eftir það.
Endurgerðin með nýrri tónlist er nú aðgengileg í streymi hjá Dansk Film Institut.
Tónlist Þórðar Magnússonar við myndina er hægt að hlusta á gegnum streymisveituna Spotify.
Einnig er vert að benda á ítarlega grein Erlendar Sveinssonar, fyrrum forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands, um kvikmyndina sem birtist í Tímariti Máls og menningar árið 2020 og ber heitið Lífssaga kvikmyndar - eða hvernig Saga Borgarættarinnar varð þjóðkvikmynd Íslands.