Skip to main content

Uggi Greipsson


Uggl litli er stafrænn leiðsögumaður fyrir börn og fjölskyldur sem fylgir gestum um húsið á Skriðuklaustri með hjálp töfraspjalds og snjallsíma. Gestir nota eigin síma og tengja sig við vefsíðu gegnum WI-FI hússins. Þeir geta fengið lánuð heyrnartól á staðnum ef þeir vilja. Leita þarf uppi 14 staði þar sem Uggi birtist á símaskjánum og segir frá Gunnari, verkum hans og leyndardómum hússins.

Uggi er persóna í Fjallkirkjunni, sögu sem Gunnar Gunnarsson byggði á eigin æsku. Þeir eiga því margt sameiginlegt Uggi litli leiðsögumaður og Gunnar skáld. Einnig var stuðst við teikningar Gunnars yngri listmálara úr Fjallkirkjunni við sköpun hins teiknaða Ugga.

Uggi litli hóf störf á Skriðuklaustri sumarið 2023 og árið 2024 lærði hann að tala á ensku við gestina.

Tæknin að baki Ugga litla

Aukinn raunveruleiki (AR, augmented reality) er tækni til að miðla upplýsingum með hjálp snjallsíma. Uggi litli er keyrður gegnum vefgátt svo að ekki þarf að hlaða niður appi í símann til að njóta leiðsagnar hans. Við gerð hans þurfti að skapa teiknaða persónu sem svo var gædd lífi. Saminn var texti fyrir Ugga og hann leiklesinn. Hreyfingar Ugga voru samhæfðar við textann og hver sena síðan sett upp í Zappar hugbúnaðinum sem miðlar AR gefnum vefinn (web-based AR).

Að gerð AR-miðlunar Ugga litla komu eftirtaldir:

  • Hönnun Ugga: Halldór H. Stefánsson

  • Hreyfingar og tölvuvinnsla: PuppIT

  • Hugmynd, handritsgerð og framleiðslustjórn: Skúli Björn Gunnarsson

  • Leiklestur: Birgitta Birgisdóttir

  • Upptaka og hljóðvinnsla: Örvar Smárason

  • AR-uppsetning: Brynjar Darri S. Kjerúlf

  • AR-vefgátt: Zappar.com

Zappar vefgáttin er einnig notuð til annarrar miðlunar á Skriðuklaustri. Með hjálp aukins raunveruleika tekur fjölskylda skáldsins á móti gestum í fordyri Gunnarshúss og hægt er að hlusta á skáldaða persónu sem tóku þátt í byggingu hússins gegnum Veggirnir tala.