Skip to main content

Epic Residencies

Epic Residencies verkefnið fór fram á árunum 2022-2024 og naut styrks úr Uppbyggingarsjóði EES (Íslands, Lichtenstein og Noregs). Menningarmiðstöð í Kosice í Slóvakíu hélt utan um verkefnið í samstarfi við Gunnarsstofnun og Tou Scene í Stafangri í Noregi. Rithöfundasamband Íslands kom að verkefninu hérlendis með Gunnarsstofnun. Verkefnið snerist um þekkingaryfirfærslu vegna rekstur gestaíbúðina. skiptidvöl rithöfunda milli landanna þriggja og tengslamyndun á sviði ritilistar.

Skiptidvöl rithöfunda

Einn verkþáttur laut að skiptidvöl rithöfunda í löndunum þremur. Árið 2024 komu fjórir rithöfundar frá Slóvakíu til 3-4 vikna dvalar í Klaustrinu á Skriðuklaustri með styrk úr verkefninu. Þeir voru valdir af sérstakri valnefnd sem einnig valdi fjóra íslenska höfunda til dvalar í Kosice. Frá Íslandi fóru: Valur Gunnarsson, Gerður Kristný, Kristín Ómarsdóttir og Þorvaldur Sigurbjörn Helgason. Valur dvaldi í Kosice haustið 2022 en þau hin voru þar á fyrri hluta árs 2023. Hægt er að horfa á viðtöl við íslensku höfundana hér.

Vinnustofur hjá Rithöfundasambandinu

Annar verkþáttur sem unninn var í samvinnu við Rithöfundasamband Íslands voru vinnustofur fyrir höfunda og þýðendur af erlendum uppruna. Gunnarsstofnun réði höfundana Jakub Stachowiak og Ewu Marcinek ásamt Francescu Cricelli til að halda utan um vinnustofurnar sem fóru fram 11. og 13. apríl 2023 í Gunnarshúsi í Reykjavík. Þær voru vel sóttar og voru þátttakendur og forsvarsmenn RSÍ sammála um að með þessum viðburðum væri ísinn brotinn fyrir meiri samskipti RSÍ og höfunda af erlendum uppruna sem fjölgar stöðugt hérlendis. Var leikurinn endurtekinn í apríl 2024

Bókmenntaviðburðir

Bókmenntaviðburðir til að vekja athygli á bókmenntum landanna þriggja fóru fram á Íslandi og í Noregi árið 2023. Í báðum löndum tókst að halda þá í tengslum við bókmenntahátíðir. Efnt var til hliðarviðburðar á Bókmenntahátíð í Reykjavík í Iðnó 21. apríl. Þrír höfundar frá Slóvakíu lásu úr verkum sínum: Jakub Juhas (sem dvaldi í Klaustrinu), Dominika Moravciková og Juliana Sokolová; og tveir höfundar af erlendum uppruna sem búa á Íslandi þau Jakub Stachowiak og Maó Alheimsdóttir. Victoria Bakshina stýrði umræðum. Um fjörutíu manns sóttu viðburðinn sem fyllti Sunnusalinn.

Fræðsluferðir og handbók

Fræðsluferð var farin í tengslum við fund í verkefninu hérlendis í apríl 2023. Heimsóttar voru gestaíbúðir og menningarstofnanir. Forstöðumaður Gunnarsstofnunar fór síðan í fræðsluferð til Stafangurs í september og tók þátt í viðburðum þar ásamt Jakub Stachowiak.

Einn verkþáttur var gerð almennrar handbókar fyrir rekstraraðila gestaíbúða. Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir staðarhaldari á Skriðuklaustri hafði umsjón með því verkefni. Í leiðinni var unnin handbók fyrir gestaíbúðina Klaustrið.

Lokaviðburður í verkefninu var haldinn í Bratislava í Slóvakíu 22. mars 2024. Þar kom saman hluti þeirra rithöfunda sem tóku þátt í verkefninu ásamt skipuleggjendum. Frá Íslandi fóru forstöðumaður Gunnarsstofnunar og Kristín Ómarsdóttir.