DACCHE – Digital Action on Climate Change with Heritage Environment

DACCHE (Digital Action on Climate Change with Heritage Environments) var samþykkt sem nýtt 3ja ára verkefni hjá Norðurslóðaáætlun ESB (Interreg NPA) í apríl 2023. Gunnarsstofnun leiddi vinnuferlið við gerð umsóknarinnar í brúarverkefninu HIVE sem unnið var að árið á undan. Umsjón verkefnisins var sett í hendur Jamtli safnastofnunarinnar í Svíþjóð þar sem íslensku aðilarnir höfðu ekki burði til þess að taka hana að sér. Aðrir aðilar að verkefninu eru: Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista, Tjóðsavnið í Færeyjum, Aurora Borealis í Noregi, Donegal County Museum á Írlandi og Nordic Centre of Heritage Learning & Creativity í Svíþjóð, auk fjölda samstarfsaðila með aukaaðild. Verkefnið hófst 1. júli 2023.
Framhald af fyrri NPA verkefnum
DACCHE-verkefnið er óbeint framhald af fyrri Norðurslóðaverkefnum sem Gunnarsstofnun hefur tekið þátt í og varða miðlun og varðveislu menningararfs. Ferlisathugun verkefnisins á Íslandi mun að mestu fara fram í Fljótsdal og snýst um menningarlandslag, græn orkuskipti og lýðvirkjun. Þannig munu þau gögn sem aflað hefur verið í verkefnum undanfarinna ára nýtast inn í verkefnið. Auk þess verður unnið áfram að þróun aðferða og prófun tæknilausna sem nýttar hafa verið, t.d. í búsetuminjaverkefninu.
Ferlisathugun unnin í Fljótsdal
Spurningar sem lagt er upp með í Íslandshlutanum eru:
-
Hvernig er hægt með lýðvísindum og fræðsluferðamennsku að skrá og vakta menningarlandslag og áhrif loftlagsbreytinga með samfélagsþátttöku, lýðvirkjun, leikjavæðingu og öðrum aðferðum?
-
Hvernig er farsælast að nota sýndarveruleika og aukinn raunveruleika til að miðla áhrifum loftlagsbreytinga?
-
Hvernig geta lítil samfélög nýtt stafrænar lausnir og eins og sýndarveruleika og aukinn raunveruleika til að nálgast orkuskiptaverkefni á borð við vindmyllugarða, á skiljanlegan og fræðandi hátt til að auka gagnsæi og skilning?
Gunnarsstofnun og Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) vinna náið saman að ferlisathuguninni í Fljótsdal. Samstarfsaðilar þeirra með aukaaðild að verkefninu eru: Háskólinn á Hólum, Vatnajökulsþjóðgarður, Óbyggðasetur Íslands, Fljótsdalshreppur, 1238 - Battle of Iceland, Háskólinn í St. Andrews, Þjóðminjasafn Grænlands auk allra þeirra stofnana sem eru aðilar að MSHL.
Vinnupakki um lýðvísindi og fræðsluferðamennsku
Gunnarsstofnun og MSHL leiða einn af þremur vinnupökkum í verkefninu. Hann snýst um lýðvísindi og fræðsluferðamennsku: virkjun samfélags og söfnun upplýsinga. Afrakstur þess vinnupakka á að vera verkfærakista fyrir skráningu og vöktun menningararfs á tímum loftlagsbreytinga. Smáforrit til að virkja almenning til þátttöku er hluti af verkfærakistunni, uppfærð útgáfa á Muninn-appinu sem smíðað var í CINE-verkefninu.
Gunnarsstofnun stóð fyrir vinnustofum í Fljótsdal um skráningu minja og setti kraft í búsetuminjaverkefnið á grundvelli DACCHE 2023. Í samvinnu við MSHL var haldið málþing um menningararf í sýndarheimum í október 2023 í Veröld - húsi Vigdísar. Aðalfyrirlesari var Erik Champion, prófessor frá Ástralíu, sem stýrði í leiðinni vinnustofu um leikjavæðingu og menningarmiðlun.
Úrsögn úr verkefninu
Í mars 2024 héldu Gunnarsstofnun og MSHL góðan vinnufund í Reykjavík með sínum samstarfsaðilum í vinnupakkanum sem stýrt er frá Íslandi. Þar var farið yfir leiðir að því að búa til áðurnefnda verkfærakistu og þróa hana í samstarfi við aðila á Grænlandi, Írland og í Skotlandi og Færeyjum.
Gunnarsstofnun og MSHL ásamt Tjóðsavninu í Færeyjum drógu sig út úr DACCHE á vormánuðum 2024 vegna ágreinings um stjórnun verkefnisins.