CINE - Connected Culture and Natural Heritage in a Northern Environment
CINE-verkefnið, Tenging náttúru- og menningarminja í umhverfi Norðurslóða (Connected Culture and Natural Heritage in a Northern Environment) miðaði að því að bæta við upplifun fólks á minjum með því að nýta nýjar tæknilausnir í anda hugmyndafræði „safns án veggja“. Ný stafræn tækni, s.s. aukinn raunveruleiki (augmented reality, AR), sýndarveruleiki (VR) og notendavæn smáforrit, voru nýtt til að blása lífi í fortíðina. Einnig voru prófaðar stafrænar lausnir við að skrásetja menningarminjar og muni. CINE-verkefnið naut stuðning Norðurslóðaáætlunar ESB (Interreg NPA). Það hófst haustið 2017 og stóð til ársloka 2020. Að því komu söfn, menningarsetur, stofnanir, háskólar og fleiri aðilar í Noregi, Skotlandi, á Íslandi, Írlandi og Norður-Írlandi.
Íslenskir samstarfsaðilar
Íslenskir samstarfsaðilar Gunnarsstofnunar og Locatify í CINE-verkefninu voru: Minjastofnun Íslands, Vatnajökulsþjóðgarður, Fljótsdalshreppur og Óbyggðasetur Íslands. Að auki hafa fjölmargir lagt hönd á plóg og ýmis hliðarverkefni orðið að veruleika með styrkjum frá Uppbyggingarsjóði Austurlands, Vinum Vatnajökuls, Samfélagssjóði Fljótsdals og Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Arfleifð miðaldaklaustursins
Gunnarsstofnun vann í CINE-verkefninu með arfleifð miðaldaklaustursins á Skriðu við þróun á miðlun og gagnaöflun. Búin var til ný gerð af þrívíddarmódeli af klausturbyggingunum sem hægt er að skoða í sýndarveruleika á Skriðuklaustri. Ýmiskonar tækni var prófuð með það að markmiði að þróa verkfærakistu sem gerir söfnum og fræðimönnum, einstaklingum og samfélögum, kleift að skapa nýstárlega nálgun á náttúru- og menningarminjar og upplifun á staðnum eða heima í stofu. Hluta af afrakstrinum má sjá á síðu vefsins um klausturminjar.
Forn ferðaleið yfir Vatnajökul
Eitt af því sem rannsakað var sérstaklega var leiðin sem vinnumenn frá Skriðuklaustri fóru til verstöðvar í Hálsahöfn í Suðursveit fyrir 500 árum. Sú leið lá að hluta yfir Vatnajökul sem var margfalt minni á 16. öld heldur en hann er í dag. Efnt var til samstarfs við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Landmælingar Íslands og fræðimenn til að varpa ljósi á leiðina sem var farin og þær breytingar sem orðið hafa á gróðurfari og jöklum frá klausturtíma. Safnað var myndefni á vettvangi og því miðlað gegnum sýndarveruleika og snertiskjá til að sýna þessa fornu ferðaleið. Velta má fyrir sér hvenær jökulleiðin verður greiðfær að nýju vegna loftlagsbreytingar.
Leikjavæðing og menningarmiðlun
Nýting leikja og leikjavæðing við menningarmiðlun var annað sem tekið var fyrir í vinnupakka sem Íslendingar og Írar báru ábyrgð á. Haldin var stór námstefna í Reykjavík í mars 2018 undir yfirskriftinni Leikum okkur með menningararfinn og gerðar tilraunir með leikja- og staðsetningarkerfi frá íslenska fyrirtækinu Locatify sem einnig er aðili að CINE. Skrifuð var handbók um leikjavæðingu fyrir söfn og minjastaði og búið til námskeið í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Jafnframt var skoðað hvernig best er að vinna að varðveislu og miðlun menningarminja með nærsamfélaginu. Sjá má leiðarvísa og annan afrakstur vinnupakkans á síðunni cinecommunities.org og cinegamification.com.
