Á Skógarbala eru fjögur eldgömul birkitré, er standa stök, með nokkru millibili á túnbletti, og eru nú komin á fallanda fót. Slík stórtré voru kölluð eikur í gamla daga. Trén eru leifar af skógi sem þarna var á 19. öld en var að sögn felldur vegna aldurs og fúa. Meðan ferðast var á hestum var þarna vinsæll áningarstaður, og létu ferðamenn gjarnan mynda sig undir trjánum, og skáru fangamörk sín í börkinn, eins og víða tíðkast erlendis. Gunnar Gunnarsson kallar trén "Einstæðinga" í Árbók F.Í. 1944, bls. 92. (H. Hall.: Úr sögu Ranaskógar í Fljótsdal. Ársrit Skógræktarf. Íslands 1989).