Skip to main content

Hrólfsgerði


Staðsetning: 65.0577778 N, 13.8741666 W
Hlutverk: Fjárhús
Tegund: Hús

Fjárhúsin á Hrólfsgerði standa efst á túnbletti, skammt fyrir utan nýbýlið Vallholt, og voru áður beitarhús frá Hrafnkelsstöðum. Talið er að þau standi á tóttum fornbýlisins Hrólfsstaða, og hafa fundist þar minjar er virðast staðfesta það. Þarna eru fimm fjárhús í þyrpingu, með hlöðum að baki. Aðalfjárhúsin eru fjögur, í miðri stæðunni, tvö þeirra sambyggð, án milliveggs, með stoðum er halda húsasundinu uppi, því að þök þeirra eru aðgreind. Mun Eiríkur hafa rifið millivegginn. Hann byggði stutt fjárhús innan við stæðuna, og hesthús utanvið hana, með steyptum vegg að utan. Ennfremur byggði hann hlöðuna, sem er meðfram allri húsaröðinni að ofanverðu, en þar sagði hann hafa verið fjárhús, sem sneri eins og hlaðan, þegar hann byrjaði búskap.

Þekjur húsanna eru af margvíslegri gerð, og fer það mest eftir aldri þeirra, þ.e. hvenær þær voru endurbyggðar, og hversu mikið í einu. Aðeins eitt húsið er með torfþaki af upphaflegri gerð öðru megin (það næstysta), en hin eru m.e.m. járnklædd, sum þó með torfi ofan á járninu. Hins vegar hefur innri gerð húsanna yfirleitt haldið sér, þótt járnþök væru sett á húsin, þ.e. upprefti og stoðir á görðum er nánast það sama og áður. Flestir raftar eru úr kaupstaðarviði (plönkum), en þó er víða nokkuð af birkiröftum á milli, og birkitróð undir gamla torfþakinu, ásamt hellum. Á hlöðunni er járnþak á sperrum.


Veggir húsanna eru yfirleitt vel hlaðnir, með torfi á milli grjótlaga að utanverðu, en að innan er eintómt grjót upp í a.m.k. 1,5 m hæð, en oft torflag þar fyrir ofan. (Það þótti ekki hentugt að hafa torf milli steina inni í fjárhúsum, þar sem kindur náðu til, því að þeim hætti til að éta það eða nudda það út. Sagt var að þær eyddu því með "anda" sínum). Húsin ganga nokkuð mislangt fram (vestur). Hornin eru yfirleitt boghlaðin að utanverðu. Stafngluggar eru ofan við dyr á miðhúsunum fjórum, og yfir þeim hvítmálaðar vindskeiðar, sumar með skreytingum af hrútshornum. Einnig hafa steinar í stafnveggjum verið málaðir hvítir.

Sérkenni húsanna á Hrólfsgerði eru áletranir, sem ristar hafa verið á steina utan á veggjum dyrakampa. Eru a.m.k. tveir steinar með áletrunum, sem tilgreina ærfjölda í húsunum og innistöðudaga, með viðkomandi ártölum: "Ær á Hrólfsg. haustið 1906: 232." "Ár 1932 Ær 298. Innist. 2 P O N", auk annara áletrana, svo sem: “P J" "E J K 1907 1921". Þetta gefur húsunum sérstakt gildi, enda er það fágætt. Húsin voru afgirt 1991-92, til að forða þeim frá niðurbroti vegna riðuhreinsunar. Ekkert viðhald hefur verið á þeim síðan, og eru þökin farin að hrörna, en standa þó enn uppi og veggir hafa ekki bilað svo teljandi sé, nema í hlöðunni. Nauðsynlegt væri að taka þeim tak og gera við það sem farið er að bila.

Þessi húsaþyrping er næsta einstæð og mun varla finnast önnur sambærileg á Íslandi, nema á Lánghúsum. Hrólfsgerði gæti verið mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu, ef húsin væru löguð og aðgengi bætt að þeim, t.d. lagður þangað göngustígur, girðing rifin, og gras slegið kringum húsin. Einnig þyrfti að setja upp skilti með upplýsingum við þjóðveginn.

Túngarður úr grjóti og torfi er umhverfis Hrólfsgerðistúnið (gerði merkir upphaflega stað sem er umluktur garði). Garðurinn er að mestu heill utan og ofan við túnið, og þar hefur verið fyllt upp að honum að innanverðu, og grafin geil að utanverðu til að hækka hann þeim megin (sbr. Brattagerði, sjá síðar). Garðurinn er úr grjóti að neðantil en torfi að ofan. Hann sést einnig við gil Hrólfsgerðislækjar, sem er SV við túnið.


Hrólfsgerði að ofan

Hrólfsgerði að ofan

Inn í Hrólfsgerði

Inn í Hrólfsgerði

Inn í Hrólfsgerði

Inn í Hrólfsgerði

Eitt húsið er með torfþaki af upphaflegri gerð

Hesthúsið